Skattalagasafn ríkisskattstjóra 28.3.2024 21:41:19

Lög nr. 45/1987, kafli 2 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=45.1987.2)
Ξ Valmynd

II. KAFLI
Tilhögun staðgreiðslu.

Gjaldskylda launamanna.
10. gr.

Gjaldskyldu launamanna á staðgreiðsluári skal miða við lok þess almanaksárs sem næst fer á undan staðgreiðsluári. Sama gildir um launamann sem nær 16 ára aldri á staðgreiðsluári, svo og þá launamenn sem öðlast heimilisfesti hér á landi á staðgreiðsluárinu og þá sem skattskyldir eru á staðgreiðsluárinu skv. 1. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt [---]1).

1)Sbr. 58. gr. laga nr. 129/2004.

[Persónuafsláttur á staðgreiðsluári.
11. gr.

(1) Ríkisskattstjóri skal fyrir upphaf hvers staðgreiðsluárs auglýsa skatthlutfall og fjárhæð persónuafsláttar, svo og ef breytingar verða á staðgreiðsluári, og jafnframt hafa aðgengilegar upplýs­ingar um persónuafslátt og skiptingu hans sem nauðsynlegar teljast til að ákvarða staðgreiðslu á hverju launatímabili. Persónuafsláttur manna sem öðlast heimilisfesti hér á landi á staðgreiðsluárinu, svo og þeirra manna sem eru skattskyldir skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt, skal ákvarðast hlutfallslega miðað við dvalartíma á landinu og miðast við tilkynningu um aðsetursskipti eða aðrar fullnægjandi upplýsingar að mati ríkisskattstjóra.

(2) Þeir menn og aðilar sem eru skattskyldir hér á landi skv. 2., 3., 6. og 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt, sbr. ákvæði 2. og 3. tölul. 70. gr. þeirra laga, sbr. og 6. tölul. 4. gr. og 6. tölul. 5. gr. þessara laga, geta farið fram á að fá útgefna staðfestingu ríkisskattstjóra þar sem fram kemur skatthlutfall og eftir atvikum persónuafsláttur eftir því sem upplýst er í umsókn þeirra til ríkisskattstjóra. Umsóknin skal lögð fram fyrir lok þess árs sem næst fer á undan staðgreiðsluári eða eigi síðar en mánuði áður en fyrsta greiðsla eða afhending verðmætis á sér stað á staðgreiðsluári.

(3) [Ef launamaður, sem er móttakandi greiðslna frá eða á vegum Tryggingastofnunar ríkisins, óskar ekki sérstaklega eftir öðru er ríkisskattstjóra heimilt að veita Tryggingastofnun ríkisins upplýsingar um nýtingu persónuafsláttar  hans.

[---]1)2)

1)Sbr. 15. gr. laga nr. 124/2015. 2)Sbr. 4. gr. laga nr. 54/2016. 

[Ráðstöfun persónuafsláttar.
12. gr.

(1) Fyrir upphaf staðgreiðsluárs ber launamanni að gera launagreiðanda sínum grein fyrir nýtingu persónuafsláttar síns og heimila honum ráðstöfun persónuafsláttar á hverju launatímabili við ákvörðun afdráttar staðgreiðslu af launum. Launagreiðandi og launamaður bera sameiginlega ábyrgð á ráðstöfun persónuafsláttar launamannsins þar til launagreiðslum lýkur. Nú hefur launamaður starf með höndum hjá eða á vegum fleiri en eins launagreiðanda og ber launamanni þá að gera launagreiðendum sínum grein fyrir hlutfallslegri nýtingu persónuafsláttar hjá hverjum þeirra eftir því sem við á.

(2) Hafi launamaður, eða eftir atvikum maki hans, ekki fullnýtt persónuafslátt sinn innan staðgreiðsluársins, svo sem vegna náms, er launagreiðanda heimilt að taka tillit til þess persónu­afsláttar sem ónýttur hefur verið á því ári.

