Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.3.2024 02:58:19

Reglugerð nr. 245/1963 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=245.1963.0)
Ξ Valmynd

Úr reglugerð
nr. 245/1963 um tekjuskatt og eignarskatt.*1)

*1)Hér eru birt þau ákvæði reglugerðarinnar sem vitnað hefur verið til í úrskurðum yfirskattanefndar. Þau skulu þó ætíð skýrð með hliðsjón af gildandi lögum.
Ýmis önnur ákvæði reglugerðarinnar teljast og í fullu gildi enda þótt þau birtist ekki hér.
 

I. KAFLI

Úr 5. gr.

Eftirtaldir menn eru undanþegnir tekjuskatti og eignarskatti:
[---]

  1. Sendiherrar erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlendir starfsmenn við sendiráð erlendra ríkja. Sendiherra tekur hér til allra sendimanna annarra ríkja, sem eftir reglum þjóðaréttar teljast til diplomata. Starfsmennirnir verða að vera í fastri þjónustu sendiráðanna og hafa starfið að einkastarfi. Íslenskir starfsmenn sendiráðanna njóta engra ívilnana í skatti skv. þessari gr.*1)

*1)Sjá úrskurð yfirskattanefndar nr. 1088/2000.

----------

Úr 9. gr.

(1) Tekjur og eignir hjóna, sem samvistum eru, skulu taldar til skattgjalds, enda þótt séreign sé eða sératvinna. Ábyrgjast þau bæði skattgreiðslu og undirrita skattframtal. Telja ber hjón samvistum, þótt þau búi eigi saman, nema þau séu skilin lögskilnaði eða að borði og sæng, eða vænta megi að skilnaður þeirra sé undirbúningur undir lögskilnað eða þau muni ekki aftur flytja saman.*1)

(2) Rétt er því hjóna, er skattgreiðslu annast, eða erfingjum þess krefjast endurgjalds af hinu eða erfingjum þess á þeim hluta skattsins, er réttum tölum kemur á séreign eða sératvinnu þess hjóna, er eigi innti af hendi skattgreiðslu.

*1)Sjá úrskurði yfirskattanefndar nr. 1088/2000 og 72/2001.

----------

13. gr.

  1. Til launa teljast allar greiðslur eða tekjur, sem launþegi fær fyrir að leysa eitthvert starf af hendi í annars þágu eða honum hlotnast í sambandi við starf, sem hann er eða hefur verið ráðinn til. Sama er, hverju nafni laun kallast eða í hvaða formi þau eru. (1)
    Falla hér undir m.a.: (2)
    1. Föst laun og aukatekjur, þar með talin öll hlunnindi, hverju nafni sem nefnast.
       
    2. Öll önnur starfslaun eða kaup, hvort sem það er miðað við vinnu ákveðinn tíma (árskaup, mánaðarlaun, vikukaup, daglaun, tímavinna o.s.frv.), tiltekið starf (ákvæðisvinna, nefndarstarf, eftirlit o.þ.h.), hlutdeild í framleiðslumagni, innkomnum tekjum eða greiðslum (hlutakaup, innheimtulaun o.fl.), eða á hvern hátt sem laun eru ákveðin.
       
    3. Launauppbætur og þóknanir, svo sem aflaverðlaun eða hlutaruppbót (premía), björgunarlaun sjómanna [---] eða sérstakar þóknanir fyrir aukavinnu eða yfirvinnu, staðaruppbætur, orlofsfé eða greiðsla fyrir ónotað sumarfrí o.þ.h. Hér telst og til ágóðaþóknun, nema raunverulega sé um arðsúthlutun að ræða. Enn fremur risnu- og skrifstofufé, bifreiðastyrkir o.þ.h. [---].
       
    4. Biðlaun, eftirlaun, lífeyrir, þar með taldar bótagreiðslur skv. lögum um almannatryggingar [---] nema sérstaklega séu undanþegnar [---]. Enn fremur greiðslur fyrir áður unnin störf, þar með taldar launauppbætur frá fyrri árum.
       
