Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.9.2024 00:51:01

Lög nr. 91/1998 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=91.1998.0)
Ξ Valmynd

Lög
nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.*1)

*1)Sbr. lög nr. 18/2002, 128/2009, 136/2009, 126/2011 og 39/2019.

1. gr.

(1) Ríkisskattstjóri skal láta uppi bindandi álit í skattamálum eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, enda geti mál varðað verulega hagsmuni þess sem eftir slíku áliti leitar. Beiðni um bindandi álit getur tekið til álitamála sem snerta álagningu skatta og gjalda sem eru á valdsviði [---]1) ríkisskattstjóra og falla undir úrskurðarvald yfirskattanefndar.

(2) Ekki er heimilt að óska eftir bindandi áliti um skattaleg áhrif ráðstafana sem þegar hafa verið gerðar.

1)Sbr. 93. gr. laga nr. 136/2009.

2. gr.

(1) Senda skal skriflega beiðni um bindandi álit til ríkisskattstjóra í tæka tíð til að unnt sé að gefa álit áður en ráðstöfun er gerð. Beiðnin skal vera ítarlega afmörkuð varðandi þau atvik og álitaefni sem um er spurt og henni skulu fylgja upplýsingar og gögn sem þýðingu hafa og álitsbeiðandi hefur yfir að ráða.

(2) Þurfi ríkisskattstjóri á frekari gögnum að halda hjá álitsbeiðanda til þess að geta tekið afstöðu og gefið álit skal hann kalla eftir þeim svo fljótt sem unnt er. Álitsbeiðandi skal afhenda gögnin innan þess frests sem ríkisskattstjóri setur honum. Berist gögn ekki innan tilskilins frests skal vísa erindinu frá eða takmarka álitið við fyrirliggjandi gögn.

(3) Beiðni um bindandi álit telst sjálfkrafa fallin úr gildi ef ráðstafanir, sem beiðnin lýtur að, eru gerðar eftir að beiðni er send ríkisskattstjóra og áður en álit liggur fyrir. Sama gildir láti álitsbeiðandi verða af ráðstöfun sinni áður en úrskurður yfirskattanefndar liggur fyrir og eftir atvikum niðurstaða dómstóla.

3. gr.

(1) Ríkisskattstjóri skal láta uppi bindandi álit samkvæmt lögum þessum svo fljótt sem unnt er. Ef ekki er unnt að láta uppi álit innan fjögurra vikna frá því að beiðni barst skal ríkisskattstjóri tilkynna álitsbeiðanda skriflega um frestun og skýra ástæður hennar. Ríkisskattstjóra er ekki heimilt að fresta gerð bindandi álits lengur en í þrjá mánuði frá því að beiðni berst.

(2) Nú telur ríkisskattstjóri að beiðni sé vanreifuð eða óskýr eða aðrar ástæður mæla gegn því að látið sé uppi bindandi álit og getur hann þá vísað beiðninni frá með rökstuðningi. Hið sama gildir ef ljóst þykir að álitsbeiðandi hafi ekki verulega hagsmuni af því að fá fyrirspurn sinni svarað.

4. gr.

Þegar ríkisskattstjóri hefur lokið við gerð bindandi álits sendir hann það til álitsbeiðanda [---]1). Álitið skal vera rökstutt.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 39/2019.

5. gr.

(1) Álitsbeiðandi getur kært bindandi álit ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Um kærufrest, efni kæru og málsmeðferð fer eftir lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

(2) Álitsbeiðanda og [ráðherra]1) er heimilt að bera úrskurð yfirskattanefndar skv. 1. mgr. undir dómstóla enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp.

(3) Frávísun ríkisskattstjóra skv. 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. verður hvorki borin undir yfirskattanefnd né dómstóla.

1)Sbr. 277. gr. laga nr. 126/2011.

6. gr.

[Ríkisskattstjóri skal leggja bindandi álit til grundvallar skattlagningu álitsbeiðanda.]1) Álitið er ekki bindandi fyrir skattyfirvöld að því marki sem málsatvik hafa breyst sem álitið er byggt á. Hið sama gildir hafi verið gerð breyting á lögum áður en ráðstöfun var gerð sem um er fjallað í álitinu og sú breyting tekur beint til atriða sem álitið byggist á. [Gildistími bindandi álita sem ríkisskattstjóri gefur út skv. 4. gr. er fimm ár. Hafi álitsbeiðandi ekki gert ráðstafanir sem fjallað er um í álitinu innan þess tíma fellur það niður.]1)

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 39/2019.

7. gr.

(1) Til að mæta þeim kostnaði sem ríkisskattstjóri hefur af gerð bindandi álita skal greiða gjald er miðast við þá vinnu sem hann hefur af gerð álits í hverju tilviki. Þegar beiðni um álit er lögð fram skal greiða grunngjald að fjárhæð [150.000 kr.]1) 2) 4) Viðbótargjald sem miðast við umfang máls skal greiða áður en ríkisskattstjóri lætur álitið uppi. [Um fjárhæð viðbótargjaldsins fer eftir gjaldskrá*1) sem [ráðherra]3) setur]1) .

(2) Ráðherra getur ákveðið, í þeim tilvikum þegar máli hefur verið vísað frá eða beiðni er dregin til baka, að endurgreiða gjald skv. 1. mgr.

(3) Ákvörðun um fjárhæð gjalds skv. 1. mgr. er hvorki hægt að bera undir yfirskattanefnd né dómstóla.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 18/2002. 2)Sbr. 36. gr. laga nr. 128/2009. 3)Sbr. 277. gr. laga nr. 126/20114)Sbr. 3. gr. laga nr. 39/2019.  *1)Sjá gjaldskrá nr. 146/2010, vegna kostnaðar við gerð bindandi álita í skattamálum.

8. gr.

Ríkisskattstjóri skal birta ákvarðanir og niðurstöður sem fram koma í álitum samkvæmt lögum þessum að því leyti sem þær hafa almenna þýðingu.

9. gr.

Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

10. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.
 

Fara efst á síðuna ⇑