Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.3.2024 06:46:52

Reglugerð nr. 664/2008 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=664.2008.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 664/2008, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga.

Aðsetur.
1. gr.

(1) Ríkisskattstjóri starfrækir ársreikningaskrá.

(2) Hlutverk ársreikningaskrár er að annast móttöku, geymslu og birtingu ársreikninga skilaskyldra félaga, úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum.

Skilaskyldir aðilar.
2. gr.

(1) Félögum sem tilgreind eru í 1. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, ber að skila til ársreikningaskrár gögnum samkvæmt reglugerð þessari til opinberrar birtingar.

(2) Skilaskyldan hvílir á stjórn og framkvæmdastjóra. Hjá félögum, skv. 4. tölul. 1. gr. laga nr. 3/2006, sem ekki hafa formlega stjórn hvílir skilaskyldan á öllum félagsaðilum sameiginlega.

Birtingarskyld gögn.
3. gr.

(1) Ársreikning félags, sbr. 3. gr. laga nr. 3/2006, skal senda ársreikningaskrá ásamt áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna og upplýsingar um hvenær ársreikningurinn var samþykktur.

(2) Ársreikning móðurfélags og samstæðureikning félagasamstæðu sem skylt er að semja, skv 73. gr. laga nr. 3/2006, skal senda ársreikningaskrá ásamt áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna og upplýsingum um hvenær reikningarnir voru samþykktir.

4. gr.

(1) Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. er félagi heimilt að senda ársreikningaskrá samandregna útgáfu af rekstrarreikningi, efnahagsreikningi og skýringum sbr. reglugerð nr. 694/1996, um framsetningu ársreikninga í samandregnu formi, ásamt áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna og upplýsingar um hvenær ársreikningurinn var samþykktur, hafi félagið ekki farið tvö næstliðin reikningsár fram úr tvennum af eftirfarandi stærðarmörkum:

  1. Eignir nema 230 milljónum króna;

  2. Rekstrartekjur nema 460 milljónum króna;

  3. Fjöldi ársverka á reikningsári nemur a.m.k. 50.

(2) Heimild þessi nær þó ekki til félaga sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og ekki heldur til félaga sem leggja ekki hömlur á viðskipti með eignarhluta sína eða félaga sem ber að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum skv. 2. mgr. 92. gr. laga nr. 3/2006.

5. gr.

Þegar sérstakar samkeppnisaðstæður mæla með því getur félag, að fengnu samþykki ársreikningaskrár, lagt fram til birtingar samandreginn rekstrarreikning og tilheyrandi skýringar í stað rekstrarreiknings og skýringar sem samdar eru skv. 3. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 694/1996, um framsetningu ársreikninga í samandregnu formi, hafi félagið ekki farið tvö næstliðin reikningsár fram úr tvennum af eftirfarandi stærðarmörkum:

  1. eignir nema 575 milljónum króna;

  2. rekstrartekjur nema 1.150 milljónum króna;

  3. fjöldi ársverka á reikningsári nemur a.m.k. 250.

     

Form birtingar og fyrirvarar.
6. gr.

(1) Ef félag birtir ársreikning sinn eða samstæðureikning í heild skal hann vera í sama formi og hann var samþykktur á aðalfundi og með áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna og skýrslu stjórnar. Vekja skal athygli á hvers konar fyrirvara endurskoðenda eða fyrirsvarsmanna og tilgreina ástæður þeirra.

(2) Nú er ársreikningur eða samstæðureikningur ekki birtur í heild, sbr. 4. og 5. gr., skal þá koma fram með ótvíræðum hætti að hann sé samandreginn.

(3) Heimilt er að birta ársreikning á tölvutæku formi í samræmi við reglur nr. 1220/2007, um rafræn skil ársreikninga til ársreikningaskrár.

Skilafrestur.
7. gr.

(1) Félag sem skylt er að semja ársreikning skv. lögum nr. 3/2006, skal eigi síðar en mánuði eftir samþykkt hans, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, senda ársreikningaskrá ársreikninginn ásamt áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna og upplýsingar um hvenær hann var samþykktur.

(2) Móðurfélag sem skylt er að semja samstæðureikning skv. lögum nr. 3/2006, skal eigi síðar en mánuði eftir samþykkt hans, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, senda ársreikningaskrá samstæðureikning sinn ásamt áritun endurskoðenda eða skoðunarmanna.

(3) Ársreikninga félaga, sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, skal þó senda þegar í stað eftir samþykkt þeirra og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Sama gildir um ársreikninga félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum samkvæmt heimild í 92. gr. laga nr. 3/2006.

(4) Einnig skulu móðurfélög skv. 3. mgr. sem skyld eru til að semja samstæðureikninga senda ársreikningaskrá samstæðureikning þegar í stað eftir samþykkt þeirra og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs ásamt áritun endurskoðenda.

