Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 17:22:44

Reglugerð nr. 696/2019 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=696.2019)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 696/2019, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga.

 

 

 

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Almenn ákvæði.

(1) Þau félög, sem skylt er að semja ársreikninga og eftir atvikum samstæðureikninga skv. lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, skulu semja efnahagsreikning, rekstrarreikning og skýringar í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Ef við á skal ársreikningurinn einnig innihalda skýrslu stjórnar og sjóð­streymisyfirlit. Jafnframt skal áritun endurskoðanda eða staðfesting skoðunarmanns fylgja árs­reikn­ingnum ef við á.

(2) Þeir aðilar, sem semja skulu ársreikninga samkvæmt ákvæðum III. kafla laga um bókhald, nr. 145/1994, en kjósa að semja ársreikninga sína samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga, skulu fara að ákvæðum I.-VI. kafla reglugerðar þessarar.

(3) Stjórnendur skulu leggja mat á mikilvægi við gerð ársreiknings og hvort reikningsskilin gefi glögga mynd af afkomu og fjárhagsstöðu félagsins eða samstæðunnar. Stjórnendur skulu í framhaldi af því leggja mat á hvort bæta þurfi við upplýsingum í ársreikning félagsins eða samstæðureikning svo glögg mynd náist, þ.m.t. hvort að birta þurfi sjóðstreymisyfirlit fyrir félag sem annars er ekki skylt að gera slíkt yfirlit, eða birta ítarlegri sundurliðanir, skýringar eða upplýsingar í skýrslu stjórnar en gerð er krafa um í lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, eða reglugerð þessari.


 II. KAFLI
Efnahagsreikningur, rekstrareikningur og sjóðstreymisyfirlit.
2. gr.
Efnahagsreikningur.
(1) Efnahagsreikningur skal saminn á kerfisbundinn hátt, sbr. 3. gr., þannig að hann gefi glögga mynd af eignum, skuldum og eigin fé félagsins eða samstæðunnar í lok reikningsárs.

(2) Í undantekningartilvikum má víkja frá ákvæðum um framsetningu efnahagsreiknings ef þau leiða til þess að ársreikningur eða samstæðureikningur gefur villandi eða óskýra mynd af efnahag félags­ins eða samstæðunnar. Skal þá í skýringum greina frá því af hverju stjórnendur telji að fram­setning efnahagsreiknings skv. 3. gr. gefi villandi eða óskýra mynd af fjárhagsstöðu félagsins eða sam­stæðunnar.

Efnahagsreikning skal setja upp með eftirfarandi hætti og skulu einstakir liðir sérgreindir nema þeir eigi ekki við eða nemi óverulegum fjárhæðum, samanber ákvæði 9. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006. Skal þá, þess í stað, sundurliða viðkomandi liði í skýringarhluta ársreikn­ings, eða samstæðureiknings, eftir því sem við á.

 3. gr.
Framsetning efnahagsreiknings.

 

Eignir:
1. Fastafjármunir
  a) Óefnislegar eignir
    1. Þróunarkostnaður
    2. Aflaheimildir og sambærilegar eignir
    3. Sérleyfi, einkaleyfi og önnur leyfi, byggingarréttur, réttur til vörumerkja og sambærileg réttindi og aðrar sambærilegar eignir
    4. Viðskiptavild
    5. Fyrirframgreiðslur
  b) Efnislegar eignir
    1. Lóðir og húseignir
    2. Verksmiðjur og vélakostur
    3. Bifreiðar, innréttingar, tæki og áhöld
    4. Fjárfestingarfasteignir
    5. Fyrirframgreiðslur og eignir í byggingu
  c) Fjáreignir, þ.m.t. langtímakröfur
    1. Fjárfestingar í dótturfélögum
    2. Fjárfestingar í hlutdeildarfélögum
    3. Eignarhlutir í öðrum félögum
    4. Lán til dótturfélaga
    5. Lán til hlutdeildarfélaga
    6. Lán til annarra tengdra aðila
    7. Lán til annarra félaga sem félagið á eignarhluti í
    8. Verðbréf önnur en veltufjáreignir
    9. Önnur lán
  d) Aðrir fastafjármunir svo sem skatteign
       
