Skattalagasafn ríkisskattstjóra 26.4.2024 09:10:51

Lög nr. 113/1990, kafli 5 - álagningarár 2019 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=113.1990.5&alagningarar=2019)
Ξ Valmynd

 Álagningarár:

V. KAFLI
Álagning tryggingagjalds.

Árleg tryggingagjaldsframtöl, álagning, endurskoðun gjalds,
kærur, innheimta o.fl.

12. gr.

(1) Allir, sem skyldir eru til að greiða tryggingagjald samkvæmt lögum þessum, skulu, að staðgreiðsluári liðnu, senda [ríkisskattstjóra]5) árlega sérstakt launaframtal, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, innan þess frests sem settur er um skil launaskýrslna þeirra er greinir í 92. gr. [laga nr. 90/2003, um tekjuskatt].3)

(2) Á launaframtal skal launagreiðandi færa launagreiðslur næstliðins árs og aðrar upplýsingar og sundurliðanir sem ríkisskattstjóra þykir við þurfa til ákvörðunar tryggingagjalds og form eyðublaðsins segir til um.

(3) [Vegna tryggingagjalds á reiknað endurgjald manns sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, maka hans og barna skal stofn gjaldsins vera sú fjárhæð sem greinir í 3. mgr. 6. gr. Er ekki skylt að gera sérstaka grein fyrir fjárhæðinni á launaframtali. Skipta skal gjaldstofni ársins jafnt á öll greiðslutímabil þess nema önnur skipting komi greinilega fram í skattgögnum gjaldanda.]1)

(4) Við álagningu opinberra gjalda skal [ríkisskattstjóri]5) ákvarða tryggingagjald gjaldskylds aðila samkvæmt launaframtali hans að gerðum þeim breytingum og leiðréttingum sem gera þarf á því.

(5) Tryggingagjald skal birt í álagningarskrá, sbr. 98. gr. [laga nr. 90/2003, um tekjuskatt].3)

(6) Gjalddagi ógreidds tryggingagjalds, sem [ríkisskattstjóri]5) ákvarðar vegna hlunninda, og tryggingagjalds, sem undanþegið er staðgreiðslu, er [annars vegar [1. júní]7)8) ár hvert hjá mönnum og eindagi mánuði síðar og hins vegar [1. október]8) ár hvert hjá lögaðilum og eindagi mánuði síðar.]6)

(7) [[---]5)]4)

(8) [Launaframtal félaga sem fengið hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skv. 11. gr. A laga um ársreikninga*1) skal byggjast á upprunalegum fjárhæðum í íslenskum krónum eða umreiknuðum fjárhæðum á daggengi.]2)

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 32/1995. 2)Sbr. 2. gr. laga nr. 34/2002. 3)Sbr. 87. gr. laga nr. 129/2004. 4)Sbr. 5. gr. laga nr. 38/2008. 5)Sbr. 63. gr. laga nr. 136/2009. 6)Sbr. 6. gr. laga nr. 145/2012. 7)Sbr. 19. gr. laga nr. 124/2015. 8)Sbr. 12. gr. laga nr. 50/2018  *1)Nú 8. gr. laga nr. 3/2006.

Vangreitt tryggingagjald.
13. gr.

(1) [Ríkisskattstjóri skal]3) kanna skil þeirra sem greiða áttu tryggingagjald, m.a. með samanburði við laun í staðgreiðslu, launaframtöl, launamiða, skattframtöl, ársreikninga og önnur gögn sem fyrir hendi eru. [Hann skal]3) síðan leiðrétta það sem áfátt kann að reynast og ákvarða vangreitt tryggingagjald og senda tilkynningu þar um til gjaldanda og innheimtumanns.

