Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.11.2024 14:58:29

Lög nr. 45/1987, kafli 10 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=45.1987.10)
Ξ Valmynd

 

Ákvæði til bráðabirgða I, sbr. lög nr. 13/2009.

Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. skal gjalddagi greiðslu vegna skila á staðgreiðslu í þeim tilvikum sem ákvæði til bráðabirgða VIII við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, tekur til vera tveimur mánuðum síðar en kveðið er á um í 3. mgr. 20. gr. og eindagi 14 dögum eftir það. 
 

Ákvæði til bráðabirgða II, sbr. lög nr. 70/2009.

Frá og með 1. júlí til 31. desember 2009 skal launagreiðandi reikna til viðbótar staðgreiðslu skv. 15. gr. laganna sérstakan 8% tekjuskatt af staðgreiðsluskyldum launum umfram 700.000 kr. á mánuði hjá hverjum einstaklingi. 
 

Ákvæði til bráðabirgða III, sbr. lög nr. 139/2013.

Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 1. mgr. 9. gr. skal innheimtuhlutfall í staðgreiðslu [2014 og 2015]1) á tekjur á mánuði vera 22,86% að viðbættu útsvari hjá þeim launamönnum sem eru skattskyldir skv. 1. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt.

1)Sbr. lög nr. 125/2014.
 

Ákvæði til bráðabirgða IV, sbr. lög nr. 125/2015.

Þrátt fyrir ákvæði a–c-liðar 1. mgr. 9. gr. skal innheimtuhlutfall vera með eftirfarandi hætti í staðgreiðslu 2016 á tekjur á mánuði hjá þeim launamönnum sem eru skattskyldir skv. 1. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt:

  1. á tekjur á bilinu 0–309.140 kr. á mánuði 22,68% að viðbættu útsvari,
  2. á tekjur á bilinu 309.141–770.000 kr. á mánuði 23,9% að viðbættu útsvari,
  3. á tekjur yfir 770.000 kr. á mánuði 31,8% að viðbættu útsvari.
 

Ákvæði til bráðabirgða V, sbr. lög nr. 132/2019.

Þrátt fyrir ákvæði a–c-liðar 1. mgr. 9. gr. skal innheimtuhlutfall vera með eftirfarandi hætti í staðgreiðslu 2020 á tekjur á mánuði hjá þeim launamönnum sem eru skattskyldir skv. 1. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um tekjuskatt:

  1. á tekjur á bilinu 0–330.225 kr. á mánuði 20,6% að viðbættu útsvari,
  2. á tekjur á bilinu 330.226–927.087 kr. á mánuði 22,75% að viðbættu útsvari,
  3. á tekjur yfir 927.087 kr. á mánuði 31,8% að viðbættu útsvari.

 

Ákvæði til bráðabirgða VI, sbr. lög nr. 17/2020.

Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. skal gjalddagi helmings þeirrar greiðslu sem var á gjalddaga 1. mars 2020 vegna skila á staðgreiðslu vera [1. janúar 2021]1) og eindagi 14 dögum eftir það. Ákvæðið á ekki við um staðgreiðslu samkvæmt lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 25/2020.
 

Ákvæði til bráðabirgða VII, sbr. lög nr. 25/2020.

(1) Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. er launagreiðendum, sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða [---]1] vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innan lands og á heimsvísu, heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum skv. 1. og 2. tölul. 5. gr., sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna sem frestað er að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis er 15. janúar 2021. [Hið sama á við um skil á allt að tveimur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum skv. 1. og 2. tölul. 5. gr., sem eru á gjalddaga 1. janúar 2021 til og með 1. desember 2021, og skal nýr gjalddagi og eindagi þeirra vera 15. janúar 2022.]1)
 
(2) Ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2020 eða úttekt eigenda innan ársins 2020 fer umfram reiknað endurgjald þeirra verður ekki fallist á að um verulega rekstrarörðugleika sé að ræða í skilningi þessa ákvæðis. [Með sama hætti verður ekki fallist á að um verulega rekstrarörðugleika sé að ræða sem réttlæti frestun greiðslu skv. 3. málsl. 1. mgr. hafi arði verið úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2021 eða úttekt eigenda innan ársins 2021 farið umfram reiknað endurgjald þeirra. Fari arðgreiðsla, kaup eigin hluta eða úttekt skv. 2. málsl. fram eftir frestun greiðslu skv. 3. málsl. 1. mgr. skal um þá greiðslu fara eftir ákvæði 5. mgr.]1)
 
(3) Skilyrði fyrir frestun greiðslu skv. 1. mgr. eru þau að launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum til Skattsins, sl. þrjú ár eða síðan hann hóf starfsemi.
 
(4) Beiðni um frestun á greiðslum skv. 1. mgr. felur eðli máls samkvæmt í sér skil á viðkomandi skilagreinum skv. 2. mgr. 20. gr. Umsókn launagreiðanda um frestun skal hafa borist í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils skv. 1. mgr. 20. gr. á því formi sem Skatturinn ákveður. Við afgreiðslu og endurskoðun umsóknar er auk þess heimilt að fara sérstaklega fram á að umsækjandi sýni með rökstuðningi og gögnum fram á að við verulega rekstrarörðugleika sé að glíma, svo sem með hliðsjón af lækkun á virðisaukaskattsskyldri veltu, og að skilyrði ákvæðisins fyrir frestun séu að öðru leyti uppfyllt. Heimilt er að hafna umsókn sé talið að skilyrðum ákvæðisins sé ekki fullnægt. Almenn afgreiðsla á greiðslufrestun sætir síðari endurskoðun og felur því ekki í sér staðfestingu á því að skilyrði hennar hafi á afgreiðsludegi verið uppfyllt.
 
