Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 18:52:12

Lög nr. 37/1993, kafli 8 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=37.1993.8)
Ξ Valmynd

VIII. KAFLI
Stjórnsýslunefndir.

32. gr.
Skipun nefndarmanna.

(1) Þegar skipað er í stjórnsýslunefnd, sem tekur ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, skal ávallt skipa aðalmenn og jafnmarga varamenn samtímis. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti og aðalmenn.

(2) Þegar aðalmaður í stjórnsýslunefnd forfallast um stundarsakir tekur varamaður sæti hans í nefndinni. Þegar aðalmaður fellur frá eða forfallast varanlega á annan hátt tekur varamaður sæti hans og skal þá nýr varamaður skipaður, nema sá sem skipað hefur í nefndina ákveði að skipa aðalmann að nýju.

33. gr.
Fundarboðun.

(1) Formaður stjórnsýslunefndar boðar til fundar og skal boða til hans með hæfilegum fyrirvara. Formanni er skylt að boða til fundar ef meiri hluti nefndarmanna krefst þess.

(2) Nefndarmaður skal án tafar tilkynna formanni um forföll. Skal formaður þá boða varamann í hans stað.

34. gr.
Málsmeðferð.

(1) Stjórnsýslunefnd er ályktunarhæf þegar meiri hluti nefndarmanna situr fund.

(2) Afl atkvæða ræður úrslitum mála nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum. Verði atkvæði jöfn telst tillaga fallin. Þegar atkvæði eru jöfn við kosningu manns í starf ræður hlutkesti. 

Fara efst á síðuna ⇑