Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.11.2024 21:11:33

Lög nr. 145/1994, kafli 3 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=145.1994.3)
Ξ Valmynd

III. KAFLI
Ársreikningur.

Reikningsár og undirritun.
22. gr.

(1) Þeir sem bókhaldsskyldir eru skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár samkvæmt lögum þessum enda séu ekki gerðar strangari kröfur í öðrum lögum. Ársreikningurinn skal a.m.k. hafa að geyma rekstrarreikning og efnahagsreikning, svo og skýringar eftir því sem við á. Ársreikningurinn skal mynda eina heild.

(2) [Reikningsárið skal vera tólf mánuðir og miðast við mánaðamót. Nýtt reikningsár hefst daginn eftir að fyrra reikningsári lýkur. Við upphaf eða lok rekstrar eða breytingu á reikningsári getur tímabilið verið skemmra eða lengra, þó aldrei lengra en fimmtán mánuðir. Reikningsári verður því aðeins breytt síðar að sérstakar aðstæður gefi tilefni til. Breytingin skal tilgreind og rökstudd í skýringum.]1)

(3) Ársreikningurinn skal fullgerður og undirritaður eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsársins. Hann skal undirritaður af þeim sem ábyrgð bera á bókhaldinu, sbr. 5. gr.

(4) Hafi einhver, sem skyldur er til að undirrita ársreikninginn, mótbárur fram að færa gegn honum skal hann undirrita reikninginn með árituðum fyrirvara. Koma skal fram hvers eðlis fyrirvarinn er.

1)Sbr. 7. gr. laga nr. 48/2005.

Efnahagsreikningar og rekstrarreikningar.
23. gr.

(1) [Á efnahagsreikning eru færðar á kerfisbundinn hátt eignir, skuldir, þ.m.t. skuldbindingar, og eigið fé sem er mismunur eigna og skulda.

(2) Eign skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt er að félagið hafi af henni fjárhagslegan ávinning í framtíðinni og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.

(3) Skuld skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt þykir að til greiðslu hennar komi og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.

(4) Efnahagsreikningurinn skal þannig sundurliðaður að hann gefi skýra mynd af eignum, skuldum og eigin fé í árslok í samræmi við lög þessi og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.]1)

1)Sbr. 8. gr. laga nr. 48/2005.

24. gr.

(1) [Allar tekjur og öll gjöld reikningsársins skulu koma fram á rekstrarreikningi nema lög þessi eða settar reikningsskilareglur kveði á um annað.

(2) Í rekstrarreikningi skal á kerfisbundinn hátt sýna heildartekjur og heildargjöld þannig sundurliðað að reikningurinn gefi skýra mynd af rekstrarafkomunni á reikningsárinu í samræmi við lög þessi og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.]1)

1)Sbr. 9. gr. laga nr. 48/2005.

25. gr.

(1) [Rekstrarreikningar og efnahagsreikningar skulu settir upp með hliðstæðum hætti frá ári til árs nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Ef gerðar eru breytingar skulu þær tilgreindar í skýringum.

(2) Óheimilt er að fella saman eignir og skuldir eða tekjur og gjöld innan einstakra liða

(3) Texti ársreiknings skal vera á íslensku og fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum.]1)

1)Sbr. 10. gr. laga nr. 48/2005.

26. gr.

Óefnisleg réttindi skal aðeins telja til eignar ef þeirra er aflað gegn greiðslu. Sama á við um rannsóknar- og þróunarkostnað.

27. gr.

Gerð skal grein fyrir ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps á reikningsárinu í ársreikningnum eða skýringum.

Mat eigna.
28. gr.

(1) Í efnahagsreikningi ber að tilgreina peningalegar eignir og skuldir með þeirri fjárhæð er raunverulega svarar til verðmætis þeirra. Varanlegir rekstrarfjármunir skulu að jafnaði tilgreindir á kostnaðarverði að frádregnum hæfilegum árlegum afskriftum. Sé frá þessu vikið skal ársreikningurinn bera það greinilega með sér.

(2) Kostnaðarverð varanlegra rekstrarfjármuna samanstendur af kaupverði þeirra og þeim kostnaði, sem hlýst af öflun og endurbótum á þeim, fram til þess tíma að þeir eru teknir í notkun.

(3) [Birgðir skal meta á kostnaðarverði eða dagverði, hvort sem lægra reynist. Ef birgðir eru metnar við dagverði og það er verulega lægra en kostnaðarverð skal gera grein fyrir því í skýringum. Kostnaðarverð birgða tekur til alls kostnaðar við kaup á birgðum eða áfallins kostnaðar við framleiðslu þeirra. Auk þess telst til kostnaðarverðs birgða allur kostnaður við að koma þeim á núverandi stað og í það ástand sem þær eru. Dreifingarkostnað má ekki telja til kostnaðarverðs birgða]1)

(4) Ef gerðar eru verulegar breytingar á mati eigna eða skulda frá síðasta efnahagsreikningi skal ársreikningurinn bera það greinilega með sér.

1)Sbr. 11. gr. laga nr. 48/2005.

29. gr.

(1) [Ef markaðsverð fastafjármuna er lægra en bókfært verð þeirra og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að færa verð þeirra niður að því marki sem telja verður nauðsynlegt.]1)

(2) Heimilt er að meta áhættufjármuni og langtímakröfur til markaðsverðs á reikningsskiladegi ef það er lægra en bókfært verð. Slíkar eignir skulu sæta niðurfærslu ef þess gerist sérstök þörf, svo sem vegna hættu á að kröfur muni ekki innheimtast eða af öðrum ástæðum.