(3) Nýti launamaður sem er annað hjóna eða aðili í sambúð, sbr. 1. mgr. 13. gr., að jafnaði ekki persónuafslátt sinn að fullu hefur hann rétt til þess að heimila maka sínum að nýta þann persónuafslátt sem ónýttur er og bera aðilar sameiginlega ábyrgð á að nýtingin sé með réttum hætti.

(4)  Heimilt er ríkisskattstjóra við samnýtingu persónuafsláttar að upplýsa hvorn maka fyrir sig um stöðu nýtts eða ónýtts persónuafsláttar.

(5) Ríkisskattstjóra er heimilt að upplýsa launagreiðanda um nýtingu persónuafsláttar þeirra launamanna sem hjá honum starfa, þ.m.t. nýtingu á persónuafslætti maka launamannsins.

(6) Ríkisskattstjóri skal með reglubundnum hætti kanna nýtingu persónuafsláttar hvers launamanns á staðgreiðsluári og skal hann tilkynna að frekari nýting persónuafsláttar sé óheimil hafi hann bersýnilega verið ofnýttur á staðgreiðsluárinu, þ.m.t. vegna nýtingar á persónuafslætti maka. [Verði um áframhaldandi ofnotkun persónuafsláttar að ræða, þrátt fyrir tilkynningar þar um, skal ríkisskattstjóri stöðva frekari nýtingu persónuafsláttar á viðkomandi staðgreiðsluári, eftir atvikum bakfæra það sem umfram heimilli nýtingu nemur og áætla skilaskylda staðgreiðslu skv. 21. gr.]2) [Öllum tilkynningum um nýtingu á persónuafslætti]2) skal beina til launamanns, maka hans eftir atvikum og/eða launagreiðanda og fer um ábyrgð samkvæmt ákvæðum 30. gr. eftir því sem við á.]1)

1)Sbr. 16. gr. laga nr. 124/20152)Sbr. 16. gr. laga nr. 33/2020Kemur til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2020.
 

[Persónuafsláttur maka.
13. gr.

Fullnýti annað hjóna, sem samvistum eru, ekki persónuafslátt sinn á staðgreiðsluári er hinum makanum heimilt að nýta það sem ónýtt er, sbr. 3. mgr. 12. gr. Sama gildir um tvo ein­stak­linga sem búa í óvígðri sambúð og uppfylla skilyrði til samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna staðgreiðsluársins.1)

1)Sbr. 17. gr. laga nr. 124/2015.

Greiðslutímabil.
14. gr.

(1) Greiðslutímabil launa til launamanns, sbr. 4. gr., ákvarðast með hliðsjón af ákvæðum kjarasamninga þar um. Ekkert launatímabil skal þó teljast lengra en einn mánuður.

(2) [Greiðslutímabil reiknaðs endurgjalds, sbr. 2. tölul. 5. gr., til launamanns, sbr. ákvæði 2. tölul. 4. gr., telst hver einstakur almanaksmánuður staðgreiðsluársins, sbr. þó heimild [ríkisskattstjóra]3) samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 20. gr.]1) Laun hvers almanaksmánaðar ákvarðast sem tólfti hluti (1/12 hluti) árlegs reiknaðs endurgjalds sem launamaðurinn skal reikna sér innan þeirra marka sem um ræðir í 6. gr. [[Ríkisskattstjóra]3) er heimilt að ákveða að laun hvers almanaksmánaðar séu hærri en 1/12 hluti árlegs endurgjalds, enda liggi fyrir samþykkt greinargerð launamannsins.]2)

1)Sbr. 9. gr. laga nr. 90/1987. 2)Sbr. 4. gr. laga nr. 98/1988. 3)Sbr. 38. gr. laga nr. 136/2009.

Ákvörðun launa og afdráttur.
15. gr.