2. Veltufjármunir
  a) Birgðir
    1. Hráefni og rekstrarvörur
    2. Vörur og verk í vinnslu
    3. Fullunnar vörur og vörur til endursölu
    4. Fyrirframgreiðslur
  b) Skammtímakröfur
    1. Viðskiptakröfur
    2. Kröfur á samstæðufélög
    3. Kröfur á hlutdeildarfélög
    4. Kröfur á aðra tengda aðila
    5. Kröfur á önnur félög sem félagið á eignarhlut í
    6. Aðrar skammtímakröfur
    7. Fyrirframgreiddur kostnaður og áunnar óinnheimtar tekjur
  c) Verðbréf
  d) Handbært fé og ígildi handbærs fjár
Eigið fé og skuldir
3. Eigið fé
  a) Hlutafé eða stofnfé
  b) Yfirverðsreikningur innborgaðs hlutafjár
  c) Endurmatsreikningur
  d) Lögbundinn varasjóður
  e) Þýðingarmunur
  f) Annað bundið eigið fé (heimilt er að sýna þessa sundurliðun í skýringum)
    1. Varasjóðir, þ.m.t. óinnleystur hagnaður dóttur- og hlutdeildarfélaga, gang­virðis­reikningur vegna fjáreigna, bundinn þróunarkostnaður og varasjóðir sem kveðið er á um í samþykktum félagsins
    2. Annað eigið fé
  g) Óráðstafað eigið fé (heimilt er að sýna þessa sundurliðun í skýringum)
    1. Yfirfært frá fyrri árum
    2. Hagnaður eða tap ársins
    3. Arðgreiðslur
    4. Framlög í varasjóði og aðrar breytingar
  h) Hlutdeild minnihluta (í samstæðureikningum skal í efnahagsreikningi draga fram hlut­deild minnihluta í eigin fé samstæðunnar)
     
4. Langtímaskuldir
  a) Lífeyrisskuldbindingar og aðrar sambærilegar skuldbindingar
  b) Tekjuskattsskuldbinding
  c) Aðrar skuldbindingar
  d) Breytanleg og/eða víkjandi skuldabréfalán
  e) Skuldir við lánastofnanir
  f) Mótteknar greiðslur inn á pantanir, ef þær eru ekki sýndar sérstaklega sem frádráttur frá birgðum
  g) Viðskiptaskuldir og önnur lán
  h) Skuldir við samstæðufélög
  i) Skuldir við hlutdeildarfélög
  j) Skuldir við aðra tengda aðila
  k) Skuldir við önnur félög sem félagið á eignarhlut í
  l) Áfallin, ógreidd gjöld og fyrirframgreiddar tekjur
  m) Aðrar langtímaskuldir
     
5. Skammtímaskuldir
  a) Næsta árs afborgun breytanlegra og/eða víkjandi skuldabréfalána
  b) Næsta árs afborgun annarra langtímalána
  c) Skuldir við lánastofnanir
  d) Mótteknar greiðslur inn á pantanir, ef þær eru ekki sýndar sérstaklega sem frádráttur frá birgðum
  e) Viðskiptaskuldir
  f) Önnur skammtímalán
  g) Skuldir við samstæðufélög
  h) Skuldir við hlutdeildarfélög
  i) Skuldir við aðra tengda aðila
  j) Skuldir við önnur félög sem félagið á eignarhlut í
  k) Tekjuskattur til greiðslu
  l) Aðrar skammtímaskuldir, þ.m.t. ógreidd opinber gjöld
  m) Ógreidd áætluð gjöld
  n) Fyrirframinnheimtar tekjur

 

4. gr.
Rekstrarreikningur.
(1) Rekstrarreikningur skal settur upp með kerfisbundnum hætti og í samræmi við ákvæði 5. gr. þannig að hann gefi glögga mynd af afkomu félagsins eða samstæðunnar á reikningsárinu. Í rekstrar­reikningi samstæðu skal sýna greiningu á því hversu mikill hluti afkomu ársins tilheyrir hluthöfum móðurfélagsins annars vegar og hlutdeild minnihluta hins vegar.
 
(2) Í stað framsetningar rekstrarreiknings, sbr. 1. mgr. 5. gr., er heimilt að setja rekstrarreikning upp skv. starfsemiskostnaðarflokkun sé það talið gefa gleggri mynd.
 
(3) Í undantekningartilvikum má víkja frá ákvæðum 1. mgr. um framsetningu rekstrarreiknings í samræmi við ákvæði 5. gr. ef sú framsetning leiðir til þess að ársreikningur eða sam­stæðu­reikningur gefur villandi eða óskýra mynd af rekstri og afkomu. Skal í skýringum greina frá því af hverju stjórn­endur telji að framsetning rekstrarreiknings í samræmi við áðurnefnt ákvæði gefi villandi eða óskýra mynd af afkomu félagsins.

5. gr.
Framsetning rekstrarreiknings.
 
