Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.9.2024 00:58:28

Lög nr. 90/2003, kafli 2 - álagningarár 2020 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=90.2003.2&alagningarar=2020)
Ξ Valmynd

 Álagningarár:

II. KAFLI
Skattskyldar tekjur.

Almenn ákvæði.
7. gr.
 

Skattskyldar tekjur teljast með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peninga­verðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru, svo sem:
A
  1. Endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Hér með teljast til dæmis hvers konar biðlaun, starfs­laun, nefndarlaun, stjórnarlaun, eftirlaun og lífeyrir, fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verk­færapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki. Hafi verið gerður samningur um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, telst ellilífeyrir til tekna hjá þeim sem fær hann greiddan. Hvorki skiptir máli hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum. Reki vinnuveitandi hópferðabifreið til að flytja starfsmenn sína til og frá vinnu teljast hlunnindi starfsmanna af slíkum ferðum þó ekki til skattskyldra tekna. [Sama gildir greiði vinnuveitandi kostnað starfsmanna af ferðum til og frá vinnu samkvæmt samningi milli aðila séu nýttar til ferðanna almenningssamgöngur og vistvænar samgöngur, þó ekki með vélknúnum ökutækjum, enda sé fjárhæðin ekki umfram viðmiðunarmörk samkvæmt mati ríkisskattstjóra.]2) (1)

    Vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Á sama hátt skal reikna endurgjald fyrir starf sem innt er af hendi af maka manns eða barni hans sé starfið innt af hendi fyrir framangreinda aðila. (2)

    Til tekna sem laun teljast og lán til starfsmanna sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög*1) og lögum um einkahlutafélög*2). (3)
     

  2. Tryggingabætur, meðlög og styrkir. Skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátrygginga­bætur, sbr. þó 2. tölul. 28. gr. Þó skal hvorki teljast til tekna barnalífeyrir, sem greiddur er skv. [20. gr. laga um almannatryggingar,*3) 3. gr. laga um félagslega aðstoð*4) og lögum um slysatryggingar almannatryggingar*5)]3), vegna barns ef annað hvort foreldra er látið eða barn er ófeðrað, né heldur barnsmeðlag að því leyti sem það takmarkast af fjárhæð barnalífeyris skv. [20. gr. laga um almannatryggingar*3)]3) eða af meðlagsúrskurði sýslumanns eða samkomulagi um framfærslu barns sem staðfest hefur verið af sýslumanni, þó aldrei hærra en sem nemur fjárhæð tvöfalds barnalífeyris skv. [20. gr. laga um almannatryggingar*3).]3 Meðlög eða framfærslulífeyrir til maka eða fyrrverandi maka telst ekki til tekna hjá móttakanda hafi hjónin slitið samvistum eða eftir lögskilnað, að því leyti sem greiðslur þessar tak­markast við sömu fjárhæð og lágmarksellilífeyrir (grunnlífeyrir) er til einstaklinga samkvæmt lögum um almannatryggingar.*3) [Styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima, frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að það hefur leikskólavistun eða grunnskólanám, teljast ekki til tekna hjá móttak­anda.]1)

  3. Endurgjald til höfunda og rétthafa fyrir hvers konar hugverk, bókmenntir og listir eða listaverk, hvort sem um er að ræða afnot eða sölu.

  4. Verðlaun og heiðurslaun, vinningar í happdrætti, veðmáli eða keppni. Beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða. Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir svo og verðlitlir vinningar í almennum happdrættum og keppnum. (1)

    Til skattskyldra gjafa teljast lán til hluthafa og stjórnarmanna sem eru óheimil sam­kvæmt lögum um hlutafélög*1) og lögum um einkahlutafélög*2). (2)
     

B
Allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi, þar með talið endurgjald fyrir selda vöru og þjónustu, umboðslaun, þóknanir, atvinnurekstrarstyrkir, rekstrarstöðvunar­bætur og hvers konar tekjur sem upp eru taldar í öðrum liðum þessarar greinar og tengdar eru atvinnu­rekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
 
C
  1. Leigutekjur og arður af hvers konar lausafé, þar með talin skip og loftför.

  2. Arður, landskuld og leiga eftir hvers konar fasteignir og fasteignaréttindi, þar með talin námaréttindi, vatnsréttindi, jarðvarmaréttindi, veiðiréttur og hvers konar önnur fast­eignatengd hlunnindi. (1)

    Þegar heildarleigutekjur af einstökum íbúðum ná ekki hlunnindamati húsnæðis, sbr. 118. gr., skal reikna leiguna til tekna með því mati. Af íbúðarhúsnæði sem skattaðili á og notar til eigin þarfa skal hvorki reikna tekjur né gjöld. (2)

  3. Vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr.

  4. Arður af hlutum og hlutabréfum í félögum, sbr. 11. gr.

  5. Fé sem félög þau sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. færa félagsaðilum sínum til sér­eignar í stofnsjóði vegna viðskipta þeirra.

  6. Fé sem félög þau sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. greiða félagsaðilum sínum vegna viðskipta þeirra, enda séu þessi viðskipti í tengslum við atvinnurekstur eða sjálf­stæða starfsemi félagsaðilans eða sé varið til fjárfestingar í eignum sem notaðar eru í atvinnurekstri.

  7. Fé sem félög þau sem um ræðir í 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. greiða félagsaðilum sínum út í hlutfalli við viðskipti þeirra eða færa þeim til séreignar, hvort heldur í stofnsjóð eða á annan hátt.

