Skattalagasafn ríkisskattstjóra 20.4.2024 16:25:02

Lög nr. 50/1988, kafli 8 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=50.1988.8)
Ξ Valmynd

VIII. KAFLI
Tilhögun bókhalds.

17. gr.

(1) Allir, sem skattskyldir eru samkvæmt lögum þessum, skulu auk þess sem fyrir er mælt í lögum nr. [145/1994]1), um bókhald, haga bókhaldi sínu og uppgjöri til virðisaukaskatts þannig að skattyfirvöld geti jafnan gengið úr skugga um réttmæti virðisaukaskattsskila, og á það einnig við um þá sem ekki eru taldir bókhaldsskyldir samkvæmt bókhaldslögum.

(2) [Allar bækur, uppgjör og gögn, er varða virðisaukaskattsskil, skal varðveita í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Þeim sem nota sjóðvélar er þó ekki skylt að varðveita innri strimla lengur en þrjú ár frá lokum viðkomandi reikningsárs enda liggi fyrir fullfrágengið bókhald og undirritaður ársreikningur.]1)

1)Sbr. 4. gr. laga nr. 40/1995.

18. gr.

(1) Skattskyldir aðilar skulu annaðhvort hafa í aðalbókhaldi sínu sérstaka reikninga fyrir þær fjárhæðir er færa skal á virðisaukaskattsskýrslu eða færa þær í sérstakar undirbækur eða yfirlit sem byggð eru á aðalbókhaldinu. Færslum skal þannig hagað að rekja megi einstakar fjárhæðir á virðisaukaskattsskýrslu til þeirra gagna sem á er byggt.

(2) Reki aðili, sem er skattskyldur samkvæmt lögum þessum, margþætta starfsemi, þannig að sumir þættir hennar séu skattskyldir en aðrir undanþegnir skattskyldu, skulu hin skattskyldu og undanþegnu viðskipti greinilega aðgreind bæði í bókhaldi hans og á virðisaukaskattsskýrslu.

(3) Virðisaukaskattsskyldum innkaupum og þeim sem undanþegin eru virðisaukaskatti skal halda aðgreindum í bókhaldi.

(4) Í bókhaldi skal og færa sérstaka reikninga yfir innskatt annars vegar og útskatt hins vegar. Reikninga þessa má færa í lok hvers uppgjörstímabils, enda sé hægt að reikna skattfjárhæðirnar beint á grundvelli reikninga bókhaldsins yfir kaup og sölu skattskyldrar vöru og þjónustu.

(5) [Skattskyldir aðilar, sem ekki færa bókhald samkvæmt lögum nr. 145/1994, um bókhald, skulu færa sérstakt bókhald yfir hin skattskyldu viðskipti. [Ráðherra]2) setur nánari reglura) um tilhögun slíks bókhalds.]1)

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 40/1995. 2)Sbr. 127. gr. laga nr. 126/2011. a)Reglugerð nr. 50/1993.

19. gr.

Sala skattskyldra aðila samkvæmt lögum þessum skal teljast skattskyld að því marki sem aðilar þessir geta ekki sýnt fram á með bókhaldi og gögnum sem þeim er skylt að halda að salan sé undanþegin virðisaukaskatti. Vanræki aðili að taka virðisaukaskatt af vöru eða þjónustu sem skattskyld er samkvæmt lögum þessum ber honum eigi að síður að standa skil á skattinum.

20. gr.

(1) Við sérhverja sölu eða afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu skal seljandi gefa út reikning, sbr. þó 21. gr. Á reikningi skal koma fram útgáfudagur, nafn og kennitala kaupanda og seljanda, skráningarnúmer seljanda, tegund sölu, magn, einingarverð og heildarverð. Reikningseyðublöð skulu vera fyrir fram tölusett í samfelldri töluröð. Reikningur skal bera greinilega með sér hvort virðisaukaskattur er innifalinn í heildarfjárhæð hans eða ekki. Enn fremur skal sérstaklega koma fram hver fjárhæð virðisaukaskatts er, ellegar að virðisaukaskattur sé [19,35%]1) 5) 6) af heildarverði [eða [9,91%]4) 6) þegar um er að ræða sölu skv. 2. mgr. 14. gr.]2) Við sölu til skattskylds aðila skal fjárhæð virðisaukaskatts ætíð koma fram.

(2) Sé greitt að fullu eða að hluta áður en afhending fer fram, sbr. 3. mgr. 13. gr., skal móttakandi greiðslu gefa út kvittun til greiðanda í samræmi við ákvæði 1. mgr. þessarar greinar eftir því sem við á.

(3) Þegar seldum verðmætum er skilað til seljanda skal ætíð gefa út innleggsreikning (kreditreikning) fyrir hinum mótteknu verðmætum með tilvísun til fyrri reiknings. Sama gildir um afslátt sem veittur er eftir að reikningur hefur verið gefinn út, svo og leiðréttingar á fyrri reikningum.

(4) [Við sölu, sem er að hluta til skattskyld og að hluta til undanþegin skatti, skal halda viðskiptum, sem eru skattskyld, greinilega aðgreindum á reikningi frá öðrum viðskiptum. Jafnframt skal á reikningi aðgreina skattskylda sölu eftir skatthlutföllum, þannig að heildarverð vöru og þjónustu ásamt virðisaukaskatti komi sérstaklega fram vegna hvors skatthlutfalls.]2)

(5) Seljandi skal varðveita samrit af reikningum og kvittunum samkvæmt þessari grein.

