Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 19:09:09

Lög nr. 94/2019, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=94.2019.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI

Starfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja.

Starf endurskoðenda.
14. gr.

(1) Endurskoðandi skal rækja störf sín í samræmi við góða endurskoðunarvenju og siðareglur endur­skoðenda og skal af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna fylgja ákvæðum þeirra laga og reglna sem gilda um störf hans. Góða endurskoðunarvenju skal túlka í samræmi við þær kröfur sem er að finna í lögum, reglum og alþjóðlegum stöðlum hverju sinni og það efni sem kennt er í íslenskum háskólum og lagt til grundvallar löggildingarprófum endurskoðenda hér á landi.

(2) Góð endurskoðunarvenja felur meðal annars í sér að endurskoðandi skal auðsýna faglega gagnrýni, heiðarleika, hlutleysi, trúnað, faglega hæfni og varkárni við framkvæmd verkefna. Endur­skoðandi skal viðhalda faglegri þekkingu og hæfni sinni til að tryggja faglega þjónustu í samræmi við framþróun í greininni. Endurskoðun skal vera áhættumiðuð og skal endurskoðandi vera meðvitaður um möguleikann á því að verulegar rangfærslur séu til staðar, þ.m.t. sviksemi eða skekkjur, þrátt fyrir að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki hafi fyrri reynslu af heiðarleika og ráðvendni stjórnenda einingarinnar sem er endurskoðuð og þeirra sem bera ábyrgð á stjórnunarháttum hennar.

(3) Endurskoðandi skal beita faglegri gagnrýni þegar mat stjórnenda er skoðað, t.d. hvað varðar gangvirði, virðisrýrnun eigna, reiknaðar skuldbindingar og framtíðarsjóðstreymi sem skiptir máli fyrir getu einingarinnar til að viðhalda rekstrarhæfi.

(4) Endurskoðandi er opinber sýslunarmaður við framkvæmd endurskoðunarstarfa.

(5) Ráðherra getur sett reglugerð um nánari útfærslu á starfsemi endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtækis og framkvæmd endurskoðunar, meðal annars í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga.

Áritunarendurskoðendur.
15. gr.

(1) Þegar endurskoðunarfyrirtæki annast endurskoðun skal það tilnefna a.m.k. einn áritunarendurskoðanda.

(2) Áritunarendurskoðandi skal taka virkan þátt í endurskoðuninni og verja nægilegum tíma í verk­efnið. Jafnframt skal hann tryggja að hann hafi á að skipa starfsfólki svo að hann geti innt af hendi skyldur sínar við endurskoðunina.

(3) Endurskoðunarfyrirtæki skal í samræmi við 2. mgr. útvega áritunarendurskoðanda nægileg aðföng og starfsfólk sem hefur hæfni til að sinna störfum sínum með fullnægjandi hætti.

(4) Meginviðmið endurskoðunarfyrirtækis við tilnefningu og val á áritunarendurskoðanda skal vera að tryggja gæði endurskoðunarinnar, óhæði og hæfni.

Áritun endurskoðanda.
16. gr.

(1) Við lok endurskoðunar skal endurskoðandi árita hin endurskoðuðu reikningsskil með áritun sem inniheldur upplýsingar um endurskoðunina og álit endurskoðandans. Árita skal hin endurskoðuðu reikningsskil með nafni áritunarendurskoðanda og nafni endurskoðunarfyrirtækis. Áritun skal vera í samræmi við lög, reglur og góða endurskoðunarvenju.