    5. Skaðabætur eða uppbót fyrir atvinnutap eða launamissi.
       
    6. Gjafir, sem telja má kaupauka [---] og eftirgjöf lána, sem telja má að komi í launa stað.

      Sama er, hvaðan laun koma eða fyrir hvað þau eru greidd. Eigi skiptir máli, hvort menn taka laun hjá einum launaveitanda eða fleirum. (3)

      Laun teljast að fullu til tekna, þótt hluti af þeim sé greiddur í lífeyris-, eftirlauna- eða sjúkrasjóði, eða haldið sé eftir af þeim til greiðslu á opinberum gjöldum, félagsgjöldum o.þ.h. (4)
       
  2. Það skiptir eigi máli, í hverju laun eða endurgjald fyrir unnið verk er fólgið, ef það verður metið til peninga. Til launatekna teljast því hvers konar hlunnindi, veitt í launa skyni, og önnur form fyrir greiðslu, svo sem fæði, húsnæði, ljós og hiti, bifreiðaafnot, einkennisbúningur og annar fatnaður, [---] greiðslur í vörum úr verslunum eða afurðum úr framleiðslufyrirtæki og greiðsla í sérhverjum öðrum verðmætum eða eignum, t.d. hlutafjáreign í hlutafélagi, innstæða í félagi eða fyrirtæki, hlutdeild í skipi eða húseign o.s.frv. (1)

    Laun greidd í hlunnindum skulu talin til tekna eftir gangverði á hverjum stað og tíma....*1) (2)

*1)Sjá úrskurði yfirskattanefndar nr. 451 og 452/2000.

Úr 14. gr.

Tekjur af eignum eru m.a. þessar:

  1. Tekjur af fasteignum, svo sem landskuld af jörðum, leiga eftir hús, lóðir og aðrar lendur, arður af alls konar ítökum og hlunnindum, svo sem beit, skógarhögg, reki, veiði, upprekstrargjald o.s.frv. [---]
     
  2. Tekjur af lausafé. Til tekna af lausafé teljast leigutekjur frá öðrum af hvers konar lausafé, sem selt er á leigu. (1)

    Ef eigandi notar lausafé sitt sjálfur að einhverju eða öllu leyti til atvinnurekstrar, þá skal ekki reikna lausafjárleiguna sérstaklega, heldur teljast tekjur af lausafénu með öðrum tekjum af atvinnurekstrinum. (2)
     
  3. Vextir og arður[---]
    3. [---] (1)

Arður af eigin hlutabréfum félags telst hvorki til tekna né gjalda hjá því. (7)

Úr 15. gr.

(1) Ágóði af sölu fasteigna og lausafjár (þar með verðbréf og kröfur) skal talinn til tekna, enda þótt salan falli ekki undir atvinnurekstur aðila, [---] ef ætla má, að hann hafi keypt eignina eða öðlast hana á annan hátt (t.d. í makaskiptum) í því skyni að selja hana aftur með ágóða, en þar er það leiðarvísir, hvort hann hefur þurft á eigninni að halda eða eigi, hvort hann hefur þurft að taka eignina upp í skuld, eða hvort hann er kunnur að eignakaupum í ágóðaskyni o.s.frv.
[---]

(4) Frá sölugróða má draga tap, sem orðið hefur á sams konar sölu á skattárinu. Sams konar er salan aðeins, ef svo er ástatt sem í 1. og 2. tl. að framan segir. Frá skattskyldum sölugróða má enn fremur draga þann kostnað, sem salan hefur haft í för með sér fyrir seljanda, sölulaun o.þ.h., enn fremur útlagðan kostnað við endurbætur, sem kunna að hafa verið gerðar á eigninni, enda verði endurbæturnar eigi taldar til venjulegs viðhalds. [---].
 

