Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 20:14:47

Lög nr. 50/2005 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=50.2005.0)
Ξ Valmynd

Lög

nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja1)

1)Sbr. lög nr. 136/2009 og 126/2011.

I. KAFLI
Gildissvið og skilgreining.

1. gr.
Gildissvið.

(1) Orkufyrirtæki skv. 2. gr. skulu skattskyld skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, með síðari breytingum. Skattskyldan tekur til allra orkufyrirtækja þrátt fyrir undanþáguákvæði 4. gr. laga nr. 90/2003. Skattlagning orkufyrirtækja skal vera í samræmi við ákvæði þessara laga og laga nr. 90/2003 eftir því sem við á.

(2) Sé rekstur orkufyrirtækis hluti af starfsemi opinbers aðila skal bæði rekstur og efnahagur hins skattskylda hluta að fullu aðgreindur bókhaldslega frá annarri starfsemi.

2. gr.
Skilgreining.

Í lögum þessum merkir orkufyrirtæki fyrirtæki sem stundar vinnslu, dreifingu, flutning, sölu og afhendingu á raforku og heitu vatni.

II. KAFLI
Endurmat eigna og fyrningar.

3. gr.
Um endurmat eigna.

(1) Á árinu 2006 skal endurmeta þær fyrnanlegu eignir, sbr. 33. gr. laga nr. 90/2003, sem voru í eigu skattaðila í byrjun þess árs og aflað var fyrir árslok 2001, samkvæmt ársreikningi 2001, sbr. þó 3. mgr. þessarar greinar.

(2) Endurmatið skal þannig framkvæmt að kostnaðarverði (stofnverði) skal breytt eftir verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár fram til ársins 2001. Kostnaðarverð þannig framreiknað myndar nýjan fyrningargrunn. Til frádráttar framreiknuðu kostnaðarverði reiknast sá hundraðshluti fyrninga af kostnaðarverðinu sem um getur í 4. gr. fyrir hvert ár frá og með kaup- og byggingarári til ársloka 2005. Samtala þessara fyrninga telst fengin heildarfyrning en hún skal þó aldrei vera hærri en 90% af framreiknuðu kostnaðarverði, sbr. 42. gr. laga nr. 90/2003. Mismunur framreiknaðs kostnaðarverðs og framreiknaðra fyrninga telst eftirstöðvar fyrningarverðs og skal færður til eignar.

(3) Heimilt er skattaðila að falla frá endurmati eigna sem þegar eru komnar í niðurlagsverð í árslok 2005 skv. 2. mgr. og færa þær til eignar á matsverði þeirra í ársreikningi 2005.

(4) Ákvæði 2. mgr. gilda einnig um endurmat ófyrnanlegra eigna eftir því sem við á.

(5) Ríkisskattstjóri skal fyrir árslok 2005 reikna verðbreytingarstuðul fyrir eignir sem skattaðili hefur eignast fram til 2001 á sama grunni og verðbreytingarstuðull var reiknaður á árunum 1980 til 2001.

(6) Skattaðilar skv. 1. gr., sem eiga eignir í ársbyrjun 2006 sem ber að endurmeta, skulu senda [ríkisskattstjóra]1) með skattframtali 2007 greinargerð um endurmatið í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

(7) Heimilt er að endurmeta eignir sem eru í notkun í ársbyrjun 2006 þótt þær hafi verið gjaldfærðar í undangengnum reikningsskilum ef skattaðili hefði haft rétt til að eignfæra þær og eftir atvikum afskrifa í skattalegu uppgjöri samkvæmt lögum nr. 90/2003, enda eigi ákvæði 4. mgr. ekki við.

(8) Endurmatsbreyting samkvæmt ákvæði þessu telst ekki til tekna en færist með öðru eigin fé.

(9) Í stað endurmats skv. 2.–4. mgr. er á grundvelli samþykkis ríkisskattstjóra heimilt að nota framreiknað verð eins og það var bókfært í árslok 2001, enda hafi endurmat fyrirtækis á eignum sínum verið sambærilegt endurmati skattalaga. Til frádráttar þannig ákvörðuðu endurmetnu verði reiknast sá hundraðshluti fyrninga sem um getur í 4. gr. ár hvert frá og með kaup- og byggingarári til ársloka 2005. Nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgreinar skulu sett í reglugerð.a)

1)Sbr.105. gr. laga nr. 136/2009. a)Sbr. reglugerð nr. 294/2007.