(2) Áritun skal vera skrifleg og skal meðal annars:

  1. Tilgreina hina endurskoðuðu einingu og sérstaklega hvaða ársreiknings eða samstæðureikningsskila hún tekur til auk dagsetningar og tímabils og jafnframt reiknings­skila­rammann sem beitt var þegar ársreikningurinn eða samstæðureikningsskilin voru samin.
  2. Hafa að geyma lýsingu á umfangi endurskoðunarinnar og þau viðmið sem notuð voru við endurskoðunina.
  3. Innihalda álit endurskoðanda, sem skal vera án fyrirvara, með fyrirvara eða neikvætt, þar sem kemur skýrt fram álit endurskoðandans á því hvort ársreikningurinn:
    1. gefi glögga mynd í samræmi við settar reikningsskilareglur og
    2. uppfylli aðrar lögbundnar kröfur þar sem við á.
  4. Innihalda áritun án álits ef endurskoðanda er ekki unnt að láta í ljós álit sitt.
  5. Skírskota til annarra málefna sem vekja sérstaka athygli endurskoðandans, eftir því sem við á, án þess að gefa áritun með fyrirvara.
  6. Tilgreina alla verulega óvissu varðandi rekstrarhæfi einingarinnar.
  7. Tilgreina starfsstöð endurskoðandans eða endurskoðunarfyrirtækisins.
  8. Innihalda upplýsingar um ábyrgð stjórnenda.
  9. Innihalda staðfestingu um óhæði endurskoðenda.
  10. Innihalda staðfestingu á að endurskoðandi hafi aflað nægilegra og viðeigandi gagna til að byggja álit sitt á.

(3) Ef fleiri en einn endurskoðandi annast endurskoðunina skulu þeir komast að samkomulagi um niðurstöður endurskoðunarinnar og leggja fram sameiginlega áritun. Ef upp kemur ágreiningur skal hver endurskoðandi fyrir sig leggja fram eigin áritun í aðskilinni efnisgrein og greina frá ástæðu fyrir ágreiningi.

(4) Endurskoðandi skal skrifa undir og dagsetja áritun sína. Ef fleiri en einn endurskoðandi eða endur­skoðunarfyrirtæki hafa verið valin samtímis skal áritunin undirrituð af öllum endurskoðendunum eða að lágmarki af þeim áritunarendurskoðendum sem inna endurskoðunina af hendi fyrir hönd hvers endurskoðunarfyrirtækis.

(5) Áritun endurskoðanda á samstæðureikningsskilum skal uppfylla sömu kröfur og settar eru fram í þessari grein.

(6) Endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skulu, eftir því sem við á, staðfesta að skýrsla stjórnar og ársreikningur innihaldi það sem skylt er samkvæmt lögum um ársreikninga.

17. gr.
Skjölun.

(1) Endurskoðandi skal útbúa vinnuskjöl fyrir sérhverja endurskoðun og varðveita þau á tryggan og öruggan hátt í a.m.k. sjö ár frá áritunardegi.

(2) Endurskoðandi skal geta sýnt fram á hvernig endurskoðunin fór fram og niðurstöður hennar á rökstuddan og sannanlegan hátt. Þar sem um gæti verið að ræða svik eða villu, að mati endur­skoðanda, skal skjalfesta það sérstaklega með upplýsingum um hvað endurskoðandinn hafi gert í því sam­bandi.

(3) Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal halda eftir öllum gögnum og skjölum sem skipta máli til stuðnings endurskoðunarárituninni, sbr. 16. gr., og sem sönnun þess að farið hafi verið eftir lögum og reglum er lúta að endurskoðuninni.

(4) Ef áritunarendurskoðandi leitar ráðgjafar hjá utanaðkomandi sérfræðingum skal skrá beiðnina og ráðgjöfina sem fengin var.

(5) Áritunarendurskoðandi skal meðal annars skrá þau gögn sem endurskoðanda ber að skrá skv. V. kafla um óhæði endurskoðanda.

(6) Við endurskoðun samstæðu skulu viðeigandi vinnuskjöl annarra endurskoðenda sem koma að endurskoðun eininga innan samstæðunnar skjalfest.

(7) Loka skal endurskoðunarskjalaskrá eigi síðar en 60 dögum eftir dagsetningu áritunar.

18. gr.
Gæðakerfi.

