Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.11.2024 01:31:47

Lög nr. 94/2019, kafli 3 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=94.2019.3)
Ξ Valmynd

 

III. KAFLI
Brottfall löggildingar til endurskoðunarstarfa.

10. gr.
Niðurfelling löggildingar og starfsleyfis.

(1) Ef endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki fullnægir ekki skilyrðum til löggildingar eða starfs­leyfis skal án tafar tilkynna það til endurskoðendaráðs. Ef úrbætur eru ekki gerðar innan þess tíma­frests sem endurskoðendaráð ákveður fellur löggilding endurskoðanda eða starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækisins niður og er þá endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki óheimil frekari starf­semi á grundvelli löggildingar eða starfsleyfis og ber að skila löggildingarskírteini eða starfs­leyfi til endurskoðendaráðs.

(2) Nú fellur löggilding endurskoðanda eða starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis niður skv. 1. mgr. og ber þá endurskoðendaráði að auglýsa það í Lögbirtingablaði og á vef sínum.

 

11. gr.
Innlögn löggildingar til endurskoðunarstarfa.

(1) Endurskoðandi getur lagt inn löggildingu sína og falla þá réttindi hans og skyldur sem endur­skoðanda niður nema annað leiði af lögum. Ef endurskoðendaráð er með mál endurskoð­andans til meðferðar er innlögn löggildingar ekki heimil nema málið sé látið niður falla samkvæmt lögum þessum.

(2) Hafi endurskoðandi lagt inn löggildingu sína skal veita honum réttindi á ný eftir umsókn hans, án endurgjalds, ef hann fullnægir öllum skilyrðum til að njóta þeirra og sannar að hann hafi uppfyllt endurmenntunarkröfur þriggja ára tímabils.

 

12. gr.
Endurveiting löggildingar til endurskoðunarstarfa.

Hafi löggilding endurskoðanda verið felld niður skv. 10. gr. getur einstaklingur óskað eftir endurnýjun hennar, enda sýni hann fram á að hann fullnægi skilyrðum laga og standist próf skv. 7. gr. Skal hann þá skráður á ný í endurskoðendaskrá. Endurskoðendaráð getur veitt undanþágu frá skyldu til að taka próf að nýju.
 

13. gr.
Tilkynning um niðurfellingu réttinda.

(1) Hafi löggilding endurskoðanda eða starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis verið fellt niður eða lagt inn skal endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki tekið af endurskoðendaskrá og skal lög­gild­ingar­skírteini skv. 9. mgr. 5. gr. skilað til endurskoðendaráðs án tafar. Er honum eða fyrirtækinu þá óheimilt að nota starfsheitið endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki.

(2) Sé löggilding eða starfsleyfi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis sem skráð eru í öðrum ríkjum felld niður eða þau lögð inn skal endurskoðendaráð tilkynna það viðeigandi lögbæru yfirvaldi þess ríkis sem endurskoðandinn eða endurskoðunarfyrirtækið er einnig skráð í og skal upplýsa um ástæður niðurfellingar löggildingar eða starfsleyfis.


 

Fara efst á síðuna ⇑