Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.9.2024 00:59:06

Reglugerð nr. 248/1990 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=248.1990)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.*1)

*1)Sbr. reglugerðir nr. 548/1993, 146/1995, 601/1995, 256/1996, 695/1996, 901/2000, 554/2002, 287/2003 og 438/2003.

I. KAFLI
Skattskyld starfsemi og tilkynningarskylda.

1. gr.

(1) Reglugerð þessi tekur til sveitarfélaga, fyrirtækja þeirra og stofnana. Þá tekur reglugerðin, eftir því sem við á, til ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, þó ekki [viðskiptabanka]1) í eigu ríkisins.

(2) Opinberir aðilar, sbr. 1. mgr., skulu greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð af starfsemi sinni eins og nánar er ákveðið í reglugerð þessari.

1)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1010/2022.

2. gr.

(1) Opinber þjónustufyrirtæki, sem hafa það að meginmarkmiði að selja skattskyldar vörur eða þjónustu til annarra, skulu greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni, þ.m.t. úttekt til eigin nota eiganda og afhending til annarra opinberra aðila. Þau skulu innheimta virðisaukaskatt af heildarveltu sinni og skila honum í ríkissjóð að frádregnum innskatti af aðföngum.

(2) Með þjónustufyrirtækjum í þessari grein er átt við fyrirtæki, sem rekin eru af sveitarfélögum eða í sameign þeirra, svo sem hitaveitur og rafveitur, svo og ríkisfyrirtæki og fyrirtæki í sameign ríkis og sveitarfélaga. Starfsemi vatnsveitna [---]1) telst ekki til skattskyldrar starfsemi í þessu sambandi nema að því leyti sem um er að ræða sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 438/2003.

3. gr.

     Fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga, stofnanir þeirra eða þjónustudeildir, sem hafa það að meginmarkmiði að framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota, skulu greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni að því leyti sem hún er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Við innheimtu á útskatti skal skattverð miðað við almennt gangverð í sams konar viðskiptum og við skil á skatti í ríkissjóð skal innskattur af aðföngum dreginn frá útskatti samkvæmt almennum reglum.

4. gr.

(1) Auk þeirrar skattskyldu starfsemi, sem um getur í 2. og 3. gr., skulu sveitarfélög og ríkisstofnanir, sem framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu eingöngu til eigin nota án þess að slík starfsemi fari fram í sérstöku fyrirtæki eða þjónustudeild, sbr. 3. gr., reikna út virðisaukaskatt vegna slíkrar starfsemi og standa skil á honum í ríkissjóð.

(2) Til skattskyldrar starfsemi samkvæmt þessari grein telst meðal annars eftirfarandi starfsemi, að svo miklu leyti sem hún er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki:

  1. Byggingarstarfsemi.
  2. Vegagerð og lagning gatna, gerð gangstétta, bílastæða, brúa, hafna o.þ.h.
  3. Framleiðsla og lagning bundins slitlags á umferðarmannvirki.
  4. Lagning holræsa og vatnslagna.
  5. Gerð íþróttamannvirkja.
  6. Viðhald bygginga, gatna, lagna og annarra mannvirkja.
  7. Þjónusta þar sem krafist er iðnmenntunar.
  8. [Öryggisvarsla, þ.e. eftirlit með verðmætum og starfsemi, utan venjulegs opnunartíma.]1)

(3) Ákvæði þessarar greinar taka ekki til starfsemi sem um ræðir í 12. gr.

(4) Við ákvörðun á skattverði þeirrar starfsemi, sem fellur undir þessa grein, skal miða við kostnaðarverð þess hluta heildarkostnaðarins sem ekki hefur verið greiddur virðisaukaskattur af við kaup á aðföngum eða við færslu frá eigin fyrirtækjum eða þjónustudeildum, sbr. 2. og 3. gr. Með kostnaðarverði skal telja bein laun og annan beinan kostnað auk álags vegna launatengdra gjalda og annars sameiginlegs kostnaðar samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 901/2000.

5. gr.

     Starfsemi ríkis og sveitarfélaga sem fellur undir 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er undanþegin virðisaukaskatti, svo sem þjónusta heilbrigðisstofnana, félagsleg þjónusta og rekstur safna, skóla og hliðstæðra menntastofnana. Undanþága þessi nær aðeins til afhendingar vinnu og þjónustu sem látin er í té, en ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi. [[Á sama hátt er starfsemi vinnuskóla fyrir nemendur undir 16 ára aldri undanþegin virðisaukaskatti, svo og sumarvinna skólafólks á aldrinum 16 til 25 ára enda sé um að ræða þjónustu í eigin þágu sveitarfélags.]1)]2)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 548/1993. Breytingin féll úr gildi 31. desember 1994, sbr. 3. gr. sömu reglugerðar. 2)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 146/1995. Ákvæðið var endurvakið frá og með 1. janúar 1995.

