Skattalagasafn ríkisskattstjóra 24.11.2024 07:14:36

Lög nr. 94/2019, kafli 8 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=94.2019.8)
Ξ Valmynd

VIII. KAFLI

Eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

33. gr.

Eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

Endurskoðendaráð annast eftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja sam­kvæmt fyrirmælum laga þessara og reglugerða og reglna settra á grundvelli þeirra.

34. gr.

Eftirlitsaðili.

(1) Eftirliti með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum skal stýrt af einstaklingum sem ekki eru starfandi sem endurskoðendur en hafa þekkingu til að bera á sviðum sem tengjast endur­skoðun.

(2) Ráðherra skipar þrjá einstaklinga í endurskoðendaráð til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara og skulu þeir hafa þekkingu á sviðum sem tengjast endurskoðun. Skal formaður fullnægja skil­yrðum til að vera skipaður í embætti héraðsdómara. Eins skal farið að um skipun varamanna.

(3) Endurskoðendaráð getur leitað ráðgjafar endurskoðenda og annarra sérfræðinga og útvistað einstökum eftirlitsverkefnum en öll ákvörðunartaka skal vera hjá endurskoðendaráði.

35. gr.

Hlutverk endurskoðendaráðs.

(1) Hlutverk endurskoðendaráðs er að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endur­skoð­unar­fyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði þessara laga, góða endurskoðunar­venju, siðareglur endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.

(2) Í eftirlitinu felst ábyrgð á:

  1. löggildingu endurskoðenda og starfsleyfum endurskoðunarfyrirtækja,
  2. beitingu viðurlaga,
  3. eftirliti með gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækja og
  4. gæðaeftirliti skv. VII. kafla.

(3) Í eftirlitinu felst einnig ábyrgð á eftirfylgni með:

  1. því að kröfum um óhæði skv. V. kafla sé fylgt,
  2. innleiðingu góðrar endurskoðunarvenju og siðareglum endurskoðenda,
  3. kröfum um endurmenntun skv. 9. gr. og
  4. starfsábyrgðartryggingu skv. 8. gr.

(4) Ákvarðanir endurskoðendaráðs um veitingu, niðurfellingu og sviptingu löggildingar endur­skoð­enda og starfsleyfa endurskoðunarfyrirtækja eru kæranlegar til ráðuneytisins. Aðrar ákvarð­anir endur­skoð­endaráðs sæta ekki stjórnsýslukæru.

36. gr.

Samvinna við erlenda eftirlitsaðila.

(1) Endurskoðendaráð skal hafa samvinnu við lögbær yfirvöld í ríki innan Evrópska efnahags­svæðis­ins, í aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum við eftirlit og rannsókn með störfum endurskoðenda.

(2) Endurskoðendaráði er heimilt að hafa samvinnu við eftirlitsaðila í ríkjum utan Evrópska efna­hags­svæðisins um upplýsingaskipti og eftirlit með endurskoðendum og endurskoð­unar­fyrirtækjum félaga sem eru með skráða starfsstöð utan Evrópska efnahagssvæðisins en gefa út verð­bréf sín sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.

37. gr.

Meðferð mála hjá endurskoðendaráði.

(1) Endurskoðendaráð getur tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði ef ástæða er til að ætla að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki hafi brotið gegn lögum þessum, góðri endurskoð­unar­venju, siðareglum endurskoðenda eða öðrum reglum sem taka til starfa endurskoð­enda.

(2) Hver sá sem telur á sér brotið af hálfu endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis með aðgerðum eða aðgerðaleysi getur vísað málinu til endurskoðendaráðs, enda hafi hann lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Mál skal lagt fyrir endurskoðendaráð með skriflegu erindi svo fljótt sem verða má en eigi síðar en fjórum árum eftir að atvik átti sér stað.

(3) Endurskoðendaráð tekur ákvörðun um ágreiningsefni sem lúta að störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja samkvæmt lögum þessum, reglum settum á grundvelli þeirra og góðri endurskoðunarvenju.

(4) Endurskoðendaráði er heimilt ef sérstaklega stendur á að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna rekstrar máls fyrir ráðinu.

(5) Endurskoðendaráð getur vísað máli til opinberrar rannsóknar.

38. gr.

Skýrsla endurskoðendaráðs.

(1) Endurskoðendaráð skal árlega gefa út skýrslu um störf sín er lúta að eftirliti með endur­skoð­endum og endurskoðunarfyrirtækjum og birta opinberlega.

(2) Endurskoðendaráð skal birta árlega heildarniðurstöður gæðaeftirlits hjá endurskoðendum og endur­skoðunarfyrirtækjum.

(3) Birta skal opinberlega og tryggja að unnt sé að rekja allar ákvarðanir endurskoðendaráðs. Birta skal nöfn endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja. Þó skal ekki birta nöfn endurskoðenda ef birtingin:

  1. leiðir til þess að opinberar verði persónulegar upplýsingar sem leynt skulu fara,
  2. hefur neikvæð áhrif á stöðugleika á fjármálamarkaði eða refsimál sem er til rannsóknar eða
  3. hefur í för með sér ótilhlýðilegan skaða.

39. gr.

Eftirlitsgjald endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja.

Sérhver endurskoðandi skal árlega greiða í ríkissjóð gjald að fjárhæð 100 þús. kr. til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs er lýtur að eftirliti með endurskoðendum. Gjalddagi er 1. apríl ár hvert. Ef ekki er greitt innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.

40. gr.

Gjald vegna gæðaeftirlits.

(1) Heimilt er að innheimta þjónustugjöld fyrir gæðaeftirlit með endurskoðendum og endur­skoð­unar­fyrirtækjum.

(2) Falla þar undir gjöld vegna:

  1. útsendingar bréfa og gagna,
  2. vinnslu gagna,
  3. vettvangseftirlits á starfsstöð endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis,
  4. skýrslugerðar,
  5. endurtekins gæðaeftirlits og
  6. fundarsetu.

(3) Fyrir eftirlit samkvæmt þessari grein skal greitt gjald sem er ekki hærra en raunkostnaður við að standa straum af kostnaðarþáttum við eftirlit. Þannig skal við ákvörðun gjalda leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, ferðakostnað, kostnað vegna þjálfunar og endur­menntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, stjórnunar og stoð­þjónustu.

(4) Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, gjaldskrá fyrir gæðaeftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum samkvæmt lögum þessum. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

(5) Endurskoðendaráð annast innheimtu gjalda samkvæmt greininni og renna þau óskipt til ráðsins. Gjöldin skulu greidd samkvæmt reikningi sem gefinn skal út eftir að gæðaeftirlit fer fram. Gjalddagi er við útgáfu reiknings og eindagi 15 dögum síðar. Sé gjald greitt eftir eindaga reiknast dráttar­vextir frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu. Innheimta má gjöld sam­kvæmt þessari grein með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

41. gr.

Upplýsingar til eftirlitsaðila.

(1) Endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, starfsmenn endurskoðunarfyrirtækja og aðrir þeir sem aðkomu hafa að endurskoðunarverkefnum skulu veita endurskoðendaráði allar nauðsynlegar upp­lýsingar sem ráðið óskar eftir í tengslum við þau verkefni sem endurskoðendaráði eru falin í lögum þessum.

(2) Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar samkvæmt þessari grein.

(3) Endurskoðendaráð hefur heimild til að óska eftir upplýsingum og gögnum frá öðrum aðilum í tengslum við verkefni sem endurskoðendaráði eru falin í lögum þessum.

Fara efst á síðuna ⇑