Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.11.2024 13:05:52

Lög nr. 3/2006, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=3.2006.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Almenn ákvæði.

Gildissvið.
1. gr
.

(1) [Lög þessi gilda um félög með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila eins og greinir í 1. og 2. tölul. og félög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila eins og greinir í 3. tölul.:

1.     Hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög, samvinnufélög og samvinnusambönd, sparisjóði og skráð útibú erlendra félaga og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, sbr. lög nr. 33/1999.
2.     Félög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
3.     Sameignarfélög og önnur félög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila, svo og samlagsfélög, ef félagsaðilar þeirra eru eingöngu félög sem talin eru upp í 1. tölul., sem og samlagsfélög þar sem ábyrgðaraðilar eru félög sem talin eru upp í 1. og 2. tölul. Enn fremur gilda lög þessi um sameignarfélög, og önnur félög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila, svo og samlagsfélög, enda séu þau skráð í firmaskrá og séu meðalstór eða stór félög, sbr. ákvæði c- og d-liðar 11. tölul. 2. gr.1)

(2) Ef félag skv. 2. málsl. [3. tölul. ] 1) 1. mgr., sem uppfyllt hefur framangreind skilyrði, gerir það ekki lengur tvö ár í röð er því ekki skylt að fara að ákvæðum laga þessara.

(3) Sameignarfélögum og samlagsfélögum, sem um ræðir í [3. tölul. ] 1) 1. mgr., er ekki skylt að semja ársreikninga ef allar tekjur og gjöld, eignir og skuldir þeirra eru meðtaldar í ársreikningum félagsaðilanna.

(4) Lög þessi skulu víkja fyrir ákvæðum um ársreikninga í sérlögum, enda byggist þau á ákvæðum tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins um ársreikninga tiltekinna félaga með takmarkaðri ábyrgð.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 73/2016.

 

Skilgreiningar.
2. gr.

[Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:

1.     Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar: Reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002.

2.     Ársreikningaskrá: Skrá sem starfrækt er í því skyni að taka á móti, varðveita og veita aðgang að skilaskyldum gögnum ásamt því að hafa eftirlit með að þessi gögn séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og settra reikningsskilareglna.

3.     Ársverk: Jafngildi vinnuframlags eins manns í fullu starfi í eitt ár. Vinna þeirra sem ekki störfuðu allt árið, vinna þeirra sem voru í hlutastarfi, óháð tímalengd, og vinna árstíðabundinna starfsmanna reiknast sem brot af ársverki. Til starfsmanna teljast:

  1. starfsmenn,
  2. eigendur og/eða framkvæmdastjórar sem starfa hjá félaginu. (1)

Lærlingar eða iðnnemar sem eru í námi eða starfsþjálfun samkvæmt samningi og starfa ekki gegn endurgjaldi teljast ekki til starfsmanna. Sama á við um starfsmenn sem eru í fæðingarorlofi og foreldraorlofi. (2)

4.     Dótturfélag: Félag sem móðurfélag hefur yfirráð yfir, þ.m.t. öll dótturfélög endanlegs móðurfélags.

5.     Eign: Fjármunur sem félag hefur yfirráð yfir á grundvelli viðskipta eða í tengslum við atburði sem hafa átt sér stað og sem talið er að félagið muni hafa fjárhagslegan ávinning af í framtíðinni.

6.     Eignarhaldsfélag: Félag sem hefur það eitt að markmiði að eignast hluti í öðrum félögum og fara með umsýslu þeirra og skila arði af þeim, án þess að taka sjálft beinan eða óbeinan þátt í að reka félögin, þó með fyrirvara um rétt þeirra sem hluthafa.

