Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.3.2024 02:04:14

Lög nr. 145/1994 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=145.1994)
Ξ Valmynd

Lög
nr. 145/1994, um bókhald.*1)

*1)Sbr. lög. 37/1995, 29/1997, 82/1998, 133/2001, 25/2002, 48/2005, 88/2008, 98/2009, 77/2011, 82/2011, 111/2011, 126/2011, 11/201347/201527/2021 og 69/2021.

I. KAFLI
Bókhaldsskylda.

1. gr.

(1) Eftirtaldir aðilar eru bókhaldsskyldir:

  1. hlutafélög, [einkahlutafélög]1) og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila;
  2. samvinnufélög og samvinnusambönd, gagnkvæm vátrygginga- og ábyrgðarfélög og önnur félög með breytilegan höfuðstól og breytilega félagatölu;
  3. sameignarfélög og önnur félög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsmanna;
  4. [sparisjóðir]1);
  5. hvers konar fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkis eða sveitarfélaga sem stunda atvinnurekstur;
  6. þrotabú og önnur bú sem eru undir skiptum ef þau stunda atvinnurekstur;
  7. hvers konar önnur félög, sjóðir og stofnanir sem stunda atvinnurekstur eða hafa á hendi fjáröflun eða fjárvörslu;
  8. hver sá einstaklingur sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
     

(2) Þegar tveir eða fleiri aðilar standa saman að afmörkuðum rekstri í tengslum við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er heimilt að færa sameiginlegt bókhald um samreksturinn. Niðurstöður sameiginlega bókhaldsins skulu færðar sundurliðaðar á viðeigandi reikninga í bókhaldi hvers samrekstraraðila að réttri tiltölu svo oft sem þurfa þykir.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 48/2005.

2. gr.

Þeir sem skyldir eru að færa bókhald skv. 1. gr. skulu halda tvíhliða bókhald, sbr. þó 3. gr.

3. gr.

(1) Undanþegnir skyldu til að færa tvíhliða bókhald eru þeir einstaklingar sem nota ekki meira aðkeypt vinnuafl við starfsemi sína en sem svarar einum starfsmanni að jafnaði og stunda eftirtalda starfsemi:

  1. útgerð á bátum undir 10 rúmlestum;
  2. verkun sjávarafla ef meiri hluti sölu hans fer fram fyrir milligöngu afurðasölufyrirtækis;
  3. búrekstur ef meiri hluti sölu afurða fer fram fyrir milligöngu afurðasölufyrirtækis;
  4. akstur leigu-, sendi-, vöru- og fólksflutningabifreiða, svo og rekstur vinnuvéla;
  5. iðnað, þar með talda viðgerðarstarfsemi;
  6. þjónustu þar sem fyrst og fremst er seld vinna eða fagleg þekking og ekki er um fjárvörslu að ræða í tengslum við selda þjónustu. 

(2) Undanþegin skyldu til að færa tvíhliða bókhald eru enn fremur félög, sjóðir og stofnanir, sbr. 7. tölul. 1. gr., sem stunda ekki atvinnurekstur ef tekjur þeirra eru eingöngu framlög sem innheimt eru hjá félagsaðilum og ganga til greiðslu á sameiginlegum útgjöldum, þar með töldu aðkeyptu vinnuafli sem svarar til allt að einum starfsmanni að jafnaði.

(3) Ef aðili er skyldur til að halda tvíhliða bókhald vegna einhvers þáttar starfsemi sinnar skal það eiga við um allan atvinnurekstur hans.
Þeir bókhaldsskyldir aðilar, sem undanþegnir eru skyldu til að halda tvíhliða bókhald samkvæmt þessari grein, skulu færa þær bækur sem greinir í 5. mgr. 10. gr.

4. gr.

Bókhaldsskyldir aðilar skulu haga bókhaldi sínu á skýran og aðgengilegan hátt og semja ársreikninga í samræmi við lög, reglugerðir og [settar reikningsskilareglur]1).

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 48/2005.

5. gr.

Stjórnendur þeirra félaga, sjóða og stofnana, sem um ræðir í 1.-7. tölul. 1. gr., og þeir sem ábyrgð bera á starfsemi skv. 8. tölul. 1. mgr. 1. gr., sbr. og 2. mgr. 1. gr., skulu sjá um og bera ábyrgð á að ákvæðum laga þessara og reglugerða samkvæmt þeim verði fullnægt.
 

II. KAFLI
Bókhald.

Almenn ákvæði um bókhald.
6. gr
.

(1) Bókhaldi skal haga þannig að á skýran og aðgengilegan hátt megi rekja viðskipti og notkun fjármuna. Það skal veita svo sundurliðaðar upplýsingar um rekstur og efnahag sem þarfir eigenda, lánardrottna og hins opinbera krefjast og nauðsynlegar eru til að meta megi tekjur og gjöld, eignir og skuldir.

(2) Bókhaldið skal með tilliti til umfangs rekstrar og eðlis starfseminnar vera í samræmi við [bókhaldsvenju og settar reikningsskilareglur]1) eins og hún er á hverjum tíma, svo og ákvæði laga og reglugerða.

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 48/2005.

7. gr.