6. gr.

(1) [Starfsemi telst vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki skv. reglugerð þessari þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum hér á landi, enda sé [samanlögð velta af hinni skattskyldu starfsemi að jafnaði hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með frádráttarbærum virðisaukaskatti til starfseminnar]3).

(2) [Almennt skrifstofuhald, þ.m.t. færsla eigin bókhalds og rafræn gagnavinnsla í eigin þágu, telst ekki vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki.]2)

(3) Lögbundin starfsemi opinberra aðila telst m.a. ekki vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi 1. mgr. í eftirfarandi tilfellum:

  1. Þegar öðrum aðilum er ekki heimilt að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum.

  2. Þegar viðkomandi þjónusta beinist eingöngu að öðrum opinberum aðilum, hún verður ekki veitt af atvinnufyrirtækjum nema í umboði viðkomandi opinbers aðila og að því tilskyldu að virðisaukaskattur af viðkomandi vinnu og þjónustu fáist endurgreiddur samkvæmt 12. gr.]1)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 601/1995. 2)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 287/2003. 3)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1010/2022.

7. gr.

     Hver sá sem skattskyldur er samkvæmt reglugerð þessari og lögum um virðisaukaskatt skal tilkynna til [ríkisskattstjóra]1) um starfsemi sína í samræmi við ákvæði 5. gr. laga nr. 50/1988. [---]1)

1)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1010/2022.

II. KAFLI
Bókhald.

8. gr.

(1) Bókhaldi opinberra aðila skal haga þannig að bókhaldsreikningar séu auðkenndir eða aðgreindir í eftirfarandi meginflokka:

  1. Skattskyld þjónustufyrirtæki, sbr. 2. gr.
  2. Skattskyld starfsemi eða þjónustudeildir sem fyrst og fremst er ætlað að framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota, sbr. 3. gr.
  3. Skattskyld starfsemi sem ekki fer fram í sérstöku fyrirtæki eða þjónustudeild, sbr. 4. gr.
  4. Starfsemi sem ekki er skattskyld.

(2) Bókhaldinu skal haga þannig að auðvelt sé á hverjum tíma að kanna þann grundvöll sem útreikningur á virðisaukaskatti er byggður á.

9. gr.

     Fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga, stofnanir þeirra eða þjónustudeildir, sem hafa það að meginmarkmiði að framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota, sbr. 3. gr., skulu haga skráningu á framleiðslu og afhendingu vara og veittri þjónustu með fyrirfram skipulögðum hætti, svo sem með skráningu á vöruúttekt, vinnustundum og öðrum upplýsingum sem geta verið grundvöllur að uppgjöri á virðisaukaskatti.

10. gr.

     Ríkisstofnanir og sveitarfélög skulu í bókhaldi sínu aðgreina bókhaldsreikninga vegna starfsemi, sbr. 4. gr., annars vegar í reikninga yfir aðföng með virðisaukaskatti og hins vegar reikninga yfir aðföng án virðisaukaskatts.

11. gr.

     Opinberir aðilar skulu að öðru leyti en fyrir er mælt í reglugerð þessari haga bókhaldi sínu og skráningu viðskipta eftir ákvæðum reglugerðar nr. [50/1993]1), um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 601/1995.
 

III. KAFLI
Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila.

12. gr.

     Endurgreiða skal [ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra]2) virðisaukaskatt sem þau greiða [af innflutningi eða kaupum innanlands á eftirtalinni vöru, vinnu eða þjónustu]7):

  1. [Sorphreinsun, þ.e. söfnun, flutningi, urðun og eyðingu sorps og annars úrgangs, þ.m.t. brotamálma, sem fellur til í þjóðfélaginu, án tillits til þess hvort um reglubundna starfsemi er að ræða.]5) Virðisaukaskattur vegna endurvinnslu fellur ekki hér undir. [Jafnframt skal endurgreiða virðisaukaskatt sem sveitarfélög greiða vegna leigu eða kaupa á sorpgámum vegna staðbundinnar söfnunar sorps.]2)
  2. Ræstingu.
  3. [Snjómokstri og snjó- og hálkueyðingu með salti eða sandi.]5)
  4. Björgunarstörfum og öryggisgæslu vegna náttúruhamfara og almannavarna.
  5. [Þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda, tölvunarfræðinga og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu.]3) 6)
  6. [Þjónustu vaktstöðva vegna samræmdrar neyðarsímsvörunar [skv. lögum nr. 40/2008, um samræmda neyðarsvörun]7).]4)
  7. [[[---]1)]2)]4)

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 548/1993. 2)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 146/1995. 3)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 601/1995. 4)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 256/1996. 5)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 695/1996. 6)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 287/20037)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1010/2022.

