Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.11.2024 09:49:51

Lög nr. 130/2018 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=130.2018.0)
Ξ Valmynd

Úr lögum
nr. 130/2018, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku.

  
II. kafli
Umsóknarferli o.fl.
 
- - - - - - -
 
5. gr.
 
Skilyrði fyrir endurgreiðslu á kostnaði.
 
(1) Skilyrði fyrir endurgreiðslu á hluta útgáfukostnaðar bókar, sbr. 8. gr., eru eftirfarandi:
  1. Útgefin bók sé á íslensku.
  2. Umsækjandi sé skráður virðisaukaskattsskyldur aðili skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðis­aukaskatt, með atvinnugreinarnúmerið 58.11.0 sem bókaútgáfa samkvæmt atvinnu­greina­flokkun Hagstofu Íslands. Erlendur umsækjandi skal sýna fram á slíka skráningu vegna starfsemi sinnar erlendis.
  3. Endurgreiðsluhæfur kostnaður umsækjanda nemi a.m.k. 1.000.000 kr. vegna útgáfu þeirrar bókar sem er andlag stuðnings hverju sinni. Heimilt er að ákveða í reglugerð lægri fjár­hæðar­mörk fyrir bækur á stafrænum miðlum og tiltekna flokka bóka.
  4. Umsækjandi færi sundurliðað bókhald yfir þann kostnað sem liggur til grundvallar beiðni um endurgreiðslu í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga.
  5. Umsækjandi sé ekki í vanskilum við opinbera aðila. Leggja skal fram staðfestingu á skulda­stöðu við opinbera aðila.
  6. Umsækjandi leggi fram staðfestingu á greiðslum til höfunda eða rétthafa.
 (2) Kostnaður vegna útgáfu bókar sem fyrst og fremst er ætluð til kynningar á tiltekinni vöru eða þjónustu er ekki endurgreiðsluhæfur samkvæmt lögum þessum.
 
III. KAFLI
 
Endurgreiðsla.
 
6. gr.
 
Endurgreiðsluhæfur kostnaður.
 
Eftirfarandi kostnaðarliðir falla undir endurgreiðsluhæfan kostnað bókaútgefanda, enda sé um að ræða kostnað sem telst frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt:
  1. Beinn launakostnaður vegna útgáfu bókar.
  2. Beinar verktakagreiðslur vegna útgáfu bókar.
  3. Laun höfundar eða rétthafa.
  4. Prentkostnaður og hliðstæður kostnaður vegna útgáfu í öðru formi en á prenti.
  5. Þýðingarkostnaður og prófarkalestur.
  6. Auglýsinga- og kynningarkostnaður vegna bókar sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfu hennar.
  7. Eigin vinna, sbr. 7. gr.
 7. gr.
 
Eigin vinna.
 
Ef útgefandi og höfundur bókar er sami aðili skal honum heimilt að leggja eigin laun til grund­vallar endurgreiðsluhæfum kostnaði, sbr. 6. gr., í stað kostnaðar skv. c-lið 6. gr. Við mat á eigin launum skal miða við mánaðarlaun listamanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 57/2009, um lista­manna­laun.
 
8. gr.
 
Endurgreiðsla.
 
(1) Hlutfall endurgreiðslu skal vera 25% af kostnaði sem fellur til við útgáfu bókar, sbr. 6. gr.
 
(2) Telji nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku að umsókn uppfylli skilyrði fyrir endurgreiðslu skal hún ákvarða fjárhæð endurgreiðslu, ella skal umsókn hafnað.
 
(3) Berist umsókn um endurgreiðslu eftir að níu mánuðir eru liðnir frá útgáfu bókar skal vísa henni frá. Heimilt er þó að taka umsókn til meðferðar þótt hún hafi borist að þessum fresti liðnum ef gildar ástæður eru fyrir töfunum. Nefndin metur það í hverju tilviki fyrir sig hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.
 
(4) Stjórn eða framkvæmdastjóri umsækjanda, ef um félag er að ræða, skal staðfesta að kostn­aðar­uppgjör sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerðar, sbr. 11. gr. Ef sótt er um endur­greiðslu fyrir hærri fjárhæð en 12 millj. kr. skal kostnaðaruppgjör skv. d-lið 1. mgr. 5. gr. jafnframt vera staðfest af endurskoðanda, skoðunarmanni eða viðurkenndum bókara.
 
(5) Í því skyni að sannreyna kostnaðaruppgjör skv. d-lið 1. mgr. 5. gr. eða gögn um annan fram­lagðan kostnað umsækjanda getur nefndin óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá umsækj­anda, til að mynda virðisaukaskattsskýrslum sem og bókhaldi hans.
 
(6) Sé kostnaðaruppgjör og/eða fylgigögn þess ófullnægjandi skal nefndin veita umsækjanda frest til að skila inn fullnægjandi gögnum. Berist nefndinni ekki fullnægjandi gögn að loknum veittum fresti eða bendi gögn málsins til þess að kostnaðaruppgjör sé ekki í samræmi við ákvæði laga þessara skal hún hafna umsókn um endurgreiðslu.
 
(7) Komi í ljós að endurgreiðsla til umsækjanda hafi verið of há, af ástæðum sem rekja má til umsækjanda, stjórnvalds eða annarra aðila, skal nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku heimilt að hlutast til um að endurákvörðun fari fram á fyrri ákvörðun nefndarinnar. Við meðferð slíkra mála skal nefndin afla nauðsynlegra gagna og gefa aðilum kost á andmælum áður en ákvörðun er tekin. Leiði endurákvörðun til breytinga á fjárhæð þegar greidds endurgreiðsluhæfs kostnaðar til lækkunar skal umsækjandi endurgreiða mismuninn innan tíu daga frá því að tilkynnt er um ákvörðunina. Heimild til endurupptöku samkvæmt ákvæði þessu fellur niður að liðnum fjórum árum frá upphaflegri ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku.
 
- - - - - - -

V. KAFLI
 
Ýmis ákvæði.
 
10. gr.
 
Aðrir styrkir.
 
(1) Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu bókar dregst styrkurinn frá þeirri fjárhæð sem telst endurgreiðsluhæfur kostnaður skv. 6. gr.
 
(2) Samanlögð fjárhæð styrks skv. 1. mgr. og endurgreiðslu skv. 8. gr. skal ekki fara yfir 50% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sömu bókar.

 
Fara efst á síðuna ⇑