Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 14:09:52

Lög nr. 108/2007 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=108.2007.0)
Ξ Valmynd

Úr lögum
nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.*1)

*1)Sbr. lög nr. 48/2013.

Orðskýringar.
2. gr.

(1) Í lögum þessum merkir:

  1. Fjármálafyrirtæki: Fyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
  2. Fjármálagerningur:
    1. Verðbréf, þ.e. þau framseljanlegu verðbréf sem hægt er að eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði, að undanskildum greiðsluskjölum, svo sem:
      1. hlutabréf í fyrirtækjum og önnur verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa í fyrirtækjum, sameignarfélögum eða öðrum lögaðilum og heimildarskírteini fyrir hlut,
      2. skuldabréf eða skuld á verðbréfaformi, þ.m.t. heimildarskírteini vegna slíkra verðbréfa,
      3. önnur verðbréf sem veita rétt til að kaupa eða selja verðbréf eða leiða til uppgjörs í reiðufé sem ræðst af verðbréfum, gjaldmiðlum, vöxtum eða ávöxtunarkröfum, hrávörum eða öðrum vísitölum eða mælikvörðum.
    2. Peningamarkaðsskjöl, þ.e. þeir flokkar gerninga sem viðskipti fara venjulega fram með á peningamarkaði, svo sem ríkisvíxlar, innlánsskírteini og viðskiptabréf að undanskildum greiðsluskjölum.
    3. Hlutdeildarskírteini.
    4. Valréttarsamningar, framtíðarsamningar, skiptasamningar, framvirkir vaxtarsamningar og aðrar afleiður sem byggjast á verðbréfum, gjaldmiðlum, vöxtum, ávöxtunarkröfu, öðrum afleiðum, fjárhagslegum vísitölum eða fjárhagslegum viðmiðum sem gera má upp efnislega eða með reiðufé.
    5. Hrávöruafleiður.
    6. Afleiður til yfirfærslu lánaáhættu.
    7. Samningar um fjárhagslegan mismun.
    8. Aðrar afleiður sem ekki falla undir d–g-lið en hafa sömu eiginleika og þær afleiður.
  3. Eignastýring: Stjórnun verðbréfasafns í samræmi við fjárfestingarstefnu sem er fyrirframákveðin af viðskiptavini.
  4. Fjárfestingarráðgjöf: Persónulegar ráðleggingar til viðskiptavinar í tengslum við fjármálagerninga, hvort sem er að frumkvæði viðskiptavinarins eða þess sem þjónustuna veitir.
  5. Taka fjármálagerninga til viðskipta: Samþykki kauphallar á að viðskipti með fjármálagerninga hefjist á skipulegum verðbréfamarkaði að uppfylltum reglum hennar skv. 22. gr. laga um kauphallir.
  6. Markaðstorg fjármálagerninga (MTF): Marghliða viðskiptakerfi sem starfrækt er af fjármálafyrirtæki eða kauphöll sem leiðir saman kaupendur og seljendur fjármálagerninga, í samræmi við ófrávíkjanlegar reglur þess, þannig að til samninga stofnast í samræmi við IV. kafla.
  7. Skipulegur verðbréfamarkaður: Markaður með fjármálagerninga samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.
  8. Kauphöll: Rekstraraðili skipulegs verðbréfamarkaðar samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.
  9. Fagfjárfestar: Með fagfjárfestum er átt við viðskiptavini sem búa yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir. Eftirfarandi aðilar teljast fagfjárfestar:
    1. Lögaðilar, hér á landi eða erlendis, sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, þ.m.t. fjármálafyrirtæki og fyrirtæki tengd fjármálasviði, vátryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög þeirra, lífeyrissjóðir og rekstrarfélög þeirra eftir því sem við á, seljendur hrávöru og hrávöruafleiðna, staðbundnir aðilar og aðrir stofnanafjárfestar.
    2. Stór fyrirtæki sem uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi skilyrðum:
      1. heildartala efnahagsreiknings er 1.847 millj. kr. eða hærri,
      2. hrein ársvelta er 3.695 millj. kr. eða meiri,
      3. eigið fé er 185 millj. kr. eða meira.

               Fjárhæðir samkvæmt þessum lið eru grunnfjárhæðir sem eru bundnar gengi evru (EUR) 3. janúar 2007 (92,37).