(1) Endurskoðunarfyrirtæki og endurskoðendur skulu starfa samkvæmt formlegu gæðakerfi. Form­legt gæðakerfi skal meðal annars innihalda reglur um ábyrgð stjórnenda á gæðum endur­skoðunar, viðeigandi siðareglur, reglur um samþykki og áframhaldandi samþykki viðskipta­vina og endurskoðunarverkefna, reglur um ráðningu starfsfólks í endurskoðunarteymi, reglur um framkvæmd endurskoðunar og reglur um eftirfylgni og skráningu gæðakerfis. Stjórn endurskoðunarfyrirtækis skal bera ábyrgð á gæðakerfinu og skal kerfið metið árlega. Niðurstöður úr mati og fyrirhugaðar breytingar á kerfinu skulu skjalfestar.

(2) Endurskoðunarfyrirtæki skal halda viðskiptamannaskrá. Slík skrá skal geyma eftirfarandi gögn fyrir hvern viðskiptavin:

  1. nafn, heimilisfang og starfsstöð,
  2. nafn áritunarendurskoðanda og
  3. þóknun fyrir endurskoðun og aðra þjónustu fyrir hvert fjárhagsár.

(3) Endurskoðunarfyrirtæki skal halda skrá yfir brot á ákvæðum laga og reglna um endurskoðendur þar sem við á. Endurskoðunarfyrirtæki skal einnig halda skrá yfir afleiðingar brota, þ.m.t. ráðstafanir sem gripið er til til að bregðast við slíkum brotum og aðgerðir endurskoðunarfyrirtækisins til aðlögunar á gæðakerfi þess í framhaldi. Endurskoðunarfyrirtæki skal vinna ársskýrslu, sem inniheldur yfirlit yfir allar slíkar ráðstafanir, og skal miðla þeirri skýrslu til stjórnar fyrirtækisins.

(4) Endurskoðunarfyrirtæki skal halda skrá yfir skriflegar kvartanir um framkvæmd endurskoðunarinnar.

(5) Ráðherra getur sett reglugerð um nánari útfærslu á gæðakerfi og skipulagi vinnu endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtækja.

19. gr.
Þóknun.

(1) Þóknun fyrir endurskoðun skal við það miðuð að hún geri endurskoðanda kleift að komast að rökstuddri niðurstöðu í samræmi við þær faglegu kröfur sem settar eru fram í lögum þessum og gilda almennt um störf endurskoðenda.

(2) Greiðslu eða fjárhæð þóknunar fyrir endurskoðun má ekki með nokkrum hætti skilyrða eða tengja annarri þjónustu en endurskoðuninni.

20. gr.
Peningaþvætti.

(1) Endurskoðandi skal gæta að fyrirmælum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og kanna áreiðanleika viðskiptamanna sinna í samræmi við ákvæði laga þar um.

21. gr.
Starfstími endurskoðenda.

(1) Ef ekki er annað áskilið í lögum eða í samþykktum eða samið um annað helst starf endur­skoðanda samkvæmt lögum þessum þangað til annar endurskoðandi tekur við. Ráða skal endur­skoð­anda eða endurskoðunarfyrirtæki í upphafsverkefni til a.m.k. eins árs. Ekki er hægt að segja upp samningi um endurskoðun vegna ágreinings um reikningsskilareglur eða endurskoð­unar­aðferðir.

(2) Þegar skipt er um endurskoðanda skal endurskoðandinn sem tekur við snúa sér til fráfarandi endurskoðanda sem ber skylda til að upplýsa um ástæður fyrir starfslokum sínum. Jafnframt skal fyrri endurskoðandi veita hinum nýja endurskoðanda aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta um eininguna sem endurskoðuð er.

(3) Ef endurskoðandi segir sig frá endurskoðunarverkefni og ræður öðrum endurskoðanda frá því að taka að sér endurskoðunarverkefni skal það skjalfest og rökstutt.

(4) Ef nýr endurskoðandi tekur að sér endurskoðunarverkefni þrátt fyrir ráðleggingar fyrri endur­skoðanda um að gera það ekki skal skjalfesta ástæður þess og rök.