7.     Eignarhluti: Hlutdeild félagsaðila í hlutafélögum, einkahlutafélögum og eigin fé annarra félaga.

8.     Eignatengd félög: Tvö eða fleiri félög innan samstæðu.

9.     Eining tengd almannahagsmunum:

  1. lögaðili sem er með skráð lögheimili á Íslandi og hefur verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum,
  2. lífeyrissjóður sem hefur fullgilt starfsleyfi,
  3. lánastofnun eins og hún er skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki,
  4. félag sem hefur starfsleyfi til að reka vátryggingastarfsemi hér á landi samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
  5. [lögaðili sem á fiskiskip með aflahlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul., sem og lögaðili sem hefur rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul.,
  6. stórnotandi, dreifiveita eða flutningsfyrirtæki samkvæmt skilgreiningum raforkulaga, sem telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul., sem og lögaðili sem starfrækir raforkuver/virkjun samkvæmt skilgreiningu raforkulaga, eða hitaveitu samkvæmt skilgreiningu orkulaga, og telst vera stórt félag í skilningi laganna,
  7. lögaðili sem hefur flugrekstrarleyfi samkvæmt lögum um loftferðir og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul.,
  8. lögaðili sem hefur leyfi til rekstrar fjarskiptanets samkvæmt lögum um fjarskipti og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul.,
  9. lögaðili sem sinnir farmflutningum samkvæmt siglingalögum og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul.]2)

10.   Fastafjármunir: Eignir sem eru ætlaðar til notkunar í starfsemi fyrirtækis í a.m.k. 12 mánuði frá reikningsskiladegi.

11.   Félag: Félag skv. 1. gr. sem semja skal ársreikning og samstæðureikning samkvæmt lögum þessum:

  1. örfélag: félag sem við uppgjörsdag fer ekki yfir mörkin á a.m.k. tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðunum
1.     heildareignum: 20.000.000 kr.,
2.     hreinni veltu: 40.000.000 kr.,
3.     meðalfjölda ársverka á fjárhagsárinu: 3,

 

  1. lítið félag: félag sem við uppgjörsdag fer ekki yfir mörkin á a.m.k. tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðunum:
1.               heildareignum: 600.000.000 kr.,
2.               hreinni veltu: 1.200.000.000 kr.,
3.               meðalfjölda ársverka á fjárhagsárinu: 50,

 

  1. meðalstórt félag: félag sem er ekki lítið félag og sem við uppgjörsdag fer ekki yfir mörkin á a.m.k. tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðunum:
1.     heildareignum: 3.000.000.000 kr.,
2.     hreinni veltu: 6.000.000.000 kr.,
3.     meðalfjölda ársverka á fjárhagsárinu: 250,

 

  1. stórt félag: félag sem við uppgjörsdag fer yfir mörkin á a.m.k. tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðunum:
1.     heildareignum: 3.000.000.000 kr.,
2.     hreinni veltu: 6.000.000.000 kr.,
3.     meðalfjölda ársverka á fjárhagsárinu: 250,

 

  1. fara skal með fyrirtæki skv. 1. gr. sem er eining tengd almannahagsmunum sem stórt félag án tillits til hreinnar veltu, niðurstöðutölu efnahagsreiknings eða fjölda ársverka á fjárhagsárinu. (1)

Við útreikning viðmiðunarmarka móðurfélags skal miða við stærðir í samstæðureikningi fyrir þau félög sem semja slíkan reikning en leggja skal saman viðmiðunarmörk móðurfélags og allra dótturfélaga ef móðurfélagið semur ekki samstæðureikning. Ef hrein velta er ekki lýsandi fyrir starfsemi félags skal miða við aðrar tekjur, þ.m.t. tekjur af fjármálagerningum og söluhagnað.(2)

Flokkun félaga skal ekki breytast nema félag annaðhvort fari yfir eða undir viðmiðunarmörk viðkomandi og síðastliðins reikningsárs.(3)

12.   Félagsaðili: Hluthafi í hlutafélagi eða eigandi eignarhluta í öðru félagi sem lög þessi taka til.

13.   Fjáreign: Sérhver eign sem felst í reiðufé, rétti samkvæmt samningi til að fá greitt reiðufé eða aðra fjáreign frá öðrum aðila, rétti samkvæmt samningi til að skipta á skjölum við annan aðila með kjörum sem geta verið hagstæð, eða skírteini fyrir hlut í eigu annars aðila.

14.   Fjáreignir tilgreindar á gangvirði gegnum rekstur við upphaflega skráningu: Fjármálagerningar sem ekki teljast vera veltufjáreignir en félag hefur kosið að færa á gangvirði og gangvirðisbreytingar í rekstrarreikning.