(1) Tvíhliða bókhald skal skipuleggja með tilliti til umfangs rekstrar og eðlis starfsemi.

(2) Skrifleg lýsing á skipulagi og uppbyggingu bókhaldskerfis skal liggja fyrir og m.a. veita upplýsingar um tölvukerfi og tölvubúnað, tengsl við aðrar tölvur og hlutverk þeirra. Ef sjálfvirkri tölvuúrvinnslu er beitt í bókhaldi skal á sama hátt liggja fyrir lýsing á henni á þann hátt að unnt sé án erfiðleika að fylgja eftir og hafa eftirlit með meðferð hvers liðar. Reikningar bókhaldsins skulu sérstaklega tilgreindir og notkun þeirra greinilega afmörkuð, svo og lýsing á tekjuskráningu.

(3) Bókhaldið skal þannig skipulagt að auðvelt sé að rekja sig frá frumgögnum til færslna í bókhaldi, svo og frá færslum í bókhaldi til frumgagna, og milli niðurstöðu úr bókhaldi og ársreiknings. Jafnframt skal skipulag og stjórnun bókhaldsins við það miðuð að tryggja vörslu bókhaldsgagna og eðlilegt innra eftirlit. Með innra eftirliti er m.a. átt við verklagsreglur þar sem kveðið er á um meðferð skjala og ábyrgðar- og verkaskiptingu og haft er að markmiði að tryggja áreiðanlegt bókhald, örugga meðferð og vörslu fjármuna og að ekki hljótist tjón af villum, mistökum eða misnotkun.
 

(4) [Ráðherra getur sett reglur um færslu rafræns bókhalds, þar á meðal um hugbúnað vegna gagnaflutninga milli gagnaflutningskerfa, og um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að rafrænt bókhald sé fært í samræmi við lög og reglugerðir.a)]1)

1)Sbr. 4. gr. laga nr. 48/2005. a)Reglugerð nr. 505/2013.

8. gr.

(1) Sérhver færsla í bókhaldi skal byggð á áreiðanlegum og fullnægjandi gögnum sem rekja má til viðskiptanna. Ytri sem innri gögn skulu fela í sér upplýsingar sem nægja til réttmætrar skráningar í bókhaldið.

(2) Með ytri frumgögnum er átt við gögn frá þeim sem viðskipti eru gerð við, svo sem reikning, afreikning, greiðsluseðil, gíróseðil, greiðslukvittun, samning, myndrit, skeyti eða önnur jafngild frumgögn. Þessi gögn skulu bera með sér, eftir því sem við á, auðkenni útgefanda og viðtakanda og aðrar þær upplýsingar sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að sannreyna megi viðskiptin.

(3) Með innri frumgögnum er átt við gögn sem verða til hjá hinum bókhaldsskylda sjálfum, svo sem samrit reikninga, afreikninga, greiðsluseðla, gíróseðla, greiðslukvittana, samninga eða skeyta, svo og öll önnur gögn sem gerð eru til að skrá hreyfingar eða millifærslur innan bókhaldsins sjálfs.

(4) Ávallt skal vera unnt að kalla fram og prenta þau skjöl sem liggja til grundvallar færslum í bókhaldi þegar um er að ræða sendingar milli tölva.

9. gr.

(1) Í bókhaldi skal skrá viðskipti jafnskjótt og þau fara fram enda sé það í samræmi við góða bókhaldsvenju. Önnur atvik skulu skráð svo fljótt sem unnt er eftir að þau eiga sér stað.

(2) Færslur, sem eingöngu byggjast á [rafrænum skjölum]1), skulu skráðar í bókhaldið jafntryggilega og aðrar færslur.

(3) Færslur í bókhaldi skulu vera í skipulegri númeraröð, endurspegla að jafnaði rétta tímaröð viðskipta og annarra færslutilefna og gefa skýra mynd af því sem þeim er ætlað að lýsa.

(4) Færslurnar skulu vísa til viðeigandi frumgagna og geyma skýrar upplýsingar um efni viðskipta eða annarra atvika, reikningsheiti og dagsetningu.

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 48/2005.

Bókhaldsbækur og reikningaskipan.
10. gr.

(1) Bókhaldsbækur skulu færðar á varanlegan hátt í skipulögðu og öruggu bóka-, korta-, lausblaða- eða tölvukerfi.

(2) Bókhald þeirra aðila, sem skyldir eru til að halda tvíhliða bókhald, skal samanstanda af:

  1. dagbók þar sem allar færslur koma fram í færsluröð;
  2. hreyfingalista þar sem allar færslur dagbókar hafa verið flokkaðar á viðeigandi bókhaldsreikninga, sbr. þó 6. mgr.;
  3. aðalbók þar sem fram kemur staða hvers einstaks bókhaldsreiknings, sbr. 12. gr.;
  4. ársreikningi, sbr. 22. gr.

(3) Bækur skv. 1.-3. tölul. 2. mgr. nefnast einu nafni fjárhagsbókhald.

(4) Í bókhaldi aðila skv. 2. mgr. skulu vera eftir því sem við á:

  1. sjóðbók fyrir innborganir í sjóð og útborganir úr honum, sbr. 13. gr.;
  2. viðskiptamannabókhald, sbr. 15. gr.