Úr 16. gr.

Tekjur af öðrum atvikum eru þessar helstar:

  1. Gjafir. Til skattskyldra tekna teljast fyrst og fremst gjafir eða hlunnindi, sem sýnilega eru gefin sem kaupauki, og beinar gjafir í peningum eða öðru, sem meta má til peninga, ef það nemur nokkru verulegu. Þetta nær þó eigi til dánargjafa eða fyrirframgreiðslu upp í arf, enda sé greiddur af þeim erfðafjárskattur. Tækifærisgjafir teljast og eigi sem tekjur í þessu sambandi, nema því aðeins að um arðberandi eignir sé að ræða, eða tæki til atvinnurekstrar. Gjafir, sem ekki eru í peningum, skal skattstjóri meta til peningaverðs. Það telst einnig til gjafa, ef menn afhenda einhverjar eignir í hendur ættingja sinna, tengdamanna eða annarra, án þess að greiðsla komi í staðin, eða ástæða sé til að ætla, að endurgreiðslan sé aðeins fyrir nokkrum hluta eignarinnar. Skal þá færa til tekna mismuninn á því endurgjaldi og áætluðu matsverði hinnar seldu eignar. Sé um eignaskipti að ræða, verður að meta hvora tveggja eignina.
     
  2. Styrktarfé. Til þess telst:
    1. Styrkur veittur úr ríkissjóði, svo sem eftirlaun umfram lögboðin eftirlaun og lífeyri, styrkur skálda, listamanna og fræðimanna, styrkur til verklegra framkvæmda, og allir aðrir styrkir, sem ríkið veitir til eignar. Þó skal styrkur, sem veittur er úr ríkissjóði til greiðslu á stofnkostnaði eða hluta hans, eigi talinn til tekna. Sé um ferðastyrk að ræða, skal leyfa til frádráttar á móti hæfilegan ferðakostnað, þó eigi meira en styrknum nemur.
       
    2. Styrkir frá öðrum stofnunum, frá einstökum mönnum eða félögum. (1)

      Eigi skiptir máli, í hverju styrkur er fólginn, ef til peninga verður metið, og að meginreglunni til skiptir eigi heldur máli, í hverju skyni styrkur er veittur, hver styrkþegi er eða hver styrkveitandi er eða hvernig samband er þeirra á milli. Frá þessu eru þó þessar undantekningar:
       
      1. Börn í foreldrahúsum, hvort sem þau sjálf eru skattgreiðendur eða eigi, greiða engan skatt af því framfæri, sem þau fá hjá heimilisföður. Sama er um aðra skylduómaga manns. (1)

        Framansagt gildir þó því aðeins, að framfæri sé ekki veitt sem endurgjald fyrir vinnu eða aðra þjónustu. (2)

        [---]
         
      1. Styrkir og samskotafé vegna veikinda eða slysa telst ekki heldur til tekna.

        [---] (2)
  1. Skaðabætur fyrir samningsrof og önnur slík viðurlög eða bætur, þó ekki fyrir fjármunatjón [---]. Einnig teljast til tekna skaðabætur fyrir atvinnuróg og ærumeiðingar. Hafi tjónið valdið tekjurýrnun, kemur það hins vegar fram á öðrum liðum.
  2. Dagpeningar vegna slysa eða veikinda, svo og árlegur eða mánaðarlegur örorkustyrkur eða lífeyrir. [---]
    [---]

Úr 17. gr.