15.   Fjárfestingarfasteign: Fasteign, land, bygging eða hluti byggingar, sem ætluð er til öflunar tekna, svo sem til útleigu eða í öðru ágóðaskyni, en ekki til notkunar í rekstri félags við framleiðslu, vörslu vörubirgða, þjónustu í rekstri félagsins, í stjórnunarlegum tilgangi eða til sölu í hefðbundnum rekstrartilgangi.

16.   Fjárfestingarfélag:

  1. félag sem hefur það eitt að markmiði að festa fé sitt í ýmiss konar verðbréfum, fasteignum og öðrum eignum, í því skyni að dreifa áhættu við fjárfestingar og afla félagsaðilum fjárhagslegs ávinnings af umsýslu eignanna,
  2. félag tengt fjárfestingarfélögum með fastafjármuni, ef eina markmið þess er að eignast hluti sem greiddir eru að fullu og gefnir hafa verið út af fjárfestingarfélögum.

17.   Fjármálagerningur: Fjármálagerningur samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.

18.   Framleiðslukostnaður: Innkaupsverð hráefnis, kostnaðarverð óvaranlegra neysluvara og annar kostnaður sem má rekja til viðkomandi vöru. Sanngjarnt hlutfall fasts kostnaðar eða breytilegs óbeins kostnaðar, sem rekja má til vörunnar, er fellt inn í verðið að því marki sem slíkur kostnaður tengist framleiðslutímabilinu. Dreifingarkostnaður fellur þó ekki undir þessa skilgreiningu.

19.   Gangvirði: Verðið sem fengist við sölu á eign eða yrði greitt við yfirfærslu skuldar í eðlilegum viðskiptum á milli markaðsaðila á matsdegi.

20.   Glögg mynd: Glögg mynd felst í áreiðanlegri framsetningu á áhrifum viðskipta, öðrum atburðum og skilyrðum í samræmi við skilgreiningar og reglur um skráningu eigna, skulda, tekna og gjalda sem fram koma í lögum þessum, reglugerðum og settum reikningsskilareglum.

21.   Hlutdeild: Réttur til eigin fjár annarra félaga, hvort sem skírteini hefur verið gefið út fyrir honum eða ekki, sem ætlað er að efla starfsemi félagsins sem réttinn á með því að mynda varanleg tengsl við þau. Eignarhald á hluta af eigin fé annars félags telst hlutdeild ef það er a.m.k. 20%.

22.   Hlutdeildarfélag: Félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag á hlutdeild í og það félag hefur veruleg áhrif á rekstrar- og fjármálastefnu hins félagsins. Félag er álitið hafa veruleg áhrif í öðru félagi ef það á 20% eða meira af atkvæðisrétti félagsaðila í því fyrirtæki.

23.   Hrein velta: Tekjur af sölu og þjónustu í reglulegri starfsemi að frádregnum afslætti og sköttum sem tengjast sölunni beint.

24.   Kaupverð: Verð sem greiða skal og útgjöld sem falla til að frádregnum hugsanlegum lækkunum sem verða á kostnaðarverði þess sem keypt er.

25.   Langtímakröfur og áhættufjármunir: Kröfur eða aðrar fjárfestingar sem reiknað er með að verði áfram í eign viðkomandi í a.m.k. eitt ár. Langtímakröfur og áhættufjármunir í ársreikningum fyrirtækja eru hlutabréf í öðrum félögum, önnur verðbréf, ásamt öðrum sérstaklega skilgreindum langtímakröfum.

26.   Langtímaskuldir: Allar aðrar skuldir en þær sem falla undir ákvæði 37. tölul.

27.   Matsgrundvöllur: Þær aðferðir sem beitt er við mat á virði einstakra flokka eigna og skuldbindinga í reikningsskilum, svo sem kostnaðarverðsmat eða gangvirðismat.