  8. Hagnaður af sölu eigna, sbr. 12.-27. gr.

  9. Sérhverjar aðrar tekjur eða ígildi tekna sem eigi eru sérstaklega undanskildar í lögum þessum eða sérlögum.

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 174/2006. 2)Sbr. 5. gr. laga nr. 146/2012. 3)Sbr. 4. tölul. 25. gr. laga nr. 88/2015. *1)Sjá lög nr. 2/1995. *2)Sjá lög nr. 138/1994. 3*)Sjá lög nr. 100/2007. *4)Sjá lög nr. 99/2007. *5)Sjá lög nr. 45/2015.

Skattskyldir vextir, afföll og gengishagnaður.
8. gr. 

(1)  Til tekna sem vextir, afföll og gengishagnaður skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr. teljast:
  1. Vextir af innstæðum í innlendum bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum samvinnu­fél­aga, á póstgíróreikningum og orlofsfjárreikningum svo og vextir af verðbréfum sem hliðstæðar reglur gilda um samkvæmt sérlögum. Með vöxtum teljast áfallnar verðbætur á höfuðstól og vexti, verðbætur á inneignir og kröfur sem bera ekki vexti og happ­drættisvinningar sem greiddir eru í stað vaxta.

  2. Vextir af stofnsjóðseign í félögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr.

  3. Vextir hjá innlendum og erlendum aðilum af sérhverjum öðrum innstæðum og inn­eignum en um getur í 1. og 2. tölul., þar með taldir vextir af víxlum, verðbréfum og öllum öðrum kröfum sem arð bera eða vexti. Með vöxtum teljast einnig áfallnar verð­bætur og happdrættisvinningar á sama hátt og um getur í 1. tölul.

  4. Afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum. Afföllin skal reikna til tekna með hlutfallslegri fjárhæð ár hvert eftir afborgunartíma. Sé krafan látin af hendi áður en afborgunartíma er lokið telst sá hluti affallanna, sem ekki hefur þegar verið tekjufærður en fæst endurgreiddur í sölu- og afhendingarverði, til tekna í einu lagi á afhendingar- eða söluári.

  5. Gengishagnaður af hvers konar eignum í erlendum verðmæli á því ári sem gengis­breyting á sér stað og miðast við kaupgengi hlutaðeigandi erlends gjaldeyris í árslok. (1)

    Frá gengishagnaði ársins skal draga gengistap, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 49. gr., og færa mis­muninn til tekna sem gengishagnað [með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári þegar gengishagnaður fellur til].1) (2)
     

(2)  Til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr., af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnu­rekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljast vextir sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Til tekna í þessu sambandi telst enn fremur gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum. Ákvörðun tekna skal vera þannig:
  1. Vextir af reikningum í innlánsstofnunum skulu teljast til tekna þegar þeir eru færðir eiganda til eignar á reikningi. Þó skulu vextir af reikningum þar sem höfuðstóll og vextir eru bundnir til lengri tíma en 36 mánaða ekki teljast til tekna fyrr en þeir eru greiddir eða greiðslukræfir.

  2. Vextir af kröfu skulu teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir.

  3. Afföll, þ.e. mismunur á uppreiknuðu nafnverði kröfu á kaupdegi að frádregnu kaup­verði hennar, skal færa til tekna í hlutfalli við afborganir nafnverðs þegar þær greiðast.

  4. [Innleystur gengishagnaður af hvers konar innlánsreikningum og kröfum í erlendri mynt á því ári sem innlausn á sér stað skal færður til tekna og miðast við mismun á kaupgengi hlutaðeigandi erlends gjaldeyris frá 1. janúar 2010 eða síðar og á úttektar- eða greiðsludegi. Heimilt er að jafna saman gengishagnaði og gengistapi hvers innlánsreiknings fyrir sig innan ársins.]2)3) 

  5. Vextir, arður og önnur ávöxtun af lífeyristryggingum, söfnunartryggingum, einstaklinga hjá líftryggingafélögum skulu teljast til tekna þegar slíkar tekjur koma til greiðslu, nema að því leyti sem lífeyristryggingar, söfnunartryggingar, verða skatt­lagðar sem tekjur samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara.

  6. Vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af lífeyrissparnaði samkvæmt lögum um skyldu­tryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða*1) teljast til tekna sem lífeyrir skv. A-lið 7. gr. þegar slíkar greiðslur eru greiddar út.

  7. Vextir af stofnsjóðseign í félögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. skulu teljast til tekna þegar þeir eru færðir eiganda til eignar eða ráðstöfunar.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 61/2008. Breytingin kom til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2010. 2)Sbr. 2. gr. laga nr. 128/2009. 3)Sbr. 1. gr. laga nr. 165/2010. *1)Sjá lög nr. 129/1997.

Kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti.
9. gr. 

Tekjur skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr., vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, sbr. þó 10. gr., skulu ákveðnar eins og kveðið er á um í þessari grein. Til skattskyldra tekna telst mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur. [Skattlagningu samkvæmt þessari grein skal frestað þar til bréfin eru seld.]1) Með gangverði er átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði þegar kaupréttur er nýttur. Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð í kauphöll skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshluta­reikningi viðkomandi félags.
1)Sbr. 1. gr. laga nr. 79/2016.

 10. gr.

 (1)   Tekjur skv. 9. gr. skulu skattlagðar sem fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:

  1. Kaupréttur að hlutabréfum eða hlutum í viðkomandi félagi hafi náð til allra starfs­manna. Hlutabréfum og hlutum starfsmanna skulu fylgja sömu réttindi og öðrum hluta­bréfum eða hlutum félags.

