Úr lögum
nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.*1)
*1)Sbr. lög nr. 49/2003.
2. gr.
Sjálfseignarstofnun samkvæmt lögum þessum verður til með þeim hætti að reiðufé eða önnur fjárverðmæti eru afhent óafturkallanlega með erfðaskrá, gjöf eða öðrum gerningi til ráðstöfunar í þágu sérgreinds markmiðs, enda fullnægi afhendingin að öðru leyti ákvæðum laganna.
3. gr.
(1) Sjálfseignarstofnun telst stunda atvinnurekstur ef hún:
- hefur tekjur af sölu á vörum og þjónustu og því um líku eða stundar starfsemi sem er í meginatriðum hliðstæð starfsemi annarra félaga eða einstaklinga í atvinnurekstri;
- fer með meiri hluta atkvæða í hlutafélagi eða einkahlutafélagi eða öðrum félögum eða fer með öðrum hætti með sambærileg yfirráð.
(2) Sjálfseignarstofnun telst þó ekki stunda atvinnurekstur í skilningi laga þessara ef starfsemi skv. 1. mgr. telst takmörkuð miðað við önnur umsvif stofnunarinnar eða varðar aðeins lítinn hluta af eigin fé stofnunarinnar.
(3) Sjálfseignarstofnun, sem stundar ekki atvinnurekstur, fellur undir gildissvið laganna um leið og hún telst stunda atvinnurekstur skv. 1. mgr.
4. gr.
Lög þessi taka ekki til:
- sjálfseignarstofnana sem starfa á grundvelli sérlaga eða eru stofnaðar með lögum eða ákvörðun Alþingis eða heimild í þjóðréttarsamningi og háðar eru eftirliti íslenska ríkisins eða annars ríkis;
- sjálfseignarstofnana sem sveitarfélög stofna alfarið eða leggja fé í til að fullnægja beinum lagalegum skyldum sínum;
- öldrunarstofnana.
- - - - - - -
V. KAFLI
Ársreikningur og endurskoðun.
28. gr.
Stjórn og framkvæmdastjóri stofnunarinnar skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Sé eigi kveðið á um annað í lögum þessum gilda ákvæði laga um ársreikninga og reglur á grundvelli þeirra eftir því sem við á.
29. gr.
(1) Stundi sjálfseignarstofnun atvinnurekstur sem eftir einkennum sínum eða tilgangi er verulega frábrugðinn aðalatvinnurekstri hennar skal halda fjárreiðum og reikningshaldi varðandi þann rekstur aðskildum frá öðru bókhaldi og eignum stofnunarinnar.
(2) Sé sjálfseignarstofnun í tengslum við atvinnufyrirtæki samkvæmt samþykktum sínum eða samningi skal þess getið í ársreikningi eða skýringum við hann.
30. gr.
Fulltrúaráð skal velja einn eða fleiri endurskoðendur (eða endurskoðunarfélög) eða skoðunarmenn og varamenn þeirra í samræmi við ákvæði samþykkta. Sé ekki gert ráð fyrir fulltrúaráði í sjálfseignarstofnun skal endurskoðandi endurskoða reikninga stofnunar og velur stjórn félagsins hann. Sé sjálfseignarstofnun án endurskoðanda eða skoðunarmanns skal ráðherra velja hann eða þá.
31. gr.
Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, [skal stjórn sjálfseignarstofnunar senda ársreikningaskrá ársreikning sinn, svo og samstæðureikning ef um er að ræða samstæðu skv. b-lið 1. mgr. 3. gr.]1) ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna og upplýsingum um hvenær ársreikningurinn var samþykktur.
1)Sbr. 2. gr. laga nr. 49/2003.
VI. KAFLI
Úthlutun fjár o.fl.
32. gr.
(1) Stjórn stofnunar veitir styrki eða úthlutar fé í samræmi við samþykktir og ákvæði 33. gr. Úthlutun fjármuna skal vera eðlileg með hliðsjón af tilgangi og eignarstöðu stofnunar.
(2) Heimilt er stjórninni að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu stofnunarinnar.
33. gr.
Einungis er heimilt að úthluta af fjármunum stofnunarinnar sem hér segir:
- hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og úr frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap, sem hefur ekki verið jafnað, og fé samkvæmt heimild í samþykktum í bundin framlög til sjóða stofnunarinnar eða til annarra þarfa;
- til lækkunar stofnfjár skv. 13. gr.
34. gr.
(1) Stjórn stofnunar er ekki heimilt að taka sér eða veita endurskoðendum, skoðunarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum sem fara með stjórnunarstörf hærra endurgjald fyrir störf hjá stofnuninni en venjulegt er eftir eðli og umfangi starfanna.
(2) Óheimilt er stofnun að veita þeim sem getið er í 1. mgr. lán eða setja tryggingu fyrir þá. Sama gildir einnig um þann sem er giftur eða í óvígðri sambúð með þeim og þann sem er skyldur þeim að feðgatali eða niðja ellegar stendur þeim að öðru leyti sérstaklega nærri. Þetta á þó ekki við um venjuleg viðskiptalán.
(3) [Ársreikningaskrá]1) hefur eftirlit með ársreikningum og tilkynnir ráðherra, m.a. á grundvelli úrtakskannana, ef telja má að ákvæði 1.–2. mgr. hafi verið brotin.
1)Sbr. 3. gr. laga nr. 49/2003.
- - - - - - - -
45. gr.
(1) Ráðherra er heimilt að tilnefna mann eða menn til að gera sérstaka rannsókn hjá sjálfseignarstofnun varðandi stofnun hennar, tilgreind atriði í starfseminni eða einstaka þætti í bókhaldi eða ársreikningi. Þeir skulu fá greidda þóknun frá stofnuninni og skal hún ákveðin af ráðherra.
(2) Ákvæði laga um ársreikninga um hæfisskilyrði, aðstöðu, fundarsetu og upplýsingagjöf til endurskoðenda eða skoðunarmanna gilda um þá sem taka að sér sérstaka rannsókn.
(3) Afhenda skal ráðherra skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar.