Skattalagasafn ríkisskattstjóra 12.10.2024 22:38:11

Reglugerð nr. 707/2008 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=707.2008.0)
Ξ Valmynd

Úr reglugerð
nr. 707/2008, um upplýsingagjöf og tilkynningarskyldu skv. lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.


IV. KAFLI
Opinber fyrirmæli ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins.

14. gr.
Ársreikningaskrá og Fjármálaeftirlitið.

(1) Ársreikningaskrá metur hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins teljist hliðstæðar ákvæðum laga nr. 3/2006 um ársreikninga með hliðsjón af 15.-19. gr. reglugerðar þessarar og hvort tímabundin undanþága 20. gr. reglugerðarinnar eigi við gagnvart útgefanda, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
(2) Fjármálaeftirlitið metur hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins teljist hliðstæðar ákvæðum laga nr. 108/2007, með hliðsjón af 21.-26. gr. reglugerðar þessarar, sbr. 3. mgr. 72. gr. og 4. mgr. 94. gr. laga nr. 108/2007.
 

15. gr.
Hliðstæðar kröfur um skýrslu stjórnar.

(1) Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur til ársreikninga og um skýrslu stjórnar, sbr. III. og VI. kafli laga nr. 3/2006 um ársreikninga, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að skýrsla stjórnar innihaldi a.m.k. eftirtaldar upplýsingar:

  1. glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri útgefanda og stöðu hans og lýsi helstu áhættu- og óvissuþáttum sem útgefandi stendur frammi fyrir, þannig að yfirlitið geymi skýra greiningu á fyrrgreindum þáttum, í samræmi við stærð og umfang rekstrarins,
  2. upplýsingar um mikilvæga atburði sem átt hafa sér stað frá lokum reikningsársins og
  3. upplýsingar um líklega framtíðarþróun útgefanda.

(2) Að því marki sem það er nauðsynlegt til að skilja þróun, árangur og stöðu útgefanda skal yfirlit skv. a-lið 1. mgr. innihalda helstu fjárhagslegu lykilmælikvarða vegna viðkomandi rekstrar, svo og ófjárhagslega mælikvarða, ef við á.
 

16. gr.
Hliðstæðar kröfur um árshlutaskýrslu stjórnar vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.

     Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um árshlutaskýrslu stjórnar vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, sbr. 87. gr. b. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins í styttu formi, sbr. 2. mgr. 87. gr. a. sömu laga, auk árshlutaskýrslu stjórnar vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins og að viðkomandi árshlutaskýrsla stjórnar innihaldi a.m.k. eftirtaldar upplýsingar:

  1. yfirlit yfir viðkomandi tímabil,
  2. upplýsingar um líklega framtíðarþróun útgefanda á þeim sex mánuðum sem eftir eru af reikningsárinu og
  3. í tilviki útgefanda hlutabréfa, upplýsingar um viðskipti tengdra aðila, ef slíkum upplýsingum er ekki þegar miðlað með viðvarandi hætti.
     

17. gr.
Hliðstæðar kröfur um ábyrgð á árshlutareikningi og árshlutayfirlýsingu stjórnarmanna.

     Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um árshlutareikning og árshlutayfirlýsingu stjórnarmanna, sbr. 87. gr. a. og 87. gr. c. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að hjá útgefanda séu einn eða fleiri einstaklingar ábyrgir fyrir árshlutareikningnum vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, þar á meðal því að árshlutareikningurinn sé saminn í samræmi við viðeigandi reglur eða reikningsskilastaðla og því að yfirlitið í skýrslu stjórnar gefi glögga mynd af stöðu útgefanda.
 

18. gr.
Hliðstæðar kröfur um samstæðureikningsskil.

(1) Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um skyldu útgefanda til að semja samstæðureikning, sbr. 67. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, þegar bindandi opinber fyrirmæli þess ríkis gera samningu ársreiknings dótturfélags móðurfélagsins ekki að skilyrði en sérhver útgefandi með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki skal, þegar hann semur samstæðureikning, veita neðangreindar upplýsingar um móðurfélagið:

  1. útreikning arðs og getu til að greiða arð, þegar um ræðir útgefendur hlutabréfa og
  2. um lágmarks hlutafé, lágmarks eigið fé og gjaldþol, ef við á.

(2) Auk þess sem greinir í 1. mgr. verður útgefandi jafnframt að geta afhent lögbæru stjórnvaldi í heimaríki sínu á Evrópska efnahagssvæðinu, skv. 3. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, endurskoðaðar viðbótarupplýsingar um reikningsskil útgefandans sjálfs í samræmi við upplýsingar skv. a- og b-lið 1. mgr. Framangreindar viðbótarupplýsingar mega vera samdar í samræmi við bindandi opinber fyrirmæli viðkomandi ríkis skv. 1. mgr.
 

19. gr.
Hliðstæðar kröfur um ársreikning móðurfélags.

(1) Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um ársreikning móðurfélags, sbr. lög nr. 3/2006 um ársreikninga, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla ekki fyrir um að útgefanda með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki sé skylt að semja samstæðureikning, en honum er skylt að semja ársreikning móðurfélags í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem viðurkenndir eru á Evrópska efnahagssvæðinu skv. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, eða í samræmi við sambærilega innlenda reikningsskilastaðla viðkomandi ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins.
(2) Ef ársreikningur útgefanda er ekki í samræmi við þá staðla sem vísað er til í 1. mgr. verður að leggja hann fram í formi endurgerðs ársreiknings.
(3) Ársreikningur skv. 1. mgr. skal vera endurskoðaður sjálfstætt.
 

