Skattalagasafn ríkisskattstjóra 27.11.2024 05:13:52

Lög nr. 3/2006, kafli 8 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=3.2006.8)
Ξ Valmynd

VIII. KAFLI
Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar.

88. gr.

(1) Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, þar sem bókunin er lögfest.

(2) Reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

Gildissvið kaflans.
89. gr.

Ákvæði þessa kafla gilda um félög sem falla undir lög þessi eins og nánar greinir í 90. og 92. gr.

Skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings og ársreiknings.
90. gr.

(1) Félag skv. [2. tölul.]2) 1. mgr. 1. gr. skal skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu samstæðureiknings síns.

(2) Félagi skv. 1. mgr., sem ber að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu samstæðureiknings skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, er [heimilt]1) að beita þeim einnig við samningu ársreiknings síns. […]2)

(3) […]2)

(4) Félag skv. [2. tölul. 1. mgr. 1. gr.]2), sem ekki er skylt að semja samstæðureikning, skal beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu ársreiknings síns.

1)Sbr.8. gr. laga nr. 171/2007. 2)Sbr. 53. gr. laga nr. 73/2016.

 

91. gr.

Félag, sem skylt er að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum skv. 90. gr. og uppfyllir ekki lengur skráningu á skipulögðum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, [í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum]1) skal beita stöðlunum við samningu [samstæðureiknings eða]2) ársreiknings fyrir það sama ár og það næsta á eftir. Þetta ákvæði á þó ekki við um dótturfélög sem eru ekki lengur hluti af samstæðunni. [Taki félag ákvörðun um að hætta beitingu staðlanna skal það tilkynna ársreikningaskrá um þá fyrirætlun sína fyrir upphaf nýs reikningsárs.]3)

1)Sbr. 12. gr. laga nr. 108/2006. 2)Sbr. 9. gr. laga nr. 171/2007. 3)Sbr. 54. gr. laga nr. 73/2016.

Heimild til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.
92. gr.

(1) [Félagi skv. 1. gr. er heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreiknings síns. Sama gildir um samstæðureikning félagsins ef við á.]3)

(2) [Félagi skv. 1. mgr. sem kýs að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu samstæðureiknings sem því er skylt að semja er einnig heimilt að beita þeim við samningu ársreiknings síns]1). [---]2) [---]3)

(3) Félag samkvæmt þessari grein skal tilkynna ársreikningaskrá fyrir upphaf viðkomandi reikningsárs ákvörðun sína um að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðum samkvæmt þessum kafla. Félag skal beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í fimm ár samfleytt hið minnsta. [Taki félag ákvörðun um að hætta beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, eftir að hafa beitt þeim samfleytt í fimm ár, skal það tilkynna ársreikningaskrá um þá fyrirætlun sína fyrir upphaf nýs reikningsárs.]3)

(4) Ársreikningaskrá skal birta reglulega með rafrænum og aðgengilegum hætti lista yfir félög sem skyld eru til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða nýta sér heimild samkvæmt þessari grein.

1)Sbr. a lið 10. gr. laga nr. 171/2007. 2)Sbr. b lið 10. gr. laga nr. 171/2007. 3)Sbr. 55. gr. laga nr. 73/2016.

Um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
93. gr.

(1) Félag, sem skylt er að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða nýtir sér heimild 92. gr., skal fylgja þeim að öllu leyti. Þar sem alþjóðlegir reikningsskilastaðlar, sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, og ákvæði annarra kafla laga þessara mæla fyrir um sama atriði ganga alþjóðlegir reikningsskilastaðlar framar.

(2) Að því leyti sem ekki er kveðið á um tiltekið atriði í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, gilda önnur ákvæði laga þessara.

Eftirlit með beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
94. gr.

(1) Ársreikningaskrá skal hafa eftirlit með öllum félögum sem skylt er að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða nýta sér heimild til beitingar þeirra […]3) [Eftirlitið nær jafnframt til árshlutareikninga, sbr. VII. kafla A]1).

(2) Ársreikningaskrá getur krafist allra þeirra upplýsinga og gagna sem nauðsynleg eru til að framkvæma eftirlitið, þ.m.t. vinnuskjöl sem varða reikningsskil frá stjórn, framkvæmdastjóra og endurskoðanda félagsins.

(3) Ársreikningaskrá er heimilt að kalla aðila með sérfræðiþekkingu til aðstoðar við eftirlit. Jafnframt er ársreikningaskrá í einstökum tilvikum heimilt að fela sérfróðum aðilum það eftirlit sem ársreikningaskrá er falið samkvæmt lögum þessum.

