Skattalagasafn ríkisskattstjóra 24.4.2024 04:08:28

Lög nr. 94/2019, kafli 2 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=94.2019.2)
Ξ Valmynd

II. KAFLI

Löggilding endurskoðenda og starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja

Löggilding endurskoðenda.
3. gr.

(1) Endurskoðendaráð veitir löggildingu til endurskoðunarstarfa. Til þess að öðlast löggildingu þarf viðkomandi að fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

  1. Eiga lögheimili hér á landi eða vera ríkisborgari aðildarríkis að Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja.
  2. Vera lögráða og hafa ekki sætt því að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.
  3. Hafa gott orðspor og vera þannig á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum endurskoðanda.
  4. Hafa ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskil­orðs­bundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.
  5. Hafa meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum sem viðurkennd er af endur­skoð­enda­ráði.
  6. Hafa staðist sérstakt próf, sbr. 7. gr.
  7. Hafa starfað að lágmarki í þrjú ár undir handleiðslu endurskoðanda við endurskoðun árs­reikn­inga og annarra reikningsskila hjá endurskoðunarfyrirtæki með starfsleyfi.
  8. Hafa starfsábyrgðartryggingu, sbr. 8. gr.

(2) Heimilt er endurskoðendaráðinu að fella niður réttindi skv. 1. mgr. eða synja umsækjanda um löggildingu til endurskoðunarstarfa hafi hann:

  1. Hlotið dóm samkvæmt ákvæðum XXVI. kafla almennra hegningarlaga.
  2. Verið dæmdur í fangelsi samkvæmt ákvæðum annarra laga.
  3. Ítrekað brotið gegn ákvæðum laga um endurskoðendur, laga um ársreikninga, laga um bók­hald eða skattalaga.
  4. Sýnt af sér hegðun sem gefur ástæðu til að ætla að viðkomandi sé ekki fær um að gegna störfum sínum sem opinber sýslunarmaður á ábyrgan hátt.

(3) Áður en löggilding er veitt skal umsækjandi leggja fram sakavottorð.

(4) Víkja má frá skilyrði 2. tölul. 1. mgr. ef umsækjandi hefur haft forræði á fé sínu a.m.k. tíu undanfarin ár.

(5) Óski endurskoðandi sem hefur löggildingu til endurskoðunarstarfa í ríki innan Evrópska efna­hags­svæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum eftir lög­gildingu til endurskoðunarstarfa hér á landi skal hann standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um skatta- og félagarétt.

(6) Endurskoðendaráð getur veitt þeim einstaklingum löggildingu til endurskoðunarstarfa sem sanna að þeir hafi lokið námi og staðist próf erlendis, sem telst samsvara kröfum sem gerðar eru í 5., 6. og 7. tölul. 1. mgr., enda uppfylli þeir ákvæði 2., 3., 4. og 8. tölul. sömu málsgreinar. Slíkir aðilar skulu standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um íslenskan skatta- og félagarétt.

(7) Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um málsmeðferð fyrir löggildingu endurskoðenda sem eru með löggildingu frá öðrum ríkjum.

(8) Endurskoðendaráð getur veitt einstaklingum sem lokið hafa annarri háskólagráðu með endur­skoðun sem kjörsvið undanþágu frá ákvæði 5. tölul. 1. mgr., enda telji endurskoðendaráð að umsækj­andi hafi næga þekkingu á þeim málefnum sem varða endurskoðendur og störf þeirra.

(9) Áður en löggilding er veitt skal umsækjandi heita því að viðlögðum drengskap að hann muni af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna rækja það starf sem löggildingin veitir honum rétt til að stunda og hlíta lögum og öðrum reglum sem starfið varða.

4. gr.
Starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja.

(1) Endurskoðun skal fara fram á vegum endurskoðunarfyrirtækis sem hefur starfsleyfi og er skráð í endurskoðendaskrá.

(2) Endurskoðendum er skylt að stofna félag um rekstur endurskoðunarfyrirtækis í því formi sem þeir sjálfir kjósa.

(3) Meiri hluti atkvæðisréttar í endurskoðunarfyrirtæki skal vera í höndum endurskoðenda eða endur­skoðunarfyrirtækja sem hlotið hafa viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildar­ríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

(4) Í endurskoðunarfyrirtæki skal meiri hluti stjórnarmanna vera endurskoðendur eða fulltrúar endurskoðunarfyrirtækja. Ef stjórnarmenn eru tveir skal a.m.k. annar þeirra vera endurskoðandi eða fulltrúi endurskoðunarfyrirtækis.