(1) [Þegar ákvörðun launa launamanns fyrir hvert greiðslutímabil, að meðtöldu orlofsfé, er lokið skal bætt við þau skattskyldum hlunnindum samkvæmt mati ríkisskattstjóra, sbr. [118. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt]2).

(2) Af þannig ákvörðuðum launum greiðslutímabilsins ber launagreiðanda að reikna staðgreiðslu launamanns [sbr. 9. gr.]3) vegna greiðslutímabilsins að teknu tilliti til persónuafsláttar skv. A-lið [67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt]2) og sjómannaafsláttar skv. 2. mgr. B-liðs sömu greinar þar sem hann á við. Staðgreiðsla skal dregin af launum launamanns og skilað til innheimtuaðila, sbr. 2. mgr. 20. gr.

(3) Afdráttur af launum vegna staðgreiðslu skal ganga fyrir afdrætti af launum vegna eldri skattskulda og gjalda sem innheimt eru skv. 35. gr.

(4) Afhendi launamaður ekki launagreiðanda skattkort sitt skal ekki tekið tillit til persónuafsláttar við ákvörðun staðgreiðslu, sbr. [67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt]2)]1). [Launamanni sem starfar hjá fleiri en einum launagreiðanda á sama launatímabili ber að upplýsa launagreiðendur um rétt innheimtuhlutfall í staðgreiðslu, sbr. 9. gr., þannig að afdráttur verði með sem réttustum hætti.]3)

1)Sbr. 10. gr. laga nr. 90/1987. 2)Sbr. 62. gr. laga nr. 129/2004. 3)Sbr. 27. gr. laga nr. 128/2009.

Hvenær afdráttur fer fram.
16. gr.

(1) [Afdráttur opinberra gjalda af launum skal fara fram þegar laun eru borguð út eða færð launamanni til tekna vegna ákveðins greiðslutímabils, sbr. 14. gr.

(2) Þegar laun eða hluti launa, svo sem greiðslur fyrir yfirvinnu, ákvæðisvinnu, aflahlut og aflaverðlaun, koma ekki til uppgjörs fyrr en að loknu því greiðslutímabili sem krafa til þessara launa myndast að fullu eða hluta skulu þau talin til launa þess greiðslutímabils, enda fari uppgjör þeirra fram innan 14 daga frá lokum þess. Fari uppgjörið fram síðar teljast greiðslur þessar til þess greiðslutímabils er uppgjörið fer fram í og miðast afdráttur þá við það tímabil.]1)

(3) [Ráðherra]3) getur með reglugerð sett sérstakar reglur um hvenær afdráttur fer fram og á hvaða tekjuári greiðslur eru skattlagðar þegar um er að ræða greiðslur sem samkvæmt lögum eða ákvæðum kjarasamninga koma til útborgunar eftir að tekjuöflunartímabili lýkur. [Afdráttur staðgreiðslu af þeim hluta sem telst vera laun skv. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal fara fram á því greiðslutímabili þegar uppgjör á sér stað eða eigi síðar en í lok þess árs sem ákvörðun um úthlutun er tekin.]2)

1)Sbr. 11. gr. laga nr. 90/1987. 2)Sbr. 21. gr. laga nr. 165/2010. 3)Sbr. 119. gr. laga nr. 126/2011.

Börn.
17. gr.

Ef launamaður nær ekki 16 ára aldri á staðgreiðsluári ber launagreiðanda að halda eftir af launum, sbr. 5. gr., fjárhæð sem ákveðst tiltekinn hundraðshluti launa, sbr. [64. og 2. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt]1) og 2. mgr. 25. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga*1), án þess að frá dragist persónuafsláttur, sbr. [67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt]1).

1)Sbr. 63. gr. laga nr. 129/2004. *1)Nú 2. mgr. 23. gr. laga nr. 4/1995.

Heimild til endurgreiðslu.
18. gr.

