Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 18:56:31

Lög nr. 94/2019, kafli 10 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=94.2019.10)
Ξ Valmynd

X. KAFLI

Viðurlög.

48. gr.

Réttindamissir og áminning.

(1) Ef endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki brýtur gegn lögum þessum eða vanrækir alvarlega skyldur sínar að öðru leyti að mati endurskoðendaráðs er því heimilt að fella réttindi viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis úr gildi.

(2) Ef brot endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis er ekki stórfellt skal áminna viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki. Einnig getur endurskoðendaráð í slíkum tilvikum fellt réttindi viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis tímabundið úr gildi í allt að þrjú ár.

(3) Samhliða viðurlögum skv. 1. og 2. mgr. getur endurskoðendaráð eftir atvikum lagt stjórn­valds­sektir á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki á grundvelli 49. gr.

49. gr.

Stjórnvaldssektir.

(1) Endurskoðendaráð getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:

  1. 1. mgr. 8. gr. um skyldu endurskoðanda til að hafa starfsábyrgðartryggingu,
  2. 9. gr. um skyldu endurskoðanda til að afla sér endurmenntunar,
  3. 1. mgr. 10. gr. um skyldu endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtækis til að tilkynna endur­skoðendaráði að endurskoðandinn eða endurskoðunarfyrirtækið fullnægi ekki skil­yrðum laga til löggildingar eða starfsleyfis,
  4. 14. gr. um skyldu endurskoðenda til að rækja störf sín í samræmi við lög, góða endur­skoð­unarvenju og siðareglur endurskoðenda,
  5. 15. gr. um tilnefningu og störf áritunarendurskoðanda,
  6. 16. gr. um áritun á endurskoðuð reikningsskil,
  7. 17. gr. um skjölun,
  8. 18. gr. um skyldu endurskoðunarfyrirtækja og endurskoðenda til að hafa formlegt gæðakerfi og starfa samkvæmt því,
  9. 19. gr. um þóknun,
  10. 2. mgr. 21. gr. um skyldu fyrri endurskoðanda einingar til að veita nýjum endurskoðanda einingar aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta um eininguna,
  11. 5. mgr. 21. gr. um bann við því að endurskoðandi sem komið hefur að endurskoðun reikn­ingsskila einingar taki við lykilstjórnunarstöðu hjá einingu sem er endurskoðuð, sitji í stjórn eða verði nefndarmaður í endurskoðunarnefnd einingarinnar sem er endurskoðuð eða sem fulltrúi sem sinnir sambærilegum verkum og endurskoðunarnefnd sinnir fyrr en a.m.k. að einu ári liðnu frá því að hann tók þátt í endurskoðun einingarinnar,
  12. 6. mgr. 21. gr. um bann við því að áritunarendurskoðandi á einingu tengdri almanna­hagsmunum taki við lykilstjórnunarstöðu hjá viðkomandi einingu fyrr en a.m.k. tvö ár eru liðin frá því að hann tók þátt í endurskoðun einingarinnar,
  13. 22. gr. um ábyrgð endurskoðanda samstæðu á endurskoðun samstæðureikningsskila,
  14. 23. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að vera óháð viðskiptavini sínum,
  15. 1. mgr. 24. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja óhæði í reynd og ásýnd,
  16. 2. mgr. 24. gr. um bann við því að endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki og samstarfs­fyrirtækjanet þeirra annist endurskoðun einingar ef til staðar er ógnun sem ekki er hægt að draga úr með viðeigandi varúðarráðstöfunum,
  17. 1. mgr. 25. gr. um bann við því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki eigi í við­skiptum með fjármálagerninga sem eru útgefnir, tryggðir eða studdir með öðrum hætti af ein­ingu sem verið er að endurskoða,
  18. 2. mgr. 25. gr. um bann við því að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki taki þátt í eða hafi að öðru leyti áhrif á niðurstöðu endurskoðunar tiltekinna eininga,
  19. 26. gr. um bann við því að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki þiggi gjafir,
  20. 2. mgr. 27. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að binda enda á hagsmuni eða tengsl sem stefna óhæði endurskoðandans í hættu við yfirtöku eða samruna einingar sem er endurskoðuð,
  21. 28. gr. um skyldu endurskoðunarfyrirtækja til að setja verklagsreglur til að tryggja að eig­endur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórn endurskoðunarfyrirtækis og tengdra fyrir­tækja, aðrir en áritunarendurskoðandi, blandi sér ekki í framkvæmd endur­skoð­unarinnar,
  22. 29. gr. um skyldu endurskoðenda á einingu tengdri almannahagsmunum gagnvart endur­skoð­unarnefndum,
  23. 30. gr. um þagnarskyldu,
  24. 31. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að sæta gæðaeftirliti, veita nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum í tengslum við framkvæmd gæðaeftirlits og fara að tilmælum sem fram koma í niðurstöðum gæðaeftirlits,
  25. 39. gr. um skyldu endurskoðenda til greiðslu eftirlitsgjalds,
  26. 40. gr. um skyldu endurskoðenda til greiðslu gjalds fyrir gæðaeftirlit,
  27. 41. gr. um skyldu endurskoðenda, endurskoðunarfyrirtækja, starfsmanna endur­skoð­unar­fyrirtækja og annarra sem aðkomu hafa að endurskoðunarverkefnum til að veita endur­skoð­endaráði allar þær upplýsingar sem ráðið óskar eftir í tengslum við þau verkefni sem því eru falin í lögum þessum.
  28. 44. gr. laganna, sbr. 5. gr. reglugerðar (ESB) nr. 537/2014 um bann við því að endur­skoðendur og endurskoðunarfyrirtæki veiti viðbótarþjónustu,
  29. 45. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að geyma endur­skoð­unar­gögn,
  30. 46. gr. um hámarkstímabil verksamnings endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja.