  2. Starfsmaður hafi verið í föstu starfi hjá félaginu eða í öðru félagi í sömu félaga­samstæðu, sbr. lög um ársreikninga.*1)

  3. Að lágmarki 12 mánuðir þurfa að líða frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur.

  4. Kaupverð sé eigi lægra en vegið meðalverð í viðskiptum með hluti/hlutabréf félags tíu heila viðskiptadaga fyrir samningsdag ef slík viðskipti hafa verið skráð í kauphöll. Ef slík skráning hefur ekki átt sér stað skal miða við gangverð eins og það er skilgreint í  9. gr.

  5. Starfsmaður eigi hlutabréfin eða hlutina í tvö ár eftir að kaupréttur er nýttur.

  6. Samningur um kauprétt sé ekki framseljanlegur.

  7. Hámark kaupa hvers starfsmanns sé samanlagt 600.000 kr. á ári miðað við kaupverð sam­kvæmt samningi.

  8. Félag sem hefur í hyggju að veita starfsmönnum kauprétt hafi sent ríkisskattstjóra fyrir fram til staðfestingar áætlun um kauprétt starfsmanna ásamt upplýsingum um framan­greind atriði í því formi sem hann ákveður.*2)

(2)  Í lok hvers árs skal senda [ríkisskattstjóra]1) upplýsingar um þá starfsmenn sem hafa nýtt kauprétt á árinu samkvæmt staðfestri áætlun ásamt upplýsingum um kaupverð bréfanna. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

(3)  Tekjur samkvæmt þessari grein koma til skattlagningar þegar starfsmaður selur hluta­bréfin. Teljast þær mismunur á upphaflegu kaupverði og söluverði þeirra. Sá mismunur telst ekki til rekstrarkostnaðar í skilningi 31. gr. laganna.

(4)  Kaup á hlutabréfum samkvæmt þessari grein veita ekki rétt til frádráttar frá tekjum skv. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 136/2009. *1)Sjá lög nr. 3/2006. *2)Sjá leiðbeiningar ríkisskattstjóra um áætlanir fyrirtækja sem veita starfsmönnum kaup­rétt á hlutabréfum og staðfestingu ríkisskattstjóra á þeim áætlunum.

Skattskyldur arður.
11. gr.

(1) Til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., telst auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu. Til arðs telst ekki úthlutun jöfnunarhlutabréfa samkvæmt lögum um einkahlutafélög,*1) lögum um hlutafélög*2) og lögum um samvinnufélög*3) sem hafa ekki í för með sér breytta eignar­hlutdeild hlutareiganda eða hluthafa eða hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofn­sjóðs samvinnufélaga eða samvinnuhlutabréf sem félagsaðilum eru afhent við slíka hækkun séreignarhluta í samvinnufélagi samkvæmt lögum um samvinnufélög*3). [[---]]1)3)4)

(2) Úthlutun verðmæta skv. 1. mgr. til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfs­maður félags, eða tengds félags, telst vera laun skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög*2) eða lögum um einkahlutafélög*1). Ef úthlutun til annarra en starfsmanna er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög*2) eða lögum um einka­hlutafélög*1) skal skattleggja úthlutunina sem tekjur skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. Ef slík úthlutun á sér stað til [samlagsfélags eða]2) sameignarfélags, þar sem einn sameigenda er hluthafi, stjórnarmaður eða starfsmaður félagsins sem úthlutar verðmætum, skal úthlutunin teljast til tekna hjá honum skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr.

(3) Arður af eigin hlutum eða hlutabréfum telst hvorki til tekna né gjalda hjá hlutafélagi eða samlagshlutafélagi.

(4) Nú er félagi sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. slitið án þess að um sameiningu félaga sé að ræða, sbr. 51. gr., og skal þá teljast til arðs úthlutun við félagsslit sem er umfram kaup­verð bréfanna. Einnig telst til arðs lækkun hlutafjár, sem er greidd út til hluthafa, umfram kaupverð. Hafi aðili eignast hlutabréfin fyrir árslok 1996 er honum heimilt að miða við upp­haflegt kaupverð hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingar­stuðli fyrir hvert ár til ársloka 1996, eða jöfnunarverðmæti hlutabréfanna, sbr. 3. mgr. 18. gr., sé það hærra.

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 128/2009. 2)Sbr. 2. gr. laga nr. 165/2010. 3)Sbr. 1. gr. laga nr. 73/2011. 4)Sbr. 3. gr. laga nr. 142/2013. *1)Sjá lög nr. 138/1994. *2)Sjá lög nr. 2/1995. *3)Sjá lög nr. 22/1991.

Sameiginleg ákvæði um söluhagnað eigna.
12. gr.

(1) Söluhagnaður eigna [þ.m.t. hagnaður af uppgjöri afleiðusamninga],1) telst mismunur á söluverði þeirra og stofnverði, að teknu tilliti til fenginna fyrninga og áður fengins söluhagnaðar eftir því sem nánar er ákveðið í 13.–27. gr.
 
(2) Stofnverð eigna telst kostnaðarverð þeirra, þ.e. kaup- eða framleiðsluverð, ásamt kostn­aði við endurbætur, breytingar eða endurbyggingu og sérhverjum öðrum kostnaði sem á eignirnar fellur, en að frádregnum óendurkræfum styrkjum, afsláttum, eftirgjöfum skulda og skaða­bótum sem til falla í sambandi við kaup þeirra, framleiðslu, breytingar eða endurbætur.
 
