Skattalagasafn ríkisskattstjóra 2.11.2024 23:37:54

Lög nr. 4/1995, kafli 2 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=4.1995.2)
Ξ Valmynd

II. KAFLI

Um fasteignaskatt.
3. gr.

(1) [Leggja skal árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt [fasteignaskrá]2), sbr. þó 4. mgr. 4. gr. og 5. gr.

(2) Stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.

(3) Sveitastjórn ákveður fyrir lok árs skatthlutfall næsta árs innan þeirra marka sem greinir í a- og c-lið. Skatthlutfall skal vera sem hér segir:

  1. Allt að 0,5% af fasteignamati:
    Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði, [hesthús,]3) öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.

  2. 1,32% af fasteignamati ásamt lóðarréttindum:
    Sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn.

  3. Allt að 1,32% af fasteignamati ásamt lóðarréttindum:
    Allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

(4) Heimilt er sveitarstjórn að hækka um allt að 25% hundraðshluta þá sem tilgreindir eru í a- og c-liðum 3. mgr. þessarar greinar, öðrum eða báðum stafliðum.

(5) Í sveitarfélagi, þar sem bæði er þéttbýli og dreifbýli, er sveitarstjórn heimilt að undanþiggja fasteignir í dreifbýli og sumarhús álagi á fasteignaskatt skv. 4. mgr.]1)

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 140/2005. 2)Sbr. 24. gr. laga nr. 83/2008. 3)Sbr. 1. gr. laga nr. 56/2012.

4. gr.

(1) [Sveitarstjórn annast álagningu fasteignaskatts. Skal hún fara fram í fasteignaskrá og er sveitarstjórn heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.]4) Innheimtu skattsins getur sveitarstjórn falið sérstökum innheimtuaðila. Ráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd álagningar.

(2) Eigandi greiðir skattinn, nema um leigujarðir, leigulóðir eða önnur samningsbundin jarðarafnot sé að ræða. Þá greiðist skatturinn af ábúanda eða notanda.

(3) Verði ágreiningur um gjaldstofn skv. 3. gr. skal vísa honum til úrskurðar [Þjóðskrár Íslands]2)3). Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr. Úrskurðum nefndarinnar má skjóta til dómstóla.

(4) Sveitarstjórn ákveður fjölda gjalddaga fasteignaskatts fyrir upphaf árs en heimilt er sveitarstjórn að ákveða að skatturinn greiðist allur á einum gjalddaga ef álagning er undir tiltekinni fjárhæð. Fasteignaskattur leggst á nýjar lóðir og ný mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðamótum eftir að þau eru skráð og metin í [fasteignaskrá]2) í samræmi við upplýsingar sem [Þjóðskrá Íslands]2)3) lætur sveitarstjórnum í té. Fasteignaskattur fellur niður næstu mánaðamót eftir að mannvirki er afskráð í [fasteignaskrá]2).

(5) Eindagi fasteignaskatts er þrjátíu dögum eftir gjalddaga og fellur allur skattur ársins í gjalddaga ef vanskil verða.]1) 

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 140/2005. 2)Sbr. 24. gr. laga nr. 83/2008. 3)Sbr. 5. gr. laga nr. 77/2010. 4)Sbr. 6. gr. laga nr. 132/2018.

5. gr.

(1) [Undanþegnar fasteignaskatti eru eftirtaldar fasteignir ásamt lóðarréttindum:

  1. kirkjur og bænahús íslensku þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga [og samkomuhús skráðra lífsskoðunarfélaga]4 sem hlotið hafa skráningu [þess ráðuneytis er fer með málefni þjóðkirkjunnar]2)3);

  2. safnahús, að því leyti sem þau eru ekki rekin í ágóðaskyni;

  3. hús erlendra ríkja, að svo miklu leyti sem þau eru notuð af sendimönnum þeirra í milliríkjaerindum, og hús alþjóðastofnana, eftir því sem kveðið er á um í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og öðlast hafa stjórnskipulegt gildi hér á landi.

(2) Sveitarstjórn er heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis.

(3) Nú eru hús þau, sem um ræðir í 1. og 2. mgr. jafnframt notuð til annars en að framan greinir, svo sem til veitinga- eða verslunarreksturs eða til íbúðar fyrir aðra en húsverði, og ber sveitarstjórn þá að leggja á og innheimta fasteignaskatt í réttu hlutfalli við slík afnot.

(4) Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.

(5) Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt af bújörðum á meðan þær eru nýttar til búskapar og af útihúsum í sveitum ef þau eru einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis.]1)

1)Sbr. 4. gr. laga nr. 140/2005. 2)Sbr. 135. gr. laga nr. 162/2010. 3)Sbr. 206. gr. laga nr. 126/2011. 4)Sbr. 14. gr. laga nr. 6/2013.

6. gr.

[Ef afnotum fasteignar, sem metin er sem ein heild, er á þann veg háttað að greiða ber fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna, ákveður byggingarfulltrúi hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka.]1)

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 140/2005.

7. gr.

Fasteignaskattinum fylgir lögveð í fasteign þeirri, sem hann er lagður á, og skal ásamt dráttarvöxtum í tvö ár frá gjalddaga ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla. Ef hús brennur eftir að skatturinn er fallinn í gjalddaga er sami forgangsréttur fyrir honum í brunabótafjárhæð hússins.

Fara efst á síðuna ⇑