28.   Mikilvægi: Upplýsingar eru mikilvægar ef það að þeim sé sleppt eða þær séu rangar getur haft áhrif á efnahagslegar ákvarðanir sem notendur reikningsskilanna kunna að taka á grundvelli þeirra. Mikilvægi einstakra liða skal metið í tengslum við aðra sambærilega liði.

29.   Móðurfélag: Félag sem hefur yfirráð í öðru félagi. (1)

Við útreikning á atkvæðamagni í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum skal:

  1. leggja saman atkvæðamagn móðurfélags og dótturfélaga í viðkomandi félagi,
  2. draga frá heildaratkvæðamagninu í viðkomandi félagi atkvæðamagn sem er í höndum þess sjálfs eða dótturfélaga þess og
  3. draga frá atkvæðamagni móðurfélagsins það atkvæðamagn sem það hefur til tryggingar ef félagið beitir aðeins atkvæðisréttinum í samræmi við fyrirmæli þess sem setti trygginguna, eða ef umráðin eru liður í lánastarfsemi og atkvæðisréttinum er aðeins beitt í þágu þess sem setti trygginguna. (2)

30.   Óefnisleg eign: Eign sem er aðgreinanleg og ópeningaleg og er ekki í hlutkenndu formi.

31.   Reikningsskilaaðferðir: Meginreglur, matsgrundvöllur, reglur og starfshættir sem beitt er við gerð ársreiknings.

32.   Rekstrarhæfi: Félag er talið vera rekstrarhæft nema stjórnendur þess ætli sér að leysa félagið upp eða hætta rekstri þess eða hafa ekki raunhæft val um annað en að hætta starfsemi félagsins. Við mat á rekstrarhæfi skulu stjórnendur taka tillit til allra fyrirliggjandi upplýsinga um framtíðarhorfur í rekstri félags.

33.   Samstæða: Móðurfélag og öll dótturfélög þess:

  1. lítil samstæða: samstæða sem á samstæðugrundvelli fer ekki yfir mörkin á a.m.k. tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðunum við uppgjörsdag móðurfélagsins:
1.     niðurstöðutölu efnahagsreiknings: 600.000.000 kr.,
2.     hreinni veltu: 1.200.000.000 kr.,
3.     meðalfjölda ársverka á fjárhagsárinu: 50,
  1. meðalstór samstæða: samstæða, þó ekki lítil samstæða, sem á samstæðugrundvelli fer ekki yfir mörkin á a.m.k. tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðunum við uppgjörsdag móðurfélagsins:
1.     niðurstöðutölu efnahagsreiknings: 3.000.000.000 kr.,
2.     hreinni veltu: 6.000.000.000 kr.,
3.     meðalfjölda ársverka á fjárhagsárinu: 250,
  1. stór samstæða: samstæða sem á samstæðugrundvelli fer yfir mörkin á a.m.k. tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðunum við uppgjörsdag móðurfélagsins:
1.     niðurstöðutölu efnahagsreiknings: 3.000.000.000 kr.,
2.     hreinni veltu: 6.000.000.000 kr.,
3.     meðalfjölda ársverka á fjárhagsárinu: 250. (1)
 

Flokkun samstæðu skal ekki breytast nema samstæða annaðhvort fari yfir eða hætti að fara yfir viðmiðunarmörk viðkomandi og síðastliðins reikningsárs. (2)

34.   Samstæðureikningur: Reikningsskil þar sem reikningar móðurfélags og dótturfélaga þess eru sameinaðir í eitt.

35.   Settar reikningsskilareglur: Reglur sem reikningsskilaráð gefur út, sbr. 119. gr., og alþjóðlegir reikningsskilastaðlar, sbr. 1. tölul.

36.   Skammtímakröfur: Kröfur sem gert er ráð fyrir að fáist greiddar innan tólf mánaða.

37.   Skammtímaskuldir: Skuldir sem uppfylla eitt af eftirfarandi skilyrðum:

  1. skuld er haldið í þeim tilgangi að hagnast á skammtímaverðbreytingum,
  2. skuldin er gerð upp innan tólf mánaða frá dagsetningu efnahagsreiknings eða
  3. ekki er til staðar réttur til að fresta greiðslu skuldarinnar lengur en í tólf mánuði frá dagsetningu efnahagsreiknings.

