II. KAFLI
Ársreikningar.
Gerð ársreikninga.
18. gr.
(1) Ársreikningar aðila í A-hluta skulu hafa að geyma sömu upplýsingar og tilgreindar eru í 8. gr. eftir því sem við getur átt. Heimilt er hlutaðeigandi ráðherra og fjármálaráðherra að leita eftir kennitölum um umsvif og árangur af starfsemi stofnana til birtingar með ársreikningi umfram það sem kveðið er á um í 8. gr.
(2) Um ársreikninga ríkisaðila utan A-hluta gilda ákvæði laga um ársreikninga eða ákvæði sérlaga ef þau kveða á um jafnmiklar eða meiri kröfur til ársreikningagerðar.
Undirritun ársreikninga aðila í A-hluta.
19. gr.
Ársreikningur aðila í A-hluta skal undirritaður af forstöðumanni hans og aðalbókara. Um ábyrgð fyrir gerð ársreikningsins gilda ákvæði 49. gr.
Skil á ársreikningum.
20. gr.
(1) [Allir aðilar A-hluta skulu gera ársreikning og eignaskrá innan tveggja mánaða frá lokum reikningsárs og senda til Fjársýslu ríkisins, viðkomandi ráðuneytis og Ríkisendurskoðunar. Fjársýslu ríkisins er heimilt að lengja skilafrest um allt að 30 daga.
(2) Ríkisaðilar utan A-hluta skulu eigi síðar en 31. mars ár hvert hafa sent Fjársýslu ríkisins og viðkomandi ráðuneyti ársreikninga sína. Fjársýsla ríkisins getur framlengt skilafrestinn um allt að 30 daga.
(3) Einnig skulu þeir sem ekki eru ríkisaðilar og um getur í 3. málsl. 1. tölul. 3. gr. senda ársreikninga sína til Fjársýslu ríkisins, viðkomandi ráðuneytis og Ríkisendurskoðunar innan þess frests sem um getur í 1. mgr.
(4) Hverju ráðuneyti ber að sjá til þess að stofnanir, sem undir það heyra samkvæmt stjórnarráðslögum og reglugerð, uppfylli ákvæði laga um skilafrest ársreikninga.]1)
1)Sbr. 2. gr. laga nr. 95/2002.
- - - - - -