Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.3.2024 05:19:12

Lög nr. 35/2014 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=35.2014.0)
Ξ Valmynd

Lög nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána*1)

*1)Sbr. lög nr. 102/2014.


1. gr.
Markmið.

Markmið laga þessara er að kveða á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggingu fasteignaveðlána heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009

2. gr.
Heimild til samninga.

(1) Ráðherra skal heimilt að gera samning við lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og fjármála­fyrirtæki sem starfa samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, um framkvæmd og uppgjör á almennri leiðréttingu fasteignaveðlána í samræmi við lög þessi.

(2) Í samningi um uppgjör milli ríkissjóðs og aðila skv. 1. mgr. skal við það miðað að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðila vegna greiðslu ríkissjóðs á leiðréttingarhluta láns skv. 11. gr. 

3. gr.
Afmörkun leiðréttingar.
 
(1) Leiðrétting samkvæmt lögum þessum tekur til verðtryggðra fasteignaveðlána sem veitt voru einstaklingum af lögaðilum sem uppfylla, eða uppfylltu á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, sömu skilyrði og lögaðilar skv. 1. mgr. 2. gr. Skilyrði er að lánin hafi verið nýtt, í heild eða að hluta, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hér á landi og að þau hafi verið til staðar einhvern hluta af sama tímabili. Vaxtagjöld af sömu lánum skulu hafa verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, í heild eða að hluta, á sama tímabili.

(2) Leiðrétting samkvæmt lögum þessum tekur til heimila, þ.e. einstaklinga, hjóna og sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar innan leiðréttingartímabils skv. 1. mgr., og tekur leiðrétting til áhvílandi lána á sameiginlegu heimili hjóna eða sam­býlis­fólks, óháð því hvor aðilinn var skráður fyrir lánunum á tímabilinu.

(3) Leiðrétting tekur ekki til lögaðila, þrátt fyrir að til láns hafi verið stofnað með beinum eða óbeinum hætti í þágu einstaklinga, þ.m.t. samkvæmt lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög.
 
(4) Leiðrétting tekur ekki til dánarbúa. Eftirlifandi maki eða börn sem eru undir 18 ára aldri á árinu 2014, sem hafa yfirtekið eignir og skuldir hins látna, geta þó sótt um leiðréttingu vegna lána hins látna skv. 1. mgr.
 
4. gr.
Umsókn.

(1) Umsóknartímabil hefst 15. maí 2014 og því lýkur 1. september 2014.

(2) Einstaklingum er heimilt að sækja um að leiðrétting vegna lána skv. 1. mgr. 3. gr. komi til lækkunar fasteignaveðlána á umsóknarári, sbr. 11. gr., og eftir atvikum sem sérstakur persónuafsláttur, sbr. 12. gr. Hjónum og sambýlisfólki sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í árslok 2013 er heimilt að sækja sameiginlega um slíka leiðréttingu vegna lána sem veittu rétt til vaxtabóta á árunum 2008–2009 og annað eða bæði voru ábyrg fyrir. Ekki skiptir máli hvort hjóna er formlega ábyrgt fyrir láni á umsóknarári komi til lækkunar skv. 11. gr. vegna leiðréttingar á lánum skv. 1. mgr. 3. gr.

(3) Umsókn skal beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn.

(4) Umsækjandi skal staðfesta við umsókn að hann heimili viðkomandi lánveitanda að miðla nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til ríkisskattstjóra um þau fasteignaveðlán sem leiðréttingin nær til, sbr. 60. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og sambærileg ákvæði um aðra lánveitendur.

(5) Nú veitir umsækjandi ekki þær upplýsingar eða leggur ekki fram þau gögn sem óskað er eftir í rafrænu umsóknarferli og skal þá hafna umsókn.
 
Afgreiðsla umsóknar.
 
(1) Afgreiðslu umsókna skv. 4. gr. annast ríkisskattstjóri. Við afgreiðslu skal m.a. byggt á gögnum og upplýsingum um fasteignaveðlán umsækjanda og hjúskaparstöðu.