Þeir, sem landbúnað stunda, skulu fylla út sérstaka skýrslu um tekjur sínar af landbúnaði, landbúnaðar-framtalsskýrslu, og þar með skýrslu um bússtofn sinn í byrjun og lok hvers skattárs, sbr. eftirfarandi:

  1. Til tekna af landbúnaði telst m.a:
    1. Búfjárafurðir allar, bæði seldar og notaðar heima, þar með talið andvirði búfjár, sem selt er lifandi og matsverð þess búfjár, sem alið er upp til bústofnsauka, sbr. 3. tl. B-liðar hér á eftir. (1)

      Heimanotaður búfjáráburður til búrekstrar (ekki nýræktar) telst þó ekki til tekna, enda kemur hann ekki til frádráttar tekjunum. (2)
       
    2. Jarðargróði allur, bæði seldur og notaður heima, svo sem hey, korn, garðávextir og gróðurhúsaframleiðsla. (1)

      Heimanotaður heyfengur, korn og annar jarðgróði til búfjárfóðurs telst þó ekki til tekna, enda kemur það ekki til frádráttar tekjunum. (2)
       
    3. Afrakstur af hvers konar hlunnindum, bæði seldur og notaður heima, svo sem af dúntekju, eggvarpi, fuglatekju, laxveiði, silungsveiði, hrognkelsaveiði, útræði, selveiði, reka, mótaki, skógarhöggi, berjatekju, sand-, malar og/eða grjótnámi o.s.frv.
       
    4. Greiðslur frá öðrum fyrir hvers konar jarðarafnot, svo sem greiðslur fyrir slægnalán, hagagöngu, veiðileyfi, berjaleyfi, leyfi til mótaks og skógarhöggs og til sands-, malar- og/eða grjótnáms, enn fremur lóðargjald, húsmennskugjald, gjald fyrir uppsátur o.s.frv. Hér með taldar greiðslur fyrir afnot af ítökum í landi annarra manna. Ef ítakshafi notar ítakið sjálfur, þá telst afrakstur þar af undir 1. – 3. tl. hér að framan, eftir því sem við á.
       
    5. Endurgjald fyrir fóðrun og hirðingu búfjár, þar með talin fóður tekin í jarðarafgjald, auk þess sem tekið er af hjúum og öðrum.
       
    6. Heimilisiðnaður, svo sem smíði, tóvinna, fatasaumur o.fl.
       
    7. Seld vinna (vegavinna, útróður o.fl.), hestalán, leiga fyrir verkfæri, áhöld eða vélar, sem lánað hefur verið (vélavinna) o.fl.*1)
       
    8. Vinna við jarðabætur o.fl. (1)

      Ef fastmenn, árshjú eða aðrir, sem vinna fyrir kaupi, sem fært er til frádráttar tekjum af landbúnaði, vinna einnig við jarðabætur eða endurbætur á húsum eða öðrum mannvirkjum jarðarinnar, þá skal telja þá vinnu til tekna, svo að vegi á móti því kaupi, sem til gjalda er sært vegna nefndra starfa. (2)
       
    9. Allar aðrar tekjur af landbúnaði, sem tilfalla, svo sem verðlaun gripa á sýningu, uppbætur á áður talið andvirði seldra afurða, hagnaður af gripum keyptum og seldum aftur á sama árinu o.s.frv.

      Til tekna skal þó ekki telja:
      1. Styrk, sem veittur er úr ríkissjóði, til greiðslu á stofnkostnaði eða hluta hans, sbr. 16. gr. B.1. og 28. gr. A.
         
      2. Skaðabætur fyrir eignatjón eða spell á fjármunum, sbr. 20. gr. 4. tl.
         
      3. Jarðræktarframlag ríkisins, sbr. 20. gr. 11. tl.
         
  2. Skattmat tekna af landbúnaði skal ákveðið þannig:
    1. Allt, sem selt er frá búi, skal talið með á því verði, sem fyrir það fæst. Ef það er greitt í vörum, vinnu eða þjónustu, ber að færa greiðslurnar til peningaverðs og telja til tekna með sama verði og fæst fyrir tilsvarandi vörur, vinnu eða þjónustu, sem seldar eru á hverjum stað og tíma. (1)

      Verðuppbætur á búsafurðir teljast til tekna, þegar þær eru greiddar eða færðar framleiðenda til tekna í reikningi hans. (2)
       