(3) Við ákvörðun söluhagnaðar af fyrnanlegum eignum sem skattaðili hefur eignast fyrir lok reikningsársins 2001 skal stofnverð ákvarðast í samræmi við endurmat þessara eigna og fengnar fyrningar við framtalsgerð á árinu 2002. Sama gildir um stofnverð ófyrnanlegra eigna sem notaðar eru í atvinnurekstri og eigna sem ekki hafa verið teknar í notkun í lok reiknings­ársins 2001, sbr. 34. gr.
 
(4) Við ákvörðun söluhagnaðar af ófyrnanlegum eignum sem einstaklingur hefur eignast fyrir árslok 2001 og ekki eru tengdar atvinnurekstri hans skal stofnverð þeirra hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001.

1)Sbr. 4. gr. laga nr. 142/2013.

Söluhagnaður eigna sem heimilt er að fyrna.
13. gr.

(1) Hagnaður af sölu eigna, sem heimilt er að fyrna skv. 33. gr., og af sölu réttinda, sem tengd eru þessum eignum, telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. 
 
(2) Hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og stofn­verði þeirra, að frádregnum áður fengnum fyrningum hins vegar.

14. gr.

Á því ári sem skattskyldur söluhagnaður eigna skv. 13. gr. færist til tekna er skattaðila heimilt að fyrna eignir, sem fyrnanlegar eru skv. 33. gr., um fjárhæð sem nemur hinum skatt­skylda söluhagnaði. Eigi skattaðili ekki eignir, sem hann getur fyrnt á þennan hátt á því ári þegar sala fer fram, getur hann farið fram á frestun skattlagningar á söluhagnaði um tvenn áramót, enda afli hann sér eigna sem fyrna má skv. 33. gr. innan þess tíma og fyrni þær um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Ef eignanna er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist að viðbættu 10% álagi. Fyrning eða frestun tekjufærslu samkvæmt þessari málsgrein kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.

Söluhagnaður eigna sem ekki er heimilt að fyrna.
15. gr.

(1) Hagnaður af sölu fasteigna, sem ekki er heimilt að fyrna skv. 33. gr., þar með talin ófyrnanleg mannvirki, lönd, lóðir, ófyrnanleg náttúruauðæfi og réttindi tengd þessum eignum, svo sem lóðarréttindi, telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign.

(2) Hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og stofn­verði þeirra að frádregnum áður fengnum niðurfærslum skv. 32. gr. og söluhagnaði, sbr. 4. mgr. þessarar greinar og 4. mgr. 12. gr., hins vegar. Ef skattaðili hefur eignast hina seldu eign fyrir árslok 1978 er honum heimilt að nota gildandi fasteignamat í árslok 1979 í stað stofn­verðs. Frá fasteignamati leigulóðar í þessu sambandi skal draga afgjaldskvaðarverðmæti, sbr. 2. mgr. 1. tölul. 73. gr.
 
(3) [Mönnum utan atvinnurekstrar]1) er jafnan heimilt að telja helming söluverðs til skattskyldra tekna í stað sölu­hagnaðar skv. 2. mgr.
 
(4)   Skattaðili getur farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum um tvenn áramót frá söludegi, enda afli hann sér sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota í stað hinnar seldu innan þess tíma og færist þá söluhagnaðurinn til lækkunar stofn­verði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagn­aðinum telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Þessi meðferð söluhagnaðar er því aðeins heimil að seljandi hafi haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðastliðnum átta árum næst á undan söludegi og stundi búrekstur á sama hátt á hinni keyptu bújörð eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum þess árs þegar skilyrðið er rofið, að viðbættu 10% álagi. Frestun tekjufærslu kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.
 
(5) Hagnaður af sölu þeirra réttinda sem um ræðir í 48. gr. telst að fullu til tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu réttindi. Hagnaður af sölu telst mis­munur á söluverði og kaupverði eftir að frá því hafa verið dregnar fengnar fyrningar og niður­færsla skv. 6. mgr. Þegar ákveða skal hagnað af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi skal á hverjum tíma litið svo á að fyrst sé seldur sá hluti aflahlutdeildar í sömu fisktegund sem skattaðili keypti fyrst en úthlutaðri aflahlutdeild sé ráðstafað eftir að öll keypt aflahlutdeild í tegundinni hefur verið seld.
 
(6) Á því ári sem skattskyldur hagnaður af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi skv. 5. mgr. færist til tekna er skattaðila heimilt að færa niður stofnverð aflahlut­deildar, sem keypt hefur verið á tekjuárinu eða á síðustu 12 mánuðum áður en salan fór fram, um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Þá getur skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðarins um tvenn áramót, enda kaupi hann aflahlutdeild í sjávarútvegi innan þess tíma og færi hana niður um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Ef aflahlutdeild er ekki keypt innan tilskilins tíma samkvæmt þessari málsgrein telst sölu­hagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist, að viðbættu 10% álagi. Niðurfærsla eða frestun tekjufærslu samkvæmt þessari málsgrein er því aðeins heimil að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.
 
(7) Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um söluhagnað af íbúðarhúsnæði sem er undir stærðar­mörkum þeim er greinir í 17. gr. og er í eigu manna, sbr. 5. mgr. þeirrar greinar.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 164/2008.

16. gr.

(1) Hagnaður af sölu lausafjár, sem eigi er heimilt að fyrna skv. 33. gr., annars en hlutabréfa og eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum, telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári, og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra og stofnverði, sbr. 4. mgr. 12. gr.