(5) Í bókhaldi þeirra aðila, sem undanþegnir eru skyldu til að halda tvíhliða bókhald skv. 3. gr., skulu vera:

  1. sjóðbók fyrir innborganir í sjóð og útborganir úr honum, sbr. 13. gr.;
  2. sundurliðunarbók, sbr. 14. gr.;
  3. ársreikningur, sbr. 22. gr. 

(6) Í handfærðu bókhaldi eru kröfur skv. 2. tölul. 2. mgr. uppfylltar með færslu á viðeigandi bókhaldsreikninga í dagbók, sbr. 1. tölul. 2. mgr. Heimilt er að sameina sjóðbók og dagbók sem nefnist þá sjóðsdagbók. Sjóðbók og sjóðsdagbók skulu vera fyrir fram innbundnar og blaðsíðurnar tölusettar en færi aðili bæði sjóðbók og sjóðsdagbók má hin síðarnefnda vera lausblaðabók. Í handfærðu bókhaldi skal aðalbók vera fyrir fram innbundin og blaðsíðurnar tölusettar og færa má ársreikninginn í aðalbókina.

(7) [---]1)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 25/2002.

[10. gr. A

(1) Bókhaldsbækur skulu vera til staðar hér á landi. Skal texti þeirra vera á íslensku og fjárhæðir í íslenskum krónum.

(2) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta félög, skv. 1. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga, fengið heimild til að færa fjárhæðir í bókhaldsbækur í erlendum gjaldmiðli og semja ársreikninga í þeim gjaldmiðli, sbr. [2. mgr. 7. gr.]2) laga um ársreikninga. Texti í bókhaldsbókunum skal vera á íslensku, dönsku eða ensku.]1)

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 25/2002. 2)Sbr. 1. gr. laga nr. 11/2013.

11. gr.

(1) Að jafnaði skal haga reikningaskipan í bókhaldinu þannig að færðir séu hreinir eigna- og skulda-, gjalda- og teknareikningar. Færa skal þá reikninga í bókhaldinu sem nauðsynlegt er til að eðlileg sundurliðun náist með tilliti til tegundar og stærðar starfseminnar.

(2) Í stað sundurliðunar á skylda reikninga er heimilt að halda einn eða fáa reikninga í fjárhagsbókhaldinu en sundurliða þá í sérstöku undirkerfi. Slík undirkerfi skulu tengjast fjárhagsbókhaldinu á skýran og öruggan hátt um tiltekna reikninga sem eru ekki nýttir í öðrum tilgangi. Færslur, sem eiga uppruna sinn í slíkum undirkerfum, skulu færast í sérstaka dagbók og berast til fjárhagsbókhalds með reglubundnum og öruggum hætti. Við færslu í undirkerfi skal ætíð vísað til grunngagna.

(3) Eftir því sem aðstæður leyfa skal haga reikningaskipan þannig að nægilegt innra eftirlit skapist.

12. gr.

Í aðalbók skal koma fram staða hvers einstaks bókhaldsreiknings í lok hvers bókhaldstímabils í samræmi við hreyfingalista eða dagbók í handfærðu bókhaldi. Samtölur aðalbókar skulu hverju sinni innifela allar færslur sem fram að því hafa verið gerðar á reikningsárinu.
 

13. gr.

(1) Í sjóðbók skal færa allar innborganir í sjóð og útborganir úr honum á þann hátt að auðvelt sé að bera saman sjóðseign og niðurstöðu sjóðbókar í lok starfsdags eða vinnulotu, allt eftir tegund starfsemi.

(2) Hver greiðsla færist sérstaklega. Þó er leyfilegt að færa í einu lagi fjárhæðir þær er inn koma daglega vegna sölu gegn staðgreiðslu. Enn fremur er leyfilegt að færa undirbækur yfir sjóðgreiðslur enda sé færslu þeirra hagað á sama hátt og færslu sjálfrar sjóðbókarinnar. Skylt er að færa niðurstöðutölur undirbókanna daglega í sjálfa sjóðbókina og skal í henni vísað til undirbókanna til sönnunar færslum. Undirbækur sjóðbókar mega vera lausblaðabækur.

(3) Falla má frá færslu í sjóðbók þegar fyrir liggur annað jafnöruggt skráningarkerfi innborgana og útborgana.

14. gr.

(1) Þeir sem eru undanþegnir skyldu til að halda tvíhliða bókhald skulu sundurliða viðskipti sín í sérstaka bók, sundurliðunarbók, þar sem hreyfingar ársins á eignum og skuldum, tekjum og gjöldum eru flokkaðar eftir tegundum. Heimilt er að færa í einu lagi niðurstöðutölur undirbóka bókhaldsins, þar með taldar samanlagðar niðurstöður af útgefnum reikningum á bókhaldstímabilinu. Í lok hvers bókhaldstímabils skal stemma hreyfingar á handbæru fé á tímabilinu af við færslur í sundurliðunarbókina með því að taka tillit til útistandandi krafna og ógreiddra reikninga við upphaf og lok bókhaldstímabilsins.

