Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 21:15:11

Lög nr. 94/2019, kafli 5 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=94.2019.5)
Ξ Valmynd

 

V. KAFLI
Óhæði endurskoðanda.

23. gr.
Óhæði í reynd og ásýnd.

(1) Endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skulu vera óháð viðskiptavini sínum við vinnu endur­skoðunarverkefna, bæði í reynd og ásýnd. Endurskoðandi skal ekki framkvæma endurskoðun ef einhver þau tengsl eru milli endurskoðandans og viðskiptavinar hans sem eru til þess fallin að vekja efa um óhæði hans hjá vel upplýstum þriðja aðila, svo sem atvinnutengsl, fjölskyldutengsl, bein eða óbein fjárhagsleg tengsl eða viðskiptatengsl önnur en leiðir af endurskoðuninni. Endurskoðandi skal vera óháður viðskiptavini sínum það tímabil sem reikningsskilin sem eru endur­skoðuð ná til og þar til endurskoðun er lokið.

(2) Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki taka þátt í ákvarðanatöku innan hinnar endurskoðuðu einingar.

 

24. gr.
Óhæðisógnanir.

(1) Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja óhæði í reynd og ásýnd. Óhæði skal skoða í ljósi mögulegra hagsmuna- eða viðskiptaárekstra, og beinna eða óbeinna tengsla endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtækis eða samstarfsfyrirtækjanets þeirra við hina endurskoðuðu einingu. Einnig skal meta óhæði stjórnenda endurskoðunarfyrirtækja, endur­skoðenda, starfsmanna og annarra einstaklinga sem veita þjónustu fyrir eða undir stjórn áritunarendurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis eða annars aðila sem hefur bein eða óbein tengsl við áritunar­endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki í krafti yfirráða.

(2) Endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða samstarfsfyrirtækjanet þeirra skulu ekki annast endur­skoðun einingar ef til staðar er ógnun sem ekki er hægt að draga úr með viðeigandi varúðarráðstöfunum svo að hún verði ásættanleg. Með ógnun er meðal annars átt við eigin­hagsmuna­ógnun, sjálfsmatsógnun, málsvarnarógnun, vinfengisógnun og þvingunarógnun.

25. gr.
Viðskipti með fjármálagerninga.

(1) Endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, samstarfsfyrirtækjanet þeirra, starfsmenn þeirra og þeir sem veita þjónustu fyrir áritunarendurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki og taka beinan þátt í endurskoðuninni, sem og aðilar nátengdir þeim, skulu ekki eiga í viðskiptum með fjármálagerninga sem eru útgefnir, tryggðir eða studdir með öðrum hætti af einingu sem verið er að endur­skoða, að undanskilinni óbeinni eignarhlutdeild í gegnum dreifða sameiginlega fjárfest­ingar­sjóði, þ.m.t. stýrðir sjóðir eins og lífeyrissjóðir eða sjóðir líftryggingafélaga.
(2) Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki taka þátt í eða hafa að öðru leyti áhrif á niðurstöðu endurskoðunar þeirrar einingar sem endurskoðuð er ef endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki:

  1. er handhafi fjármálagerninga í einingunni sem er endurskoðuð, að undanskilinni óbeinni eignar­hlutdeild í dreifðum sameiginlegum fjárfestingarsjóðum,
  2. er handhafi fjármálagerninga í einingu sem tengist endurskoðaðri einingu og eignarhald í henni getur valdið eða getur almennt talist valda hagsmunaárekstri, að undanskilinni óbeinni eignarhlutdeild í dreifðum sameiginlegum fjárfestingarsjóðum, eða
  3. tengist einingunni sem er endurskoðuð í gegnum viðskipti eða með því að hafa verið starfsmaður einingarinnar eða tengjast einingunni með öðrum hætti innan þess tímabils, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., sem getur valdið eða getur almennt talist valda hagsmunaárekstri.
     

26. gr.
Gjafir.

Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki þiggja gjafir, hvort heldur sem um er að ræða gjafir í formi fjármuna eða ófjárhagslegra gjafa, frá einingunni sem er endurskoðuð eða nokkurri einingu sem tengist endurskoðuðu einingunni nema hlutlægur þriðji aðili mundi telja verðmæti þeirra óverulegt eða léttvægt.

27. gr.
Samruni eininga.

(1) Ef eining sem er endurskoðuð er yfirtekin, sameinast eða tekur yfir aðra einingu á því tímabili sem reikningsskilin ná til skal endurskoðandinn eða endurskoðunarfyrirtækið meta núverandi eða fyrri hagsmuni eða sambönd, þ.m.t. þjónustu sem ekki felur í sér endurskoðun sem veitt hefur verið þeirri einingu, að teknu tilliti til mögulegra varúðarráðstafana, sem gætu stofnað í hættu óhæði endurskoðandans og möguleikanum á að halda áfram með endurskoðunina að loknum gildistökudegi samrunans eða kaupanna.

(2) Eins fljótt og auðið er, þó eigi síðar en innan þriggja mánaða frá gildistökudegi samrunans eða yfirtökunnar, skal endurskoðandinn eða endurskoðunarfyrirtækið stíga öll nauðsynleg skref til að binda enda á hvers kyns hagsmuni eða tengsl, sem fyrir hendi eru sem stefna óhæði endur­skoðandans í hættu, og skal, ef unnt er, gera varúðarráðstafanir til að lágmarka ógnun við óhæðið sem kann að stafa af fyrri og núverandi hagsmunum og tengslum

28. gr.
Eigendur og stjórnendur.

Endurskoðunarfyrirtæki skal koma á viðeigandi verklagsreglum til að tryggja að eigendur endurskoðunarfyrirtækis, svo og stjórnarmenn í stjórn eða framkvæmdastjórn þess eða tengdra fyrirtækja, aðrir en áritunarendurskoðandi, blandi sér ekki í framkvæmd endurskoðunar á nokkurn hátt þannig að það stofni í hættu óhæði og hlutlægni endurskoðanda sem annast endurskoðun fyrir hönd endurskoðunarfyrirtækis.

26. gr.
Staðfesting við endurskoðunarnefnd.

Endurskoðandi einingar tengdrar almannahagsmunum skal skriflega á hverju ári:

  1. staðfesta við endurskoðunarnefnd viðkomandi einingar að hann sé óháður hinni endur­skoðuðu einingu,
  2. greina endurskoðunarnefndinni frá þeirri þjónustu sem einingunni er veitt auk endur­skoðunar og
  3. gera endurskoðunarnefndinni grein fyrir hugsanlegri ógnun við óhæði sitt og þeim varúðar­ráðstöfunum sem gerðar eru til að draga úr slíkri ógnun.
Fara efst á síðuna ⇑