Skattalagasafn ríkisskattstjóra 10.9.2024 23:51:06

Lög nr. 162/2006 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=162.2006.0)
Ξ Valmynd

Úr lögum
nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.*1)

*1)Sbr. lög nr. 119/2010 og nr. 126/2011.

I KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.

[Tilgangur laga þessara er að kveða á um framlög til frambjóðenda í kjöri til embættis forseta Íslands, til Alþingis og til sveitarstjórna, opinber og almenn fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi og draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum.]1) Markmið laganna er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 119/2010.
 

2. gr.
Skilgreiningar.

Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð og hugtök merkingu sem hér segir:

  1. Stjórnmálasamtök: Flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna.
  2. Prófkjör: Kosningar sem stjórnmálasamtök halda til að velja fulltrúa á framboðslista við kosningar til Alþingis eða sveitarstjórna.
  3. Frambjóðendur: [Þátttakendur í persónukjöri í forsetakosningum, kosningum til Alþingis, kosningum til sveitarstjórna og þátttakendur í prófkjörum stjórnmálasamtaka.]1)
  4. Framlög: Framlög til starfsemi stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda eða kosningabaráttu, hvort heldur eru bein fjárframlög eða önnur gæði sem metin verða til fjár, án tillits til þess hvaðan þau koma eða hvers eðlis þau eru. Til framlaga í þessum skilningi teljast allir afslættir af markaðsverði, ívilnanir og eftirgjöf, þar með taldir afslættir af markaðsverði auglýsinga, eftirgjöf eftirstöðva skulda, óvenjuleg lánakjör o.s.frv. [sem og sala stjórnmálasamtaka á vörum og þjónustu á yfirverði.]2) Ef afsláttur hefur verið veittur af markaðsverði skal mismunur markaðsverðs og raunverðs tilgreindur sem framlag í reikningum. Önnur framlög, svo sem endurgjaldslaust lán vinnuafls, aðstöðu eða búnaðar, skulu metin til peningaverðs á gangverði eða markaðsverði á hverjum tíma og tilgreind í reikningum á því verði.
  5. Tengdir aðilar: Lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.
  6. Endurskoðendur: Löggildir endurskoðendur samkvæmt ákvæðum laga um endurskoðendur.
  7. Þingflokkar: Samtök þingmanna sem uppfylla skilyrði þingskapa til að teljast þingflokkur. 

1)Sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 119/2010.  2)Sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 119/2010.
 

- - - - - - -
 

IV. KAFLI
Reikningsskil og upplýsingaskylda stjórnmálasamtaka.
8. gr.
Reikningsskil stjórnmálasamtaka.

(1) Stjórnmálasamtök skulu halda samstæðureikning fyrir allar einingar sem undir þau falla, svo sem sérsambönd, kjördæmisráð, eignarhaldsfélög og tengdar sjálfseignarstofnanir. Heimilt er að halda flokkseiningum utan samstæðureikningsskila ef tekjur þeirra eru undir [400.000 kr.]1) á ári. Við gerð ársreikninga skal farið að efnisreglum laga um ársreikninga eins og við á. Ríkisendurskoðun gefur út frekari leiðbeiningar um reikningshald stjórnmálasamtaka.

(2) Stjórnmálasamtök skulu fela endurskoðendum að endurskoða reikninga sína. Endurskoðendur skulu starfa eftir leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar og sannreyna að samstæðureikningurinn sé saminn í samræmi við ákvæði laga þessara og almennar reikningsskilareglur og staðfesta það álit með áritun á reikninginn. Ríkisendurskoðun getur hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna [reikninga og]2) að framlög einstaklinga og lögaðila séu innan þeirra marka sem greinir í III. kafla.

1)Sbr. a-lið 3. gr. laga nr. 119/2010.  2)Sbr. b-lið 3. gr. laga nr. 119/2010.
 

9. gr.
Upplýsingaskylda um reikninga stjórnmálasamtaka.

[Stjórnmálasamtök skulu fyrir 1. október ár hvert skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum fyrir síðastliðið ár, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. Ríkisendurskoðun skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er, birta útdrátt úr ársreikningi stjórnmálasamtaka með samræmdum hætti. Þar skal greina frá heildargjöldum og heildartekjum. Í útdrættinum skulu tekjur sundurliðaðar eftir uppruna þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum og einnig greint frá helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði sem og sölu á þjónustu, vöru eða eignum á yfirverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi sem og fjárhæð þeirra. Einnig skal birta nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög sem eru metin á meira en 200.000 kr.]1)

1)Sbr. 8. gr. laga nr. 119/2010.  
 

V. KAFLI
Reikningsskil og upplýsingaskylda í persónukjöri.
10. gr.
Reikningsskil frambjóðenda í persónukjöri.

(1) [Frambjóðendur skulu gera uppgjör fyrir kosningabaráttu sína þar sem greint er frá öllum framlögum og útgjöldum vegna hennar í samræmi við almennar reikningsskilareglur og skal uppgjörið áritað af endurskoðanda eða bókhaldsfróður skoðunarmanni. Miða skal uppgjörstímabil við það tímamark þegar kosningabarátta frambjóðanda hefst. Þegar um prófkjör er að ræða skal miða uppgjörstímabil við það tímamark þegar prófkjör er auglýst nema kosningabarátta frambjóðanda hafi hafist fyrr. Þegar um forsetakjör er að ræða skal miða uppgjörstímabil við það tímamark þegar framboði er skilað til innanríkisráðuneytis]2) nema kosningabarátta frambjóðanda hafi hafist fyrr. Miða skal lok uppgjörstímabils við það tímamark þegar reikningum er skilað til Ríkisendurskoðunar skv. 11. gr. Ríkisendurskoðun gefur út leiðbeiningar um uppgjör fyrir kosningabaráttu og um upplýsingaskyldu um uppgjörið.

(2) Ríkisendurksoðun getur hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna að kostnaður við kosningabaráttu og framlög einstaklinga og lögaðila til frambjóðanda séu innan þeirra marka sem greinir í III. kafla.

(3) Frambjóðendur eru undanþegnir uppgjörsskyldu ef heildartekjur eða heildarkostnaður við kosningabaráttu er ekki umfram 400.000 kr.]1)

1)Sbr. 9. gr. laga nr. 119/2010.  2)444. gr. laga nr. 126/2011.

11. gr.
Upplýsingaskylda um reikninga yfir kosningabaráttu.

(1) [Frambjóðendur skulu skila Ríkisendurskoðun árituðum reikningum sínum eigi síðar en þremur mánuðum frá því að kosning fór fram. Ríkisendurskoðun skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er,  birta útdrátt úr reikningum með samræmdum hætti. Þar skal greina frá heildargjöldum og heildartekjum. Í útdrættinum skulu tekjur sundurliðaðar eftir uppruna þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum og einnig greint frá helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði sem og sölu á þjónustu, vöru eða eignum á yfirverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til kosningabaráttu frambjóðandans sem og fjárhæð þeirra. Einnig skal birta nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög sem eru metin á meira en 200.000 kr. til kosningabaráttu frambjóðandans.

(2) Ef uppgjör vegna kosningabaráttu sýnir jákvæða eða neikvæða fjárhagsstöðu skal frambjóðandi árlega skila nýju uppgjöri til Ríkisendurskoðunar eða allt þar til umframfjármunum hefur verið ráðstafað eða skuld verið greidd.]1)

1)Sbr. 10. gr. laga nr. 119/2010.  

Fara efst á síðuna ⇑