(2) Útreikningur lána skv. 7. gr. skal gerður á ábyrgð viðkomandi lánveitanda sem miðlar upplýsingum um hann til ríkisskattstjóra.
 
Öflun og miðlun upplýsinga.
 
(1) Ríkisskattstjóra skal heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga við afgreiðslu umsóknar, svo sem frá umboðsmanni skuldara, lánastofnunum, öðrum lánveitendum, sýslumönnum og Þjóðskrá Íslands, óháð þagnarskyldu þessara aðila. Hér undir falla m.a. upplýsingar sem leggja þarf til grundvallar skv. 7., 8. og 11. gr. og miðast við hjúskaparstöðu á hverjum tíma. Upplýsingar skulu veittar án endurgjalds og á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

(2) Nýting upplýsinga, sem ríkisskattstjóri ræður yfir á grundvelli almennrar skattframkvæmdar, skal heimil eftir því sem nauðsynlegt er.

(3) Þrátt fyrir ákvæði 117. gr. laga nr. 90/2003 skal ríkisskattstjóra heimilt að miðla þeim upplýsingum til lánveitenda sem máli skipta, svo sem vegna auðkenningar við útreikning lána skv. 7. gr., frádráttarliða skv. 8. gr. og annarrar framkvæmdar sem þeim kann að vera falin samkvæmt lögum þessum, sbr. 11. gr. Lánveitendur sem móttaka slíkar upplýsingar eru bundnir þagnarskyldu vegna þeirra og mega ekki nýta sér þær í öðrum tilgangi en samkvæmt lögum þessum. Að öðru leyti er ríkisskattstjóri bundinn þagnarskyldu vegna þeirra upplýsinga sem hann móttekur á grundvelli laga þessara.
 
Útreikningur á leiðréttingu einstaklings.

(1) Útreikningur á leiðréttingu hvers láns, sbr. 1. mgr. 3. gr., miðast við mismun raunverðbóta og leiðréttra verðbóta.

(2) Við útreikning skv. 1. mgr. skal miða við að lánið hafi verið í fullum skilum miðað við það greiðsluflæði og þá lánaskilmála sem í gildi voru við upphaf leiðréttingartímabils þess, sbr. 1. mgr. 3. gr., að frádregnum umframgreiðslum sem kunna að hafa verið greiddar á tímabilinu. Útreikningurinn skal einnig miðaður við þannig reiknaðan höfuðstól í lok leiðréttingartímabils lánsins. Með greiðsluflæði er átt við samtölu afborgana og vaxta, án verðbóta, sem bar að greiða að teknu tilliti til umframgreiðslna.

(3) Á greiðsluflæðið og reiknaða höfuðstólinn í lok leiðréttingartímabils láns eru reiknaðar verðbætur samkvæmt verðtryggingarvísitölu lánsins og telst samtala þessara verðbóta raunverðbætur við útreikninginn.

(4) Á greiðsluflæðið og reiknaða höfuðstólinn í lok leiðréttingartímabils láns eru einnig reiknaðar verðbætur út frá viðmiðunarvísitölu og telst samtala þessara verðbóta leiðréttar verðbætur við útreikninginn.

(5) Leiðrétting einstaklings og hámark hennar ræðst af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

(6) Heildarsamtala útreiknaðrar leiðréttingar einstaklings, hjóna, sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar og tveggja eða fleiri einstaklinga sem áttu í sameign heimili getur þó að hámarki orðið 4 millj. kr.
 
Frádráttarliðir einstaklings.