(6) Skattskyldur aðili samkvæmt lögum þessum skal haga bókhaldi sínu og vörslu bókhaldsgagna þannig að hann geti að kröfu skattyfirvalda gefið upplýsingar um innkaup sín á skattskyldum vörum og þjónustu frá einstökum skattskyldum aðilum og um sölu sína á skattskyldum vörum og þjónustu til einstakra skattskyldra aðila samkvæmt lögum þessum.

(7) Til sönnunar á innskatti skal skattskyldur aðili geta lagt fram reikninga eða önnur gögn í samræmi við ákvæði þessarar greinar. Sömuleiðis skal aðili, sem flytur inn vörur erlendis frá, geta lagt fram greiðsluskjöl frá tollyfirvöldum fyrir virðisaukaskatti sem lagður er á vörur þær er hann flytur inn. Reikningur, að fjárhæð [6.000 kr.]3) eða minna, frá smásöluverslun eða aðila, sem nær eingöngu selur til endanlegs neytanda, telst fullnægjandi í þessu sambandi enda þótt ekki komi fram nafn og kennitala kaupanda.

1)Sbr. 9. gr. laga nr. 119/1989. 2)Sbr. 52. gr. laga nr. 111/1992. 3)Sbr. 6. gr. laga nr. 55/1997 (þessi fjárhæð gildir frá 1. júlí 1997). 4)Sbr. 2. gr. laga nr. 14/2007. 5)Sbr. 17. gr. laga nr. 130/2009. 6)Sbr. 1. gr. laga nr. 124/2014.

21. gr.

(1) Við staðgreiðslusölu smásöluverslana og hliðstæðra aðila er ekki skylt að gefa út reikning skv. 1. mgr. 20. gr. nema salan sé til aðila sem skattskyldur er samkvæmt ákvæðum þessara laga. Sé reikningur gefinn út í slíkum viðskiptum má víkja frá kröfum 20. gr. um auðkenni á reikningum eftir nánari regluma) sem [ráðherra]2) setur.

(2) [[Ráðherra]2) er heimilt að mæla fyrir um í reglugerða), þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að taka megi upp aðrar aðferðir við tekjuskráningu en kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr., enda sé í stað reiknings notað annað öruggt skráningar- og eftirlitskerfi.]1)

(3) Þeir sem taka framleiðslu annarra til vinnslu eða endursölu skulu gefa út innleggsnótur (afreikninga) eða móttökukvittanir sem geta komið í stað reikninga skv. 20. gr., og gilda sömu reglur um þær og rakið er í 20. gr. eftir því sem við á. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda meðal annars um kaup eða móttöku samlaga, samvinnufélaga og annarra á framleiðsluvörum bænda, sjávarafla og hvers konar iðnaðarvörum, fullunnum og hálfunnum.

1)Sbr. 21. gr. laga nr. 122/1993. 2)Sbr. 127. gr. laga nr. 126/2011. a)Reglugerð nr. 50/1993.

22. gr.

(1) Þeir sem undanþegnir eru skattskyldu mega hvorki tilgreina á reikningum sínum né gefa á annan hátt til kynna á þeim að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð.

(2) Nú tekur aðili, sem undanþeginn er skattskyldu, við innleggsnótu (afreikningi) þar sem virðisaukaskattur er tilgreindur eða þar sem tilgreint er að virðisaukaskattur sé innifalinn í heildarfjárhæð og skal hann þá vekja athygli útgefanda innleggsnótu á því og endurgreiða honum skatt sem hann kann að hafa tekið við.

(3) Þeir sem tilgreina á einhvern hátt á reikningum sínum, þrátt fyrir 1. mgr., að virðisaukaskattur sé innifalinn í heildarfjárhæð skulu skila skattinum í ríkissjóð. Sama gildir um skattskylda aðila sem tilgreina á reikningum sínum of háan virðisaukaskatt eða virðisaukaskatt af viðskiptum sem ekki eru skattskyld. Verði leiðréttingu komið við gagnvart kaupanda fellur skilaskylda samkvæmt þessari málsgrein niður.

(4) Í upplýsingum um verð á vöru eða skattskyldri þjónustu skal koma greinilega fram ef upp gefið verð er ekki með virðisaukaskatti.

23. gr.

(1) [Ráðherra]1) getur með reglugerða) sett nánari fyrirmæli um sérstakt bókhald, fylgiskjöl þess og færslu, þar með talið birgðabókhald, fyrir alla virðisaukaskattsskylda aðila og birgðatalningu, notkun sjóðvéla og annarra gagna til sönnunar færslum, löggildingu bóka og gagna, svo og geymslu þeirra.

(2) Í reglugerð samkvæmt fyrri málsgrein má mæla fyrir um framtalsgögn og skjöl sem þeim skuli fylgja.

1)Sbr. 127. gr. laga nr. 126/2011. a)Reglugerðir nr. 562/1989, 576/1989, 248/1990 og 50/1993.

Fara efst á síðuna ⇑