    2. Heimanotaðar búsafurðir (búfjárafurðir, jarðagróði, hlunnindaafrakstur) svo og heimilisiðnaður skal telja til tekna með sama verði og fæst fyrir tilsvarandi afurðir, sem seldar eru á hverjum stað og tíma. Verði ekki við markaðsverð miðað, t.d. í þeim hreppum, þar sem mjólkursala er lítil eða engin, skal verð miðað við útsöluverð til neytenda.*2) (1)

      Ef svo er ástatt, að söluverð frá framleiðanda er hærra en útsöluverð til neytenda, vegna niðurgreiðslu á afurðaverði, þá skulu þó þær heimanotaðar afurðir, sem svo er ástatt um, taldar til tekna miðað við útsöluverð til neytenda. (2)

      Mjólk, sem notuð er til búfjárfóðurs, skal þó telja til tekna með hliðsjón af verði á fóðurbæti miðað við fóðureiningu. (3)

      Þar sem mjólkurskýrslur eru ekki haldnar, skal áætla heimanotað mjólkurmagn.(4)

      [---]
       
  3. Um frádrátt frá tekjum af landbúnaði gilda yfirleitt sömu reglur og um frádrátt frá tekjum af öðrum atvinnurekstri, eftir því sem við á, sbr. III. kafla.

*1)Sjá úrskurð yfirskattanefndar nr. 42/2001. *2)Sjá úrskurð yfirskattanefndar nr. 829/1997.

----------

Úr 20. gr.

Til skattskyldra tekna telst ekki:

[---]

  1. [Eignaauki, sem stafar af aukavinnu, sem einstaklingar leggja fram utan reglulegs vinnutíma við byggingu íbúða til eigin afnota. (1)

    Eigin vinna einstaklings telst því aðeins vera aukavinna að hún sé unnin utan reglulegs vinnutíma þ.e.a.s. að einstaklingurinn hafi unnið fullan vinnutíma við hið eiginlega eða fasta starf sitt og skilað eðlilegum árstekjum af því, nema um veikindi sé að ræða. Eigin vinna einstaklings unnin í reglulegum vinnutíma telzt því eigi til aukavinnu og telzt því ávallt til skattskyldra tekna, hvort heldur unnin við eigin íbúð eða aðra hluta húseignarinnar ætlaða til íbúðar eða önnur mannvirki, sem ekki eru ætluð til íbúðar. (2)

    Þegar búið er að ákveða hve há upphæð teljist til aukavinnu við húsið, skal reikna út, hve mikill hluti hússins eða húshlutans, sem aðili á, muni notaður til íbúðar fyrir hann sjálfan annars vegar og hins vegar fyrir önnur afnot eiganda en til íbúðar, til útleigu eða sölu og finna hlutfallið milli þessa eftir stærð miðað við rúmmetra. Eftir þessu hlutfalli ákveðst hve mikill hluti aukavinnunnar er við byggingu íbúðar til eigin afnota og þar með skattfrjáls og hve mikill hluti hennar er vegna annars og því skattskyldur. (3)

    Framteljandi skal láta fylgja framtali sínu greinargerð um fjölda vinnustunda, sem hann hefur varið til byggingu hússins eða húshlutans, skiptingu þeirra milli aukavinnu og vinnu í reglulegum vinnutíma. Enn fremur skal fylgja greinargerð um hvaða störf innt voru af hendi, svo sem almenn verkamannavinna, trésmíði, múrun, málun o.fl. Svo og skal gerð glögg lýsing á húsnæði því sem í smíðum er, svo að séð verði, hve mikill hluti af hinu byggða er einkaíbúð. Fylgi þessar upplýsingar ekki með framtali eða séu ófullnægjandi skal áætla um þessi atriði. (4)

