Skattalagasafn ríkisskattstjóra 26.4.2024 04:26:04

Lög nr. 90/2003, kafli 13 - álagningarár 2020 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=90.2003.13&alagningarar=2020)
Ξ Valmynd

 Álagningarár:

XIII. KAFLI
Innheimta og ábyrgð.

Innheimtuaðilar.
111. gr.

(1) [[Skattar álagðir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð og hefur tollstjóri á hendi innheimtu þeirra í [umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu]4) en sýslumenn í öðrum [umdæmum]4), sbr. þó 2.-4. mgr. þessarar greinar og ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Auk þeirra verkefna sem tollstjóra eru falin skv. 1. málsl. skal tollstjóri annast eftirtalin verkefni sem lúta að framkvæmd við innheimtu skatta og gjalda:

  1. Stefnumótun á sviði innheimtumála á landsvísu með hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi varðandi innheimtu opinberra gjalda að leiðarljósi. [Í þessu skyni skal tollstjóri m.a. annast áhættugreiningu á sviði innheimtu opinberra gjalda.]5)
     
  2. Samræmingar- og eftirlitshlutverk gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs, m.a. með setningu verklagsreglna. Tollstjóra er heimilt að beina bindandi fyrirmælum til annarra innheimtumanna um innheimtuaðgerðir í einstökum málum ef settar reglur eru ekki virtar.
     
  3. Umsjón og þróun tölvukerfa og rafrænnar stjórnsýslu á sviði innheimtu skatta og gjalda.]3)

(2) [Ráðherra]2) getur ákveðið í reglugerða) að fela öðrum aðila en þeim sem um getur í 1. mgr. innheimtu skatta samkvæmt lögum þessum í tilteknu umdæmi eða umdæmum. Á sama hátt getur ráðherra ákveðið að sami innheimtumaður annist innheimtu í fleiri en einu umdæmi.]1)

(3) Þá er [ráðherra]2), sveitarstjórnum og forráðamönnum annarra opinberra stofnana heimilt að semja svo um að innheimta skuli í einu lagi öll gjöld sem greiða ber þessum aðilum. Má fela gjaldheimtuna innheimtumanni ríkissjóðs, sveitarfélagi eða sérstakri innheimtustofnun. Allar heimildir og skyldur innheimtumanna ríkissjóðs, sveitarfélaga og stofnana vegna gjaldheimtu skulu þá færast til þess aðila sem tekur gjaldheimtuna að sér.

(4) [Ráðherra]2) skal setja nánari ákvæði með reglugerða) um framkvæmd slíkrar sameiginlegrar gjaldheimtu, m.a. um samræmingu gjalddaga einstakra opinberra gjalda sem innheimt verða með þessum hætti, um samræmingu dráttarvaxtareglna og um skyldur launagreiðenda.

(5) [Innheimtuaðilum samkvæmt þessari grein skal heimill aðgangur að fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrá í því skyni að sannreyna eignastöðu einstakra gjaldenda. Að tekinni ákvörðun um að krefjast aðfarar vegna vanskila opinberra gjalda er ríkisskattstjóra skylt að veita lög­lærðum fulltrúa innheimtuaðila aðgang að skattframtölum gjaldanda í þeim tilgangi að kanna eignastöðu viðkomandi. Ákvæði 1. og 5. mgr. 94. gr. eiga við um inn­heimtuaðila sam­kvæmt þessari grein á sama hátt og önnur skattyfirvöld.]5)

1)Sbr. 13. gr. laga nr. 80/2006. 2)Sbr. 377. gr. laga nr. 126/2011. 3)Sbr. 7. gr. laga nr. 146/2012. 4)Sbr. 6. gr. laga nr. 33/2015. 5)Sbr. 8. gr. laga nr. 112/2016. a)Reglugerð nr. 1060/2014.

Gjalddagar.
112. gr.

(1) [Tekjuskattur af öðrum tekjum en launatekjum hvers gjaldanda, sbr. þó 4. mgr.]1), skal greiddur á tíu gjalddögum á ári hverju. Eru gjalddagar fyrsti dagur hvers mánaðar nema í janúar og í þeim mánuði sem álagningu lýkur samkvæmt ákvörðun [ráðherra]4), sbr. 1. mgr. 93. gr. [Eindagi er síðasti virki dagur mánaðarins, sbr. þó 5. og 6. mgr.]5)6) Við skiptingu fyrirframgreiðslu og eftirstöðva álagningar á gjalddaga skv. 2. og 4. mgr. skal þó við það miðað að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en [5.000 kr.]7) á hverjum gjalddaga.