Rekstrarreikning skal setja fram með eftirfarandi hætti eftir tegund kostnaðar og skulu eftir­farandi liðir sérgreindir nema þeir eigi ekki við eða nemi óverulegum fjárhæðum en þá skal þess í stað sundurliða viðkomandi liði í skýringarhluta ársreiknings, eða samstæðureiknings, eftir því sem við á.
  
1. Hrein velta
2. Aðrar rekstrartekjur
3. Kostnaðarverð seldra vara (heimilt er að sýna þessar sundurliðanir í skýringum)
  a) Birgðabreyting fullunninna vara og verka í vinnslu
  b) Hráefni og rekstrarvörur
  c) Annar ytri kostnaður
4. Laun og launatengd gjöld (heimilt er að sýna þessar sundurliðanir í skýringum)
  a) Laun
  b) Launatengd gjöld
5. Önnur rekstrargjöld
6. Afskriftir og virðisrýrnun
7. Hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga
8. Fjármunatekjur (heimilt er að sýna þessar sundurliðanir í skýringum)
  a) Vaxtatekjur af lánum til tengdra aðila
  b) Aðrar vaxtatekjur
  c) Matsbreytingar verðbréfa
  d) Aðrar fjármunatekjur, þ.m.t. arðstekjur og hreinn gengismunur vegna gjaldmiðla­breyt­inga sé hann jákvæður
9. Fjármagnsgjöld (heimilt er að sýna þessar sundurliðanir í skýringum)
  a) Vaxtagjöld af lánum frá tengdum aðilum
  b) Önnur vaxtagjöld
  c) Matsbreytingar verðbréfa
  d) Annar fjármagnskostnaður, svo sem hreinn gengismunur vegna gjaldmiðlabreytinga sé hann neikvæður
10. Tekjuskattur
11. Hagnaður eða tap af aflagðri starfsemi
12. Hagnaður eða tap ársins

6. gr.
Sjóðstreymisyfirlit.
 
Sjóðstreymisyfirlit skal sett upp með skipulegum og samræmdum hætti. Skal það framsett þannig að það gefi glögga mynd af breytingu á handbæru fé á reikningsárinu og skal yfirlitið sýna breyt­inguna flokkaða eftir rekstrarhreyfingum, fjárfestingarhreyfingum og fjármögnunarhreyfingum. Sjóð­­streymis­­yfirlit skal samið annaðhvort eftir beinni aðferð eða óbeinni aðferð í samræmi við settar reikn­ingsskilareglur.

 III. KAFLI
Framsetning skýringa.
7. gr.
Skýringar.
 
(1) Í skýringum í ársreikningi, eða samstæðureikningi ef við á, skal veita nauðsynlegar upplýsingar og sundurliðanir með vísan til viðeigandi liða í efnahagsreikningi, rekstrarreikningi og sjóðstreymis­yfirliti. Ársreikningur og samstæðureikningur, ef við á, skal að lágmarki innihalda skýringar sem til­greindar eru í V. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, eftir því sem við á, ásamt upplýsingum um reikningsskilaaðferðir.

(2) Upplýsingar í skýringum skulu vera það ítarlegar að þær geri notendum ársreikningsins, og samstæðu­reikningsins ef við á, kleift að leggja mat á eðli og fjárhagsleg áhrif viðskipta og annarra atburða á rekstur og efnahag félagsins eða samstæðunnar. Stjórnendur skulu leggja mat á mikil­vægi og hvaða upplýsingar eru viðeigandi til að tryggja að reikningsskilin gefi glögga mynd af afkomu félagsins eða samstæðunnar, fjárhagsstöðu og ef við á breytingum á handbæru fé. Hversu ítarlegar upplýsingar og sundurliðanir eru veittar í skýringum byggist því á mati stjórnenda. Við það mat skal meðal annars taka tillit til stærðar og umfangs rekstrar- og efnahagsreiknings og þarfa þeirra sem nota reikningsskilin. Stjórnendur skulu því leggja mat á hvort bæta þurfi við upplýs­ingum í ársreikn­inginn og samstæðureikninginn, ef við á, svo að glögg mynd náist, þar með talið hvort nauðsynlegt sé að birta ítarlegri sundurliðanir og skýringar en gerð er krafa um í lögum um ársreikn­inga, nr. 3/2006, eða reglugerð þessari.

(3) Í viðauka A er að finna yfirlit yfir upplýsingar sem nauðsynlegt kann að vera að veita að hluta til eða í heild vegna tiltekinna liða til viðbótar við kröfur V. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, svo ársreikningur eða samstæðureikningur gefi glögga mynd. Upptalningin er ekki tæmandi.