20. gr.
Tímabundin undanþága frá kröfu um hliðstæð ákvæði vegna samstæðureikningsskila.

     Gagnvart útgefendum með skráða skrifstofu í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins gildir 2. mgr. 61. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti einungis um samstæðureikningsskil útgefanda fyrir þau rekstrarár sem hefjast í janúar 2009 eða síðar. Fram til þess tíma er útgefanda með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins því heimilt að semja samstæðureikning og árshlutareikning samstæðu vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki sem hann er með skráða skrifstofu, þótt þau teljist ekki hliðstæð ákvæðum laga um ársreikninga, ef eitt af eftirtöldum skilyrðum er uppfyllt:

  1. Skýringar með reikningsskilum innihalda afdráttarlausa og ótakmarkaða yfirlýsingu um að þau fari eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal 1 (IAS-staðal1).
  2. Reikningsskilin eru samin í samræmi við reikningsskilareglur (GAAP) í Bandaríkjunum, Japan eða Kanada.
  3. Reikningsskilin eru samin í samræmi við reikningsskilareglur (GAAP) í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins öðru en Bandaríkjunum, Japan eða Kanada, og eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:
    1. Viðkomandi ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem ber ábyrgð á þeim innlendu reikningsskilastöðlum sem um ræðir, hefur skuldbundið sig með opin¬berum hætti og fyrir upphaf þess reikningsárs sem reikningsskilin varða, til þess að samræma staðla sína alþjóðlegum reikningsskilastöðlum,
    2. stjórnvöld í viðkomandi ríki hafa sett á fót vinnuáætlun sem sýnir fram á þá fyrirætlan að ná samræmingu reikningsskilastaðla fyrir 31. desember 2008, og
    3. hlutaðeigandi útgefandi aflar gagna sem ársreikningaskrá metur fullnægjandi um að skilyrði a- og b-liðar séu uppfyllt.
       

21. gr.
Hliðstæðar kröfur um greinargerð frá stjórn.

     Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um greinargerð frá stjórn, sbr. 59. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að útgefanda beri að semja árshlutareikning vegna fyrstu þriggja og fyrstu níu mánaða reikningsársins.
 

22. gr.
Hliðstæðar kröfur um frest útgefanda til að birta upplýsingar í tilkynningu.

     Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um frest útgefanda til að birta upplýsingar í tilkynningu opinberlega, sbr. 87. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að samanlagður frestur flöggunarskylds aðila til að senda útgefanda með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki tilkynningu og frestur útgefandans til að birta tilkynninguna opinberlega skuli vera sjö viðskiptadagar eða minna.
 

23. gr.
Hliðstæðar kröfur um eigin hluti.

     Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um eigin hluti útgefanda, sbr. 93. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, þegar bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að útgefandi með skráða skrifstofu í ríkinu:

  1. megi eiga allt að 5% af eigin hlutum sem atkvæðisréttur fylgir og verði tilkynningarskyldur þegar þessu marki er náð eða farið er yfir það,
  2. megi eiga 5-10% af eigin hlutum sem atkvæðisréttur fylgir og verði tilkynningarskyldur þegar 5% mörkunum eða efri mörkunum er náð eða farið er yfir þau,
  3. megi eiga meira en 10% af eigin hlutum sem atkvæðisréttur fylgir og verði tilkynningarskyldur þegar 5 eða 10% mörkunum er náð eða farið er yfir þau.
     

24. gr.
Hliðstæðar kröfur um breytingar á hlutafé eða atkvæðisrétti.

     Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um breytingar á hlutafé eða atkvæðisrétti, sbr. 84. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að útgefandi með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki verði að birta opinberlega breytingar á heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða innan 30 daga frá því að hækkun eða lækkun hlutafjár og/eða fjölgun eða fækkun atkvæða á sér stað.
 

25. gr.
Hliðstæðar kröfur um hluthafafundi.

     Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um hluthafafundi, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að útgefandi með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki skuli hið minnsta birta opinberlega upplýsingar um staðsetningu, tíma og dagskrá hluthafafunda.
 

26. gr.
Hliðstæðar kröfur um sjálfstæði móðurfélags.

(1) Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um sjálfstæði gagnvart móðurfélagi, sbr. 2. mgr. 91. gr. og 2. mgr. 92. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að rekstrarfélagi eða fjármálafyrirtæki með leyfi til verðbréfaviðskipta skuli vera frjálst að neyta atkvæðisréttar þeirra eigna sem rekstrarfélagið eða fjármálafyrirtækið stýrir sjálfstætt og óháð móðurfélaginu, undir hvaða kringumstæðum sem er, og að rekstrarfélagið eða fjármálafyrirtækið skuli virða að vettugi hagsmuni móðurfélagsins, eða annars dótturfélags þess, ef til hagsmunaárekstra kemur.
(2) Móðurfélag skal framfylgja ákvæðum a-liðar 1. mgr. 9. gr. reglugerðar þessarar um upplýsingaskyldu gagnvart lögbæru stjórnvaldi. Móðurfélag skal þar að auki lýsa því yfir, vegna sérhvers rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis, að móðurfélagið hlíti skilyrðum 1. mgr. um sjálfstæði.
(3) Óski Fjármálaeftirlitið eftir því skal móðurfélag geta sýnt fram á að ákvæðum 10. gr. reglugerðar þessarar sé framfylgt.
 

Fara efst á síðuna ⇑