(5) Endurskoðunarfyrirtæki skal hafa formlegt gæðakerfi til að tryggja gæði endurskoðunarinnar og gæði starfa endurskoðanda, sbr. 18. gr.

(6) Endurskoðunarfyrirtæki skal tryggja að nöfn og heimilisföng eigenda fyrirtækisins séu aðgengileg almenningi.

(7) Sækja skal um starfsleyfi fyrir endurskoðunarfyrirtæki til endurskoðendaráðs að uppfylltum ákvæðum þessarar greinar. Jafnframt ber fyrirtækinu að tilkynna endurskoðendaráði án tafar ef það uppfyllir ekki lengur eitthvert þessara ákvæða og skila inn löggildingarskírteini.

(8) Ef ætla má að endurskoðunarfyrirtæki muni ekki vera fært um að framkvæma endurskoðunarverkefni á viðunandi hátt má neita endurskoðunarfyrirtæki um starfsleyfi og skráningu í endurskoðendaskrá skv. 5. gr.

(9) Endurskoðunarfyrirtæki sem óskað hefur eftir að leggja inn starfsleyfi eða hefur verið svipt starfsleyfi getur einungis fengið það aftur ef kröfur um veitingu starfsleyfis eru uppfylltar eða orsök sviptingar er ekki lengur til staðar, útrunnin eða afturkölluð.

(10) Endurskoðendaráð fellir úr gildi starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis ef fyrirtækið uppfyllir ekki lengur skilyrði laga þessara eða reglugerða settra á grundvelli þeirra.

(11) Endurskoðendaráð fellir úr gildi starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis neiti það að sæta gæðaeftirliti skv. 31. gr.

(12) Falli starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis niður eða hafi það verið svipt starfsleyfi skal endurskoðunarfyrirtækið tekið út af endurskoðendaskrá skv. 5. gr. og er því þá óheimilt að gefa í skyn að fyrirtækið sé skráð endurskoðunarfyrirtæki.

(13) Ráðherra setur reglugerð um málsmeðferð fyrir veitingu starfsleyfa til endurskoðunarfyrirtækja sem skráð eru í öðru EES-ríki.

(14) Ráðherra er heimilt að mæla í reglugerð nánar fyrir um starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja.

5. gr.

Endurskoðendaskrá.

(1) Endurskoðendaráð birtir opinbera skrá yfir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi til endurskoðunarstarfa, enda séu ákvæði 3. og 4. gr. uppfyllt.

(2) Endurskoðandi sem starfar við endurskoðun skal skrá félag sitt sem endurskoðunarfyrirtæki í endurskoðendaskrá.

(3) Ráðuneytið setur nánari reglur um skráninguna og hvaða upplýsingar skulu koma fram í skránni.

(4) Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skulu auðkennd með sérstöku númeri í opinberu skránni.

(5) Endurskoðunarfyrirtæki sem fær skráningu skv. 1. mgr. má ekki hafa verið tekið til gjald­þrota­skipta né ímynd þess beðið verulegan hnekki svo draga megi í efa hæfni þess til að upp­fylla þær kröfur sem gerðar eru til endurskoðunar í lögum þessum. Endurskoðunarfyrirtæki sem hlotið hefur skráningu skal án tafar tilkynna endurskoðendaráði ef skilyrði þessarar málsgreinar eru ekki upp­fyllt.

(6) Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skv. 1. mgr. skulu, án ástæðulausra tafa, tilkynna endurskoðendaráði ef breytingar verða á þeim upplýsingum sem fram koma í skránni.

(7) Hafi endurskoðandi lagt inn starfsleyfi sitt eða það verið fellt niður skal nafn hans fellt út af skrá, sbr. 1. mgr. Sama á við um endurskoðunarfyrirtæki sem uppfyllir ekki lengur skilyrði 5. mgr. þessarar greinar og/eða skilyrði 4. gr.

(8) Endurskoðendaráð skal auglýsa löggildingu endurskoðenda og skráningu endurskoð­unar­fyrirtækja í Lögbirtingablaði. Sama á við ef skráning fellur niður, sbr. 10. gr.

(9) Endurskoðendaráð gefur út löggildingarskírteini til handa endurskoðendum og endurskoð­unar­fyrirtækjum.

(10) Fyrir löggildingu skal endurskoðandi greiða gjald í ríkissjóð samkvæmt lögum um aukatekjur ríkis­sjóðs, nr. 88/1991.

6. gr.
Réttur til að nota hugtakið endurskoðandi eða endurskoðun.