(2) Niðurstöður sundurliðunarbókar skal vera unnt að rekja til ársreiknings.

15. gr.

(1) Í fjárhagsbókhaldi eða sérstöku viðskiptamannabókhaldi, sem tengist fjárhagsbókhaldinu, skal hafa reikninga yfir viðskipti við hvern viðskiptamann, önnur en þau sem hönd selur hendi. Þó er heimilt að sameina óveruleg viðskipti á einn eða fáa reikninga.

(2) Ef notað er sérstakt viðskiptamannabókhald sem undirkerfi fjárhagsbókhalds skal það uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. Viðskiptamannabókhald skal tengjast fjárhagsbókhaldinu á skýran hátt um sérstaka tiltekna reikninga sem eru ekki nýttir í öðrum tilgangi.
  2. Í viðskiptamannabókhaldi skal á hverjum tíma vera unnt að kalla fram stöðu viðskiptamannareikninga hvers um sig og í heild. Samtöluna skal vera unnt að rekja til tiltekinna reikninga í fjárhagsbókhaldi, sbr. 1. tölul.
  3. Færslur á viðskiptamannareikninga skulu berast milli fjárhagsbókhalds og viðskiptamannabókhalds með reglulegum og öruggum hætti.
  4. Þegar færslur eiga uppruna sinn í viðskiptamannabókhaldi skal færð dagbók um þær færslur með sama hætti og í fjárhagsbókhaldi.
  5. Við færslur í viðskiptamannabókhald skal ætíð vísað til grunngagna.
     

16. gr.

(1) Í lok hvers reikningsárs skal telja vörubirgðir og reikna út verðmæti þeirra. Á vörutalningarlistum eða í vörutalningarbókum skal koma fram heiti, magn, einingarverð og útreiknað verðmæti hverrar einstakrar vörutegundar ásamt samtölu. Vörutalningarlista og vörutalningarbækur skulu talningarmenn undirrita.

(2) Þeir sem nota stöðugt birgðabókhald eru ekki bundnir af ákvæðum 1. mgr. enda er þá gert ráð fyrir skipulegum talningum og að birgðaskrár séu leiðréttar með reglubundnum hætti.

(3) Ef birgðir eru verðlagðar á söluverði skal á skýran og aðgengilegan hátt koma fram hvernig kostnaðarverð er reiknað.

17. gr.

Tekjuskráning bókhaldsskyldra aðila skal byggjast á skýru og öruggu kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram. Öruggt kerfi í þessu sambandi teljast m.a. reikningar, afreikningar og gíróseðlar, enda séu þessi gögn í öruggu skipulegu númerakerfi, og sjóðvélar sem notaðar eru við sölu á vörum og þjónustu í smásölu, svo og önnur sambærileg og örugg kerfi til tekjuskráningar, enda sé ekki öðruvísi fyrir mælt í öðrum lögum.

18. gr.

(1) Sjóðbók, sjóðsdagbók og dagbók í handfærðu bókhaldi skal lokað reglulega og eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Niðurstöður einstakra reikninga skulu þá færðar í aðalbók. Færslu í aðalbók skal að jafnaði vera lokið eigi síðar en einum mánuði eftir lok hvers bókhaldstímabils.

(2) Þeir sem undanþegnir eru skyldu til að halda tvíhliða bókhald skulu sundurliða færslur sínar í sundurliðunarbók eftir því sem þörf er á og eigi sjaldnar en í lok reikningsárs.

(3) Við gerð ársreikninga skal fara fram nákvæm og fullkomin lokun á öllum bókhaldsbókum.

(4) Samræmi skal vera milli fjárhæðanna í ársreikningi og í aðalbókinni.

Fylgiskjöl og geymsla bókhaldsgagna.
19. gr.

(1) Fylgiskjöl með bókhaldinu skal tölusetja á reglubundinn hátt og til þeirra vísa við innfærslur í bækurnar. Þau skulu geymd í samfelldri töluröð.

(2) Hverjum bókhaldsskyldum aðila er skylt að geyma með skipulögðum hætti öll bréf, myndrit og skeyti er honum berast og hafa þýðingu í rekstri hans. Enn fremur skal halda eftir samritum af öllum þeim bréfum, myndritum og skeytum er hann sendir öðrum og hafa þýðingu í rekstri hans.

20. gr.

(1) Allar bækur, sem fyrirskipaðar eru í lögum þessum, ásamt bókhaldsgögnum og fylgiskjölum, svo og bréf, myndrit og skeyti eða samrit þeirra, þar með talin gögn sem varðveitt eru í [rafrænu]1) formi, á örfilmu eða annan sambærilegan hátt, skulu varðveittar hér á landi á tryggan og öruggan hátt í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Þeim sem nota sjóðvélar er þó ekki skylt að varðveita innri strimla lengur en þrjú ár frá lokum viðkomandi reikningsárs enda liggi fyrir fullfrágengið bókhald og undirritaður ársreikningur.