38.   Skipulegur verðbréfamarkaður: Markaður með verðbréf samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.

39.   Skuld: Núverandi skuldbinding félags sem hefur orðið til vegna viðskipta eða atburða sem hafa átt sér stað og gert er ráð fyrir að uppgjör skuldarinnar muni hafa í för með sér útstreymi verðmæta sem fela í sér fjárhagslegan ávinning.

40.   Tekjur: Aukning eigna eða lækkun skulda á yfirstandandi reikningstímabili vegna afhendingar á vörum eða þjónustu eða vegna annarrar starfsemi félags, annarrar en þeirrar sem stafar af framlögum eigenda félagsins í hlutverki þeirra sem eigendur félagsins.

41.   Tengdur aðili: Hefur sömu merkingu og samkvæmt viðeigandi alþjóðlegum reikningsskilastaðli sem settur er á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt.

42.   Útgjöld: Lækkun eigna eða hækkun skulda á yfirstandandi reikningstímabili vegna móttöku á vörum eða þjónustu eða vegna annarrar starfsemi eða atburða í rekstri félags, annarra en þeirra sem stafa af úttektum eigenda í hlutverki þeirra sem eigendur félagsins.

43.   Varanlegir rekstrarfjármunir: Efnislegar eignir sem eru notaðar til framleiðslu á vörum eða þjónustu, til útleigu eða í stjórnunarlegum tilgangi og eru ætlaðar til nota lengur en í eitt ár.

44.   Veltufjáreignir: Þær fjáreignir sem hafa verið keyptar í þeim tilgangi að hagnast á skammtímaverðbreytingum eða á miðlaraþóknun.

45.   Veltufjármunir: Þær eignir sem ekki teljast til fastafjármuna samkvæmt skilgreiningu 10. tölul.

46.   Verðbréf: Verðbréf samkvæmt skilgreiningu á fjármálagerningi í lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

47.   Virðisbreyting: Breytingar á verðgildi einstakra eigna eða skuldbindinga sem staðfestast við dagsetningu efnahagsreiknings hvort sem breytingin er varanleg eða ekki.

48.   Yfirráð: Hefur sömu merkingu og samkvæmt viðeigandi alþjóðlegum reikningsskilastaðli sem settur er á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt.]1)

1) Sbr. 2. gr. laga nr. 73/20162) Sbr. 1. gr. laga nr. 102/2020. Ákvæðið öðlast gildi og kemur til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2021 eða síðar

Samning ársreiknings.
3. gr.

[(1) Félög skv. 1. gr. skulu semja ársreikning í samræmi við lög þessi, reglugerðir og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.]1)  [Sé ekki mælt fyrir um tiltekið atriði í lögum þessum eða reglugerðum skal fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum.]2) 

(2) Stjórn og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á gerð, skilum og birtingu ársreiknings fyrir hvert reikningsár. Í félögum sem hafa ekki formlega stjórn hvílir þessi skylda á öllum félagsaðilum sameiginlega. Í ársreikningi skal koma fram nafn félags, félagsform, kennitala félagsins og aðsetur. Ársreikningurinn skal að lágmarki hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Ársreikningur lítilla, meðalstórra og stórra félaga skal einnig hafa að geyma skýrslu stjórnar og ársreikningur meðalstórra og stórra félaga skal einnig hafa að geyma sjóðstreymisyfirlit.2)  

(3) Stjórn og framkvæmdastjóri skulu undirrita ársreikninginn og ef um er að ræða móðurfélag skulu þau [einnig]2)   undirrita samstæðureikninginn. Í undirrituninni felst að ársreikningurinn er saminn í samræmi við lög þessi, reglugerðir og settar reikningsskilareglur, ef við á. Ef stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri telur að ekki skuli samþykkja ársreikninginn eða samstæðureikninginn, eða hann hefur mótbárur fram að færa sem hann telur rétt að félagsaðilar fái vitneskju um, ber honum skylda til að gera grein fyrir því í áritun sinni.

[(4) Hafi ársreikningur verið endurskoðaður skal ársreikningurinn og áritun endurskoðanda mynda eina heild.