(4) [Þegar um er að ræða félag sem er með skráða skrifstofu utan Evrópska efnahagssvæðisins en gefur út verðbréf sín sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi skal ársreikningaskrá hafa eftirlit með því hvort ársreikningur sem saminn er samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum heimaríkis er hliðstæður ákvæðum þessara laga. Ráðherra getur sett reglugerð um nánari ákvæði varðandi framkvæmd þessa eftirlits.]2)

(5) Ársreikningaskrá skal birta með rafrænum og aðgengilegum hætti niðurstöður [eftirlits ársins]3) sem framkvæmt hefur verið samkvæmt þessari grein.

1)Sbr. 11. gr. laga nr. 171/2007. 2)Sbr. 2. gr. laga nr. 118/2011. 3)Sbr. 56. gr. laga nr. 73/2016.

[94. gr. a.
Dagsektir.

(1) Ársreikningaskrá getur lagt dagsektir á eftirlitsskyld félög samkvæmt kafla þessum veiti þau ekki umbeðnar upplýsingar innan hæfilegs frests. Greiðast dagsektirnar þangað til umbeðnar upplýsingar hafa borist ársreikningaskrá. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til fjárhagslegs styrkleika viðkomandi félags og hvort um ítrekað brot er að ræða.

(2) Ákvörðun um dagsektir má skjóta til yfirskattanefndar innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana.

(3) Áfallnar dagsektir falla ekki niður þó að eftirlitsskylt félag verði síðar við kröfu ársreikningaskrár.

(4) Dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar og renna til ríkissjóðs.

(5) Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

94. gr. b.
Úrskurðir.

(1) Komist ársreikningaskrá að þeirri niðurstöðu að reikningsskil eftirlitsskylds félags séu ekki í samræmi við ákvæði laganna getur ársreikningaskrá krafist þess að reikningsskilin séu leiðrétt og að félagið birti breytingar og/eða viðbótarupplýsingar sem nauðsynlegar eru. Ársreikningaskrá getur birt opinberlega upplýsingar um nauðsynlegar breytingar á reikningsskilum verði félagið ekki við kröfum hennar. Þessu til viðbótar getur ársreikningaskrá óskað eftir því við viðkomandi kauphöll að viðskiptum með verðbréf eftirlitsskylds félags verði hætt tímabundið á skipulegum verðbréfamarkaði, þar til félagið hefur birt fullnægjandi reikningsskil og/eða viðbótarupplýsingar að mati ársreikningaskrár.

(2) Úrskurður ársreikningaskrár er kæranlegur til fjármálaráðherra innan 14 daga frá því að hann er kynntur þeim er hann beinist að. Tekur úrskurðurinn ekki gildi ef kært er nema ráðherra staðfesti hann. Að öðru leyti skal farið með brot á lögum þessum í samræmi við ákvæði XII. kafla].1)

1)Sbr. 12. gr. laga nr. 171/2007.

Umsýslu- og eftirlitsgjald.
95. gr.

(1) [Gjaldskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum eru félög sem skylt er að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, sbr. 90. gr., eða nýta sér heimild skv. 92. gr. Þau skulu greiða árlegt umsýslu- og eftirlitsgjald sem nemur 100.000 kr. á hvert móðurfélag og 50.000 kr. á hvert dótturfélag innan samstæðu þess. Hafi dótturfélag skráð verðbréf á skipulögðum verðbréfamarkaði, [sbr. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. ],3) skal gjaldið fyrir dótturfélagið vera 100.000 kr. og 50.000 kr. fyrir dótturfélög þess og fellur þá gjaldskylda móðurfélagsins vegna þeirra félaga niður.]2)

(2) Ársreikningaskrá sér um innheimtu gjaldsins og renna tekjur af gjaldinu í ríkissjóð.

(3) Gjalddagi umsýslu- og eftirlitsgjalds er 1. febrúar og eindagi 15. febrúar. Sé gjald greitt eftir eindaga hverrar greiðslu reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu.

(4) [Við upphaf hvers reikningsárs skulu félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum samkvæmt þessum kafla gera ársreikningaskrá grein fyrir öllum dótturfélögum sínum [á liðnu reikningsári]2) sem eru innifalin í samstæðureikningsskilunum og hvert af þeim beita stöðlunum].1)

1)Sbr. 13. gr. laga nr. 171/2007. 2)Sbr. 9. gr. laga nr. 14/2013. 3)Sbr. 57. gr. laga nr. 73/2016.

Fara efst á síðuna ⇑