Skattalagasafn ríkisskattstjóra 26.4.2024 04:37:40

Lög nr. 90/2003, kafli 12 - álagningarár 2020 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=90.2003.12&alagningarar=2020)
Ξ Valmynd

 Álagningarár:

XII. KAFLI.
Viðurlög og málsmeðferð.

Álag.
108. gr.

(1) Telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests má [ríkisskattstjóri]1) bæta allt að 15% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar. Þó skal [ríkisskattstjóri]1) taka tillit til að hve miklu leyti innheimta gjalda hefur farið fram í staðgreiðslu. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um þetta atriði*1). Berist framtal, sem álagning verður byggð á, eftir lok framtalsfrests, en áður en álagningu [ríkisskattstjóra]1) er lokið, má þó aðeins bæta 0,5% álagi á skattstofna fyrir hvern dag sem skil hafa dregist fram yfir frestinn, þó ekki hærra álagi en 10%.

(2) Séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir má [ríkisskatt­­stjóri]1) bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna. Bæti skattaðili úr ann­mörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má [ríkisskattstjóri]1) þó eigi beita hærra álagi en 15%.

(3) Fella skal niður álag samkvæmt grein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

(4) Um kæru til [ríkisskattstjóra]1) og yfirskattanefndar fer eftir ákvæðum 99. gr. laganna og ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

1)Sbr. 32. gr. laga nr. 136/2009. *1)Auglýsing nr. 9/1991.

Refsingar.
109. gr.

(1) Skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn [---]1) skal hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Skattur af álagi skv. 108. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga*1).

(2) Hafi skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að telja fram til skatts varðar það brot fésektum er aldrei skulu nema lægri fjárhæð en tvöfaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem á vantar ef áætlun reyndist of lág við endurreikning skatts skv. 2. mgr. 96. gr. laganna og skal þá skattur af álagi dragast frá sektarfjárhæð skv. 108. gr. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. hegningarlaga*1).

(3) Skýri skattskyldur maður rangt eða villandi frá einhverjum þeim atriðum er varða framtal hans má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á skattskyldu hans eða skatt­greiðslu.

(4) Verði brot gegn 1. eða 2. mgr. ákvæðisins uppvíst við skipti dánarbús skal úr búinu greiða fésekt allt að fjórfaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur þessari skattfjárhæð að viðbættum helmingi hennar. Skattur af álagi skv. 108  gr. dregst frá sektarfjárhæð. Sé svo ástatt sem í 3. mgr. segir má gera búinu sekt.

(5) Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi skattframtöl annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr. þessarar greinar.

(6) Hafi maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að gegna skyldu sinni sam­kvæmt ákvæðum 90., 92. eða 94. gr. skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

(7) Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga*1) og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.

(8) Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

1)Sbr. 27. gr. laga nr. 129/2004. *1)Sjá lög nr. 19/1940.

Málsmeðferð og [---]2) rannsókn. Fyrningarreglur.
110. gr.

(1) Yfirskattanefnd úrskurðar sektir skv. 109. gr. nema máli sé vísað til [---]2) rannsóknar og dómsmeðferðar skv. [4. mgr.]1) Um meðferð mála hjá nefndinni fer eftir lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Skattrannsóknarstjóri ríkisins kemur fram af hálfu hins opin­bera fyrir nefndinni þegar hún úrskurðar sektir. Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir.

(2) [Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skattrannsóknarstjóra ríkisins eða löglærðum fulltrúa hans heimilt að gefa aðila kost á að ljúka refsimeðferð máls með því að greiða sekt til ríkissjóðs, enda sé talið að brot sé skýlaust sannað, og verður máli þá hvorki vísað til [rannsóknar lögreglu]2) né sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd. Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota. Sektir geta numið frá 100 þús. kr. til 6 millj. kr. Aðila skulu veittar upp­lýsingar um fyrirhugaða sektarfjárhæð áður en hann fellst á að ljúka máli með þessum hætti. Sektarákvörðun samkvæmt ákvæði þessu skal lokið innan sex mánaða frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk.

(3) Vararefsing fylgir ekki ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins. Um innheimtu sekta sem ákveðnar eru af skattrannsóknarstjóra gilda sömu reglur og um skatta samkvæmt lögum þessum, þar á meðal um lögtaksrétt. Senda skal ríkissaksóknara skrá yfir mál sem lokið er sam­kvæmt þessu ákvæði. Telji ríkissaksóknari að saklaus maður hafi verið látinn gangast undir sektarákvörðun skv. 2. mgr. eða málalok hafi verið fjarstæð að öðru leyti getur hann borið málið undir dómara til ónýtingar ákvörðun skattrannsóknarstjóra.]1)

(4) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til [rannsóknar lögreglu]2) af sjálfsdáðum svo og eftir ósk sökunauts, ef hann vill eigi hlíta því að mál verði afgreidd af yfirskattanefnd skv. 1. mgr.

(5) [Skattakröfu má hafa uppi og dæma í sakamáli vegna brota á lögunum.]2)

(6) Sektir fyrir brot gegn lögum þessum renna í ríkissjóð.

(7) Vararefsing fylgir ekki sektarúrskurðum yfirskattanefndar. Um innheimtu sekta, er yfir­skattanefnd úrskurðar, gilda sömu reglur og um skatta skv. lögum þessum, þar á meðal um lögtaksrétt.

(8) Sök samkvæmt 109. gr. fyrnist á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skatt­rannsóknarstjóra ríkisins, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. [Þó fyrnist sök skv. 109. gr. vegna tekna og eigna í lágskattaríkjum á tíu árum.]3)

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 134/20052)Sbr. 79. tölul. 234. gr. laga nr. 88/20083)Sbr. 7. gr. laga nr. 112/2016. Ákvæðið gildir einnig um brot sem framin eru fyrir gildistöku laga þessara, enda sé fyrningarfrestur þeirra ekki hafinn.

Fara efst á síðuna ⇑