Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 22:14:26

Reglugerð nr. 792/2003 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=792.2003.0)
Ξ Valmynd

Úr reglugerð
nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingasjóði.

III. KAFLI
Innlausn.

3. gr.
Orðskýringar.

Í kafla þessum merkir:

  1. Kaupgengi hlutdeildarskírteina eða hluta: Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina eða hluta.

  2. Sölugengi hlutdeildarskírteina eða hluta: Söluverð hlutdeildarskírteina eða hluta.

  3. Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina eða hluta: Markaðsvirði samanlagðra eigna verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs að frádregnum skuldum hans við innlausn samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 30/2003.

  4. Markaðsvirði: Skráð eða áætlað andvirði fjármálagerninga á markaði á hverjum tíma.

4. gr.
Mat á eignum.

(1) Mat á eignum verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar skal á hverjum tíma endurspegla raunverulegt virði þeirra að teknu tilliti til markaðsaðstæðna.

(2) Fjármálagerningar í eigu verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar sem skráðir eru á skipulegum verðbréfamarkaði skulu metnir samkvæmt dagslokagengi viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar.

(3) Virði annarra fjármálagerninga verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar en um ræðir í 2. mgr. skal háð mati rekstrarfélags, undir eftirliti vörslufélags og endurskoðanda, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna hverju sinni.

(4) Rekstrarfélag skal halda skrá yfir mat eigna skv. 3. mgr. á hverjum tíma þar sem fram koma forsendur við mat á eignum.

5. gr.
Niðurfærslureikningur.

Fyrir hvern verðbréfasjóð, fjárfestingarsjóð eða einstaka sjóðsdeild skal mynda niðurfærslureikning vegna fjármálagerninga skv. 3. mgr. 4. gr. í því skyni að gengi hlutdeildarskírteina eða hluta endurspegli sem best verðmæti eigna hlutaðeigandi sjóðs eða deildar á hverjum tíma.

6. gr.
Upplýsingar um gengi.

(1) Kaupgengi, innlausnarvirði og sölugengi hlutdeildarskírteina eða hluta verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar skal reiknað út daglega.

(2) Ávallt skulu liggja fyrir upplýsingar um kaupgengi, innlausnarvirði og sölugengi hlutdeildarskírteina eða hluta verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar, svo og upplýsingar um umsýslu- og stjórnunarkostnað hlutaðeigandi sjóðs eða sjóðsdeildar til reiðu fyrir eigendur hlutdeildarskírteina eða hluta.

 

Fara efst á síðuna ⇑