Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 14:41:08

Lög nr. 87/2011 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=87.2011.0)
Ξ Valmynd

LÖG
nr. 87/2011, um gistináttaskatt.1)

1)Sbr. lög nr. 164/2011, 129/201659/2017 og 25/2020.

 

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Jafnframt að afla tekna til þess að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins.

2. gr.

Gistináttaskattur.

(1) Greiða skal í ríkissjóð gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum. Gistináttaeining er leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring, þ.m.t. yfir nótt. Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar, svo sem hús, íbúðir og herbergi, þ.m.t. herbergi á hótelum og gistiheimilum, sem og tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi.

(2) Gistináttaskattur skal nema [300 kr.]1) fyrir hverja selda gistináttaeiningu.

(3) Tilgreina skal gistináttaskatt á sölureikningi eða greiðslukvittun og myndar hann stofn til virðisaukaskatts.

1)Sbr. 10. gr. laga nr. 126/2016.

3. gr.

Undanþágur.

   [Ekki skal leggja gistináttaskatt á sölu gistingar sem ekki ber virðisaukaskatt samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.]1)

1)Sbr. 34. gr. laga nr. 164/2011.

4. gr.

Skattskyldir aðilar.

(1) Öllum þeim sem selja gistináttaeiningar skv. 1. mgr. 2. gr. ber skylda til að innheimta og standa skil á gistináttaskatti.

[---]1)

(2) Skattskyldir aðilar skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um skattskylda starfsemi áður en hún hefst.

(3) Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir skattskylda aðila samkvæmt lögum þessum.

1)Sbr. 35. gr. laga nr. 164/2011.

5. gr.

Álagning gistináttaskatts.

(1) Ríkisskattstjóri annast álagningu gistináttaskatts skv. 2. gr. Skattskyldir aðilar skulu greiða gistináttaskatt fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við fjölda seldra gistináttaeininga.

(2) [Uppgjörstímabil gistináttaskatts skulu vera þau sömu og uppgjörstímabil virðisaukaskatts hjá skattaðila, sbr. 24. og 31. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.]1) Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir. Eigi síðar en á gjalddaga skulu skattskyldir aðilar ótilkvaddir skila innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu um fjölda seldra gistináttaeininga á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu skattsins.

(3) Skýrslur vegna gistináttaskatts skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

1)Sbr. 36. gr. laga nr. 164/2011.

[5. gr. a

Endurgreiða skal gistináttaskatt á grundvelli alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar. Með sama hætti skal endurgreiða gistináttaskatt til erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þ.m.t. Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna og annarra aðila sem undanþegnir skulu gistináttaskatti samkvæmt alþjóðasamningum, tvíhliða samningum eða sér­stökum lögum þar um.]1)

1)Sbr. 25. gr. laga nr. 59/2011.

6. gr.

Viðurlög.

(1) Sé gistináttaskatti ekki skilað á réttum tíma skal skattskyldur aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt skýrslu um fjölda seldra gistináttaeininga. Álag skal vera 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó verður það ekki hærra en 10%.

(2) Sé skatti ekki skilað innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er.

(3) Heimilt er innheimtumanni ríkissjóðs að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur þess er eigi gerir skil á réttum gjalddaga þar til skil eru gerð, m.a. með því að setja skrifstofur, starfsstöðvar og gistiaðstöðu hans undir innsigli.

7. gr.

Ýmis ákvæði.

    Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um álagningu, innheimtu, tilhögun bókhalds, eftirlit, upplýsingaskyldu, viðurlög, kærur og aðra framkvæmd skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

8. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

9. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012 og gilda um þær gistináttaeiningar sem seldar eru frá og með þeim degi.

 

Ákvæði til bráðabirgða nr. I (samkvæmt lögum nr. 25/2020)

(1) Þrátt fyrir ákvæði 2. og 4. gr. skal ekki innheimta gistináttaskatt af sölu gistingar sem veitt er á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021.
 
​(2) Fari afhending gistiþjónustu fram eftir 31. mars 2020 skal ekki innheimta gistináttaskatt á því tímabili sem um ræðir í 1. mgr. Þetta gildir án tillits til þess hvort samningur um sölu gistiþjónustu hefur verið gerður fyrir 1. apríl 2020.

 

Ákvæði til bráðabirgða nr. II (samkvæmt lögum nr. 25/2020)

    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. skal gjalddagi gistináttaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2020 vera 5. febrúar 2022.

Fara efst á síðuna ⇑