(5) Leiði síðari skoðun í ljós að skilyrði greiðslufrestunar hafi ekki verið til staðar skal launagreiðandi sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins skv. 28. gr. í samræmi við upphaflega gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils sem greiðslu var frestað fyrir. Launagreiðandi og forsvarsmenn hans skulu ekki sæta öðrum viðurlögum.
 
(6) Verði launagreiðandi sem frestað hefur greiðslum til eindaga 15. janúar 2021 skv. 1. mgr. fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrra rekstrarár getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu þessara greiðslna fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Ósk um aukinn frest og greiðsludreifingu skal launagreiðandinn beina til Skattsins fyrir 15. janúar 2021, sem við afgreiðslu umsóknar skal m.a. líta til virðisaukaskattsskila umsækjanda á árinu 2020 og umfangs starfseminnar að öðru leyti.
 
(7) Ákvæði þetta á ekki við um staðgreiðsluskil opinberra aðila, þ.e. aðila sem fara með ríkis- eða sveitarstjórnarvald. Þá á ákvæðið ekki við um staðgreiðslu skatts samkvæmt lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.

1)Sbr. 10. gr. laga nr. 141/2020.   

Ákvæði til bráðabirgða VIII, sbr. lög nr. 33/2020.

(1) Álagi skv. 1. og 2. mgr. 28. gr. skal ekki beitt [frá 1. janúar 2020 til 1. maí 2021]1] ef máli skattaðila vegna þeirra atvika sem eru tilefni endurreiknings skv. 8. mgr. 28. gr. hefur verið vísað til refsimeðferðar samkvæmt ákvæðum 31. gr. 
 
(2) Ef meðferð máls sem vísað hefur verið til rannsóknar lögreglu skv. 4. mgr. 31. gr. lýkur með því að rannsókn er hætt þar sem sakargögn hafa ekki þótt nægjanleg til ákæru eða vegna þess að það sem fram er komið þykir að rannsókn lokinni ekki nægilegt eða líklegt til að leiða til sakfellingar, eða ef atvikin eru af öðrum ástæðum ekki lengur til rannsóknar sem saknæm háttsemi, er heimilt að endurupptaka úrskurð um skattbreytingar vegna atvikanna og bæta álagi á vantalda skattstofna skv. 1. og 2. mgr. 28. gr., enda sé úrskurður þar um kveðinn upp innan sex mánaða frá lokum málsmeðferðar lögreglu. Sama á við ef málsmeðferð lýkur með frávísun yfirskattanefndar vegna þess að sökunautur hlítir ekki málsmeðferð hennar, sbr. 4. mgr. 31. gr., eða án sektarákvörðunar eftir sektarboð skv. 2. mgr. 31. gr., enda sé staða skattaðila sem sakbornings felld niður. Heimild til álagsbeitingar samkvæmt þessari málsgrein takmarkast ekki af ákvæðum 8. mgr. 28. gr.

1)Sbr. 19. gr. laga nr. 140/2020.

Ákvæði til bráðabirgða IX, sbr. lög nr. 36/2021.

(1) Lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem fengið hafa frest til skila á afdreginni staðgreiðslu af launum vegna ársins 2020 til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021 samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VI og 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII geta sótt um að þeim greiðslum verði dreift í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur, að uppfylltum skilyrðum 3. mgr.

(2) Umsókn um greiðsludreifingu skal berast Skattinum eigi síðar en 10. júní 2021. Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem Skatturinn ákveður.

(3) Skilyrði fyrir greiðsludreifingu samkvæmt ákvæði þessu er að aðili sé á umsóknardegi í skilum með önnur opinber gjöld, skatta og skattsektir en greinir í 1. mgr. sem komin voru á eindaga 31. desember 2019. Álagðir skattar og gjöld á árinu 2020 skulu ekki vera byggð á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum, skýrslum og skilagreinum. Bú aðila skal ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila hafa verið slitið. Umsækjandi skal staðfesta í umsókn að hann uppfylli skilyrði fyrir greiðsludreifingu.

(4) Fyrsti gjalddagi greiðsludreifingar er 1. júlí 2022. Gjalddagi kröfu í greiðsludreifingu skv. 1. mgr. er fyrsti dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.

(5) Hafi krafa í greiðsludreifingu skv. 1. mgr. ekki verið greidd á eindaga skal greiða dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

(6) Verði vanskil á þremur frestuðum greiðslum skv. 1. mgr. fellur greiðsludreifing niður og ógjaldfallnar kröfur í greiðsludreifingu falla í gjalddaga. Gjalddagi kröfu skv. 1. málsl. er fyrsti dagur næsta mánaðar eftir að greiðsludreifing féll niður og eindagi er 14 dögum síðar. Sé krafan ekki greidd á eindaga leggjast á dráttarvextir skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá gjalddaga.

(7) Ekki er heimilt að gera greiðsluáætlun um gjaldfallnar kröfur sem eru í greiðsludreifingu.

(8) Verði bú aðila sem nýtur heimildar til greiðsludreifingar tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila slitið á tímabili greiðsludreifingar fellur greiðsludreifing niður og kröfur falla í gjalddaga á úrskurðardegi um gjaldþrotaskipti eða við afskráningu.

(9) Óheimilt er að skuldajafna inneignum á móti ógjaldföllnum kröfum í greiðsludreifingu. Falli greiðsludreifing niður, sbr. 6. mgr., skal skuldajafna inneignum á móti gjaldföllnum kröfum sem voru í greiðsludreifingu.

(10) Ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun umsóknar um greiðsludreifingu má skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

Fara efst á síðuna ⇑