 IV. KAFLI
Skýrsla stjórnar.
8. gr.

(1) Í skýrslu stjórnar skal upplýsa um aðalstarfsemi og gefa yfirlit yfir þróun, stöðu og árangur í rekstri félagsins ásamt lýsingu á megináhættu- og óvissuþáttum sem það stendur frammi fyrir. Hversu ítar­legar upplýsingar þarf að veita ræðst m.a. af því hversu margbrotin starfsemin er, umfangi rekstrar og stærð viðkomandi félags.  

(2) Að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er til að skilja þróun og árangur í starfsemi félagsins skal yfir­litið fela í sér lykilvísbenda um fjárhagslegan árangur og, ef við á, um ófjárhagsleg atriði sem gætu t.d. tengst starfsmannamálum, þekkingarforða og óefnislegum eignum. Einingar tengdar almanna­­hagsmunum og móðurfélög stórra samstæðna skulu í samræmi við ákvæði 66. gr. d. í lögum um ársreikninga einnig láta fylgja í yfirliti með skýrslu stjórnar ófjárhagslegar upplýsingar um áhrif starfseminnar á m.a. umhverfi. Lítil félög og örfélög eru undanþegin ákvæðum þessarar máls­greinar.

9. gr.
Í félagi sem gefið hefur út verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfa­markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins skal hver og einn stjórnarmaður, í samræmi við ákvæði 66. gr. b. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, undirrita yfirlýsingu þar sem fram kemur nafn hans og verk­svið innan stjórnar félagsins. Í yfirlýsingunni skal koma fram að samkvæmt bestu vitneskju stjórnarmanna geymi skýrsla stjórnar glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri félagsins, stöðu þess og lýsi helstu áhættu- og óvissuþáttum sem félagið stendur frammi fyrir. Í þeim tilfellum þar sem upplýsingar þær er veita skal, þannig að glöggt yfirlit náist, eru hluti af upplýsingagjöf stjórn­enda skal í skýrslu stjórnar vísa til upplýsinganna með þeim hætti að ótvírætt sé að þær teljist í skilningi laga hluti af skýrslu stjórnar í ársreikningi.

10. gr.
Félagi sem ber að birta yfirlýsingu um stjórnarhætti sína, sbr. ákvæði í 66. gr. c. í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga, skal í upplýsingagjöf um helstu þætti innra eftirlits og áhættustýringar í tengslum við reikningsskilaferlið einnig gera grein fyrir þeim þáttum innra eftirlits og áhættu­stýringar sem liggja að baki viðbótarupplýsingagjöf sem telst í skilningi laga til skýrslu stjórnar.

 V. KAFLI
Samstæðureikningur.
11. gr.
Gerð samstæðureiknings.

(1) Þegar félag fer með yfirráð yfir öðru félagi telst hið fyrra vera móðurfélag en hið síðara dóttur­félag og skal þá móðurfélagið, auk ársreiknings, semja samstæðureikning, sbr. þó 68.-70. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006.

(2) Undanþágur skv. 68.-70. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, gilda ekki þegar eitt félaganna, sem fella á undir samstæðuna, er félag með verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

(3) Samstæðureikning skal semja samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, og skal hann hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðstreymisyfirlit, skýringar og skýrslu stjórnar ásamt áritun endurskoðanda. Samstæðureikningur skal gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé samstæðunnar.

(4) Ef félag, sem ekki þarf að semja samstæðureikning skv. 68.-70. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, semur slíkan reikning skal það gert samkvæmt ákvæðum VII. kafla laganna. Ekki er skylt að skila slíkum reikningi til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
12. gr.
Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessar varða viðurlögum, sbr. XII. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum og IV. kafla laga um bókhald, nr. 145/1994, með síðari breyt­ingum.

13. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 1. mgr. 6. gr. og 127. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006 og 42. gr. laga um bókhald, nr. 145/1994, öðlast þegar gildi. Reglu­gerðin skal gilda um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga sem samdir eru fyrir hvert reikningsár sem hefst frá og með 1. janúar 2019. Heimilt er þó að taka hana upp fyrr.

VIÐAUKI A

Dæmi um viðbótarupplýsingar í skýringarhluta ársreiknings sem nauðsynlegt kann að vera að birta að hluta til eða í heild til að gefa glögga mynd.