(5) Hvorki áritunarendurskoðanda né öðrum endurskoðendum sem koma að endurskoðun reikn­ings­skila­einingar er heimilt að taka við lykilstjórnunarstöðu hjá einingunni sem er endur­skoðuð, sitja í stjórn eða vera nefndarmaður í endurskoðunarnefnd einingarinnar sem er endur­skoðuð, eða sem fulltrúi sem sinnir sambærilegum verkum og endurskoðunarnefnd sinnir, fyrr en a.m.k. að einu ári liðnu frá því að hann tók þátt í endurskoðun einingarinnar.

(6) Áritunarendurskoðanda á einingu tengdri almannahagsmunum er ekki heimilt að taka við lykil­stjórnunarstöðu hjá viðkomandi einingu fyrr en a.m.k. tvö ár eru liðin frá því að hann tók þátt í endur­skoðun einingarinnar.

22. gr.
Endurskoðandi samstæðu.

(1) Endurskoðandi samstæðu ber ábyrgð á endurskoðun samstæðureikningsskila. Endurskoðandi samstæðunnar skal afla gagna og leggja mat á vinnu annarra endurskoðenda sem komið hafa að endurskoðun annarra eininga innan samstæðunnar, eftir því sem við á. Endurskoðandi samstæðu skal skjalfesta eðli, tímasetningu og umfang vinnunnar sem aðrir endurskoðendur inna af hendi. Jafnframt ber honum að yfirfara viðeigandi vinnuskjöl annarra endurskoðenda eftir því sem við á. Skjölun endurskoðanda samstæðu skal vera með þeim hætti að eftirlitsaðilinn geti yfirfarið vinnu annarra endurskoðenda samstæðunnar.

(2) Ef endurskoðanda samstæðu er ekki unnt að leggja mat á endurskoðunarvinnu sem endur­skoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki einstakrar einingar innan samstæðunnar í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins innir af hendi skal hann grípa til viðeigandi ráðstafana og upplýsa viðkomandi lögbært yfirvald. Slíkar ráðstafanir skulu, eftir því sem við á, lúta að því að sinna frekari endurskoðunarvinnu í einingunni sem um ræðir, annaðhvort beint eða með því að útvista slíkum verkefnum.

(3) Endurskoðandi samstæðu ber ábyrgð á áritun endurskoðanda, sbr. 16. gr., og varðveislu gagna og eftir atvikum skýrslum til endurskoðunarnefndar, sbr. 12. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB. Skjölun endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis samstæðunnar skal vera þannig að viðkomandi lögbæru yfirvaldi sé kleift að yfirfara vinnu endurskoðandans.

(4) Ef endurskoðandi samstæðu sætir gæðaeftirliti eða rannsókn vegna endurskoðunar samstæðu­reikningsskila skal endurskoðandi samstæðunnar veita eftirlitsaðila aðgang að öllum vinnuskjölum sem tengjast endurskoðun samstæðunnar þegar þess er óskað, þ.m.t. vinnuskjölum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

(5) Endurskoðendaráð getur óskað eftir viðbótarskjölum, sem varða endurskoðunarvinnu sérhvers endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis vegna endurskoðunar samstæðu, frá viðkomandi lögbærum yfirvöldum.

(6) Ef endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins endur­skoðar móðurfélög eða dótturfélög samstæðu getur endurskoðendaráð óskað eftir viðbótarskjölum frá eftirlitsaðilum viðkomandi ríkis vegna endurskoðunarvinnu endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis þess lands.

(7) Í þeim tilvikum þegar ekki er unnt að senda vinnuskjöl um endurskoðun frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins til endurskoðanda samstæðunnar skulu vera til gögn hjá endur­skoðanda samstæðunnar sem sýna fram á að hann hafi beitt viðeigandi aðferðum til þess að fá aðgang að endurskoðunargögnunum. Ef um er að ræða hömlur, sem eru tilkomnar vegna laga viðkomandi ríkja, skulu einnig vera sannanir um slíkar hömlur.

Fara efst á síðuna ⇑