(2) [[Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. hafa félög skv. 1. gr. heimild til að varðveita gögn skv. 1. mgr. erlendis í allt að sex mánuði.]3) Yfirvöld geta þó krafist aðgangs að þeim hér á landi og skal þeim þá skilað innan hæfilegs tíma. Bókhaldsgögn, sem eru á rafrænu formi, skulu ætíð vera aðgengileg yfirvöldum.]2)

(3) [Ef [rafrænum útbúnaði]3), sem nauðsynlegur er til að kalla fram bókhaldsgögn, er breytt eða fargað ber að yfirfæra bókhaldsgögnin á nýjan [rafrænan]3) miðil þannig að áfram verði unnt að kalla þau fram.]2)

(4) Ársreikning skal ætíð varðveita í 25 ár.

1)Sbr. 6. gr. laga nr.48/2005. 2)Sbr. 3. gr. laga nr. 25/2002. 3)Sbr. 2. gr. laga nr. 11/2013.

21. gr.

(1) Allt, sem fært er í bækur eða á reikninga, skal vera skýrt og læsilegt með varanlegu letri. Eigi má eyða eða gera á annan hátt ólæsilegt það sem eitt sinn hefur verið í þær fært þótt fyrst hafi verið misfært af vangá. Þurfi að gera breytingu á færslu skal það gert með annarri færslu eða þannig að hin ranga færsla verði læsileg að leiðréttingu lokinni.

(2) Leiðrétting á rangri færslu skal gerð með sérstöku fylgiskjali þar sem fram komi hvaða færslu er verið að leiðrétta og hvers vegna.
 

III. KAFLI
Ársreikningur.

Reikningsár og undirritun.
22. gr.

(1) Þeir sem bókhaldsskyldir eru skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár samkvæmt lögum þessum enda séu ekki gerðar strangari kröfur í öðrum lögum. Ársreikningurinn skal a.m.k. hafa að geyma rekstrarreikning og efnahagsreikning, svo og skýringar eftir því sem við á. Ársreikningurinn skal mynda eina heild.

(2) [Reikningsárið skal vera tólf mánuðir og miðast við mánaðamót. Nýtt reikningsár hefst daginn eftir að fyrra reikningsári lýkur. Við upphaf eða lok rekstrar eða breytingu á reikningsári getur tímabilið verið skemmra eða lengra, þó aldrei lengra en fimmtán mánuðir. Reikningsári verður því aðeins breytt síðar að sérstakar aðstæður gefi tilefni til. Breytingin skal tilgreind og rökstudd í skýringum.]1)

(3) Ársreikningurinn skal fullgerður og undirritaður eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsársins. Hann skal undirritaður af þeim sem ábyrgð bera á bókhaldinu, sbr. 5. gr.

(4) Hafi einhver, sem skyldur er til að undirrita ársreikninginn, mótbárur fram að færa gegn honum skal hann undirrita reikninginn með árituðum fyrirvara. Koma skal fram hvers eðlis fyrirvarinn er.

1)Sbr. 7. gr. laga nr. 48/2005.

Efnahagsreikningar og rekstrarreikningar.
23. gr.

(1) [Á efnahagsreikning eru færðar á kerfisbundinn hátt eignir, skuldir, þ.m.t. skuldbindingar, og eigið fé sem er mismunur eigna og skulda.

(2) Eign skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt er að félagið hafi af henni fjárhagslegan ávinning í framtíðinni og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.

(3) Skuld skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt þykir að til greiðslu hennar komi og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.

(4) Efnahagsreikningurinn skal þannig sundurliðaður að hann gefi skýra mynd af eignum, skuldum og eigin fé í árslok í samræmi við lög þessi og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.]1)

1)Sbr. 8. gr. laga nr. 48/2005.

24. gr.

(1) [Allar tekjur og öll gjöld reikningsársins skulu koma fram á rekstrarreikningi nema lög þessi eða settar reikningsskilareglur kveði á um annað.

(2) Í rekstrarreikningi skal á kerfisbundinn hátt sýna heildartekjur og heildargjöld þannig sundurliðað að reikningurinn gefi skýra mynd af rekstrarafkomunni á reikningsárinu í samræmi við lög þessi og settar reikningsskilareglur eftir því sem við á.]1)

1)Sbr. 9. gr. laga nr. 48/2005.

25. gr.

(1) [Rekstrarreikningar og efnahagsreikningar skulu settir upp með hliðstæðum hætti frá ári til árs nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Ef gerðar eru breytingar skulu þær tilgreindar í skýringum.

(2) Óheimilt er að fella saman eignir og skuldir eða tekjur og gjöld innan einstakra liða

(3) Texti ársreiknings skal vera á íslensku og fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum.]1)

1)Sbr. 10. gr. laga nr. 48/2005.

26. gr.

Óefnisleg réttindi skal aðeins telja til eignar ef þeirra er aflað gegn greiðslu. Sama á við um rannsóknar- og þróunarkostnað.

27. gr.

Gerð skal grein fyrir ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps á reikningsárinu í ársreikningnum eða skýringum.

Mat eigna.
28. gr.

(1) Í efnahagsreikningi ber að tilgreina peningalegar eignir og skuldir með þeirri fjárhæð er raunverulega svarar til verðmætis þeirra. Varanlegir rekstrarfjármunir skulu að jafnaði tilgreindir á kostnaðarverði að frádregnum hæfilegum árlegum afskriftum. Sé frá þessu vikið skal ársreikningurinn bera það greinilega með sér.

(2) Kostnaðarverð varanlegra rekstrarfjármuna samanstendur af kaupverði þeirra og þeim kostnaði, sem hlýst af öflun og endurbótum á þeim, fram til þess tíma að þeir eru teknir í notkun.

(3) [Birgðir skal meta á kostnaðarverði eða dagverði, hvort sem lægra reynist. Ef birgðir eru metnar við dagverði og það er verulega lægra en kostnaðarverð skal gera grein fyrir því í skýringum. Kostnaðarverð birgða tekur til alls kostnaðar við kaup á birgðum eða áfallins kostnaðar við framleiðslu þeirra. Auk þess telst til kostnaðarverðs birgða allur kostnaður við að koma þeim á núverandi stað og í það ástand sem þær eru. Dreifingarkostnað má ekki telja til kostnaðarverðs birgða]1)

(4) Ef gerðar eru verulegar breytingar á mati eigna eða skulda frá síðasta efnahagsreikningi skal ársreikningurinn bera það greinilega með sér.

1)Sbr. 11. gr. laga nr. 48/2005.

29. gr.

(1) [Ef markaðsverð fastafjármuna er lægra en bókfært verð þeirra og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að færa verð þeirra niður að því marki sem telja verður nauðsynlegt.]1)

(2) Heimilt er að meta áhættufjármuni og langtímakröfur til markaðsverðs á reikningsskiladegi ef það er lægra en bókfært verð. Slíkar eignir skulu sæta niðurfærslu ef þess gerist sérstök þörf, svo sem vegna hættu á að kröfur muni ekki innheimtast eða af öðrum ástæðum.

(3) Matsbreytingar samkvæmt þessari grein skal færa í rekstrarreikning.

1)Sbr. 12. gr. laga nr. 48/2005.

[Beiting reikningsskilareglna.]1)
30. gr.

[Bókhaldsskyldum aðilum sem falla ekki undir ákvæði annarra laga um samningu ársreiknings er heimilt að beita settum reikningsskilareglum við samningu ársreikninga sinna. Í skýringum skal gera grein fyrir beitingu slíkra reglna.]1)

1)Sbr. 13. gr. laga nr. 48/2005.

Skýringar.
31. gr.

Í skýringum í ársreikningi skal gefa upplýsingar um eftirfarandi atriði með vísan til viðeigandi liða í efnahagsreikningi og rekstrarreikningi komi þau ekki greinilega fram þar:

  1. breytingar á varanlegum rekstrarfjármunum á árinu;
  2. opinbert mat á eignunum ef það liggur fyrir;
  3. nafnverð eignarhluta í félögum;
  4. hreyfingar á eiginfjárreikningum;
  5. veðsetningu eigna og ábyrgðir;
  6. önnur þau atriði sem máli skipta við mat á rekstri og efnahag og ekki koma annars staðar fram. 

[Endurskoðun og yfirferð árseikninga.
32. gr.

(1) Félagsmenn í félögum sem ber að semja ársreikninga samkvæmt þessum kafla og fara með minnst einn tíunda hluta atkvæða í félagi geta á félagsfundi krafist þess, ef ekki er um það getið í samþykktum félagsins, að kosinn verði a.m.k. einn endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður. Ákvæði laga um endurskoðendur gilda um starf endurskoðenda sem kosinn er skv. 1. málsl.

(2) Uppfylli endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður ekki lengur skilyrði til starfans skal stjórn félagsins annast um að valinn verði nýr endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður eins fljótt og unnt er og skal hann gegna því starfi þar til kosning getur farið fram.]1)

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 11/2013.

33. gr.

(1) [Endurskoðendur og skoðunarmenn]1) skulu hvenær sem er hafa aðgang að bókhaldi til að gera þær athuganir og kannanir sem þeir telja nauðsynlegar. Þá skal stjórn sjá til þess að [endurskoðendur og skoðunarmenn]1) fái þau gögn, upplýsingar og aðstoð sem þeir álíta nauðsynleg.

[(2) [Endurskoðendur og skoðunarmenn eiga rétt á að sitja fundi þar sem fjallað er um ársreikninga

(3) Endurskoðendum og skoðunarmönnum er óheimilt að gefa einstökum félagsaðilum eða öðrum upplýsingar um hag félags umfram það sem fram kemur í ársreikningi.]2)

1)Sbr. 15. gr. laga nr. 48/2005. 2)Sbr. 3. gr. laga nr. 11/2013.

34. gr.

[Endurskoðendur skulu að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn. Áritun endurskoðanda skal vera í samræmi við það sem fram kemur í lögum um endurskoðendur. Auk þess skal í áritun endurskoðanda koma fram álit á því hvort skýrsla stjórnar geymi þær upplýsingar sem þar ber að veita. Ef endurskoðendur telja að ekki beri að samþykkja ársreikninginn skulu þeir taka það fram sérstaklega.]1)

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 11/2013.

[Skoðunarmenn.
35. gr.