(1) Heimilt er ríkisskattstjóra að taka til greina skriflega umsókn launamanns um endurgreiðslu, að hluta eða öllu leyti, á staðgreiðslu hans ef veikindi, slys, mannslát eða [starfs- eða launabreyting]2) vegna þessa eða aldurs hans munu skerða tekjur hans verulega á þeim hluta staðgreiðsluársins sem eftir er, á þann veg að staðgreiðsla hans í heild á staðgreiðsluárinu muni leiða til a.m.k. 20% hærri staðgreiðslu en væntanlega álagðir skattar og gjöld vegna tekjuársins munu nema samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga þessara. [Það sama á við þegar sýnt þykir að heildarárstekjur samskattaðs aðila muni nema lægri fjárhæð en [11.125.045 kr.]3)4) Þá skal heimilt að taka tillit til ákvæða 4. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og endurreikna þá staðgreiðslu sem innt hefur verið af hendi. Þó skal slík endurgreiðsla aldrei nema lægri fjárhæð en 50.000 kr. eða hærri fjárhæð en [300.000 kr.]3)]2)

(2) Enn fremur er ríkisskattstjóra heimilt að taka til greina umsókn launamanns um endurgreiðslu, að hluta eða öllu leyti, á staðgreiðslu hans á staðgreiðsluárinu ef hann hefur eða mun stunda nám í a.m.k. [fjóra]1) mánuði á staðgreiðsluárinu og staðgreiðsla hans í heild á staðgreiðsluárinu mun leiða til a.m.k. 20% hærri staðgreiðslu en væntanlega álagðir skattar og gjöld vegna tekjuársins munu nema samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga þessara.

(3) Á umsókn, sem sett er fram á sérstöku eyðublaði og ríkisskattstjóri lætur gera, skal koma fram rökstuðningur fyrir kröfum samkvæmt þessari grein. Umsókn skulu fylgja fullnægjandi gögn til stuðnings kröfunni.

(4) Ríkisskattstjóri skal úrskurða um umsókn launamanns og er sá úrskurður endanleg ákvörðun í málinu.

(5) [Við endurgreiðslu skv. 1. og 2. mgr. skal bæta álagi sem skal vera 0,2% af endurgreiðslufjárhæð fyrir hvern byrjaðan mánuð frá því staðgreiðsla var innt af hendi og þar til endurgreiðsla fer fram.]1)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 139/1995. 2)Sbr. 28. gr. laga nr. 128/2009. 3)Sbr. 7. gr. laga nr. 125/2015. 4)Sbr. 6. gr. laga nr. 132/2019.

Launagreiðendaskrá, tilkynningar.
19. gr.

(1) [Hver sá sem telst launagreiðandi skv. 7. gr. skal ótilkvaddur og eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hans hefst tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína þar sem tilgreint er nafn, heimili og kennitala launagreiðandans.]1)

(2) Nú hefur aðili, sem að mati ríkisskattstjóra bar að tilkynna sig sem launagreiðanda skv. 1. mgr., eigi sinnt umræddri tilkynningarskyldu og skal þá ríkisskattstjóri úrskurða hann sem launagreiðanda samkvæmt ákvæðum 7. gr. og tilkynna aðilanum þar um.

(3) Aðilar þeir, sem um ræðir í 1. og 2. mgr., skulu vera á sérstakri skrá, launagreiðendaskrá, sem ríkisskattstjóri heldur. Hver launagreiðandi fær þá sérstakt númer sem hann skal geta um í skilagrein staðgreiðslu, sbr. ákvæði 20. gr.

(4) Launagreiðandi, sem er á launagreiðendaskrá en hættir launagreiðslum á staðgreiðsluári, skal innan átta daga senda ríkisskattstjóra tilkynningu þess efnis.

(5) Tilkynningar skv. 1. mgr. skal senda á þar til gerðu eyðublaði sem ríkisskattstjóri lætur gera. Ríkisskattstjóri ákveður hvaða upplýsingar skuli gefa á þessu eyðublaði.

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 65/2002.

Fara efst á síðuna ⇑