(1) Frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr. skal draga samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem hafa glatað veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar eftir 1. janúar 2008. Hið sama á við um endanlega niðurfellingu fasteignaveðlána, sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, ákvarðaðar lánsveðsvaxtabætur og önnur fjárhagsleg úrræði fyrir atbeina stjórnvalda samkvæmt eftirfarandi upptalningu:
  1. Niðurfelling veðkrafna í kjölfar afmáningar fasteignaveðkrafna skv. 12. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
  2. Niðurfelling fasteignaveðkrafna sem mælt er fyrir um í samningi um sértæka skuldaaðlögun skv. 2. gr. laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, sbr. samkomulag um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun, dags. 31. október 2009, með breytingum, dags. 22. desember 2010.
  3. Lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða XIV í lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, sbr. 1. gr. laga nr. 29/2011, óháð því hvort sótt hefur verið sérstaklega um slíka lækkun eða hún framkvæmd að frumkvæði lánveitanda.
  4. Niðurfelling fasteignaveðkrafna í kjölfar greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/ 2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga. Gildir þetta þrátt fyrir ákvæði 33. gr. laga nr. 101/2010.
  5. Niðurfelling fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 103/2010, um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Gildir þetta þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 103/2010.
  6. Sérstök vaxtaniðurgreiðsla samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 6. gr. laga nr. 164/2010.
  7. Ákvarðaðar lánsveðsvaxtabætur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða LII í lögum nr. 90/ 2003, um tekjuskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 43/2013.
[(2) Þá skal önnur almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaveðkrafna sem lögaðilar skv. 1. mgr. 2. gr. framkvæmdu frá og með 1. janúar 2008 og var sambærileg þeim úrræðum sem getur í b- og c-lið 1. mgr. og ekki telst til tekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, dregin frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr.]1)

(3) Frádráttur einstaklings skv. [skv. 1. mgr. og 2. mgr.]1) tekur mið af hjúskapar- eða heimilisstöðu, sbr. 6. mgr. 7. gr., eins og hún var við framkvæmd niðurfellingar.
1)Sbr. 1. gr. laga nr. 102/2014.
 
Leiðréttingarfjárhæð umsækjanda.
(1) Leiðréttingarfjárhæð umsækjanda skv. 2. mgr. 4. gr. er samtala fjárhæðar einstaklinga skv. 7. gr. að teknu tilliti til frádráttarliða einstaklinga skv. 8. gr. og er að hámarki 4 millj. kr. á hvert heimili hvort sem um er að ræða einstaklinga, hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar í árslok 2013, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

(2) Fjárhæðir skv. 1. mgr. skal hvorki verðbæta né vaxtareikna.

(3) Nú er fjárhæð sem eftir stendur 20.000 kr. eða lægri og fellur þá réttur til leiðréttingar niður.
 
Birting ákvörðunar um leiðréttingarfjárhæð.
 
(1) Niðurstöðu um útreikning leiðréttingar skal ríkisskattstjóri birta umsækjanda með rafrænum hætti þegar hún liggur fyrir.

(2) Nú byggist niðurstaða útreiknings skv. 9. gr. á röngum upplýsingum og skal þá umsækjanda heimilt að óska eftir leiðréttingu með rafrænum hætti til ríkisskattstjóra innan þriggja mánaða frá birtingardegi.

(3) Hafi umsækjandi ekki athugasemdir við ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar skal hann samþykkja útreikning og framkvæmd leiðréttingar skv. 11. gr. innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Að þeim tíma liðnum fellur réttur til leiðréttingar niður.
 
Framkvæmd leiðréttingar til lækkunar á höfuðstól fasteignaveðláns.
 
(1) Hafi fasteignaveðkröfur, sem glatað hafa veðtryggingu sinni í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar eftir 1. janúar 2008, ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæð ráðstafað til lækkunar á slíkum kröfum.

(2) Ef sú leiðréttingarfjárhæð sem eftir stendur skv. 1. mgr. er hærri en 200.000 kr. skal leiðrétting fara fram með lækkun á verðtryggðum og/eða óverðtryggðum fasteignaveðlánum í íslenskum krónum samkvæmt þessari grein. Að öðrum kosti fer um framkvæmd leiðréttingar skv. 12. gr.