(1) Sá sem er kosinn eða ráðinn til að yfirfara ársreikning fyrir félag skv. 1. gr., sem ekki er skylt að kjósa endurskoðanda í samræmi við lög eða samþykktir félagsins, skal hafa þá reynslu af bókhaldi og reikningsskilum sem með hliðsjón af starfsemi og stærð félagsins telst nauðsynleg til rækslu starfans. Hann skal vera lögráða og fjár síns ráðandi. Óhæðisskilyrði 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 79/2008, um endurskoðendur, eiga einnig við um skoðunarmenn.

(2) Skoðunarmenn skulu yfirfara ársreikninginn og í því sambandi kanna bókhaldsgögn félagsins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Skoðunarmaður skal staðfesta þá vinnu sem hann innir af hendi varðandi reikningsskilin með undirskrift sinni og dagsetningu á ársreikninginn og telst undirskriftin hluti ársreiknings.

(3) Ef skoðunarmaður telur að nauðsynlegar upplýsingar vanti í ársreikninginn eða skýrslu stjórnar eða upplýsingar séu villandi og enn fremur ef hann telur að fyrir liggi atvik sem varðað geti stjórnendur ábyrgð skal hann vekja athygli á því.

(4) Skoðunarmenn skv. 1. mgr. mega ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það.

(5) Ef kosnir eru trúnaðarmenn, einn eða fleiri, úr hópi félagsmanna í samræmi við samþykktir félagsins til þess að yfirfara ársreikning félagsins skulu þeir staðfesta að farið hafi verið eftir ákvörðunum félagsfunda og stjórnar um öflun, ráðstöfun og ávöxtun fjármuna og önnur atriði í rekstrinum á reikningsárinu.

1)Sbr. 6. gr. laga nr. 11/2013.

[IV. KAFLI
Viðurlög og málsmeðferð.]1)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

[36. gr.

Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laga þessara á þann hátt sem lýst er í 38.-40. gr. skal sæta fésektum, en brot gegn 37. gr. og önnur meiri háttar brot gegn 38. gr. varða [–-–]1) fangelsi allt að sex árum skv. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga eða fésektum ef málsbætur eru miklar.]2)

1)Sbr. 218. gr. laga nr. 82/1998. 2)Sbr. a-lið 1. gr. laga nr. 37/1995.

[37. gr.

(1) Svofelld háttsemi bókhaldsskylds manns eða fyrirsvarsmanns lögaðila telst ætíð meiri háttar brot gegn lögum:

  1. Ef hann færir ekki tilskilið bókhald fyrir sjálfan sig eða lögaðila þannig að hann uppfylli ekki kröfur laga í meginatriðum.
  2. Ef hann varðveitir ekki fylgiskjöl eða önnur bókhaldsgögn eða gerir það á svo ófullnægjandi hátt að ógerningur sé að rekja bókhaldsfærslur til viðskipta og byggja bókhaldsbækur og ársreikning á þeim.
  3. Ef hann rangfærir bókhald eða bókhaldsgögn, býr til gögn sem ekki eiga sér stoð í viðskiptum við aðra aðila, vantelur tekjur kerfisbundið eða hagar bókhaldi með öðrum hætti þannig að gefi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna, enda varði brotið ekki við 158. gr. almennra hegningarlaga.
  4. Ef hann eyðileggur bókhald sitt eða lögaðila, í heild eða einstakar bókhaldsbækur, skýtur þeim undan eða torveldar aðgang að þeim með öðrum hætti. Sama á við um hvers konar bókhaldsgögn sem færslur í bókhaldi verða raktar til.
  5. Ef hann lætur undir höfuð leggjast að semja ársreikning í samræmi við niðurstöður bókhalds, eða ársreikningur hefur ekki að geyma nauðsynlega reikninga og skýringar eða er rangfærður að öllu leyti eða hluta, enda varði brotið ekki við 158. gr. almennra hegningarlaga.
     

(2) Sama á við ef maður aðstoðar bókhaldskyldan mann eða fyrirsvarsmann lögaðila við þau brot sem lýst er í 1.-5. tölul. eða stuðlar að þeim á annan hátt.]1)

1)Sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 37/1995.

[38. gr.

(1) Bókhaldsskyldur maður eða fyrirsvarsmaður lögaðila gerist sekur um refsivert brot gegn lögum þessum með athöfnum þeim eða athafnaleysi sem hér segir:

  1. Ef hann vanrækir að færa einstakar bókhaldsbækur eða hagar bókhaldi sínu, bókhaldsfærslum, meðferð bókhaldsgagna eða gerð ársreikninga andstætt ákvæðum laga og reglugerða, enda liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt þeim lögum eða öðrum.
  2. Ef hann hagar ekki bókhaldi sínu á nægilega skýran, öruggan og aðgengilegan hátt, á grundvelli fullnægjandi gagna og í samræmi við góða bókhaldsvenju eða tekjuskráning er ekki byggð á skýru og öruggu kerfi þannig að rekja megi tekjur og önnur viðskipti og notkun fjármuna.
  3. Ef hann vanrækir að tryggja vörslur bókhalds, bókhaldsgagna eða ársreiknings eða hefur skipulag og uppbyggingu bókhaldsins og fylgiskjala þess ekki með öruggum hætti.
  4. Ef hann skráir ekki viðskipti samkvæmt góðri bókhaldsvenju, framkvæmir ekki færslur í númera- og tímaröð og með tilskildum reikningseinkennum.
  5. Ef hann hagar ekki gerð ársreiknings eða einstakra þátta hans þannig að hann gefi skýra mynd af rekstrarafkomu á reikningsárinu og efnahag í lok þess í samræmi við [lög þessi og settar reikningsskilareglur.]1)
  6. Ef hann vanrækir að framkvæma vörutalningu, ekki koma fram í birgðaskrá tilskildar upplýsingar um magn, einingaverð og útreiknað verðmæti hverrar vörutegundar eða mat vörubirgða er verulega rangt.
     