    1. Ríkisstjórnir og sveitarstjórnir, seðlabankar og alþjóðastofnanir, svo sem Alþjóða¬gjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu, Fjárfestingarbanki Evrópu og aðrar sambærilegar alþjóðastofnanir.
    2. Aðrir stofnanafjárfestar sem hafa það að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum, þ.m.t. aðilar sem fást við verðbréfun eigna eða önnur fjármögnunarviðskipti.
    3. Aðilar sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar á grundvelli 24. gr.
  1. Viðurkenndur gagnaðili: Aðili sem fellur undir a-, b- og c-lið skilgreiningar á fagfjárfestum.
  2. Almennur fjárfestir: Fjárfestir sem ekki er fagfjárfestir.
  3. Opinber fjárfestingarráðgjöf: Greining eða samantekt upplýsinga sem felur í sér ráðleggingu um kaup eða sölu á fjármálagerningum eða leggur til fjárfestingarstefnu, með beinum eða óbeinum hætti, sem varðar einn eða fleiri fjármálagerninga eða útgefendur þeirra og ætluð er almenningi eða er líkleg til að verða aðgengileg almenningi, svo sem ef henni er dreift til stórs hóps manna.
  4. Viðurkennd markaðsframkvæmd: Framkvæmd sem eðlilegt er að gera ráð fyrir að sé viðhöfð á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og Fjármálaeftirlitið hefur viðurkennt með þeim hætti sem kveðið er á um í reglugerð sem sett skal á grundvelli 118. gr.
  5. Innmiðlari: Fjármálafyrirtæki sem skipulega, reglulega og kerfisbundið á í viðskiptum fyrir eigin reikning með því að framkvæma fyrirmæli viðskiptavina utan við skipulega verðbréfamarkaði og markaðstorg fjármálagerninga (MTF).

(2) Ráðherra skal í reglugerða) setja nánari ákvæði um skilgreiningu hugtakanna fjármálagerningur, fjárfestingarráðgjöf og innmiðlari.

a)Sbr. reglugerð nr. 994/2007.

- - - - - - -
 

VII. kafli.
Reglulegar upplýsingar útgefanda.

Gildissvið.
55. gr.

(1) Ákvæði kafla þessa gilda um útgefendur verðbréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, með Ísland sem heimaríki skv. 3. gr.

(2) Útgefandi verðbréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi, með heimaríki í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en Íslandi, skal veita hliðstæðar reglulegar upplýsingar og kafli þessi mælir fyrir um í samræmi við bindandi opinber fyrirmæli heimaríkis síns.
 

Undanþágur.
56. gr.

(1) Ákvæði kafla þessa gilda ekki um ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sveitarfélög eða sambærileg svæðis- eða staðaryfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, opinbera alþjóðlega aðila sem a.m.k. eitt ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins á aðild að, seðlabanka á Evrópska efnahagssvæðinu eða Seðlabanka Evrópu.

(2) Ákvæði kafla þessa gilda ekki um útgefanda skuldabréfa ef eingöngu skuldabréf hans hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og nafnverð eininga skuldabréfanna er að minnsta kosti jafngilt [100.000 evrum]1). [Fjárhæðir í þessum kafla eru reiknaðar miðað við opinbert viðmiðunargengi evru (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni]1).

(3) Ákvæði kafla þessa gilda ekki um verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði þegar um er að ræða hlutdeildarskírteini.

(4) Ákvæði kafla þessa gilda ekki um útgefendur vegna peningamarkaðsskjala með binditíma sem er skemmri en 12 mánuðir.

(5) Ákvæði 58. gr. gildir ekki um útgefanda sem var þegar á skipulegum verðbréfamarkaði 31. desember 2003 og sem eingöngu gefur út skuldabréf sem heimaríki útgefandans eða eitt af svæðis- eða staðaryfirvöldum þess ríkis ábyrgist skilyrðislaust og óafturkallanlega.

[(6) Þrátt fyrir 2. mgr. þessarar greinar gilda 57., 58. og 59. gr. ekki um útgefendur sem gefa eingöngu út skuldabréf, þar sem nafnverð hverrar einingar er að jafnvirði 50.000 evra eða minna. Ef skuldabréfin eru í öðrum gjaldmiðli en evru skal nafnverð hverrar einingar á útgáfudegi jafngilda a.m.k. 50.000 evrum. Gildir þetta um skuldabréf sem hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði fyrir gildistöku laga þessara svo framarlega sem þau eru útistandandi.]1)

1)Sbr. 12. gr. laga nr. 48/2013.
 

Ársreikningur.
57. gr.

     Útgefandi verðbréfa skal birta opinberlega ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, eins fljótt og auðið er eftir lok reikningsársins og eigi síðar en fjórum mánuðum frá lokum þess. Útgefanda ber að tryggja að ársreikningur, eða samstæðureikningur ef við á, sé aðgengilegur almenningi í að minnsta kosti fimm ár.
 

Árshlutareikningur vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.
58. gr.

     Útgefandi hlutabréfa og/eða skuldabréfa skal birta opinberlega árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, eins fljótt og auðið er eftir lok þess tímabils, þó eigi síðar en tveimur mánuðum frá lokum þess. Útgefanda ber að tryggja að árshlutareikningurinn, eða samstæðureikningurinn ef við á, sé aðgengilegur almenningi í að minnsta kosti fimm ár.
 

Greinargerð frá stjórn.
59. gr.

(1) Útgefandi hlutabréfa skal á fyrstu sex mánuðum reikningsársins og aftur á síðari sex mánuðum reikningsársins birta opinberlega greinargerð frá stjórn útgefandans. Greinargerð frá stjórn skal fela í sér skýringu á mikilvægum atburðum og viðskiptum sem átt hafa sér stað á viðkomandi tímabili og lýsingu á áhrifum þeirra á fjárhagsstöðu útgefanda, og dótturfélaga hans ef við á, auk almennrar lýsingar á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu útgefanda, og dótturfélaga hans ef við á, á viðkomandi tímabili.