4. gr.
Fyrningarhlutföll við endurmat.

(1) Fyrning mannvirkja og búnaðar orkufyrirtækja skal við endurmat vera árlegur hundraðshluti af fyrningargrunni einstakra eigna sem hér segir:

  1. Hitaréttindi, vatnsréttindi, orkuver og virkjanir, þ.m.t. stöðvarhús, stíflur, inntaksmannvirki, lokuhús, brýr og þrýstivatnspípur, 1%.
     
  2. Aðveitustöðvar, spennistöðvar, dreifistöðvar, aðveitukerfi, dreifikerfi, dælustöðvar, geymar, aðalæðar, aðveituæðar, stofnæðar, flutningsæðar, inntök, mælagrindur og dælustöðvar 2%.
     
  3. Rafbúnaður í aðveitu- og dreifistöðvum, vegir og ræktun 4%.
     
  4. Búnaður í dælustöðvum, dreifistöðvum og aðveitustöðvum 5%.
     
  5. Kerfisráður, stýrikerfi, stjórnkerfi og álagsstýrikerfi 10%.

(2) Um fyrningu annarra eigna orkufyrirtækja við endurmat skulu gilda lágmarksfyrningarhlutföll ákvæðis 37. gr. laga nr. 90/2003 eftir því sem við á.


III. KAFLI
Fyrningar og söluhagnaður.
5. gr.
Fyrningar.

(1) Fyrning mannvirkja og búnaðar orkufyrirtækja skal vera árlegur hundraðshluti af fyrningargrunni einstakra eigna sem hér segir:

  1. Hitaréttindi, vatnsréttindi, orkuver og virkjanir, þ.m.t. stöðvarhús, stíflur, inntaksmannvirki, lokuhús, brýr og þrýstivatnspípur, að lágmarki 1%, að hámarki 3%.
     
  2. Aðveitustöðvar, spennistöðvar, dreifistöðvar, aðveitukerfi, dreifikerfi, dælustöðvar, geymar, aðalæðar, aðveituæðar, stofnæðar, flutningsæðar, inntök, mælagrindur og dælustöðvar að lágmarki 2%, að hámarki 4%.
     
  3. Rafbúnaður í aðveitu- og dreifistöðvum, vegir og ræktun að lágmarki 4%, að hámarki 6%.
     
  4. Búnaður í dælustöðvum, dreifistöðvum og aðveitustöðvum að lágmarki 5%, að hámarki 7%.
     
  5. Kerfisráður, stýrikerfi, stjórnkerfi og álagsstýrikerfi að lágmarki 10%, að hámarki 12%.

(2) Um fyrningu annarra eigna orkufyrirtækja skulu gilda ákvæði III. kafla laga nr. 90/2003 eftir því sem við á.

(3) Fyrningargrunnur eigna samkvæmt þessari grein telst stofnverð þeirra að teknu tilliti til endurmats skv. 3. gr. laga þessara.

6. gr.
Söluhagnaður.

(1) Við ákvörðun á söluhagnaði eigna, sem hafa verið endurmetnar skv. II. kafla, skal framreikna stofnverð þeirra og fyrningar eftir sömu verðbreytingarstuðlum og með sama hætti og við endurmat skv. 3. gr. eftir því sem við á.

(2) Þegar eignir sem ekki hafa verið endurmetnar skv. II. kafla eru seldar er heimilt að framreikna stofnverð þeirra frá kaupári til ársins 2001 með verðbreytingarstuðli kaupárs og telst söluhagnaður þá mismunur á söluverði og 10% af þannig framreiknuðu stofnverði.

IV. KAFLI
Önnur ákvæði.

7. gr.
Reglugerð.

[Ráðherra]1) er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þessra laga með reglugerð.a)

1)Sbr. 402. gr. laga nr. 126/2011. a)Sbr. reglugerð nr. 294/2007.

8. gr.
Gildistaka.

Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2007 vegna tekna á árinu 2006 og eigna í lok þess árs.

Fara efst á síðuna ⇑