(5) Hafi skoðunarmaður yfirfarið ársreikninginn skal undirritun hans og dagsetning vera fylgiskjal með ársreikningi.

(6) Ársreikningurinn skal lagður fram í samræmið við samþykktir félagsins en í síðasta lagi viku fyrir aðalfund.]1)

[(7) Í stað ársreiknings skv. 1. mgr. er örfélögum heimilt að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit, byggð á skattframtali félagsins. Teljast slík rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit gefa glögga mynd af afkomu og efnahag félagsins í skilningi 20. tölul. 2. gr. Ársreikningaskrá skal gera örfélögum kleift, við rafræn skil til skrárinnar, að nota innsendar upplýsingar til ríkisskattstjóra til að semja rekstraryfirlitið og efnahagsyfirlitið. Ekki er skylt að skoðunarmaður yfirfari slík reikningsyfirlit. Ráðherra setur reglugerð um framsetningu rekstraryfirlits og efnahagsyfirlits og önnur atriði skv. 1. málsl. við beitingu 3. málsl.

(8) Undanþáguheimild skv. 7. mgr. gildir ekki fyrir:

  1. félög sem falla undir skilgreiningu laga þessara á einingum tengdum almannahagsmunum,
  2. önnur félög en fram koma í a-lið og falla undir ákvæði 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,
  3. félög sem falla undir skilgreiningu laga þessara á fjárfestingarfélögum,
  4. félög sem falla undir skilgreiningu laga þessara á eignarhaldsfélögum,
  5. félög sem nýta sér undanþáguheimildir IV. kafla frá beitingu kostnaðarverðsreikningsskila.

(9) Félag sem nýtir sér heimild skv. 7. mgr. til að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit byggð á skattframtali félagsins skal, ef við á, upplýsa um eftirfarandi:

  1. skuldbindingar, ábyrgðir og ábyrgðarskuldbindingar sem ekki koma fram í efnahagsreikningi,
  2. fyrirframgreiðslur og lánveitingar til stjórnenda og eigenda félagsins, þ.m.t. upplýsingar um vaxtakjör, skilmála, endurgreiðslur stjórnenda og eigenda og niðurfellingar á skuldum stjórnenda og eigenda í heild eða að hluta og
  3. nafnverð hluta sem félag á í sjálfu sér og hlutfall þeirra af heildarhlutafé; hafi félag eignast hlut í sjálfu sér á árinu skal það upplýsa um ástæður kaupanna, heildarfjölda keyptra hluta á árinu, hlutfall þeirra af heildarhlutafé, nafnverð hlutanna og kaupverð þeirra og hafi félag selt hlut í sjálfu sér á árinu skal það upplýsa um heildarfjölda seldra hluta og söluverð þeirra.]2)

1) Sbr. 2. gr. laga nr. 14/2013. 2)  Sbr. 3. gr. laga nr. 73/2016.
 

Reikningsár.
4. gr.

Reikningsárið skal vera tólf mánuðir og miðast við mánaðamót. Nýtt reikningsár hefst daginn eftir að fyrra reikningsári lýkur. Við stofnun og slit félags eða þegar verið er að breyta reikningsári getur reikningsárið verið skemmra en tólf mánuðir. Reikningsári verður því aðeins breytt síðar að sérstakar aðstæður gefi tilefni til. [Breytingin skal tilgreind í samþykktum félagsins og rökstudd í skýringum með fyrsta ársreikningi eftir breytinguna]1). Reikningsár frá lokum fyrra reikningsárs að upphafi hins breytta reikningsárs getur þó verið allt að 15 mánuðir ef það er nauðsynlegt til að breyta reikningsári til samræmis við reikningsár samstæðu sem félagið er hluti af eða rekstrarári samrekstrarfélags sem það er eigandi að, sbr. 3. mgr. 40. gr.

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 171/2007.

Glögg mynd.
5. gr.