(2) Sama á við ef maður aðstoðar bókhaldsskyldan mann eða fyrirsvarsmann lögaðila við brot þau sem lýst er í 1.-6. tölul. eða stuðlar að þeim á annan hátt.]2)

1)Sbr. 18. gr. laga nr. 48/2005. 2)Sbr. c-lið 1. gr. laga nr. 37/1995.

[39. gr.

Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum, önnur en sú sem lýst er í 37. og 38. gr. laga þessara, er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.]1)

1)Sbr. d-lið 1. gr. laga nr. 37/1995.

[40. gr.

Gera má lögaðila fésekt fyrir brot gegn lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk þeirrar refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.]1)

1)Sbr. e-lið 1. gr. laga nr. 37/1995.

[41. gr.

(1) [Héraðssaksóknari]2)4)5) fer með frumrannsókn [sakamála]3) vegna brota á lögum þessum. [Skattrannsóknarstjóri]6) getur á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli til [héraðssaksóknara af sjálfsdáðum eða telji hann að málið falli undir fyrirmæli ríkissaksóknara um rannsókn og saksókn vegna skattalagabrota]6).

(2) [Skattrannsóknarstjóri úrskurðar um]6) sektir vegna brota á lögum þessum, nema máli sé vísað til [---]3) rannsóknar og dómsmeðferðar skv. 1. mgr. [Skattrannsóknarstjóri]6) leggur mál fyrir yfirskattanefnd og kemur fram að hálfu hins opinbera fyrir nefndinni þegar hún úrskurðar sektir. Úrskurðir yfirskattanefndar eru fullnaðarúrskurðir. Vararefsing fylgir ekki sektarúrskurðum hennar.

(3) Sektir fyrir brot gegn lögum þessum renna í ríkissjóð.

(4) Sakir samkvæmt lögum þessum fyrnast á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum [skattrannsóknarstjóra]6) eða [héraðssaksóknara]4)5) eða hjá löglærðum fulltrúum þeirra, gegn manni sem sökunaut, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.]1)

1)Sbr. f-lið 1. gr. laga nr. 37/1995. 2)Sbr. 19. gr. laga nr. 48/2005. 3)Sbr. 40. tölul. 234. gr. laga nr. 88/2008. 4)Sbr. 5. gr. laga nr. 82/2011. 5)Sbr. 30. gr. laga nr. 47/20156)Sbr. 34. gr. laga nr. 29/2021.

[V. KAFLI]*1)

Ýmis ákvæði.

*1)Var áður IV. kafli, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

[42. gr.]*1)

[Ráðherra]1)2) getur með reglugerða) sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, svo sem um bókhaldsskyldu, undanþágu frá færslu tvíhliða bókhalds, skipulag bókhalds, bókhaldsgögn og notkun tölva við færslu bókhalds og geymslu gagna.

1)Sbr. 52. gr. laga nr. 98/2009. 2)Sbr. 203. gr. laga nr. 126/2011. a)V, kafli reglugerðar nr. 696/1996, reglugerð nr. 598/1999, sbr. nr. 15/2001 og reglugerð 600/1999. *1)Var áður 36. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

[43. gr.]*1)

[---]1)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 27/2021. *1)Var áður 37. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

[44. gr.]*1)

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1995. ... Hjá þeim sem hafa annað reikningsár en almanaksárið koma lög þessi þó ekki til framkvæmda fyrr en við upphaf fyrsta reikningsárs sem hefst eftir 1. janúar 1995.

*1)Var áður 38. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.
 


Ákvæði til bráðabirgða.

I.

[Við fyrstu reikningsskil eftir gildistöku laga þessara skal leysa upp endurmatsreikning sem myndaður hefur verið skv. 30. gr. og færa með öðru óráðstöfuðu eigin fé efnahagsreikningsins.]1)

1)Sbr. 55. gr. laga nr. 133/2001.

II.

[(1) [Þeim sem það kjósa skal gefinn kostur á að ljúka öllum prófhlutum til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2024.]2)

(2) Ráðherra skipar tilnefningar þrjá menn í prófnefnd sem skal sjá um undirbúning og framkvæmd prófa samkvæmt ákvæði þessu.

(3) Kostnaður við prófin, þ.m.t. þóknun prófnefndarmanna, greiðist með próftökugjaldi sem ráðherra ákveður. Prófnefndin skal ljúka störfum eigi síðar en 1. apríl 2024.]1)

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 27/20212)Sbr. 18. gr. laga nr. 69/2021.

Fara efst á síðuna ⇑