(2) Þar til álagning liggur fyrir skal gjaldanda, sem um ræðir í 1. mgr., gert að greiða á hverjum gjalddaga ákveðinn hundraðshluta skatta er honum bar að greiða næstliðið ár. Skal þessi hundraðshluti ákveðinn með reglugerð fyrir hvert ár og skal við ákvörðun hans hafa hliðsjón af tekjubreytingum sem orðið hafa svo og almennu efnahagsástandi. Hjá þeim sem inna af hendi staðgreiðslu skal hundraðshlutinn þó reiknast af mismun álagningar opinberra gjalda og staðgreiðslu, sbr. 35. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda*1).

(3) Hafi aðrar tekjur gjaldanda en launatekjur á liðnu ári verið mun lægri en á næsta ári þar áður eða ástæður hans hafa með öðrum hætti breyst mjög má lækka mánaðarlega fyrirframgreiðslu samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð. Á sama hátt má kveða á um að fyrirframgreiðsla, sem ekki nær tilteknu lágmarki, skuli ekki innheimt. Jafnframt er heimilt að takmarka fyrirframgreiðsluskyldu við þá sem ekki ber að inna af hendi staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

(4) Álagða skatta, að frádregnu því sem greiða ber fyrir álagningu skv. 2. mgr. þessarar greinar auk mismunar sem fram kemur á álagningu tekjuskatts og staðgreiðslu launamanns, sbr. 35. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda*1), að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur*2), skal greiða með sem næst jöfnum greiðslum á þeim gjalddögum sem eftir eru á árinu þegar álagning fer fram. [Frá álögðum tekjuskatti lögaðila sem falla undir 5. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki skal draga fjárhæð sem ákvörðuð er skv. 11. gr. þeirra laga áður en greiðsluskylda samkvæmt þessari málsgrein er ákvörðuð. Sé engin eða lægri greiðsluskylda fyrir hendi skal greiða frádráttinn út að hluta eða öllu leyti. Reglur um skuldajöfnun skattfrádráttar á móti opinberum gjöldum eða vörslusköttum til ríkissjóðs, þar á meðal um forgangsröð, skulu settar í reglugerða).]2)

(5) Vangreiðsla að hluta veldur því að skattar gjaldandans falla í eindaga [mánuði]5) eftir gjalddagann, þó ekki fyrr en [mánuði]5) eftir að álagningu er lokið.

(6) Séu skattar gjaldanda hækkaðir eftir álagningu fellur viðbótarfjárhæðin í gjalddaga 10 dögum eftir [dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra]7) um hækkunina. [Eindagi er mánuði eftir gjalddaga.]6)

(7) Þeim erlendu ríkisborgurum eða ríkisfangslausu mönnum, er fengið hafa dvalar- eða landvistarleyfi hér á landi um tiltekinn tíma, er skylt að gera full skil á [tekjuskatti]1) sínum fyrir brottför af landinu.

(8) Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð samskonar fyrirkomulag og ákveðið er í þessari grein á fyrirframinnheimtu annarra þinggjalda.

(9) Tekjuskattur, sem lagður er á reiknað endurgjald þeirra manna sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, skal þó vera gjaldfallinn [1. júní]7)8) ef skattaðili hefur eigi staðið skil á fjárhæð þeirri sem um ræðir í staðgreiðslu viðkomandi tekjuárs í samræmi við 6. og 20. gr. staðgreiðslulaga*1).

(10) Hafi innheimtumaður hafið aðför að skattaðila vegna skuldar sem myndast hefur í staðgreiðslu á reiknuðu endurgjaldi skulu þau aðfararúrræði, sem innheimtumaður hefur gripið til, halda lögformlegu gildi sínu við þann hluta kröfunnar sem rekja má til vangreiddrar staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi.

1)Sbr. 28. gr. laga nr. 129/2004. 2)Sbr. 4. gr. laga nr. 137/2009. 3)Sbr. 16 .gr. laga nr. 165/2010. 4)Sbr. 377. gr. laga nr. 126/2011. 5)Sbr. 13. gr. laga nr. 142/2013. 6)Sbr. 7. gr. laga nr. 33/2015. 7)Sbr. 14. gr. laga nr. 124/2015. 8)Sbr. 7. gr. laga nr. 50/2018. a)Reglugerð nr. 758/2011. *1)Lög nr. 45/1987. *2)Lög nr. 94/1996.

113. gr.

