Skattalagasafn ríkisskattstjóra 29.3.2024 07:47:30

Lög nr. 50/1988, kafli 3 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=50.1988.3)
Ξ Valmynd

III. KAFLI
Skattverð.

7. gr.

(1) Skattverð er það verð sem virðisaukaskattur er reiknaður af við sölu á vörum og verðmætum, skattskyldri vinnu og þjónustu. Skattverð miðast við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts.

(2) Til skattverðs telst m.a.:

  1. Skattar og gjöld samkvæmt öðrum lögum sem á hafa verið lögð á fyrri viðskiptastigum eða greidd hafa verið við innflutning til landsins eða virðisaukaskattsskyldur aðili á að standa skil á vegna sölu.
  2. Umbúðakostnaður, sendingarkostnaður, vátryggingar og slíkur kostnaður sem er innifalinn í verði eða seljandi krefur kaupanda sérstaklega um.
  3. Tengingar- og stofngjöld og aðrar fjárhæðir sem seljandi krefur kaupanda um sem skilyrði fyrir afhendingu skattskyldrar vöru og þjónustu.
  4. Umboðs- og sölulaun og uppboðsþóknun.
  5. Afslættir sem háðir eru skilyrðum sem ekki eru uppfyllt við afhendingu (reikningsútgáfu). Hins vegar skal óskilyrtur afsláttur, sem veittur er við afhendingu á hinni seldu vöru, vinnu eða þjónustu, dreginn frá söluverði við ákvörðun á skattverði. [Afsláttur sem þeir aðilar, er skrá sölu í sjóðvél, veita gegn greiðslu með kreditkorti og tekjufærður er að fullu við afhendingu en dregst frá söluverði við uppgjör greiðslukortafyrirtækis telst ekki háður skilyrðum sem greinir í 1. málsl. þessa töluliðar. Gefi seljandi út reikning samhliða skráningu í sjóðvél skal fjárhæð afsláttar tilgreind á honum.]1)
  6. Verðbætur sem falla til fram að afhendingu vöru eða þjónustu. Hins vegar teljast vextir og verðbætur, sem hvort tveggja er reiknað við sölu með afborgunarskilmálum, ekki með í skattverði enda sé sérstaklega tilgreint í kaupsamningi hver vaxta- og verðbótagreiðsla sé hverju sinni.
  7. Þjónustugjald sem ekki er innifalið í vöruverði.

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 105/2000.

8. gr.

(1) Þegar eigandi tekur út úr eigin fyrirtæki vörur eða skattskylda þjónustu til eigin nota skal skattverð miðast við almennt gangverð án virðisaukaskatts. Sama gildir um vörur og þjónustu sem fyrirtækið notar í öðrum tilgangi en varðar sölu þess á skattskyldum vörum og þjónustu eða í tilgangi er varðar atriði sem rakin eru í 3. mgr. 16. gr.

(2) Við skipti á vörum eða þjónustu eða við afhendingu vöru án endurgjalds skal miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Liggi slíkt almennt gangverð ekki fyrir skal miða skattverð við reiknað útsöluverð þar sem tekið er tillit til alls kostnaðar að viðbættri þeirri álagningu sem almennt er notuð á vörur eða þjónustu af sama tagi.

(3) [Ákvæði 2. mgr. þessarar greinar skulu einnig gilda um skattskylda byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð skv. 2. mgr. 3. gr.]2)

(4) [[Ráðherra]3) getur sett nánari reglur í reglugerða) um mat til verðs samkvæmt þessari grein eða falið það ríkisskattstjóra.]1) 2)

1)Sbr. 4. gr. laga nr. 119/1989. 2)Sbr. 3. gr. laga nr. nr. 45/2006. 3)Sbr. 127. gr. laga nr. 126/2011a)Auglýsingar ríkisskattstjóra nr. 8/1994 og nr. 17/1996.

9. gr.

Við viðskipti milli skyldra eða tengdra aðila skal miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum milli ótengdra aðila.

10. gr.

(1) [Við sölu notaðra  [skráningarskyldra]4) ökutækja, sem seljandi hefur keypt til endursölu í atvinnuskyni, er honum heimilt að miða skattverð við [80,65%]3) 5) af mismun innkaupsverðs og söluverðs ökutækis að meðtöldum virðisaukaskatti. Sé söluverð lægra en kaupverð reiknast enginn skattur.

(2) [Bílaleigum og tryggingarfélögum, sem vegna starfsemi sinnar hafa keypt notuð ökutæki, er heimilt að ákvarða skattverð skv. 1. mgr. við endursölu þeirra.]2)

(3) Sé skattverð notaðra ökutækja ákvarðað með þeim hætti, sem lýst er í 1. og 2. mgr., má ekki tilgreina fjárhæð virðisaukaskatts á reikningi eða á annan hátt þannig að hægt sé að reikna út fjárhæð virðisaukaskattsins, hvorki vegna sölunnar til endurseljandans né vegna endursölunnar sjálfrar.]1)

1)Sbr. 17. gr. laga nr. 122/1993. 2)Sbr. 2. gr. laga nr. 40/1995.  3)Sbr. 13. gr. laga nr. 130/2009. 4)Sbr. 3. gr. laga nr. 163/2010. 5)Sbr. 1. gr. laga nr. 124/2014.
 

Fara efst á síðuna ⇑