Aðgangur að gögnum.
8. gr
.

Veita skal aðgang að þeim gögnum sem skilað er samkvæmt reglugerð þessari. Heimilt er að afhenda ljósrit af gögnum þessum gegn gjaldi, sbr. lög nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Skoðun gagna.
9. gr.

(1) Ársreikningaskrá skal gera úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum og samstæðureikningum í því skyni að sannreyna að þessi gögn séu í samræmi við ákvæði laga nr. 3/2006 og settra reglugerða samkvæmt þeim. Heimilt er að krefjast þeirra upplýsinga hjá hverju félagi sem nauðsynlegar eru í þessu sambandi.

(2) Hafi ársreikningur verið tekinn til skoðunar samkvæmt þessari grein skal það koma fram í gögnum ásamt athugasemdum og niðurstöðum ársreikningaskrár.

Útibú erlendra félaga.
10. gr.

Útibú erlendra félaga sem skráð eru hér á landi skulu senda ársreikningaskrá staðfestan ársreikning félagsins ásamt reikningsskilum útibúsins eftir þeim reglum sem tilgreindar eru í 112. - 115. gr. laga nr. 3/2006.

Skil ársreiknings.
11. gr.

(1) Á forsíðu ársreiknings skal koma fram skráð nafn félagsins, kennitala þess og heimilisfang ásamt áritun um það hvenær aðalfundur samþykkti ársreikninginn.

(2) Á forsíðu samstæðureiknings skal koma fram skráð nafn móðurfélagsins, kennitala þess og heimilisfang. Með upplýsingum í samstæðureikningi skal koma fram nöfn og heimilisföng allra dótturfélaga sem tekin eru inn í samstæðureikninginn og kennitölur íslensku dótturfélaganna.

Viðurlög og málsmeðferð.
12. gr.

Vanræki félag að skila ársreikningi sínum eða samstæðureikningi innan tilskilins frests skal ársreikningaskrá skora á félagið að bæta úr vanskilum sínum innan 30 daga. Sama gildir ef félag leggur fram ófullnægjandi upplýsingar eða skýringar með framlögðum ársreikningi eða samstæðureikningi.

13. gr.

(1) Ársreikningaskrá skal leggja fésektir á félag sem fellur undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006, og vanrækir að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá innan tilskilins frests. Fésektin skal nema fjárhæð 250.000 kr.

(2) Ef félag vanrækir að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá í tvö eða fleiri reikningsár í röð skal fjárhæðin nema 500.000 kr. fyrir hvert ár.

(3) Ársreikningaskrá skal leggja fésektir á félag skv. 1. mgr. sem vanrækja að leggja fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Fésektin skal nema fjárhæð 150.000 kr.

(4) Ef um er að ræða ófullnægjandi skil á ársreikningum eða samstæðureikningum í tvö eða fleiri reikningsár í röð skal fjárhæðin skv. 3. mgr. nema 300.000 kr. fyrir hvert reikningsár

14. gr.

(1) Ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri félags, sem fellur undir 1. tölul., 2. tölul. eða 2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006, vanrækir að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá innan tilskilins frests varðar það fangelsi allt að sex árum skv. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga eða fésektum ef málsbætur eru miklar sbr. 120. gr. laga nr. 3/2006.

(2) Ársreikningaskrá skal leggja fésektir á félag skv. 1. mgr. sem vanrækir að leggja fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Það telst m.a. til ófullnægjandi upplýsinga að leggja fram samandregna ársreikninga eða samstæðureikninga ef félagið hefur ekki heimild til að leggja fram samandregna ársreikninga skv. 4. gr. Fésektin skal nema fjárhæð 250.000 kr.

(3) Ef um að ræða ófullnægjandi skil á ársreikningum eða samstæðureikningum í tvö eða fleiri reikningsár í röð skal fjárhæðin nema 500.000 kr. fyrir hvert reikningsár.

15. gr.

Fésektarákvörðun ársreikningaskrár er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, og skal kærufrestur vera þrír mánuðir frá ákvörðunardegi.

16. gr.

Heimild ársreikningaskrár til að leggja á fésektir samkvæmt þessari reglugerð er óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.

17. gr.

Sektir skv. reglugerð þessari renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar.

18. gr.

(1) Eftir að fésektir hafa verið lagðar á falla þær eigi niður þó að ársreikningi eða öðrum gögnum verði síðar skilað.

(2) Kæra skv. 15. gr. frestar ekki innheimtu fésekta.

Gildistaka.
19. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 126. gr. og 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, öðlast þegar gildi og gildir varðandi skil ársreikninga og samstæðureikninga vegna reikningsárs sem hefst 1. janúar 2006 eða síðar. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 319/2003, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga.

Fara efst á síðuna ⇑