(1) Áfrýjun skattákvörðunar eða deila um skattskyldu frestar ekki eindaga [tekjuskatts]1) né leysir undan neinum viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. Víkja má frá þessu, ef sérstaklega stendur á, samkvæmt ákvörðun [ráðherra]4). Ef skattur er lækkaður eftir úrskurði eða dómi eða fellur niður skal endurgreiðsla þegar fara fram.

(2) Það skal vera stefna við innheimtu á tekjuskatti [---]1) samkvæmt lögum þessum að allir gjaldendur, sem eins stendur á um við innheimtu, vanskil og nauðungaraðgerðir, skuli hljóta sams konar meðferð.

(3) Telji innheimtumaður tök á að tryggja greiðslu kröfu, sem ella mundi tapast, með samningi um greiðslu skal hann gefa [ráðherra]4) skýrslu um málavöxtu. [Ráðherra]4) er heimilt að samþykkja slíkan samning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

(4) Telji innheimtumaður að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn skal hann gefa [ráðherra]4) skýrslu um málavöxtu. [Ráðherra]4) er heimilt að samþykkja nauðasamning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:

  1. Gjaldandi sé skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi.

  2. Skattkröfur séu ekki tilkomnar vegna endurákvörðunar skattyfirvalda á gjöldum vegna skattsvika.

  3. Ljóst sé að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi.

(5) Að loknu hverju innheimtuári skal Ríkisendurskoðun gefa Alþingi skýrslu um alla samninga skv. 3. mgr. og nauðasamninga skv. 4. mgr.

(6) [Til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim er rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, [enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga.]3) Með sama hætti er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá aðilum sem bera ábyrgð á skattgreiðslum skv. 116. gr.

(7) Tollstjóri annast rekstur mála skv. 6. mgr. Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal tilkynna tollstjóra um mál þar sem hann telur að rannsókn hans muni leiða til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim er rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að verði gerð fésekt. Tollstjóra er heimill aðgangur að öllum nauðsynlegum upplýsingum og gögnum sem skattyfirvöld, fjármálastofnanir og aðrir aðilar búa yfir, sbr. 94. gr., og snerta ráðstafanir samkvæmt þessari grein. Um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fer sem um kyrrsetningu fjármuna almennt sé að ræða, með þeim undantekningum að tryggingu þarf ekki að setja, mál þarf ekki að höfða til staðfestingar kyrrsetningu og gjöld skal ekki greiða fyrir ráðstafanirnar.

(8) Kyrrsetning fellur niður ef rannsókn leiðir ekki til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim er rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að verði gerð fésekt hvort sem er af skattyfirvöldum eða fyrir dómi. Sá er kyrrsetning beinist að á þá heimtingu á að felldar verði úr gildi þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til tryggingar kyrrsetningunni. Kyrrsetning fellur á sama hátt niður ef inntar eru af hendi þær greiðslur sem kyrrsetning á að tryggja.

(9) Leggja má fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála.]2)

1)Sbr. 29. gr. laga nr. 129/2004. 2)Sbr. 1. gr. laga nr. 23/2010. 3)Sbr. 4. gr. laga nr. 24/2011. 4)Sbr. 377. gr. laga nr. 126/2011.

Vextir.
114. gr.

(1) Sé skattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Með gjalddaga í þessu sambandi er átt við reglulega gjalddaga skv. 1.-4. og 6.-8. mgr. 112. gr., en gjaldfelling vegna vangreiðslu á hluta skv. 5. mgr. 112. gr. hefur ekki áhrif á dráttarvaxtaútreikning. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður skv. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

(2) Nú verður ljóst þegar álagningu skatta, annarra en tekjuskatts manna, lýkur eða við endurákvörðun þessara sömu skatta að gjaldandi hefur greitt meira en endanlega álögðum sköttum nemur og skal þá endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu ríkissjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama gildir þegar í ljós kemur við endurákvörðun á tekjuskatti manna að um ofgreiðslu hafi verið að ræða að öðru leyti en því að vextir reiknast aldrei fyrr en frá [1. júní]1) á álagningarári. [Endurgreiðslukröfum sem stofnast samkvæmt lögum þessum vegna tímabila fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti skal skuldajafna á móti vangoldnum sköttum og gjöldum, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 100. gr. og 136. gr. laga nr. 121/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.]1)

(3) Sé kæra til meðferðar hjá yfirskattanefnd og nefndin leggur ekki úrskurð á kæru innan lögboðins frests skv. 1. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 skal greiða skattaðila dráttarvexti af fjárhæð sem yfirskattanefnd úrskurðar að skuli endurgreiða, eða dæmd er síðar, frá þeim tíma þegar frestur nefndarinnar til að kveða upp úrskurð leið.