13. gr.

     Endurgreiðsla skv. 12. gr. tekur til virðisaukaskatts sem sveitarfélög og ríkisstofnanir greiða atvinnufyrirtækjum við kaup á [vöru,]1) vinnu og þjónustu sem þar um ræðir. Til atvinnufyrirtækja í þessu sambandi teljast opinber þjónustufyrirtæki, sbr. 2. gr. Jafnframt tekur endurgreiðslan til virðisaukaskatts sem fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga, stofnanir þeirra og þjónustudeildir, sbr. 3. gr., innheimta af óskattskyldum hluta sveitarfélags eða ríkisstofnun vegna vinnu og þjónustu skv. 12. gr.

1)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1010/2022.

14. gr.

(1) Uppgjörstímabil vegna endurgreiðslu er tveir mánuðir; janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember.

(2) Sækja skal um endurgreiðslu vegna hvers uppgjörstímabils til [Skattsins]3) á sérstökum eyðublöðum í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Skilafrestur er 1. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. [Endurgreiðslubeiðni skal byggjast á fullnægjandi sölureikningum, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.]1)

(3) [Ríkisskattstjóri]3) skal athuga endurgreiðslubeiðni og leiðrétta hana ef hún er í ósamræmi við reglugerð þessa eða önnur fyrirmæli skattyfirvalda. Fallist [ríkisskattstjóri]3) á endurgreiðslubeiðni tilkynnir hann um það til innheimtumanns ríkissjóðs sem annast endurgreiðslu. Endurgreiðsla skal fara fram innan fimmtán daga frá lokum skilafrests. Frestur þessi framlengist þó ef [ríkisskattstjóri]3) getur, vegna atvika sem rekja má til umsækjanda, ekki gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim sem beiðnin byggist á. Endurgreiðslubeiðnir sem berast eftir lok skilafrests skulu afgreiddar með umsókn næsta tímabils.

(4) Endurgreiðsla má því aðeins fara fram að ákvörðun um virðisaukaskatt viðkomandi ríkisstofnunar eða sveitarfélags, þ.m.t. fyrirtækja, stofnana og þjónustudeilda þess, liggi fyrir. Kröfu um vangreiddan virðisaukaskatt þessara aðila ásamt álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslu.

[(5) Réttur til endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari fellur niður ef umsókn um endurgreiðslu berst [Skattinum]3) eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.]2)

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 695/1996. 2)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 554/20023)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1010/2022.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

15. gr.

     Útskattur af skattskyldri veltu samkvæmt reglugerð þessari skal reiknaður og stemmdur af við bókhald eftir hvert uppgjörstímabil. Við slíka afstemmingu skulu m.a. liggja fyrir upplýsingar um heildarkostnað við þá starfsemi sem skattskyld er skv. 4. gr. Hliðstæð afstemming skal fara fram á innskatti að því leyti sem hann er frádráttarbær frá útskatti samkvæmt reglugerð þessari.

16. gr.

     [Sveitarfélag getur fengið heimild ríkisskattstjóra til að greiða virðisaukaskatt við framvísun virðisaukaskattsskýrslu einu sinni á ári vegna þeirrar starfsemi sem skattskyld er skv. 4. gr. ef skattverð, ákvarðað skv. 4. mgr. 4. gr. er undir fjárhæðarmörkum 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti.]1)

1)Sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1010/2022.

17. gr.

     Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu skv. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

18. gr.

     Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 3. gr., 23. gr. og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 561/1989, um greiðslu virðisaukaskatts af skattskyldri starfsemi sveitarfélaga og annarra opinberra aðila. Ákvæði reglugerðar þessarar um endurgreiðslu virðisaukaskatts taka til kaupa á vinnu og þjónustu, sbr. 12. gr., frá og með 1. janúar 1990.
 

Fara efst á síðuna ⇑