Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.9.2024 00:02:19

Reglugerð nr. 825/2008 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=825.2008.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 825/2008, um innihald árshlutareikninga.

1. gr.
Innihald árshlutareikninga..

(1) Félög sem semja árshlutareikninga skv. VII. kafla A, í lögum um ársreikninga nr. 3/2006, skulu sýna í styttum efnahagsreikningi og styttum rekstrarreikningi sbr. 3. mgr. 87. gr. a. lögum um ársreikninga allar fyrirsagnir og millisamtölur sem voru í síðast ársreikningi félagsins og þær völdu skýringar sem gerðar er krafa um samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli (IAS) nr. 34, um árshlutareikninga. Aðrar sérlínur eða skýringar skulu einnig sýndar ef vöntun þeirra mundi gæfi villandi mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu.

(2) Sýna skal við hvern lið í efnahagsreikningi, sbr. 1. mgr., samsvarandi upplýsingar í ársreikningi næstliðins reikningsárs.

(3) Sýna skal við hvern lið í rekstrarreikningi, sbr 1. mgr., samsvarandi upplýsingar fyrir samsvarandi tímabil næstliðins reikningsárs.

(4) Í skýringum með árshlutareikningi skal leitast við að veita fullnægjandi upplýsingar og tryggja með sem bestum hætti að fram komi upplýsingar um mikilvægar breytingar á fjárhæðum og hvers konar aðrar mikilvægar breytingar á því tímabili sem um ræðir. Enn fremur skulu skýringar með árshlutareikningi innihalda nægjanlegar upplýsingar til að bera saman við ársreikning félagsins.

2. gr.
Viðskipti tengdra aðila.

(1) Í árshlutaskýrslu stjórnar, sbr. 87. gr. b. í lögum um ársreikninga, skulu koma fram upplýsingar um meiri háttar viðskipti tengdra aðila:

  1. Ef þau hafa haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu félagsins á tímabilinu.

  2. Ef einhverjar breytingar hafa orðið á viðskiptum þeirra sem greint var frá í næstliðnum ársreikningi og gætu haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu á tímabilinu.

(2) Félag, sem hefur skuldabréf sín skráð á skipulegum verðbréfamakaði, í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, og ber ekki skylda til að gera árshlutareikning sbr 87. gr. d. í lögum um ársreikninga skal að minnsta kosti upplýsa sérstaklega um lífeyrisskuldbindingar og aðrar sameiginlegar skuldbindingar félagsins og tengdra aðila.

3. gr.

(1) Reglugerð þessi er sett með stoð í 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum.

(2) Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2007/14/EB frá 8. mars 2007 um nákvæmar reglur til framkvæmdar tilteknum ákvæðum tilskipunar 2004/109/EB um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað, sem vísað er til í IX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2008, dags. 1. febrúar 2008.

4. gr.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Fara efst á síðuna ⇑