(3) Leiðrétting á einstökum lánum fer þannig fram að lánveitandi fasteignaveðláns, á fremsta veðrétti, skal skipta láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingarhluta. Engin breyting verður á skilmálum eða kjörum frumhluta lánsins, en um leiðréttingarhlutann gilda ákvæði 4. og 5. mgr. Ekki er nauðsynlegt að undirrita sérstaka skilmálabreytingu eða þinglýsa vegna skiptingar á láni í tvo hluta og er breyting þessi undanþegin lögum um neytendalán, nr. 33/2013. Ef frumhluti fasteignaveðláns á fremsta veðrétti tæmist en hluta leiðréttingarfjárhæðar skv. 4. mgr. er enn óráðstafað skal lánveitandi á næsta veðrétti á eftir á fasteign umsækjanda skipta því láni í tvo hluta, frum- og leið­réttingarhluta, og svo koll af kolli þar til leiðréttingarfjárhæð er náð eða frumhluti láns tæmist. Fasteignaveðlán umsækjanda sem tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings skulu einungis koma til skiptingar ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda. Skipting fasteignaveðláns í frum- og leiðréttingarhluta raskar ekki veðtryggingu og veðrétti lánsins sem tryggir áfram greiðslu frum- og leiðréttingarhluta láns.

(4) Leiðréttingarfjárhæð, í heild eða að hluta, myndar leiðréttingarhluta láns. Skal ráðstöfun hennar vera með eftirfarandi hætti inn á leiðréttingarhlutann þar til leiðréttingarfjárhæð er að fullu nýtt eða frumhluti láns tæmist. Fyrst skal ráðstafað inn á elsta ógreidda gjalddaga lánsins í eftirfarandi röð. Fyrst kemur vanskilakostnaður og dráttarvextir, næst ógreiddir vextir, auk verðbóta á ógreidda vexti, og loks ógreiddur höfuðstóll, auk verðbóta á ógreiddan höfuðstól. Með sama hætti skal ráðstafa inn á næstelsta ógreidda gjalddaga og svo koll af kolli. Þá skal færa á leiðréttingarhluta lánsins skuld á jöfnunarreikningi ef umsækjandi hefur notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga nr. 63/1985, sbr. lög nr. 107/2009. Þar á eftir skal ráðstafa inn á leiðréttingarhluta lánsins svo miklum hluta af áföllnum vöxtum og verðbótum áfallinna vaxta og höfuðstól og verðbótum lánsins sem þarf þar til leiðréttingarfjárhæð er náð eða frumhluti láns tæmist. Leiðréttingarfjárhæð þannig samansett myndar nýjan höfuðstól fyrir leiðréttingarhluta láns. Áfallna ógreidda vexti af leiðréttingarhluta lánsins má leggja við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Því næst skal leiðréttingarfjárhæð ráðstafað með sömu aðferð á fasteignaveðlán á næsta veðrétti fasteignar umsækjanda og svo koll af kolli. Ef þá stendur eftir fasteignalán umsækjanda sem tryggt er með veði í fasteign annars einstak­lings skal það fært niður með sama hætti.

(5) Greiðandi skipts fasteignaveðláns heldur áfram að greiða af frumhluta í samræmi við skilmála lánsins, en ríkissjóður greiðir leiðréttingarhluta samkvæmt samkomulagi við samningsaðila skv. 2. gr., að uppfylltum skilyrðum 16. gr. um heimild til greiðslu í fjárlögum. Leiðréttingarhluta láns skal skipt í fjórar afborganir með gjalddaga afborgana og vaxta 31. desember ár hvert, þann fyrsta það ár sem leiðrétting láns á sér stað. Ríkissjóði skal heimilt að greiða leiðréttingarhluta og vexti að hluta til eða öllu leyti án uppgreiðslugjalds ef tilkynnt er um breyttan gjalddaga með 30 daga fyrirvara. Leiðréttingarhlutar lána skulu að fullu vera upp gerðir eigi síðar en 31. desember 2017.

(6) Verði eign sem skipt fasteignaveðlán hvílir á seld nauðungarsölu eða bú greiðanda tekið til gjaldþrotaskipta fellur réttur til leiðréttingar niður og skal þá sameina að nýju frum- og leiðréttingarhluta fasteignaveðláns. Sú fjárhæð sem eftir stendur á leiðréttingarhluta lánsins, höfuðstóll auk áfallinna vaxta, skal lögð í einu lagi við höfuðstól frum­hluta lánsins. Myndast við það nýr höfuðstóll frumhluta láns, en um endurgreiðslu hans gilda skilmálar fasteignaveðlánsins að öðru leyti. Ekki er nauðsynlegt að undirrita sérstaka skilmálabreytingu vegna sameiningar frum- og leiðréttingarhluta láns og er breyting þessi undanþegin lögum um neytendalán, nr. 33/2013. Ekki er nauðsynlegt að þinglýsa sameiningu á láni til að tryggja réttarvernd hennar gagnvart síðari veðhöfum.