 

Óefnislegar eignir:

Fyrir hvern flokk óefnislegra eigna:

  1. Nýtingartími og afskriftarhlutföll sem notuð eru.
  2. Afskriftaraðferðir sem eru notaðar.
  3. Bókfært verð og uppsafnaðar afskriftir, ásamt uppsafnaðri virðisrýrnun ef við á, við upphaf og lok reikningsárs.
  4. Hvar afskriftir og virðisrýrnun eru færðar séu þessir liðir ekki sérgreindir í rekstrar-reikningi.
  5. Breytingar á bókfærðu verði frá upphafi til loka reikningstímabils sem sýnir:
    1. kaup ársins og aðrar viðbætur,
    2. selt og niðurlagt á árinu,
    3. yfirtökur við sameiningu fyrirtækja,
    4. afskrift ársins,
    5. virðisrýrnun ársins og
    6. aðrar breytingar.
  1. Lýsing og bókfært verð sérhvers flokks óefnislegra eigna sem teljast vera mikilvægar.
  2. Heildarfjárhæð gjaldfærðs rannsóknar- og þróunarkostnaðar á árinu.

Birta þarf frekari upplýsingar en að ofan greinir ef það er nauðsynlegt til að gera notendum reikningsskilanna kleift að meta mikilvægi þeirra fyrir fjárhagsstöðu og frammistöðu félagsins t.d. upplýsingar sem tengjast mati á óefnislegum eignum og forsendum virðisprófs þeirra.
 

Rekstrarfjármunir:

Fyrir hvern flokk rekstrarfjármuna:

  1. Nýtingartíma og afskriftarhlutföll sem notuð eru.
  2. Afskriftaraðferðir sem eru notaðar.
  3. Brunabótamat ásamt fasteignamati fyrir fasteignir.
  4. Matsgrunna sem eru notaðir til að ákvarða bókfært verð.
  5. Bókfært verð og uppsafnaðar afskriftir, ásamt uppsafnaðri virðisrýrnun ef við á, við upphaf og lok reikningsárs.
  6. Breytingar á bókfærðu verði frá upphafi til loka reikningsárs sem sýnir:
    1. kaup ársins og aðrar viðbætur,
    2. selt og niðurlagt á árinu,
    3. yfirtökur við sameiningu fyrirtækja,
    4. matsbreytingu ársins hafi félagið endurmetið rekstrarfjármuni í samræmi við heimild í 31. gr. laga um ársreikninga,
    5. gjaldfærða virðisrýrnun eða bakfærslu hennar,
    6. afskrift ársins, og
    7. aðrar breytingar.
  1. Fjárhæð kostnaðar sem er eignfærður meðal bókfærðs verðs rekstrarfjármunar á meðan hann er í smíðum og fjárhæð samningsbundinna skuldbindinga vegna kaupa á rekstrar-fjármunum.
  2. Hafi rekstrarfjármunur orðið fyrir virðisrýrnun eða virðisrýrnun rekstrarfjármunar gengið til baka, sbr. ákvæði 30. gr. laga um ársreikninga, upplýsa um þá atburði og kringumstæður sem leiddu til virðisrýrnunar eða bakfærslu hennar.

Birta frekari upplýsingar en að ofan greinir ef það er nauðsynlegt til að gera notendum reikningsskilanna kleift að meta mikilvægi þeirra fyrir fjárhagsstöðu og frammistöðu félagsins.
 

Fjárfestingarfasteignir:

  1. Í hvaða tilvikum fasteign eða hluti fasteignar sem félagið hefur í útleigu er flokkuð og færð sem fjárfestingarfasteign.
  2. Viðmiðanir sem félagið notar til að greina á milli fjárfestingarfasteignar, fasteignar sem félagið nýtir sjálft og fasteignar sem haldið er til sölu í reglubundinni starfsemi þegar flokkunin er vandasöm.
  3. Að hve miklu leyti gangvirði fjárfestingarfasteignar er byggt á mati óháðs matsmanns sem hefur viðurkennda og viðeigandi sérfræðikunnáttu og þekkir viðkomandi landsvæði og tegund þeirrar fjárfestingarfasteignar sem meta á. Ef ekkert slíkt óháð mat hefur farið fram skal greina frá því.
  4. Fjárhæðir sem færðar eru í rekstrarreikning að því er varðar:
    1. leigutekjur af fjárfestingarfasteignum,
    2. beinan rekstrarkostnað (þ.m.t. viðgerðir og viðhald), sem stafa af fjárfestingar-fasteignum sem gáfu af sér leigutekjur á tímabilinu og
    3. beinan rekstrarkostnað (þ.m.t. viðgerðir og viðhald) sem stafar af fjárfestingar-fasteignum sem ekki gáfu af sér leigutekjur á tímabilinu.