    Ef sá, sem notið hefur skattfrelsis vegna vinnu við eigin íbúð, selur íbúðina innan 5 ára og fær vinnu sína að einhverju eða öllu leyti endurgreidda í söluverðinu, skal hin skattfrjálsa vinna, sem unnin var innan 5 ára fyrir söludag, talin til skattskyldra tekna á því ári, sem sala fer fram, án tillits til þess hvort keypt eða byggð er önnur íbúð í staðinn eða ekki. Undanþáguákvæðið í 1. tl. 15. gr. um skattfrjálsa sölu fasteigna, ef önnur fasteign er keypt eða byggð í staðinn, ná því ekki til skattfrjálsrar vinnu við eigin íbúð. (5)

    Nú óskar gjaldandi eftir því, að sú skattfrjálsa vinna, sem hann fær endurgreidda í söluverði skv. framansögðu, verði ekki skattlögð á söluárinu, heldur verði hún skattlögð á þeim skattárum, þegar hún var lögð fram, og má þá umreikna skattinn fyrir þau ár, enda hafi gjaldandi gert fullnægjandi grein fyrir þessari vinnu á framtölum sínum fyrir viðkomandi skattár.] *1) *2) (6)

*1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 74/1969. *2)Sjá úrskurð yfirskattanefndar nr. 135/2003.

----------

Úr 57. gr.

Við mat á eignum til eignarskatts skal fara eftir þessum reglum:

  1. Virðing á fasteign skal fara eftir gildandi fasteignamati, sbr. lög nr. 28/1963, um fasteignamat og fasteignaskráningu. Sé ræktun og mannvirki á leigulóð, leigulandi eða erfðafestulandi metin í einu lagi með lóðinni eða landinu, þá skal eigandi telja sér lóðina eða landið til eignar á verði sem svarar fimmtánfaldrar leigunnar á skattárinu, þó aldrei hærra en sem fasteignamatinu nemur. Sé fasteignamatið hærra en ársleigan fimmtánföld telst það, sem umfram er eign leigjanda. (1)

    Ef fasteignamat er ekki fyrir hendi á lóð eða fullbyggðu mannvirki skal skattstjóri áætla matsverð með hliðsjón af kostnaðar- eða kaupverði. Mannvirki, sem enn eru í byggingu og ófullgerð, skal telja á kostnaðarverði. (2)

    Hafi hluti af jörð eða lóðareign verið seldur, skal þó telja eignina til skatts með fullu fasteignamatsverði, þar til nýtt mat hefur farið fram, nema svo mikill hluti hafi verið seldur, að eignarverðmæti geti orðið skipt á tvo eigendur eða fleiri, enda séu sýnd næg gögn fyrir því, hvernig skipta skuli verðinu.*1) (3)

    [---]
  1. [---]
    Ef skuld er umþráttuð eða torséð þykir, hvort lögskylt er að greiða skuld, skal telja hluta hennar til eignar eða sleppa að fullu eftir atvikum.*2)

*1)Sjá úrskurð yfirskattanefndar nr. 366/2003. *2)Sjá úrskurð yfirskattanefndar nr. 525/1996.

----------

Úr 93. gr.

[---]

(2) Komi í ljós innan tveggja ára frá því, að skattskrá var framlögð, að þær heimildir, sem skattstjóri hefur farið eftir við leiðréttingu framtals, [---], eru rangar, skal hann leiðrétta það af sjálfsdáðum eða við kæru, þótt hún komi eigi fram fyrr en kærufrestur er liðinn. Skattlækkanir skv. þessari mgr. skulu þó því aðeins gerðar, að lækkun tekjuskatts eða eignarskatts nemi minnst kr. [100]*1) hvert einstakt ár. Tilkynningu um slíkar breytingar skal skattstjóri senda gjaldanda, innheimtumanni, ríkisskattstjóra og ríkisendurskoðanda.

*1)100 kr. fyrir myntbreytingu.
 

Fara efst á síðuna ⇑