(1) [Ársreikningur skal gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé.]1)

(2) [Ef ákvæði laga þessara nægja ekki til að gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé skal félagið veita viðbótarupplýsingar svo að reikningurinn gefi glögga mynd. Ef ákvæði laga þessara leiða til þess að reikningurinn gefi villandi mynd skal vikið frá þeim í undantekningartilvikum til þess að reikningurinn gefi glögga mynd í skilningi 20. tölul. 2. gr. og skal félagið þá upplýsa um eftirfarandi atriði í skýringum:

  1. að stjórnendur félagsins telji að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu, afkomu og breytingum á handbæru fé ef við á,
  2. að gerð og framsetning ársreikningsins sé í samræmi við lög þessi fyrir utan frávik frá tilteknum ákvæðum laga þessara í því skyni að ársreikningurinn gefi glögga mynd,
  3. í hverju frávikið er fólgið, ástæðu þess að beiting laganna hefði haft það í för með sér að reikningurinn hefði ekki gefið glögga mynd og hvaða reikningshaldslegu aðferð var beitt þess í stað og
  4. hvaða fjárhagslegu áhrif það hefði haft á einstaka liði ársreikningsins hefði ákvæðum laga verið beitt í stað þess að víkja frá þeim.] 2)

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 14/2013. 2)Sbr. 4. gr. laga nr. 73/2016.

 

Flokkun og uppsetning.
6. gr.

(1) Efnahagsreikning og rekstrarreikning skal setja upp með kerfisbundnum hætti. [Efnahags- og viðskiptaráðherra]1) setur reglur um uppsetningu efnahagsreikninga og rekstrarreikninga.

(2) Efnahagsreikningur og rekstrarreikningur skulu settir upp með hliðstæðum hætti frá [reikningsári til reikningsárs]2) nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Breytingar skulu tilgreindar og rökstuddar í skýringum.

(3) Víkja skal frá ákvæðum laga þessara um uppsetningu efnahagsreiknings eða rekstrarreiknings ef þau leiða til þess að ársreikningur eða samstæðureikningur gefur villandi eða óskýra mynd af rekstrarafkomu eða efnahag félags eða samstæðu.

(4) Við hvern lið í efnahags- og rekstrarreikningi [skal]3 sýnd samsvarandi fjárhæð fyrir fyrra reikningsár til samanburðar. Ef liðirnir eru ekki sambærilegir við færslur frá fyrra ári skal aðlaga þær síðarnefndu. [---]3)

(5) Liði í efnahags- og rekstrarreikningi, sem innihalda ekki neina fjárhæð, skal aðeins taka með ef slíkur liður var í reikningsskilum fyrra reikningsárs.

(6) Samsvarandi upplýsingar um fjárhæðir fyrra [reikningsárs]3) skal gefa í skýringum eftir því sem við á, sbr. 4. og 5. mgr.

1)Sbr. 50. gr. laga nr. 98/2009. 2)Sbr. 4. gr. laga nr. 14/2013. 3)Sbr. 5. gr. laga nr. 73/2016.

Gjaldmiðill.
7. gr.

(1) Texti ársreiknings og samstæðureiknings, sem samdir eru samkvæmt ákvæðum laga þessara, skal vera á íslensku og fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum, sbr. þó 2. mgr. [og 3. mgr.]. 2)

[(2) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félagi skv. 1. mgr. 1. gr. heimilt að semja ársreikning og, ef við á, samstæðureikning á ensku, enda hafi félagið af því mikilsverða hagsmuni, svo sem vegna erlendrar fjármögnunar eða viðskiptasambanda. Semji félag ársreikning og, ef við á, samstæðureikning á ensku skal hann þýddur á íslensku og skal í skýringum með íslensku útgáfunni koma fram að um sé að ræða íslenska þýðingu á þeim reikningi sem samþykktur var á hluthafafundi félagsins.] 2)

(3) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta félög skv. 1. mgr. 1. gr. fengið heimild til að færa bókhaldsbækur í erlendum gjaldmiðli og semja og birta ársreikninga í þeim gjaldmiðli. [Birti félag ársreikning sinn jafnframt í annarri mynt en starfrækslugjaldmiðli skal í skýringum geta um hver starfrækslugjaldmiðill félagsins er og hvaða aðferðum er beitt við gerð ársreikningsins.] 1) [Hafi félag fengið heimild til að færa bókhald og semja árs­reikning í erlendum gjaldmiðli skulu allar fjárhæðir í þeim reikningi sem sendur er ársreikn­inga­skrá til varðveislu og birtingar vera í sömu mynt.]2) *1)

1)Sbr. 6. gr. laga nr. 73/2016. 2) Sbr. 1. gr. laga nr. 113/2018. *1) Var áður 2. mgr. sbr. 1. gr. laga nr. 113/2018.