Birta þarf frekari upplýsingar en að ofan greinir ef það er nauðsynlegt til að gera notendum reikningsskilanna kleift að meta mikilvægi þeirra fyrir fjárhagsstöðu og frammistöðu félagsins t.d. upplýsingar um lykilforsendur í mati á gangvirði fjárfestingarfasteigna.
 

Fjáreignir:

Sundurliða fjáreignir ef við á í viðbótarupplýsingum í skýringum með eftirfarandi hætti:

  1. Fjáreignir sem metnar eru á gangvirði gegnum rekstrarreikning og skilja á milli veltufjár-eigna og fjáreigna tilgreindra á gangvirði gegnum rekstur við upphaflega skráningu.
  2. Fjáreignir til sölu.
  3. Fjáreignir sem eru skuldagerningar og metnar eru á afskrifuðu kostnaðarverði, svo sem lán og kröfur.
  4. Fjáreignir sem eru eiginfjárgerningar og metnar eru á kostnaðarverði.

Veita eftirfarandi upplýsingar fyrir hvern flokk fjáreigna eftir því sem við á:

  1. Vaxtatekjur.
  2. Matsbreytingar fjáreigna sem metnar eru á gangvirði.
  3. Virðisrýrnun sem færð hefur verið á tímabilinu.

Upplýsa um eftirfarandi atriði fyrir hvern flokk áhættuvarna:

  1. Lýsingu á áhættuvörninni.
  2. Lýsingu á þeim fjármálagerningum sem skilgreindir hafa verið sem áhættuvörn, þ.m.t. bókfært verð þeirra.
  3. Eðli þeirrar áhættu sem verið er að verjast.

Birta frekari upplýsingar en að ofan greinir um fjáreignir ef það er nauðsynlegt til að gera notendum reikningsskilanna kleift að meta mikilvægi þeirra fyrir fjárhagsstöðu og frammistöðu félagsins.
 

Vörubirgðir:

  1. Bókfært heildarvirði vörubirgða og bókfært verð einstakra flokka vörubirgða eftir þeirri flokkun sem viðeigandi er fyrir félagið.
  2. Fjárhæð gjaldfærslu vegna niðurfærslu vörubirgða.
  3. Fjárhæð bakfærðrar niðurfærslu sem áður hefur verið gjaldfærð.

Gera grein fyrir aðstæðum eða atburðum sem leiddu til þess að niðurfærsla birgða var bakfærð.

Birta frekari upplýsingar en að ofan greinir ef það er nauðsynlegt til að gera notendum reikningsskilanna kleift að meta mikilvægi birgða fyrir fjárhagsstöðu og frammistöðu félagsins.
 

Handbært fé og ígildi handbærs fjár:

Takmarkanir á ráðstöfun handbærs fjár og ígildi þess og ef innstæður á bankareikningum eða aðrir sjóðir félagsins hafa verið veðsettir ásamt upplýsingum um fjárhæð veðsetningar.
 

Fjárskuldir:

Upplýsingar um fjárskuldir sem gera notendum reikningsskilanna kleift að meta mikilvægi þeirra fyrir fjárhagsstöðu og frammistöðu félagsins. Sem dæmi má nefna upplýsingar um vaxtakjör. Einnig upplýsingar um mikilvæga lánaskilmála svo sem lágmarkseiginfjárhlutfall, vaxta-þekjuhlutfall eða takmarkanir á fjárfestingarmöguleikum félagsins.

Upplýsingar um lánasamninga sem eru í vanskilum á reikningsskiladegi og í hverju vanskilin eru fólgin, fjárhæðir þeirra, mögulegar afleiðingar vanskilanna og hvort að samningum hafi verið komið í skil eða endursamið um þá fyrir undirritunardagsetningu ársreikningsins.

Frekari upplýsingar en að ofan greinir ef það er nauðsynlegt til að gera notendum reiknings-skilanna kleift að meta mikilvægi þeirra fyrir fjárhagsstöðu og frammistöðu félagsins.
 

Laun, launatengd gjöld og annar starfsmannakostnaður:

  1. Afstemming á launum og launatengdum gjöldum sem sýnir:
    1. gjaldfærð laun í rekstrarreikningi,
    2. mótframlag í lífeyrissjóði,
    3. önnur launatengd gjöld,
    4. laun og launatengd gjöld sem eru eignfærð, t.d. sem hluti þróunarkostnaðar,
    5. upplýsingar um heildarlaun, þóknanir og ágóðahluta til núverandi og fyrrverandi stjórnenda félags vegna starfa í þágu félagsins þar sem greint er á milli framkvæmda-stjóra annars vegar og stjórnar í heild hins vegar.

