Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.3.2024 04:20:06

Reglugerð nr. 223/2003 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=223.2003.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð nr. 223/2003, um yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag, sbr. 57. gr. C laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum.

 

1. gr.

Einstaklingi í atvinnurekstri er heimilt að yfirfæra rekstur sinn yfir í einkahlutafélag sbr. lög um einkahlutafélög og skal yfirfærslan sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann, enda sé skilyrðum reglugerðar þessarar fullnægt.

2. gr.

Einkahlutafélag á grundvelli 57. gr. C verður ekki stofnað sbr. 1. gr. laga um einkahlutafélög, án framlagðs lágmarks hlutafjár, sem fólgið skal í verðmæti eigin fjár sem yfirfærist frá einstaklingsrekstrinum samkvæmt efnahagsreikningi þess skv. 4. gr., sbr. þó 7. gr.

3. gr.

Eigandi einstaklingsrekstrarins skal bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Jafnframt skal félagið sem tekur við rekstrinum skráð hér á landi og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Við yfirfærsluna skal eigandi rekstrarins eingöngu fá hluti í félaginu sem gagngjald fyrir yfirfærðar eignir og skuldir rekstrarins. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár um stofnun félagsins skal auk þeirra upplýsinga sem krafist er samkvæmt lögum um einkahlutafélög, fylgja efnahagsreikningur einstaklingsrekstrarins sem jafnframt skal vera stofnefnahagsreikningur einkahlutafélagsins.    

4. gr.

Efnahagsreikning einstaklingsrekstrarins skal miða við 31. desember og má hann ekki vera eldri en fjögurra mánaða við stofnun einkahlutafélagsins. Skal hann endurskoðaður af endurskoðanda og áritaður án fyrirvara. Endurskoðandi skal staðfesta að hagur fyrirtækisins hafi ekki rýrnað vegna úttektar eiganda frá þeim tíma sem yfirfærslan skal miðuð við og fram að stofnun félagsins.

5. gr.

(1) Í skattalegu tilliti telst einkahlutafélagið yfirtaka rekstur og efnahag frá dagsetningu efnahagsreiknings einstaklingsrekstrarins. Þó ber sá sem stundaði reksturinn jafnframt ótakmarkaða ábyrgð á greiðslu þeirra skatta og gjalda sem varða reksturinn fyrir stofnun félagsins.

(2) Stofnefnahagsreikningur ásamt yfirlýsingu um yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag skal ennfremur fylgja fyrsta skattframtali félagsins.

6. gr.

Við yfirfærsluna skal félagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum rekstrarins, þ.m.t. eftirstöðvum rekstrartapa frá fyrri árum, enda séu skilyrði 8. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt uppfyllt.

7. gr.

(1) Eignir og skuldir einstaklingsrekstrarins skulu yfirfærast á bókfærðu verði.

(2) Hafi eignir einstaklingsrekstrarins verið endurmetnar við stofnun einkahlutafélagsins með fullnægjandi hætti að mati hlutafélagaskrár, sbr. II. kafla laga um einkahlutafélög og endurmatið fært í samræmi við lög um ársreikninga, skal endurmatshækkun hvorki skattlögð í einstaklingsrekstrinum né hjá félaginu. Stofnverð þessara eigna og eftirstöðvar fyrningarverðs telst þrátt fyrir endurmat þeirra, hið sama hjá einkahlutafélaginu og það var í einstaklingsrekstrinum, sbr. 6. gr.

8. gr.

(1) Stofnverð gagngjalds hluta í einkahlutafélaginu, sbr. 2. gr., ákvarðast jafnt bókfærðu eigin fé í efnahagsreikningi einstaklingsrekstrarins að teknu tilliti til aukafyrninga.

(2) Selji einstaklingur hluti sem hann fékk við yfirfærslu samkvæmt reglugerð þessari telst stofnverð þeirra við ákvörðun söluhagnaðar vera jafnt skattalegu bókfærðu eigin fé samkvæmt efnahagsreikningi einstaklingsrekstrarins.

9. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 119. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu á árinu 2003 vegna rekstrarársins 2002.

 

Fara efst á síðuna ⇑