(4) Ætíð má krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmál telst höfðað til endurgreiðslu skatta samkvæmt lögum þessum.

1)Sbr. 8. gr. laga nr. 50/2018.

Skyldur launagreiðanda.
115. gr.

(1) Allir þeir, er hafa menn í þjónustu sinni og greiða laun fyrir starfa, sbr. 1. mgr. 92. gr., eru skyldir að kröfu innheimtumanns að halda eftir af kaupi launþega til lúkningar gjöldum þeirra aðila sem launþegar bera sjálfskuldarábyrgð á og innheimta ber samkvæmt ákvæðum 112. gr. Aldrei skulu launagreiðendur þó halda eftir meira en nemur 75% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni til greiðslu á gjöldum samkvæmt lögum þessum og gjöldum skv. IV. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga*1). Í reglugerða) skulu sett nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

(2) Hafi launagreiðandi vanrækt að halda eftir af launum ber hann sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess fjár.

(3) Krafa vegna fjár, sem launagreiðandi hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt þessari grein, nýtur lögtaksréttar hjá launagreiðanda.

(4) Launagreiðandi, sem eigi hefur skilað á réttum degi fé er hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir af launum, skal greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 114. gr. frá þeim degi sem skila átti fénu til innheimtumanns.

a)Reglugerð nr. 124/2001. *1)Lög nr. 4/1995.

Ábyrgð á skattgreiðslum.
116. gr.

(1) Hjón, sbr. 62. og 80. gr., bera óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Rétt er því hjóna, er skattgreiðslur annast, að krefjast endurgreiðslu af hinu hjóna á þeim hluta skatts er það hefur greitt umfram það sem að réttum hlutföllum kemur í þess hlut miðað við tekjur og eign hvors hjóna. Reglur þessarar málsgreinar um ábyrgð hjóna skulu gilda með sama hætti um samskattað sambúðarfólk [---]1).

(2) Þeir, sem hafa á hendi fjárforræði ólögráða manna, bera ábyrgð á skattgreiðslum þeirra. Eigendur sameignarfélags, sem er sjálfstæður skattaðili, bera óskipta ábyrgð á skattgreiðslum þess. Erfingjar í dánarbúi, sem skipt er einkaskiptum, bera óskipta ábyrgð á skattgreiðslum hins látna og dánarbúsins. Stjórnarmenn félaga, sjóða og stofnana, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. og 4. tölul. 3. gr., bera óskipta ábyrgð á skattgreiðslum þessara lögaðila.

(3) Þeir sem hafa í þjónustu sinni erlenda ríkisborgara eða ríkisfangslausa menn, er fengið hafa landvistar- eða dvalarleyfi hér á landi um tiltekinn tíma, bera ábyrgð á skattgreiðslum þeirra. Þeir sem greiða aðilum, sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, gjald fyrir leigu eða afnot af lausafé, einkaleyfi, framleiðslurétti, útgáfurétti eða sérþekkingu, arð af hlutafé eða endurgjald fyrir starfsemi eða þjónustu eða aðrar greiðslur, sem um er rætt í 3. gr., bera ábyrgð á sköttum viðtakenda vegna þessara greiðslna.

(4) Óheimilt er að slíta félagi fyrr en allir skattar þess hafa verið að fullu greiddir. Hafi félagi verið slitið án þess að skattar hafi verið greiddir bera skilanefndarmenn ábyrgð á skattgreiðslum. Hafi félagi verið skipt skv. 52. gr. án þess að skattar hafi verið greiddir bera þau félög sem við taka ábyrgð á skattgreiðslum.

(5) Gera má lögtak hjá þeim, sem ábyrgð ber á skatti, til tryggingar þeim sköttum er hann ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

(6) Með ábyrgð samkvæmt þessari grein er átt við sjálfskuldarábyrgð.

(7) [Ráðherra]2) er heimilt að krefjast þess að aðilar, sem um ræðir í 3. gr., setji tryggingu fyrir væntanlegum sköttum sínum og gjöldum svo og fyrir skattgreiðslum annarra aðila sem þeir eru ábyrgir fyrir.  

1)Sbr. 48. gr. laga nr. 65/2010. 2)Sbr. 377. gr. laga nr. 126/2011.

Fara efst á síðuna ⇑