Tekjuskattur:

Afstemmingu milli virks tekjuskattshlutfalls í rekstrarreikningi og gildandi tekjuskattshlutfalls sem og fjárhæð og nýtingartími yfirfæranlegs skattalegs taps sundurliðað niður á þau ár sem það er nýtanlegt.
 

Tengdir aðilar:

  1. Laun og önnur hlunnindi til stjórnar og lykilstjórnenda í heild og fyrir hvern eftirfarandi flokk:
    1. skammtímastarfskjör, þ.m.t. hlunnindi og lífeyrisframlög,
    2. eftirlaunakjör og önnur langtímastarfskjör,
    3. sérstök starfslokakjör,
    4. eignarhlutatengd hlunnindi.
  1. Ef viðskipti hafa átt sér stað á milli tengdra aðila að gera grein fyrir eðli tengslanna og veita þær upplýsingar um viðskiptin og útistandandi fjárhæðir sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að skilja möguleg áhrif tengslanna á reikningsskilin. Þessar kröfur um upplýsingar eru til viðbótar kröfunum í 1. tölul. um að gera grein fyrir launagreiðslum til lykilmanna í stjórnunarstörfum. Upplýsingarnar skulu að lágmarki taka til:
    1. fjárhæðar viðskiptanna,
    2. útistandandi fjárhæða, þ.m.t. skilmála og skilyrða fyrir þeim, m.a. um mögulegar tryggingar og eðli þeirrar endurgreiðslu sem látin er í té við uppgreiðslu og lýsingar á veittum eða mótteknum tryggingum,
    3. reiknaðra skuldbindinga vegna óvissra krafna í tengslum við útistandandi fjárhæðir og
    4. kostnaðar sem er færður á tímabilinu vegna niðurfærslu viðskiptakrafna eða óvissra krafna sem gjaldfallnar eru á tengda aðila.
  1. Upplýsa um hvort viðskipti við tengda aðila hafi verið gerð á armslengdarkjörum eður ei. Aðeins er heimilt að upplýsa um að viðskipti tengdra aðila hafi farið fram á sömu kjörum og gilda í viðskiptum við ótengda aðila ef hægt er að færa sönnur á að slík kjör séu fyrir hendi.

        Eftirfarandi eru dæmi um viðskipti sem greint er frá ef þau eru við tengdan aðila:

  1. Kaup eða sala á vörum, fullunnum eða í vinnslu.
  2. Kaup eða sala á fasteignum og öðrum eignum.
  3. Veitt eða móttekin þjónusta.
  4. Vaxtatekjur og vaxtagjöld vegna viðskipta við tengda aðila.
  5. Leigusamningar.
  6. Tilfærsla rannsóknar- og þróunarverkefna.
  7. Tilfærsla samkvæmt samningum um leyfisveitingar.
  8. Tilfærsla samkvæmt samningum um fjármögnun, þ.m.t. lán og eiginfjárframlög í reiðufé eða fríðu.
  9. Veiting ábyrgða eða veða.
  10. Uppgjör skulda í þágu einingarinnar eða af hálfu einingarinnar fyrir hönd annars aðila.

Fjárhagsleg áhættustýring:

Veita upplýsingar sem gera notendum reikningsskilanna kleift að meta eðli og umfang áhættu sem verður til vegna fjármálagerninga þegar þessar upplýsingar eru mikilvægar við mat á eignum, skuldum, fjárhagsstöðu eða rekstrarafkomu. Þessi áhætta tekur yfirleitt til, en takmarkast ekki við útlánaáhættu, lausafjáráhættu og markaðsáhættu (þ.m.t. verðáhættu). Enn fremur, ef við á, veita upplýsingar um áhættustöðu sem félagið er óvarið fyrir á reikningsskiladegi vegna notkunar fjármálagerninga í áhættustýringarferlinu. Dæmi um slíkt væri að veita eftirfarandi upplýsingar:

  1. Eðli sérhverrar tegundar áhættu sem verður til vegna fjármálagerninga og fyrir hverja tegund mikilvægra fyrirsjáanlegra viðskipta þar sem áhættuvarnarreikningsskil eru notuð:
    1. áhættuna sem félagið er óvarið fyrir og hvernig hún kemur til,
    2. markmið félagsins, stefnu þess og ferla við áhættustýringu og aðferðir, sem notaðar eru til að meta áhættuna og
    3. allar breytingar á a- eða b-lið frá fyrra tímabili.
  1. Tölulegar upplýsingar fyrir sérhverja tegund áhættu sem verður til vegna fjármálagerninga:
    1. samantekt tölulegra gagna um áhættuna sem félagið er óvarið fyrir á reikningsskiladegi sem eru byggðar á upplýsingum til lykilstjórnenda félagsins, framkvæmdastjóra eða framkvæmdastjóra einstakra sviða eða deilda,
    2. upplýsingar um útlánaáhættu, lausafjáráhættu og markaðsáhættu og
    3. samþjöppun áhættu að því marki sem hún kemur ekki fram í a- og b-lið.