8. gr.

[(1) Ársreikningaskrá veitir heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli enda teljist hann vera starfrækslugjaldmiðill félagsins.

(2) Starfrækslugjaldmiðill er sá gjaldmiðill sem vegur hlutfallslega mest í aðalefnahagsumhverfi félagsins. Aðalefnahagsumhverfið er þar sem félagið aðallega myndar og notar handbært fé. Við mat starfrækslugjaldmiðils skal litið til þess gjaldmiðils sem tekjur og gjöld af rekstrarhreyfingum eru ákvörðuð og greidd í enda sé það sá gjaldmiðill sem mest áhrif hefur á kostnaðarverð og söluverð vara og þjónustu félagsins, m.a. fyrir tilstilli samkeppnisafla, laga og reglna. Þá skal einnig litið til þeirra gjaldmiðla sem mestu varða við fjármögnun félagsins og varðveislu fjármuna þess.

(3) Starfrækslugjaldmiðill skal vera skráður hjá Seðlabanka Íslands eða viðskiptabanka félagsins hér á landi.

(4) Ráðherra getur sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu heimildar samkvæmt þessari grein.

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 14/2013a)Sbr. reglugerð nr. 101/2007.

9. gr.

(1) Umsókn um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli skal berast ársreikningaskrá […]1) fyrir upphaf viðkomandi reikningsárs. Félög, sem stofnuð eru á árinu, skulu leggja fram umsókn eigi síðar en tveimur mánuðum eftir stofnun þeirra ásamt rökstuðningi um að starfsemi þeirra muni uppfylla ákvæði 8. gr.

(2) Félag, sem fengið hefur heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli skv. [3. mgr. 7. gr.] 2) , skal viðhalda þeirri aðferð í a.m.k. fimm ár nema það uppfylli ekki lengur skilyrði 8. gr.

(3) Telji félag sig ekki lengur uppfylla skilyrði 8. gr. ber því að tilkynna ársreikningaskrá um það. Að fenginni heimild ársreikningaskrár skal það færa bókhald sitt og semja ársreikning í íslenskum krónum [eða nýjum starfrækslugjaldmiðli, sbr. 8. gr. ]1) miðað við næsta reikningsár.

(4) Ársreikningaskrá skal hafa eftirlit með því að félög, sem fengið hafa heimild skv. 1. mgr., uppfylli skilyrði 8. gr., sbr. 117. gr.

(5) Uppfylli félag ekki skilyrði 8. gr. skal ársreikningaskrá afturkalla heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli við upphaf næsta reikningsárs. Ársreikningaskrá getur veitt félagi frest í tvö reikningsár telji hún ástandið tímabundið.

1) Sbr. 7. gr. laga nr. 73/2016. 2) Sbr. 2. gr. laga nr. 113/2018.

10. gr.

Félög, sem fengið hafa heimild til að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli, sbr. 8. gr., skulu umreikna fjárhæðir í efnahagsreikningi fyrra árs á lokagengi þess árs. Þó er heimilt að umreikna efnahagsliði, aðra en peningalegar eignir og skuldir, svo sem varanlega rekstrarfjármuni og eignarhluti, á upphaflegu kaupgengi. Jafnframt er heimilt að umreikna innborgað hlutafé eða stofnfé á því gengi sem gilti þegar innborganir fóru fram. Við umreikninginn skal lögbundinn varasjóður nema sama hlutfalli af hlutafé í erlendum gjaldmiðli og hann nam í íslenskum krónum. Hinar umreiknuðu fjárhæðir mynda upphafsstærðir í bókhaldi í erlendum gjaldmiðli og skal gera grein fyrir umreikningsaðferðum í skýringum við ársreikning.
 

Fara efst á síðuna ⇑