(7) Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um framkvæmd leiðréttingar samkvæmt þessari grein, svo sem um framkvæmd skiptingar fasteignaveðláns í frum- og leiðréttingarhluta, fyrirkomulag þegar leiðréttingarfjárhæð breytist eða er endurupptekin og nánar um framkvæmdina ef til þess kemur að sameina þarf að nýju leiðréttingarhluta við frumhluta láns í heild eða að hluta. Ráðherra er einnig heimilt að kveða á um það í reglugerð hvernig fara skuli með frum- og leiðréttingarhluta lána við sölu á fasteign. 
 
Sérstakur persónuafsláttur.
 
(1) Leiðréttingarfjárhæð sem ekki verður ráðstafað skv. 11. gr. myndar sérstakan persónuafslátt.

(2) Sérstakur persónuafsláttur kemur sem viðbót við almennan persónuafslátt við álagningu opinberra gjalda skv. 6. tölul. 1. mgr. 66. gr., sbr. A-lið 67. gr., laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þó þannig að hann skal deilast jafnt niður á fjögur ár án vísitöluhækkunar. Þegar sérstakur persónuafsláttur hefur verið nýttur á móti reiknuðum tekjuskatti, útsvari og fjármagnstekjuskatti skal sá hluti staðgreiðslu sem nemur eftirstöðvum sérstaka persónuafsláttarins greiddur út án álags skv. 122. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að teknu tilliti til ákvæða 112. gr. sömu laga. Sá hluti sérstaka persónuafsláttarins sem ónýttur kann að vera yfirfærist á milli ára þar til hann er fullnýttur eða ráðstöfunartímabilið útrunnið. Ónýttur sérstakur persónuafsláttur millifærist á milli hjóna og samskattaðs sambýlisfólks við álagningu.
  
Endurupptaka leiðréttingar.
 
(1) Nú kemur í ljós að leiðréttingarfjárhæð hefur verið verulega ofreiknuð, vanreiknuð eða ráðstöfun hennar hefur byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og skal ríkisskattstjóra þá heimilt að hlutast til um að fyrri ákvarðanir skv. 10., 11. og 12. gr. verði teknar upp og hafa umsjón með framkvæmd endurupptöku. Við meðferð máls skal ríkisskattstjóri afla nauðsynlegra gagna og gefa aðilum máls kost á andmælum áður en ákvörðun verður tekin. Heimild til endurupptöku samkvæmt ákvæði þessu fellur niður að liðnum þremur árum talið frá umsóknarári skv. 4. gr.

(2) Leiði endurákvörðun til endurreiknings á leiðréttingarfjárhæð skal mismun ráðstafað að nýju í samræmi við 11. gr. hvort sem er til hækkunar eða lækkunar á þeim ráðstöfunum sem þegar hafa verið framkvæmdar.

(3) Komi til þess að mismunur þessi sé til lækkunar og lægri en samtala þegar lækkaðra fasteignaveðkrafna, eftirstöðva leiðréttingarlána umsækjanda og ónýtts sérstaks persónuafsláttar og leiði þannig til skuldar umsækjanda skulu framantaldar ráðstafanir ganga til baka og sú fjárhæð sem eftir stendur falla í gjalddaga 10 dögum eftir að tilkynnt er um endurreikning.
 
Úrskurðanefnd.
 
(1) Heimilt er að kæra ákvörðun um fjárhæð leiðréttingar skv. 9. gr., framkvæmd leiðréttingar skv. 11. gr. og endurupptöku skv. 13. gr. til úrskurðarnefndar sem ráðherra skipar.

(2) Í úrskurðarnefndinni sitja þrír menn og skulu þeir tilnefndir af Hæstarétti. Tveir nefndarmanna skulu fullnægja skilyrðum laga til að gegna embætti héraðsdómara og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Þriðji nefndarmaðurinn skal hafa reynslu og þekkingu á lánveitingum til húsnæðiskaupa.