Birta eftirfarandi upplýsingar um útlánaáhættu félagsins:

  1. Hámarksútlánaáhættu félagsins í lok reikningsárs án þess að tekið sé tillit til veðtrygginga sem haldið er sem tryggingu eða samninga sem gerðir hafa verið til að lágmarka útlánaáhættu, t.d. greiðslujöfnunarsamningar.
  2. Lýsingu á veðum, sem er haldið sem tryggingu, eða samningum sem gerðir hafa verið til að lágmarka útlánaáhættu að því er varðar fjárhæðina sem greint er frá í 1. tölul.
  3. Bókfært verð fjáreigna sem eru hvorki gjaldfallnar né hafa sætt niðurfærslu.
  4. Eftirfarandi upplýsingar fyrir hvern flokk fjáreigna eftir því sem við á:
    1. greiningu á aldri fjáreigna sem eru gjaldfallnar á reikningsskiladegi en hafa ekki sætt niðurfærslu,
    2. greiningu á aldri fjáreigna sem hafa sætt niðurfærslu á reikningsárinu, þ.m.t. atriði sem stjórnendur félagsins höfðu í huga þegar ákveðið var að færa þyrfti þær niður og
    3. upplýsingar um veð sem tengjast fjárhæðum sem greint er frá í a- og b-lið, og félagið heldur sem tryggingu.

Birta, eftir því sem við á, upplýsingar um lausafjáráhættu félagsins, þ.m.t. lýsingu á hvernig stjórnendur félagsins stýra lausafjáráhættunni.

Birta eftirfarandi upplýsingar um markaðsáhættu (þ.m.t. verðáhættu) félagsins eftir því sem við á:

  1. Næmnigreiningu fyrir hverja tegund af markaðsáhættu sem félagið er óvarið fyrir í lok reikningsárs.
  2. Aðferðir og forsendur sem voru notaðar við gerð næmnigreiningarinnar.
  3. Breytingar frá fyrra tímabili á aðferðum og forsendum sem voru notaðar og ástæðum fyrir slíkum breytingum.

Óvissar skuldbindingar:

Upplýsa um eftirfarandi fyrir hvern flokk óvissra skuldbindinga sem ekki eru færðar í efnahags-reikning:

  1. Lýsingu á eðli skuldbindingar.
  2. Vísbendingu um óvissuna sem fylgir fjárhæð eða tímasetningu útstreymis sem kann að verða.

Birta frekari upplýsingar en að ofan greinir ef það er nauðsynlegt til að gera notendum reikningsskilanna kleift að meta mikilvægi þeirra fyrir fjárhagsstöðu og frammistöðu félagsins.

 

Sameiningar og yfirtökur:

Upplýsa um hverja sameiningu fyrirtækja og yfirtöku á öðrum félögum sem komið var til leiðar á tímabilinu:

  1. Nöfn og lýsingar á þeim félögum sem sameinuðust eða voru yfirtekin.
  2. Yfirtökudag.
  3. Kostnaðarverð sameiningarinnar eða yfirtökunnar og lýsingu á kostnaðarþáttum, þ.m.t. reiðufé, eiginfjárgerninga og skuldagerninga.
  4. Bókfært verð á sameiningardegi fyrir hvern flokk eigna, skulda og óvissra skulda yfirtekna aðilans.
  5. Upplýsa um eftirfarandi þætti vegna viðskiptavildar við upphaf og lok reikningsárs:
    1. breytingar á viðskiptavild vegna nýrra sameininga eða yfirtaka,
    2. virðisrýrnun viðskiptavildar,
    3. sölu eða niðurfærslu á eignum yfirtekins félags í tengslum við sameininguna og
    4. aðrar breytingar.

Birta frekari upplýsingar en að ofan greinir ef það er nauðsynlegt til að gera notendum reikningsskilanna kleift að meta mikilvægi þeirra fyrir fjárhagsstöðu og frammistöðu félagsins.

Fara efst á síðuna ⇑