(2) Hagnaður manns af sölu lausafjár, sem ekki er notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starf­semi, telst þó ekki til tekna, enda geri hann líklegt að sala þess falli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hans eða að eignarinnar hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði, sbr. 21. gr.

[(3) Söluhagnaður af afleiðum [---]2) telst ávallt til skattskyldra tekna á söluári.]1)

1)
Sbr. 5. gr. laga nr. 142/2013. 2)Sbr. 2. gr. laga nr. 33/2015.

Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði.
17. gr.

(1) Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár, en hafi hann átt hið selda í tvö ár eða lengur telst sölu­hagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna. Ákvæði þessarar greinar gilda aðeins um sölu íbúðar­húsnæðis sem er í eigu manna og aðeins að því marki sem heildarrúmmál íbúðar­húsnæðis seljanda fer ekki fram úr 600 m3 á söludegi ef um einstakling er að ræða en 1.200 m3 ef hjón, sbr. 62. gr., eiga í hlut [þó ekki þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota].4) Stærðarmörk þau sem gilda fyrir hjón gilda einnig um sölu eftirlifandi maka á íbúðarhúsnæði sem var í eigu hjónanna. Um söluhagnað af íbúðarhúsnæði umfram þessi mörk gilda ákvæði 15. gr. [---]1) Selji maður íbúðarhúsnæði innan árs frá því að hann keypti annað húsnæði eða innan tveggja ára frá því að hann hóf byggingu nýs íbúðar­húsnæðis, skal við ákvörðun á heildarrúmmáli íbúðarhúsnæðis í eigu seljanda við sölu miða við það heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis er var í eigu seljanda áður en hann keypti nýrra hús­næði eða hóf byggingu þess, enda sé söluandvirðinu varið til fjármögnunar á hinu nýja hús­næði.
 
(2) Maður getur farið fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Kaupi hann annað íbúðarhúsnæði eða hefji byggingu íbúðarhúsnæðis [hér á landi eða í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum]1) í stað þess selda innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum innan þessara tímamarka telst mismunurinn til skatt­skyldra tekna á kaupári hinnar nýju eignar. Ef eignarinnar er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist.
 
(3) Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis telst mismunur á söluverði og stofnverði að frádregnum áður fengnum söluhagnaði, sbr. 2. mgr. þessarar greinar og 4. mgr. 12. gr.
 
(4) Þegar maður selur íbúðarhúsnæði sem hann hefur byggt eða endurbætt og salan fer fram innan tveggja ára frá því síðast var lagt í byggingarkostnað skal einungis sá hluti sölu­hagn­aðarins teljast skattskyldur sem svarar til þess hlutfalls af heildarbyggingarkostnaði sem í var lagt innan tveggja ára frá söludegi.
 
(5) Falli sala íbúðarhúsnæðis bæði undir ákvæði þessarar greinar og 15. gr. skal söluhagnaði skipt til skattlagningar í sama hlutfalli og er milli þess rúmmáls íbúðarhúsnæðis sem seljandi átti umfram 600 m3 á söludegi eða 1.200 m3, eftir því sem við á, sbr. 1. mgr., og heildar­rúmmáls hins selda húsnæðis.
 
(6) [Ráðherra]3) skal ákveða með reglugerð hvernig reikna skuli rúmmál íbúðar­húsnæðis samkvæmt þessari grein.
 
(7) Við útreikning á söluhagnaði af íbúðarhúsnæði skal ekki telja til stofnverðs eignaauka vegna vinnu utan venjulegs vinnutíma við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin nota.
 
(8) Ákvæði þessarar greinar gilda um íbúðarhúsnæði án tillits til byggingarstigs og ná einnig til lóða eða lóðarréttinda sem slíku húsnæði fylgja, enda sé lóðin innan þeirra stærðarmarka sem almennt gerist um íbúðarhúsalóðir. Um söluhagnað lóðar umfram þessi mörk gilda ákvæði 15. gr. [Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um hagnað af sölu búseturéttar [og sölu íbúðarhúsnæðis úr dánarbúi manns enda séu uppfyllt framangreind skilyrði um eignarhaldstíma og stærðarmörk.]2)]1)

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 164/2008. 2)Sbr. 3. gr. laga nr. 165/2010. 3)Sbr. 377. gr. laga nr. 126/2011. 4)Sbr. 1. gr. laga nr. 124/2015.

Söluhagnaður af eignarhlutum í félögum.
18. gr.

(1) Hagnaður af sölu hlutabréfa [---]1)2) telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu hlutabréf. [Hagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar vegna viðskipta með breytanleg skuldabréf sem breytt hefur verið í hlutabréf á lægra verði en nemur markaðsverði bréfanna, sbr. 47.–49. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og 31.–32. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, telst til skattskyldra fjármagnstekna þegar hlutabréfin eru seld.]4)

(2) Hagnaður af sölu hlutabréfa [---]1)2) telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og kaupverði þeirra hins vegar, sbr. þó 4. mgr. Þó skal kaupverð hlutabréfa í eigu rekstraraðila, þar með talið einstaklinga, í árslok 2001 ákvarðast sem upphaflegt kaupverð þeirra þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001, enda séu hluta­bréfin eignfærð í atvinnurekstrinum. Kaupverð hlutabréfa, sem skattaðili hefur eignast við samruna hlutafélaga skv. 51. gr., skal ákvarðast jafnt kaupverði þeirra hlutabréfa er hann lét af hendi. Kaupverð hlutabréfa í B-deild stofnsjóðs samvinnufélags sem skattaðili hefur eignast við sértækt endurmat A-deildar stofnsjóðs samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um sam­vinnufélög*1) skal ákvarðast jafnt fjárhæð hækkunar séreignarsjóðshluta A-deildar yfirfærðs stofnsjóðs. Kaupverð hlutabréfa sem seljandi hefur eignast vegna kaupréttar skv. 9. gr. skal ákvarðast jafnt gangverði því sem lagt var til grundvallar við ákvörðun tekna samkvæmt því ákvæði. Þegar ákveða skal hagnað af sölu hlutabréfa skal kaupverð hvers hlutabréfs teljast jafnt meðalkaupverði allra hlutabréfa sömu tegundar á hendi sama eiganda.