(2) Greinargerðina skal birta á tímabilinu frá tíu vikum eftir að viðkomandi sex mánaða tímabil hefst þangað til sex vikum áður en því lýkur og skal efni hennar ná yfir tímabilið frá upphafi viðkomandi sex mánaða tímabils fram til birtingardags greinargerðarinnar.

(3) Útgefanda, sem á grundvelli laga, reglna skipulegs verðbréfamarkaðar eða að eigin frumkvæði birtir árshlutareikning vegna fyrstu þriggja og fyrstu níu mánaða reikningsársins, eða samstæðureikninga vegna sömu tímabila ef við á, í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga, er ekki skylt að birta greinargerð frá stjórn útgefandans.
 

Efni ársreiknings og árshlutareiknings.
60. gr.

     Útgefendur verðbréfa með skráða skrifstofu á Íslandi skulu semja ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, og árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, í samræmi við lög um ársreikninga.
 

Útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
61. gr.

(1) Útgefanda með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að semja ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, og greinargerð frá stjórn samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu ef fyrirmælin eru hliðstæð ákvæðum laga um ársreikninga. Útgefanda er jafnframt heimilt að fylgja bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu um árshlutareikning fyrir fyrstu þrjá og fyrstu níu mánuði reikningsársins, eða samstæðureikninga vegna sömu tímabila ef við á, ef fyrirmælin eru hliðstæð íslenskum reglum um samsvarandi árshlutareikninga sem gilda mundu gagnvart honum væri útgefandinn með skráða skrifstofu á Íslandi.

(2) Ef bindandi opinber fyrirmæli ríkis þar sem útgefandi er með skráða skrifstofu eru ekki hliðstæð ákvæðum laga um ársreikninga skal útgefandi semja ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, og greinargerð frá stjórn með sama hætti og hliðstæðir útgefendur með skráða skrifstofu á Íslandi.

(3) Ársreikningaskrá metur hvort kröfur samkvæmt ákvæðum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins eru hliðstæðar ákvæðum laga um ársreikninga.
 

 Opinber birting og ábyrgð.
62. gr.

(1) Útgefandi skal birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar samkvæmt kafla þessum eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Samhliða opinberri birtingu skal útgefandinn senda upplýsingarnar til Fjármálaeftirlitsins.

(2) Fjármálaeftirlitinu er heimilt að birta upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar á heimasíðu sinni.

(3) Ábyrgð á því að upplýsingar skv. 57.–59. gr. séu teknar saman og gerðar opinberar hvílir á útgefanda.
 

Miðlæg varðveisla.
63. gr.

     Útgefandi skal senda allar upplýsingar sem birtar eru opinberlega samkvæmt kafla þessum samhliða til Fjármálaeftirlitsins, eða aðila sem Fjármálaeftirlitið tilnefnir, til miðlægrar varðveislu, sbr. 136. gr. laga þessara.
 

Tungumál.
64. gr.

(1) Ef verðbréf útgefanda hafa einungis verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt kafla þessum á íslensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.

(2) Ef verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og í einu eða fleiri aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt kafla þessum á íslensku, eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir, og annaðhvort á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna samþykkja, að vali útgefanda.

(3) Ef verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í einu eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu en ekki á Íslandi skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt kafla þessum á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna samþykkja, að vali útgefanda. Ef Fjármálaeftirlitið óskar eftir því skal útgefandi jafnframt birta upplýsingarnar á ensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir, að vali útgefanda.

(4) Ef verðbréf útgefanda eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda hvíla skyldur 1.–3. mgr. ekki á útgefanda heldur þeim aðila sem óskað hefur eftir töku bréfanna til viðskipta án samþykkis útgefanda.
 

Reglugerð.
65. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði vegna kafla þessa í reglugerð, þar á meðal um með hvaða hætti ársreikningur og árshlutareikningur skulu vera aðgengilegir almenningi, sbr. 57. og 58. gr., hvaða kröfur samkvæmt ákvæðum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins eru hliðstæðar ákvæðum laga um ársreikninga, sbr. 61. gr., og um framkvæmd opinberrar birtingar, sbr. 62. gr.a)

a)Sbr. reglug. nr. 707/2008.

- - - - - - -
 

Almennt eftirlit.
1. og 2. mgr. 133. gr.

(1) Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Um heimildir þess fer samkvæmt ákvæðum kafla þessa og ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ársreikningaskrá kannar hvort upplýsingar skv. VII. kafla eru samdar í samræmi við viðeigandi reikningsskilareglur.

(2) Í tengslum við athugun tiltekins máls er Fjármálaeftirlitinu heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg. Fjármálaeftirlitið getur kallað til skýrslugjafar einstaklinga sem það telur búa yfir upplýsingum um tiltekið mál. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum samkvæmt þessari grein.
 

Fara efst á síðuna ⇑