Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 20:42:22

Lög nr. 41/2015 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=41.2015.0)
Ξ Valmynd

Úr lögum
nr. 41/2015, um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

8. gr.

 Ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum.

(1) Byggðaaðstoð getur samkvæmt lögum þessum verið í formi frávika frá sköttum eða opinberum gjöldum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis.

(2) Félag sem er stofnað um nýfjárfestingu og uppfyllir öll skilyrði laga þessara fyrir veitingu ívilnunar skal njóta eftirfarandi skattalegra ívilnana:

  1. Tekjuskattshlutfall viðkomandi félags skal, í þann tíma sem kveðið er á um í 3. mgr., vera 15%. Lækki hið almenna tekjuskattshlutfall á tímabilinu niður fyrir framangreint hlutfall skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið.
     
  2. Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 34. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. þeirra laga skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
     
  3. Skatthlutfall fasteignaskatts viðkomandi félags skal vera 50% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi skv. II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
     
  4. Almennt tryggingagjald viðkomandi félags skal vera 50% lægra en það sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
     
  5. Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum vegna viðkomandi fjárfestingarverkefnis, svo og til reksturs þess, skulu vera undanþegin tollum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005.

(3) Þau frávik frá almennum reglum um skatta og opinber gjöld sem kveðið er á um í 2. mgr. gilda í 10 ár frá því að greiðsluskylda myndast eða hefði myndast vegna gjalds eða skatta, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun samnings skv. 14. gr.

(4) Félag sem nýtur ívilnunar samkvæmt grein þessari skal, að öðru leyti en kveðið er á um í 2. mgr., greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma. Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um viðkomandi félag.

------------------------

18. gr.

Frestur til greiðslu virðisaukaskatts.

Aðila sem nýtur ívilnunar samkvæmt lögum þessum og verktökum sem taka að sér byggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis skal veittur gjaldfrestur á greiðslu virðisaukaskatts af innfluttum vörum og tækjum til fjárfestingarverkefnis þar til endurgreiðsla vegna viðkomandi uppgjörstímabils skv. 4. mgr. 25. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, fer fram.

-------------------------

20. gr.

Gildistaka.

Lög þessi öðlast þegar gildi. Fjárfestingarsamningar sem gerðir eru á grundvelli laganna taka ekki gildi fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt samþykki fyrir því ríkisaðstoðarkerfi sem lögin fela í sér að undanskildum fjárfestingarsamningum sem falla undir reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) um almenna hópundanþágu. Lög þessi falla úr gildi 1. júlí 2020. Ívilnandir sem hafa verið veittar fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu út þann tíma sem kveðið er á um í viðkomandi samningi um veitingu ívilnunar, sbr. 14. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Eingöngu kostnaður sem fellur til eftir gildistöku laga þessara getur talist til fjárfestingarkostnaðar í skilningi þeirra.
 

Fara efst á síðuna ⇑