(3) Jöfnunarverðmæti hlutabréfa hjá þeim félögum sem skráð voru, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., í árslok 1996 skal vera nafnverð hlutabréfanna í árslok 1996 að viðbættri þeirri fjárhæð sem heimilt væri að gefa út af jöfnunarhlutabréfum samkvæmt þeim reglum sem giltu í árslok 1996. Hafi hlutafélag ekki gefið út jöfnunarhlutabréf eða, ef um einkahlutafélag er að ræða, tilkynnt nýtt nafnverð til hlutafélagaskrár, eða gert [ríkisskattstjóra]3) grein fyrir útreikningi jöfnunar­verðmætis í síðasta lagi í árslok 1999, skal jöfnunarverðmætið við sölu bréfanna vera nafn­verð hlutabréfanna í árslok 1996. Ríkisskattstjóri skal birta með aðgengilegum hætti jöfnunar­stuðul fyrir hlutabréf eða hluti í félögum, þ.e. hlutfall jöfnunarverðmætis, sem [ríkisskattstjóri]3) hefur staðfest samkvæmt þessari grein, og nafnverðs hlutabréfa eða hluta í félögum.
 
(4) Við sölu á hlutabréfum, sem seljandi hefur eignast fyrir árslok 1996, skal skattskyldur söluhagnaður vera söluverð þeirra að frádregnu jöfnunarverðmæti, sbr. 3. mgr., eða upphaf­legu kaupverði hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingar­stuðli fyrir hvert ár til ársloka 1996 ef það er hærra. Þó skal kaupverð hlutabréfa í eigu rekstraraðila, þar með talið einstaklinga, í árslok 1996 ákvarðast sem upphaflegt kaupverð þeirra eða jöfnunarverðmæti þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001, enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum.
 
(5) [---]1)
 
(6) Hagnaður manns af sölu hlutabréfa, sem hann hefur keypt á árunum 1990 - 1996 í félögum sem ríkisskattstjóri hefur á söluári bréfanna veitt staðfestingu um að uppfylli skilyrði III. kafla laga nr. 9/1984*2), telst þó ekki til skattskyldra tekna hafi hin seldu hlutabréf verið í eigu mannsins í full fjögur ár. Hámark skattfrjáls hagnaðar samkvæmt þessari málsgrein er 367.625 kr. Um hagnað umfram skattfrjálst hámark og um hagnað af sölu hlutabréfa, sem maður hefur keypt á árinu 1989 eða fyrr eða á árinu 1997 eða síðar, fer eftir ákvæðum 1. mgr.
 
(7) Við sölu hlutabréfa í sparisjóði, sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki*3), skal skattskyldur söluhagnaður þeirra bréfa sem stofnfjáreigandi fékk í skiptum fyrir stofnbréf sín vera söluverð bréfanna að frádregnu kaupverði þeirra. Kaupverð hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda skal ákveðið sem stofnfé sjóðsins endurmetið til ársloka 1996, samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki*3), að viðbættu innborguðu stofnfé frá þeim tíma þar til sparisjóðnum var breytt í hlutafélag. Kaupverð hlutabréfa sem rekstraraðili hefur fengið afhent sem stofnfjáreigandi skal þó ákvarðað sem kaupverð samkvæmt framangreindu þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli frá árslokum 1996 til ársloka 2001, enda hafi hlutabréfin verið eignfærð í atvinnurekstrinum. Kaupverð hlutabréfa í sparisjóði sem sjálfseignarstofnun hefur eignast samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki*3) ákvarðast sem raunvirði hreinnar eignar sparisjóðsins í árslok 1996 að frádregnu kaupverði hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda, sbr. framangreint. Raunvirði hreinnar eignar skal ákveðið samkvæmt þeim reglum sem gilda um ákvörðun á jöfnunarverðmæti hlutabréfa, sbr. 3. mgr.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 38/2008. 2)Sbr. 4. gr. laga nr. 128/2009. 3)Sbr. 1. gr. laga nr. 136/2009. 4)Sbr. 2. gr. laga nr. 79/2016*1)Sjá lög nr. 22/1991. *2)Lög nr. 9/1984 voru felld úr gildi með lögum nr. 154/1998. *3)Sjá lög nr. 161/2002.

19. gr.

(1)Hagnaður af sölu eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum telst að fullu til skatt­skyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign.

(2) Hagnaður af sölu eignarhluta telst mismunur á söluverði hans annars vegar og kaupverði hins vegar. Kaupverð eignarhluta í hendi seljanda ákveðst sem hlutur hans í eigin fé félagsins í byrjun þess árs sem salan fer fram á eða sem raunverulegt kaupverð að frádreginni eigin úttekt, sé það hærra. Til eigin fjár í þessu sambandi telst [framtalsskyld]2) hrein eign félagsins að meðtöldu stofnfé.

