Skattalagasafn ríkisskattstjóra 10.9.2024 23:05:29

Lög nr. 4/1978 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=4.1978.0)
Ξ Valmynd

Úr lögum
nr. 4/1978, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband.

32. gr.
Skattfrelsi ræðisstofnunarsvæðis.

(1) 1. Ræðisstofnunarsvæði og bústaður forstöðumanns sendiræðisskrifstofu sem sendiríkið eða maður, starfandi á þess vegum, á eða tekur á leigu skulu undanþegin hvers kyns gjöldum og sköttum til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma nema að því er varðar greiðslu fyrir tiltekna þjónustu.
 
(2) 2. Skattfrelsi samkvæmt 1. mgr. greinar þessarar skal ekki taka til þeirra gjalda og skatta sem eiga samkvæmt lögum viðtökuríkisins að greiðast af viðsemjanda sendiríkisins eða umboðsmanns þess.

- - - - - -

49. gr.
Skattfrelsi.

(1) 1. Ræðiserindrekar og ræðisstarfsmenn ásamt þeim úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra skulu vera undanþegnir öllum gjöldum og sköttum á einstaklinga og eignir hvort sem um er að ræða álögur til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma nema:
  1. þeim óbeinu sköttum sem eru að jafnaði innifaldir í verði vöru og þjónustu;
     
  2. gjöldum eða sköttum á fasteignir í einkaeign í landi viðtökuríkisins, þó með þeim takmörkunum sem felast í ákvæðum 32. gr.;
     
  3. dánarbús- og erfðafjársköttum ásamt gjöldum af eignayfirfærslum sem viðtökuríkið leggur á, þó með þeim fyrirvara sem felst í ákvæðum b-liðar 51. gr.;
     
  4. gjöldum og sköttum á einkatekjur, þar á meðal arði af eignum sem eiga upphaf sitt í viðtökuríkinu, og eignasköttum af fjárfestingu í viðskipta- eða fjármálafyrirtækjum í viðtökuríkinu;
     
  5. gjöldum sem lögð eru á fyrir tiltekna veitta þjónustu;
     
  6. þinglýsingar- og réttargjöldum, veðmála- og stimpilgjöldum, þó með þeim undantekningum sem felast í ákvæðum 32. gr..
(2) 2. Þjónustustarfsmenn skulu undanþegnir gjöldum og sköttum af launum sem þeir fá fyrir þjónustu sína.
 
(3) 3. Ef starfsmenn ræðisstofnunar hafa í þjónustu sinni menn sem eru ekki undanþegnir greiðslu tekjuskatts af kaupi sínu eða launum í viðtökuríkinu skulu þeir fullnægja þeim skyldum sem lög og reglur þess ríkis leggja vinnuveitendum á herðar varðandi innheimtu tekjuskattsins.

- - - - - -

51. gr.
Dánarbú starfsmanns ræðisstofnunar eða einhvers úr fjölskyldu hans.

Ef starfsmaður ræðisstofnunar eða einhver úr fjölskyldu hans sem telst til heimilisfólks hans deyr skal viðtökuríkið:

  1. leyfa flutning lausafjár hins látna úr landi, að undanteknum öllum þeim eignum sem aflað hefur verið í viðtökuríkinu og bannað var að flytja út þegar dauðann bar að höndum;
     
  2. ekki leggja dánarbús- og erfðafjárskatta né eignayfirfærslugjöld, hvort sem um er að ræða álögur til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma, á lausafé ef það er í viðtökuríkinu af þeirri ástæðu einni að hinn látni var þar starfsmaður ræðisstofnunar eða í fjölskyldu starfsmanns ræðisstofnunar.

- - - - - -

60. gr.
Skattfrelsi ræðisstofnunarsvæðisins.

(1) 1. Það svæði ræðisstofnunar undir forstöðu kjörræðiserindreka sem sendiríkið á eða tekur á leigu skal undanþegið hvers kyns gjöldum og sköttum til ríkis, sveitarfélaga eða annarra umdæma nema að því er varðar greiðslu fyrir tiltekna veitta þjónustu.
 
(2) 2. Skattfrelsi samkvæmt 1. mgr. greinar þessarar skal ekki taka til þeirra gjalda og skatta sem eiga samkvæmt lögum og reglum viðtökuríkisins að greiðast af viðsemjanda sendiríkisins.
 

- - - - - -

66. gr.
Skattfrelsi.

Kjörræðiserindreki skal undanþeginn öllum gjöldum og sköttum af greiðslum og launum sem hann þiggur af sendiríkinu vegna framkvæmdar ræðisstarfa.

Fara efst á síðuna ⇑