VII. KAFLI
Gæðaeftirlit.
31. gr.
Inntak gæðaeftirlits.
(1) Endurskoðendum eða endurskoðunarfyrirtækjum er skylt að sæta gæðaeftirliti á grundvelli áhættugreiningar eigi sjaldnar en á sex ára fresti í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
(2) Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum skulu þó sæta gæðaeftirliti sem fer fram á grundvelli áhættugreiningar eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
(3) Endurskoðendaráð setur reglur um framkvæmd gæðaeftirlits og val gæðaeftirlitsmanna svo að tryggt sé að þeir séu hæfir og óháðir þeim sem eftirlitið beinist að.
(4) Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki sem sætir gæðaeftirliti skal veita þeim sem sinnir gæðaeftirliti nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum sem óskað er eftir við gæðaeftirlitið. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.
(5) Við gæðaeftirlit skal taka tillit til umfangs og þess hve flókin starfsemi og verkefni endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis sem sætir eftirliti eru.
(6) Í gæðaeftirliti skulu gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækis yfirfarin.
(7) Endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skulu fara að tilmælum sem fram koma í niðurstöðum gæðaeftirlitsins. Endurskoðendaráð getur óskað eftir staðfestingu á að brugðist hafi verið við tilmælunum eða látið framkvæma eftirlit til staðfestingar á að tilmælum hafi verið fylgt eftir. Ef tilmælum gæðaeftirlitsins er ekki fylgt eftir skal endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki sæta viðurlögum skv. 24. tölul. 1. mgr. 49. gr. og 9. tölul. 51. gr.
(8) Endurskoðendaráð skal árlega birta upplýsingar um heildarniðurstöðu gæðaeftirlitsins.
32. gr.
Hæfi gæðaeftirlitsmanna.
(1) Gæðaeftirlitsmaður skal hafa viðeigandi menntun og reynslu í endurskoðun og reikningsskilum auk sérstakrar þjálfunar í gæðaeftirliti.
(2) Gæðaeftirlitsmaður skal staðfesta óhæði sitt og að ekki sé að vænta neinna hagsmunaárekstra hans og endurskoðandans eða endurskoðunarfyrirtækisins sem sætir gæðaeftirliti.
.