(3) Þó skal [kaupverð]1) eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum sem seljandi hefur eignast fyrir árslok 2001 ákvarðast sem hlutur hans í eigin fé félagsins í byrjun árs 2001 eða sem raunverulegt kaupverð að frádreginni eigin úttekt, sé það hærra, þegar kaupverð og eigin úttekt hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001.

 1)Sbr. 1. gr. laga nr. 143/2003. 2)Sbr. 6. gr. laga nr. 129/2004.

Ýmis ákvæði um söluhagnað.
20. gr.

Söluverð eigna telst heildarandvirði þeirra að frádregnum beinum kostnaði við söluna.

21. gr.

Falli sala eigna undir atvinnurekstur skattaðila eða hafi eigna verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði telst hagnaður af sölu þeirra ávallt að fullu til skattskyldra tekna á söluári. Með sama hætti telst söluhagnaður af rekst­rar­vörubirgðum og öðrum hlið­stæðum eignum sem ætlaðar eru til notkunar í atvinnu­rekstri ávallt til skattskyldra tekna.

22. gr.

Bætur vegna altjóns eða eignarnáms teljast söluverð eigna og reiknast söluhagnaður og fer um meðferð hans eftir ákvæðum 12.-27. gr. eftir því sem við á. Í slíkum tilvikum er skatt­aðila þó heimilt að færa skattskyldan söluhagnað til tekna með jöfnum fjárhæðum á allt að fimm árum, í fyrsta sinn á söluári. Ef um er að ræða eign sem ekki er heimilt að fyrna er heimilt að verja söluhagnaðinum til öflunar sams konar eignar innan þriggja ára. Sölu­hagnaðurinn telst þá ekki til tekna en færist til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofn­verð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum telst mismunurinn til skattskyldra tekna.

23. gr.

Hafi skattaðili eignast selt íbúðarhúsnæði við arftöku, þar með talda fyrirframgreiðslu arfs, skal við ákvörðun eignartíma við sölu miða við samanlagðan eignartíma arfleifanda og arftaka.

24. gr.

(1) Tap á sölu eigna, sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri, er ekki heimilt að draga frá skatt­skyldum tekjum. Áður en skattskyldur hagnaður af sölu eigna er ákveðinn má skattaðili þó draga frá heildarhagnaðinum það tap sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári.

(2) Tap á sölu eigna sem notaðar eru í atvinnurekstri er heimilt að gjaldfæra á söluári, sbr. 35. gr., þó ekki tap á sölu eigna þeirra sem um er rætt í 18. og 19. gr.

25. gr.

(1) Þegar eign er látin af hendi við makaskipti skal það teljast sala hennar og fer um skatt­skyldu söluhagnaðar eftir ákvæðum 12.-27. gr. laga þessara.

(2) Ef ákvörðun kaup- eða söluverðs í makaskiptasamningi er verulega frábrugðin því sem almennt gerist í hliðstæðum viðskiptum þar sem um beina sölu eða kaup er að ræða geta skattyfirvöld metið hvað telja skuli eðlilegt verð og miðað skattlagningu söluhagnaðar við það.

26. gr.

(1) Þegar seld er sérgreind fasteign eða mannvirki, ásamt lóð, landi eða réttindum tengdum þessum eignum, í heild eða að hluta, skal söluverðinu skipt í sama hlutfalli og hinar seldu eignir eru metnar til fasteignamats á söludegi. Sama gildir um skiptingu söluverðs mannvirkja eingöngu. Þegar um lóðarréttindi er að ræða skal afgjaldskvaðarverðmætið, sbr. 2. mgr. 1. tölul. 73. gr., dregið frá fasteignamati áður en hlutfallið er reiknað.

(2) Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um ákvörðun stofnverðs.

(3) Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um skiptingu söluverðs milli mannvirkis og leigulóðar þegar selt er mannvirki sem stendur á leigulóð og endurmetið var í hendi seljanda á árinu 1979 á grundvelli upphaflegs stofnverðs.

27. gr.

(1)  Nú selur skattaðili eign með skattskyldum söluhagnaði og hluti söluandvirðis hennar er greiddur með skuldaviðurkenningum til þriggja ára eða lengri tíma og er honum þá heimilt að telja það hlutfall af söluhagnaðinum, sem svarar til hlutdeildar skuldaviðurkenninganna af heildarsöluverðmætinu, til tekna hlutfallslega eftir afborgunartíma skuldaviður­kenn­inganna, þó ekki á lengri tíma en sjö árum. Þó fellur þessi heimild niður ef skuldaviður­kenning er seld á þeim tíma sem heimilt er að dreifa söluhagnaði. Til skuldaviðurkenninga í þessu sambandi teljast ekki þær skuldir sem hvíla á hinni seldu eign og kaupandi tekur að sér að greiða. [Ríkisskattstjóra]1) skal tilkynnt um notkun þessarar heimildar með fyrsta framtali eftir söludag. Þessa heimild má skattaðili þó aðeins nota að því marki sem hann hefur ekki getað notað hinn skatt­skylda söluhagnað til að fyrna aðrar eignir, eða lækka stofnverð sams konar eigna, í samræmi við ákvæði þessara laga.

(2)  Sé heimild skv. 1. mgr. notuð kemur hún í stað annarra heimilda laga þessara til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar. Frestun tekjufærslu samkvæmt þessari grein kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 136/2009.

Hvað ekki telst til tekna.
28. gr.

