Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.3.2024 04:43:32

Reglugerð nr. 111/2010 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=111.2010.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 111/2010, um innheimtuhlutfall launa í staðgreiðslu.*1)

*1)Sbr. reglugerð nr. 705/2011.

1. gr.

Afdráttur staðgreiðslu opinberra gjalda skal miðast við laun hvers mánaðar fyrir sig og vera í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með þeim undantekningum sem kveðið er á um í reglugerð þessari.
 

2. gr.

Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu af samþykktum kröfum skv. 18. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, skal vera [25,8%]1) að viðbættu meðaltalsútsvari sveitarfélaga samkvæmt auglýsingu fjármálaráðuneytisins fyrir hvert staðgreiðsluár.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 705/2011.

3. gr.

(1) Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu af atvinnuleysisbótum, sbr. lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, skal vera [22,9%]1) að viðbættu meðaltalsútsvari sveitarfélaga samkvæmt auglýsingu fjármálaráðuneytisins fyrir hvert staðgreiðsluár.

(2) Þó skal innheimtuhlutfall í staðgreiðslu af tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, taka mið af heildarbótagreiðslu og eftir atvikum vera [22,9%]1)  eða [25,8%]1) að viðbættu meðaltalsútsvari sveitarfélaga samkvæmt auglýsingu fjármálaráðuneytisins fyrir hvert staðgreiðsluár. Launamaður ber ábyrgð á því að rétt innheimtuhlutfall verði ákvarðað við afdrátt staðgreiðslu þegar þannig háttar til.

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 705/2011.

4. gr.

(1) Í þeim tilvikum sem mánaðarlaun eru að jafnaði mjög breytileg á milli tímabila er launagreiðanda heimilt að taka tillit til launa fyrri mánaða við ákvörðun á afdrætti staðgreiðslu. Með breytilegum launum í þessu sambandi er átt við að fjárhæð mánaðarlauna sveiflist að jafnaði um a.m.k. 50%. Við slíkar aðstæður er heimilt að reikna afdrátt staðgreiðslu hlutfallslega miðað við heildarlaun frá upphafi tekjuárs, eða eftir atvikum upphafi ráðningartíma, til loka þess launatímabils sem verið er að greiða fyrir og skattþrep samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

(2) Undantekning skv. 1. mgr., frá þeirri meginreglu að miða skuli afdrátt staðgreiðslu við laun hvers mánaðar fyrir sig óháð niðurstöðu annarra mánaða, á ekki við þegar laun einstakra mánaða eru hærri en aðra mánuði, t.d. vegna meiri yfirvinnu, bónusgreiðslna eða annarra sérstakra greiðslna frá aðallaunagreiðanda.

5. gr.

Heimilt er að miða innheimtuhlutfall í staðgreiðslu við [25,8%]1) að viðbættu meðaltalsútsvari sveitarfélaga samkvæmt auglýsingu fjármálaráðuneytisins fyrir hvert staðgreiðsluár af minni háttar greiðslum frá öðrum en aðallaunagreiðanda, s.s. greiðslur frá stéttarfélögum, stjórnarlaun og aðrar slíkar greiðslur, enda fari fjárhæð greiðslunnar ekki umfram 650.000 kr. á mánuði.

1)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 705/2011.

6. gr.

Tryggingafélögum er heimilt að miða innheimtuhlutfall staðgreiðslu við [25,8%]1) að viðbættu meðaltalsútsvari sveitarfélaga samkvæmt auglýsingu fjármálaráðuneytisins fyrir hvert staðgreiðsluár vegna greiðslu staðgreiðsluskyldra vátryggingabóta, enda fari fjárhæð greiðslu ekki umfram 650.000 kr. á mánuði. Nemi staðgreiðsluskyld greiðsla tryggingafélags hærri fjárhæð en 650.000 kr. á mánuði skal afdráttur staðgreiðslu af því sem umfram er miðast við [31,8%]1) að viðbættu meðaltalsútsvari svo sem það er ákvarðað hverju sinni, sbr. 1. málsl.

1)Sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 705/2011.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 41. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, öðlast þegar gildi.

Fara efst á síðuna ⇑