(3) Kærufrestur er þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar, sbr. 1. mgr.

(4) Kærendur skulu rökstyðja kærutilefni og láta nefndinni í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar er nefndin telur þörf á.

(5) Úrskurðarnefndinni er heimilt að óska eftir umsögn hlutaðeigandi lánastofnunar eða ríkisskattstjóra eftir því sem við á.

(6) Kæra frestar framkvæmd leiðréttingar samkvæmt lögum þessum.

(7) Úrskurðarnefndin skal bundin þagnarskyldu um þau gögn og upplýsingar sem hún kann að fá vitneskju um við starf sitt.

(8) Úrskurðir nefndarinnar skulu vera endanlegir á stjórnsýslustigi. Ágreining um framkvæmd laga þessara má bera undir dómstóla, enda hafi áður verið úrskurðað um hann af úrskurðarnefndinni.

(9) Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um störf úrskurðarnefndarinnar, þ.m.t. um verklag við úrlausn deilumála, greiðslu kostnaðar við störf nefndarinnar og aðsetur hennar.
 
Eftirlit með framkvæmd.
 
Ráðherra skal hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara.
 
Fjármögnun.
 
Framlag til framkvæmdar laga þessara er háð samþykki Alþingis á fjárlögum hvers árs. Fáist ekki framlög á fjárlögum fer um meðferð leiðréttingarhluta láns skv. 6. mgr. 11. gr. en ónýttur sérstakur persónuafsláttur fellur niður.
 
Reglugerðarheimild.
 
Ráðherra skal setja nánari reglura) um framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um samræmt verklag og viðmið við útreikning skv. 7. gr. og frádrátt skv. 8. gr. Þá er honum heimilt að ákveða í reglugerð lengri fresti skv. 10. gr.

a)Sbr. rg. nr. 698/2014.
 
Gildistaka.
 
Lög þessi öðlast þegar gildi.
 
Lagaskil.
 
(1) Leiðrétting samkvæmt lögum þessum, hvort heldur varðar leiðréttingu á fasteigna­veðláni eða sérstakan persónuafslátt, telst hvorki til tekna skv. 7. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, né til tekjuskattsstofns við tekjutengingu barna- eða vaxtabóta skv. A- og B-lið 68. gr. sömu laga. Greiðsla ríkissjóðs á vöxtum af leiðréttingarhluta láns veitir ekki rétt til vaxtabóta samkvæmt tilvitnuðu ákvæði B-liðar 68. gr. sömu laga. Þá hefur hún ekki áhrif til skerðingar á bótum samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, húsaleigubótum skv. 9. gr. laga nr. 138/1997, um húsaleigubætur, atvinnuleysisbótum skv. 36. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, greiðslum til foreldra skv. 22. gr. laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, og námslánum Lánasjóðs íslenskra námsmanna skv. 1. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

(2) Þrátt fyrir að einstaklingur hafi fært verðtryggð fasteignalán með þeim lánum á skattframtölum 2009 og 2010 sem ekki veittu rétt til vaxtabóta af vaxtagjöldum er engu síður heimilt að óska eftir því að slík lán verði lögð til grundvallar útreikningi skv. 7. gr., enda hafi lán þessi sannanlega verið nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði á því tímabili sem leiðrétting samkvæmt lögum þessum tekur til. Við þessar aðstæður skal einungis tekið tillit til umræddra lána við útreikning leiðréttingar samkvæmt lögum þessum og ákvarðast þannig ekki vaxtabætur af þessu tilefni skv. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

(3) Ákvæði laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, skulu ekki takmarka heimildir Íbúða­lána­sjóðs til aðildar að samkomulagi skv. 2. gr. og framkvæmdar þess í samræmi við lög þessi.

(4) Leiðrétting samkvæmt lögum þessum skal koma til frádráttar uppreiknuðum eftirstöðvum veðskulda á fasteign við mat á því hvaða kröfur komi til greina til afmáningar samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi, sbr. 12. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.
 
 
Fara efst á síðuna ⇑