(1) Öðrum en endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum skv. 1. mgr. 5. gr. er ekki heimilt að nota hugtökin endurskoðandi eða endurskoðun í starfs- eða firmaheiti sínu. Þá er óheimilt að vekja þá trú að aðili, sem hefur ekki fengið löggildingu sem endurskoðandi eða er án gildra réttinda, sé endurskoðandi með notkun starfsheitis, firmanafns eða með öðrum misvísandi hætti. Ákvæði þetta nær þó ekki til starfsheitis innri endurskoðenda í fyrirtækjum, enda séu störf þeirra hluti af innra stjórnendaeftirliti viðkomandi fyrirtækis.

(2) Ef endurskoðendaráði berast upplýsingar um að einstaklingur, sem hefur ekki fengið löggildingu til endurskoðendastarfa, stundi eða gefi í skyn að hann stundi slíka starfsemi eða að endurskoðandi fullnægi ekki lengur lögmætum skilyrðum til löggildingar sem endurskoðandi en starfi þó áfram sem slíkur skal endurskoðendaráð vekja athygli viðkomandi á brotinu og ef hann ekki bregst við skal endurskoðendaráð taka brotið til viðeigandi meðferðar. Sama á við ef gefið er í skyn að fyrirtæki sem ekki er skráð í endurskoðendaskrá sé endurskoðunarfyrirtæki.

7. gr.
Próf og prófanefnd.

(1) Endurskoðendaráð skipar þriggja manna prófnefnd endurskoðenda sem heldur próf fyrir þá sem sækja um löggildingu til endurskoðunarstarfa. Prófnefndin skal skipuð til fjögurra ára í senn.

(2) Próf til löggildingar skal ná til þeirra greina bóknáms og verkmenntunar sem helst varða endur­skoðendur og störf þeirra.

(3) Í reglugerð, sem ráðherra setur að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, skal meðal annars kveðið nánar á um skilyrði til próftöku, prófgreinar, framkvæmd prófa og lágmarksárangur til að standast þau.

(4) Próf skulu að jafnaði haldin árlega.

(5) Kostnaður vegna prófa, þ.m.t. þóknun til prófnefndarmanna, greiðist með próftökugjaldi sem endurskoðendaráð ákveður.

 

8. gr.
Starfsábyrgðartrygging.

(1) Endurskoðanda er skylt að hafa starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur heimild til að veita þjónustu hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans samkvæmt lögum þessum. Tryggingarskyldan fellur niður ef endurskoðandi leggur inn löggildingu sína, sbr. 1. mgr. 11. gr.

(2) Endurskoðendaráð setur reglur um lágmarksfjárhæð tryggingar skv. 1. mgr. og hámark eigin áhættu vátryggingartaka.

(3) Endurskoðandi skal fyrir 15. janúar ár hvert senda endurskoðendaráði staðfestingu þess að hann hafi gilda starfsábyrgðartryggingu.

(4) Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um starfsábyrgðartryggingu endurskoðenda.

9. gr.
Endurmenntun.

(1) Endurskoðanda er skylt að afla sér endurmenntunar sem tryggir að hann viðhaldi reglulega fræðilegri þekkingu, faglegri hæfni og faglegum gildum.

(2) Endurmenntunin skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili. Endurskoðendaráð getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstakar ástæður gefa tilefni til þess. Endurmenntunartímabil endurskoðanda sem fær löggildingu í fyrsta sinn hefst 1. janúar árið eftir að löggilding er veitt.

(3) Endurmenntun skv. 1. mgr. skal á hverju þriggja ára tímabili ná a.m.k. til eftirtalinna sviða og skal lágmark endurmenntunar á hverju sviði vera:

  1. endurskoðun í 30 klukkustundir,
  2. reikningsskil og fjármál í 20 klukkustundir,
  3. skatta- og félagaréttur í 15 klukkustundir og
  4. siðareglur og fagleg gildi í 10 klukkustundir.

(4) Endurskoðandi skal halda skrá um endurmenntun sína og skal honum vera unnt að staðfesta endurmenntun í a.m.k. 60 klukkustundir á hverju þriggja ára tímabili en að lágmarki skulu 10 klukkustundir í endurmenntun hvers árs vera staðfestanlegar. Endurskoðendaráð hefur eftirlit með að endurskoðandi uppfylli skilyrði um endurmenntun.

(5) Ef skilyrði 1.–3. mgr. eru ekki uppfyllt telst endurskoðandi ekki hafa fullnægt skilyrðum til að viðhalda löggildingu sinni sem endurskoðandi og fer um mál hans skv. III. kafla.

(6) Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um endurmenntun endurskoðenda.

Fara efst á síðuna ⇑