(3) Matsbreytingar samkvæmt þessari grein skal færa í rekstrarreikning.

1)Sbr. 12. gr. laga nr. 48/2005.

[Beiting reikningsskilareglna.]1)
30. gr.

[Bókhaldsskyldum aðilum sem falla ekki undir ákvæði annarra laga um samningu ársreiknings er heimilt að beita settum reikningsskilareglum við samningu ársreikninga sinna. Í skýringum skal gera grein fyrir beitingu slíkra reglna.]1)

1)Sbr. 13. gr. laga nr. 48/2005.

Skýringar.
31. gr.

Í skýringum í ársreikningi skal gefa upplýsingar um eftirfarandi atriði með vísan til viðeigandi liða í efnahagsreikningi og rekstrarreikningi komi þau ekki greinilega fram þar:

  1. breytingar á varanlegum rekstrarfjármunum á árinu;
  2. opinbert mat á eignunum ef það liggur fyrir;
  3. nafnverð eignarhluta í félögum;
  4. hreyfingar á eiginfjárreikningum;
  5. veðsetningu eigna og ábyrgðir;
  6. önnur þau atriði sem máli skipta við mat á rekstri og efnahag og ekki koma annars staðar fram. 

[Endurskoðun og yfirferð árseikninga.
32. gr.

(1) Félagsmenn í félögum sem ber að semja ársreikninga samkvæmt þessum kafla og fara með minnst einn tíunda hluta atkvæða í félagi geta á félagsfundi krafist þess, ef ekki er um það getið í samþykktum félagsins, að kosinn verði a.m.k. einn endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður. Ákvæði laga um endurskoðendur gilda um starf endurskoðenda sem kosinn er skv. 1. málsl.

(2) Uppfylli endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður ekki lengur skilyrði til starfans skal stjórn félagsins annast um að valinn verði nýr endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður eins fljótt og unnt er og skal hann gegna því starfi þar til kosning getur farið fram.]1)

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 11/2013.

33. gr.

(1) [Endurskoðendur og skoðunarmenn]1) skulu hvenær sem er hafa aðgang að bókhaldi til að gera þær athuganir og kannanir sem þeir telja nauðsynlegar. Þá skal stjórn sjá til þess að [endurskoðendur og skoðunarmenn]1) fái þau gögn, upplýsingar og aðstoð sem þeir álíta nauðsynleg.

[(2) [Endurskoðendur og skoðunarmenn eiga rétt á að sitja fundi þar sem fjallað er um ársreikninga

(3) Endurskoðendum og skoðunarmönnum er óheimilt að gefa einstökum félagsaðilum eða öðrum upplýsingar um hag félags umfram það sem fram kemur í ársreikningi.]2)

1)Sbr. 15. gr. laga nr. 48/2005. 2)Sbr. 3. gr. laga nr. 11/2013.

34. gr.

[Endurskoðendur skulu að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn. Áritun endurskoðanda skal vera í samræmi við það sem fram kemur í lögum um endurskoðendur. Auk þess skal í áritun endurskoðanda koma fram álit á því hvort skýrsla stjórnar geymi þær upplýsingar sem þar ber að veita. Ef endurskoðendur telja að ekki beri að samþykkja ársreikninginn skulu þeir taka það fram sérstaklega.]1)

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 11/2013.

[Skoðunarmenn.
35. gr.

(1) Sá sem er kosinn eða ráðinn til að yfirfara ársreikning fyrir félag skv. 1. gr., sem ekki er skylt að kjósa endurskoðanda í samræmi við lög eða samþykktir félagsins, skal hafa þá reynslu af bókhaldi og reikningsskilum sem með hliðsjón af starfsemi og stærð félagsins telst nauðsynleg til rækslu starfans. Hann skal vera lögráða og fjár síns ráðandi. Óhæðisskilyrði 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 79/2008, um endurskoðendur, eiga einnig við um skoðunarmenn.

(2) Skoðunarmenn skulu yfirfara ársreikninginn og í því sambandi kanna bókhaldsgögn félagsins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Skoðunarmaður skal staðfesta þá vinnu sem hann innir af hendi varðandi reikningsskilin með undirskrift sinni og dagsetningu á ársreikninginn og telst undirskriftin hluti ársreiknings.

(3) Ef skoðunarmaður telur að nauðsynlegar upplýsingar vanti í ársreikninginn eða skýrslu stjórnar eða upplýsingar séu villandi og enn fremur ef hann telur að fyrir liggi atvik sem varðað geti stjórnendur ábyrgð skal hann vekja athygli á því.

(4) Skoðunarmenn skv. 1. mgr. mega ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það.

(5) Ef kosnir eru trúnaðarmenn, einn eða fleiri, úr hópi félagsmanna í samræmi við samþykktir félagsins til þess að yfirfara ársreikning félagsins skulu þeir staðfesta að farið hafi verið eftir ákvörðunum félagsfunda og stjórnar um öflun, ráðstöfun og ávöxtun fjármuna og önnur atriði í rekstrinum á reikningsárinu.

1)Sbr. 6. gr. laga nr. 11/2013.

Fara efst á síðuna ⇑