(2) Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 15 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 40 millj. kr.

(3) Við ákvörðun sekta skal meðal annars tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t.:

  1. alvarleika brots,
  2. hve lengi brotið hefur staðið,
  3. ábyrgðar hins brotlega,
  4. fjárhagsstöðu hins brotlega,
  5. ávinnings af broti eða taps sem afstýrt er með broti,
  6. samstarfsvilja hins brotlega,
  7. fyrri brota og
  8. hvort um ítrekað brot er að ræða.

(4) Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af endurskoðendaráði og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort brot er framið af ásetningi eða gáleysi.

50. gr.

Fyrning.

(1) Heimild endurskoðendaráðs til að leggja á stjórnvaldssekt skv. 49. gr. fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.

(2) Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar endurskoðendaráð tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti og hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

51. gr.

Sektir og fangelsi allt að tveimur árum.

Brot gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við brotum samkvæmt öðrum lögum:

  1. 1. mgr. 6. gr. um notkun hugtakanna endurskoðandi eða endurskoðun í starfs- eða firma­heiti og bann við að vekja þá trú að aðili sé endurskoðandi ef hann er það ekki,
  2. 14. gr. um skyldu endurskoðenda til að rækja störf sín í samræmi við lög, góða endur­skoðunarvenju og siðareglur endurskoðenda,
  3. 16. gr. um áritun á endurskoðuð reikningsskil,
  4. 18. gr. um skyldu endurskoðunarfyrirtækja og endurskoðenda til að hafa formlegt gæðakerfi og vinna samkvæmt því,
  5. 22. gr. um ábyrgð endurskoðanda samstæðu á endurskoðun samstæðureikningsskila,
  6. 23. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að vera óháð viðskiptavini sínum,
  7. 25. gr. um bann við því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki eigi í viðskiptum með fjármálagerninga sem eru útgefnir, tryggðir eða studdir með öðrum hætti af einingu sem verið er að endurskoða,
  8. 30. gr. um þagnarskyldu,
  9. 31. gr. um skyldu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja til að sæta gæðaeftirliti, veita nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum í tengslum við framkvæmd gæðaeftirlits og fara að tilmælum sem fram koma í niðurstöðum gæðaeftirlits.

52. gr.

Refsiábyrgð.

(1) Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.

(2) Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

(3) Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verður sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðila, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðila, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðila má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

(4) Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan og óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.

53. gr.

Kæra til lögreglu o.fl.

(1) Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu ákveður endur­skoð­enda­ráð hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldssekt. Ef brot er meiri háttar ber endurskoðendaráði þó að vísa því til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef um verulegar fjárhæðir er að ræða, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðri háttsemi eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Endurskoðendaráð getur á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rann­sóknar lögreglu.

(2) Með kæru endurskoðendaráðs skulu fylgja afrit gagna sem grunur um brot er studdur við.

(3) Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun endurskoðendaráðs um að kæra mál til lögreglu.

(4) Endurskoðendaráði er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum skv. 51. gr. Endurskoðendaráði er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn brota skv. 51. gr.

(5) Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta endurskoðendaráði í té upplýsingar og gögn sem hefur verið aflað og tengjast brotum skv. 51. gr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum endur­skoð­endaráðs vegna rannsóknar á brotum skv. 51. gr.

(6) Telji ákærandi að ekki sé tilefni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafn­framt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til endurskoðendaráðs til meðferðar og ákvörðunar

Fara efst á síðuna ⇑