Skattalagasafn ríkisskattstjóra 10.9.2024 23:50:09

Lög nr. 54/1971 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=54.1971.0)
Ξ Valmynd

Úr lögum
nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga.*1)

*1)Sbr. lög nr. 41/1986, 39/1987, 49/1988, 31/1990, 92/1991, 71/1996, 62/2000 og 76/2003.


5. gr.

(1) Innheimtustofnun sveitarfélaga annast meðlagainnheimtu hjá barnsfeðrum, hvar sem er á landinu.

(2) Barnsföður er skylt að endurgreiða Innheimtustofnuninni meðlag með barni sínu, skilgetnu eða óskilgetnu, þegar og með þeim hætti, sem stofnunin krefst.

(3) [Nú greiðir barnsfaðir (meðlagsskyldur) ekki meðlag innan eins mánaðar frá því meðlagskrafa féll í gjalddaga samkvæmt ákvæðum yfirvaldsúrskurðar eða skilnaðarbréfs og skal hann þá greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og hjá innlánsstofnunum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. 13. gr. laga nr. 10/1961.*1)]1) [Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að víkja frá þessari dráttarvaxtatöku ef um sérstaka félagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara. Nánari ákvæði um þetta atriði skulu sett í reglugerð.]2)

(4) [Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega þegar til skuldarinnar hefur verið stofnað sökum félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku, mikilli greiðslubyrði, barnamergð eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Slíka samninga skal endurskoða reglulega og a.m.k. á sex mánaða fresti. Ef um áframhaldandi félagslega og fjárhagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara og stjórnin telur fullljóst að aðstæður skuldara séu þannig að hann geti eigi greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans, auk meðlaga sem falla til mánaðarlega, er stjórninni heimilt að afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti. Heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans er bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við samning skv. 1. málsl. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett í reglugerð.

(5) Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að afskrifa og endurgreiða höfuðstól skuldara sem stofnast hefur eftir að niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir og/eða mál hefur verið höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu eða til vefengingar á faðerni barns. Heimildin til afskriftar og endurgreiðslu er þó bundin því skilyrði að niðurstaða dómsmáls leiði í ljós að skuldari er ekki faðir viðkomandi barns. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett í reglugerð.

(6) Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að mæla með nauðasamningi þar sem fjallað er um niðurfellingu höfuðstóls og/eða dráttarvaxta að hluta eða öllu leyti, enda sé ljóst að hagsmunum Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði betur borgið með nauðasamningi.]6)

(7) Vanræki barnsfaðir að einhverju eða öllu leyti að verða við innheimtukröfu, getur Innheimtustofnunin:

  1. Krafið kaupgreiðanda um að halda eftir hluta af kaupi eða aflahlut til lúkningar meðlögum. Skulu slíkar kröfur ganga fyrir öðrum kröfum, þ. á m. kröfum sveitarsjóða og innheimtumanna ríkissjóðs. Kaupgreiðendur skulu halda slíku innheimtufé aðgreindu frá eigin fé eða fé fyrirtækis. Vanræki kaupgreiðandi að verða við slíkri kröfu, ber hann ábyrgð gagnvart Innheimtustofnuninni allt að þeirri fjárhæð, sem hann hefur greitt barnsföður, eftir að krafa Innheimtustofnunarinnar barst honum. Sama gildir, ef kaupgreiðandi tekur ekki tilskilda fjárhæð af kaupi eða aflahlut eða ef hann skilar ekki innheimtu meðlagsfé til Innheimtustofnunarinnar innan hálfs mánaðar. Gera má lögtak hjá kaupgreiðanda vegna vanrækslu hans í þessu sambandi með sama hætti og hjá meðlagsskuldara sjálfum. Lögtaksrétturinn fyrnist ekki.
  2. Krafist lögtaks í eignum barnsföður. [---]5)
  3. Krafist þess, að lögreglan aðstoði við að hafa upp á barnsföður og færi hann á skrifstofu Innheimtustofnunarinnar, ef með þarf, til viðtals og upplýsingagjafar, hafi hann ekki sinnt kvaðningum.
  4. [---]5)
  5. [---]4)

(8) [Meðlög, sem falla á þann tíma, reiknaðan í heilum mánuðum, sem maður afplánar refsingu, [---]5) skulu ekki innheimt hjá honum fyrir þann tíma sem afplánun stendur fyrr en tveimur árum eftir að afplánun lýkur og skal þá greiðslum jafnað á eitt til þrjú ár. Dráttarvextir skulu ekki innheimtir af slíkum skuldum fyrir þann tíma sem innheimta skal liggja niðri samkvæmt þessu. Eigi að síður skal Innheimtustofnun sveitarfélaga standa skil á meðlagsgreiðslum fyrir slíkan tíma til Tryggingastofnunar ríkisins.]3)

(9) Innheimtustofnunin skal hafa sama rétt og einstakar sveitarstjórnir samkvæmt 45. gr. framfærslulaga, nr. 80/1947,*2) til að krefja skattayfirvöld um upplýsingar um tekjur og eignir barnsfeðra, svo og til að krefja vinnumiðlunarskrifstofur og kaupgreiðendur um að láta þeim í té vinnuskýrslur.

(10) [Kröfur til endurgreiðslu barnsmeðlaga og sérstakra framlaga [samkvæmt barnalögum],8) sem greidd eru fyrir milligöngu opinberra aðila og endurgreiða ber að lögum, fyrnast á tíu árum.]7)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 41/1986. 2)Sbr. 1. gr. laga nr. 39/1987. 3)Sbr. 1. gr. laga nr. 49/1988. 4)Sbr. 44. gr. laga nr. 31/1990. 5)Sbr. 57. gr. laga nr. 92/1991. 6)Sbr. 1. gr. laga nr. 71/1996. 7)Sbr. 1. gr. laga nr. 62/2000. 8)Sbr. 82. gr. laga nr. 76/2003. *1)Nú lög nr. 38/2001. *2)Nú lög nr. 40/1991.

Fara efst á síðuna ⇑