Þrátt fyrir ákvæði þessa kafla telst ekki til tekna: 

  1. Eignaauki vegna arftöku, fyrirframgreiðslu arfs og dánargjafa, enda hafi erfðafjár­skattur verið greiddur. Þetta á þó ekki við um þann hluta lífeyrissparnaðar sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyris­sjóða*1).
  2. Eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingarfjár, [vátryggingabóta vegna sjúkdómatrygginga]7), dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar í einu lagi til greiðslu. Einnig skaðabætur og vátryggingabætur vegna tjóns á eignum sem ekki eru notaðar í atvinnu­rekstri, sbr. þó 22. gr. Lækka skal stofnverð eignar vegna tjónsins að svo miklu leyti sem bóta­greiðslum er ekki varið til viðgerða vegna tjónsins.
  3. Eignaauki [eða aukning ráðstöfunartekna]3) sem stafar af eftirgjöf skulda við nauðasamninga, enda hafi skuldirnar ekki myndast í sambandi við atvinnurekstur skattaðila. [Hið sama á við um eftirgefnar skuldir sem mælt er fyrir um í samningi um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga eða nauðasamningi til greiðsluaðlögunar skv. X. kafla a í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með áorðnum breytingum, eða á annan fullnægjandi hátt er sannað að eignir eru ekki til fyrir, að uppfylltum skilyrðum samkvæmt reglugerða) sem [ráðherra]8) setur um hlutlægt mat á forsendum eftirgjafar, skilyrði þess að eftirgjöf teljist ekki til tekna, upplýsingagjöf skv. 92. gr. o.fl.]6) [Sama gildir um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um fjárhagsaðstoð*2) til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.]10)
  4. Eignaauki sem stafar af aukavinnu sem maður leggur fram utan venjulegs vinnutíma við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin afnota. Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis, sbr. 15. og 17. gr., telst þó sem mismunur heildarandvirðis að frádregnum beinum kostnaði við söluna annars vegar og stofnverðs án eigin aukavinnu hins vegar.
  5. Framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldu­tryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða*1) [og lögum um starfstengda eftir­launasjóði*3).]1) [Þó skal telja framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda til skattskyldra tekna ef iðgjaldagreiðslur frá launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni fara fram úr 12% af iðgjaldsstofni auk 2.000.000 kr. á ári.]4) (1)
     
    [...]4) (2)

    [...]4) (3)

    Hafi í kjarasamningum verið samið um iðgjald í lífeyrissjóð eða til aðila skv. [3. - 5. mgr.]13) 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða*1) eða það bundið í lögum skal það aldrei teljast til skattskyldra tekna. (4)

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessa töluliðar, þ.m.t. um hvaða upplýsingar unnt er að krefja launagreiðendur, sjálfstætt starfandi einstaklinga og launþega vegna framkvæmdar ákvæðisins. (5)
     
  6. Hlunnindi forseta Íslands vegna embættisbústaðar og rekstrar hans, risnu og bifreiða eða önnur hlunnindi sem embættinu fylgja.
  7. Persónuafsláttur,[...]13), barnabætur og vaxtabætur sem um ræðir í VI. kafla laga þessara.
  8. Matshækkun búfjár skv. 2. tölul. 73. gr., enda kemur matslækkun ekki til frádráttar tekjum.
  9. [Húsnæðisbætur, sbr. lög um húsnæðisbætur, og sérstakur húsnæðisstuðningur skv. 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.]12)
  10. [[Styrkir úr starfsendurhæfingarsjóðum, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila.]9) [Ráðherra]8) setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.]2)
  11. [Sérstakur frádráttur nýsköpunarfyrirtækis samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.]5)
  12. [Úttekt viðbótariðgjalds af iðgjaldsstofni manna skv. II. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, ef öll skilyrði laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð eru uppfyllt.(1)

    Heimild manna takmarkast við allt að 4% framlag þeirra af iðgjaldsstofni, að hámarki 333 þús. kr., og allt að 2% framlag launagreiðanda, að hámarki 167 þús. kr., af iðgjaldsstofni, samanlagt að hámarki 500 þús. kr. fyrir tólf mánuði [á almanaksári]14) á samfelldu tíu ára tímabili, sbr. 4. gr. laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Ef útgreiðsla séreignarsparnaðar fer fram úr því hámarki telst það sem er umfram til skattskyldra tekna á greiðsluári.(2)

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins.]11)(3)
1)Sbr. 2. gr. laga nr. 76/2007. 2)Sbr. 3. gr. laga nr. 164/2008. 3)Sbr. 1. gr. laga nr. 46/20094)Sbr. 5. gr. laga nr. 128/2009. 5)Sbr. 1. gr. laga nr. 137/2009. 6)Sbr. 3. tölul. 36. gr. laga nr. 101/2010. 7) Sbr. 1. gr. laga nr. 37/2011. 8)Sbr. 377. gr. laga nr. 126/2011. 9)Sbr. 32. gr. laga nr. 60/2012. 10)Sbr. 10. gr. laga nr. 9/2014. 11)Sbr. 9. gr. laga nr. 111/2016. Lögin tóku gildi 1. júlí 2017. 12)Sbr. 32. gr. laga nr. 75/2016. 13) Sbr. 1. gr. laga nr. 59/201714) Sbr. 5. gr. laga nr. 63/2017*1)Sjá lög nr. 129/1997. *2)Sjá lög nr. 9/2014. *3)Sjá lög nr. 78/2007.
Fara efst á síðuna ⇑