(2) Komi í ljós að aðili, sem greitt hefur laun sem greiða skal tryggingagjald af, hafi vanrækt greiðslu gjaldsins að hluta eða öllu leyti, eða ofgreitt tryggingagjaldið eða ekki skilað launaframtali, skal [ríkisskattstjóri]3) ákvarða tryggingagjald fyrir hvert einstakt greiðslutímabil. Skal ákvarða gjaldanda dráttarvexti af vangreiddu tryggingagjaldi frá og með gjalddaga þess í samræmi við [lög um vexti og verðtryggingu].4) Á ofgreiðslu reiknast vextir í samræmi við ákvæði [2. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt].2)

[(3) Hafi innheimtumaður hafið aðför vegna vangoldinnar staðgreiðslu tryggingagjalds skulu þau aðfararúrræði sem innheimtumaður hefur gripið til halda lögformlegu gildi sínu eftir álagningu tryggingagjalds vegna þess hluta kröfunnar sem rekja má til vangoldinnar staðgreiðslu.

(4) Séu ekki gerð fullnægjandi skil á álögðu eða endurákvörðuðu tryggingagjaldi innan 15 daga frá eindaga er innheimtumanni heimilt með aðstoð lögreglu að stöðva atvinnurekstur launagreiðanda með innsigli á starfsstöðvar, skrifstofur, útibú, tæki og vörur þar til full skil hafa farið fram.]1)

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 134/2002. 2)Sbr. 88. gr. laga nr. 129/2004. 3)Sbr. 64. gr. laga nr. 136/2009. 4)Sbr. 8. gr. laga nr. 59/2017.

Endurákvörðun tryggingagjalds, kærur o.fl.
14. gr.

Séu skil gjaldanda í einstökum atriðum eða í heild ófullnægjandi, tortryggileg eða sýnilega gerð til málamynda skal við álagningu, sbr. 3. mgr. 12. gr.*1), og við endurákvörðun beita ákvæðum [laga um tekjuskatt]1) eftir því sem við getur átt um slík tilvik. Ákvæði þeirra laga skulu og gilda, eftir því sem við á, um álagningu, rannsókn, kærur út af skattákvörðun, kærufresti, úrskurði, áfrýjun úrskurða og annað þar að lútandi. Sömu reglur skulu gilda, eftir því sem við á, ef gjaldandi, sem lagt skyldi á, hefur fallið af skrá eða honum ekki gert að greiða tryggingagjald af öllum gjaldstofninum.

1)Sbr. 89. gr. laga nr. 129/2004. *1)Nú 4. mgr. 12. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 32/1995.

Tryggingagjald ársmanna o.fl.
15. gr.

(1) Nú reiknar maður sér endurgjald eða greiðir laun til annarra, þannig að reiknaða endurgjaldið og launin nema samtals lægri fjárhæð en [42.000]1) kr. að meðaltali á mánuði, og er honum þá heimilt, í stað þess að skila mánaðarlega í samræmi við 10. gr., að senda skilagrein ásamt greiðslu á gjalddaga þess mánaðar þegar samanlagt reiknað endurgjald og greidd laun til annarra ná [504.000]1) kr. en eftir það á hverjum gjalddaga vegna þess árs.

(2) Ef reiknað endurgjald eða greidd vinnulaun til annarra ná eigi til samans [504.000]1) kr. á árinu er gjaldanda heimilt, í stað þess að skila mánaðarlega í samræmi við 10. gr., að senda skilagrein ásamt greiðslu einu sinni á ári eins og um uppgjör fyrir desember væri að ræða.

(3) [---]1)

1)Sbr. 90. gr. laga nr. 129/2004.

Dráttarvaxtaútreikningur.
16. gr.

Á tryggingagjald vegna launa og hlunninda, sem undanþegin eru staðgreiðslu, reiknast dráttarvextir eftir almennum reglum frá og með gjalddaga [[1. júní]2) hjá mönnum og [1. október]2) hjá lögaðilum]1) ár hvert ef ekki er greitt fyrir eindaga. 

1)Sbr. 7. gr. laga nr. 145/2012. 2)Sbr. 12. gr. laga nr. 50/2018.

Fara efst á síðuna ⇑