Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 21:47:08

Reglugerð nr. 13/2003 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=13.2003.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 13/2003, um skil á staðgreiðslu útsvars, tekjuskatts og tryggingagjalds.*1)

*1)Sbr. reglugerð nr. 589/2008.

1. gr.

(1) Launagreiðandi skal ótilkvaddur, eigi sjaldnar en mánaðarlega, skila sérstakri skilagrein og því staðgreiðslufé sem honum bar að halda eftir af launum og reiknuðu endurgjaldi. Staðgreiðslan nær til útsvars, tekjuskatts og tryggingagjalds þar með talið er gjald til ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota, markaðsgjald og slysatryggingariðgjald af launum sjómanna.

(2) Þeir launagreiðendur sem fullnægja skilyrðum um ársskil skulu senda skilagrein og standa skil á skilafé 2. janúar ár hvert.

2. gr.

(1) Skilafé skv. 1. gr. ber að skila inn á bankareikning sem er í vörslu Seðlabanka Íslands eða á skrifstofu innheimtumanns ríkissjóðs sbr. 5. gr.

(2) Fyrir tekjuárið 2002 skal greiða inn á bankareikning nr. 25009.

(3) Frá og með tekjuárinu 2003 skal greiða inn á bankareikning nr. 25111.

(4) Bankar og sparisjóðir taka við skilagreinum og greiðslum samkvæmt skilagreinum. Einnig er unnt að greiða með rafrænum hætti, þar með talið skjálínu, bankalínu og í heimabanka, sbr. 3. gr.

3. gr.

(1) Skilagrein um staðgreiðslu skal vera í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður m.a. í formi fyrirfram áritaðs gíróseðils frá ríkisskattstjóra. Ef skilafé er sent með rafrænum greiðslumiðli skal skilagrein póstlögð samhliða.

(2) Gjalddagi staðgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari vegna greiðslutímabils liðins mánaðar er 1. dagur næsta mánaðar á eftir, en eindagi 14 dögum síðar. Ef eindaga ber upp á laugardag, sunnudag eða helgidag, flyst hann til næsta dags þar á eftir. Rafræn skil skulu gerð eigi síðar en kl. 21 á eindaga.

4. gr.

(1) Bankar og sparisjóðir sem veita viðtöku fé til greiðslu inn á bankareikninga, sbr. 2. gr., þar með talið með rafrænum hætti skulu því aðeins taka við innborgunum að greiðslu fylgi sérstök skilagrein, sbr. 3. gr.

(2) Bankar og sparisjóðir sem veitir viðtöku innborgun skulu ganga úr skugga um að fullt samræmi sé á milli skilagreinar og greiðslu. Ef fullt samræmi er eigi fyrir hendi er þessum aðilum óheimilt að taka við greiðslu.

5. gr.

Eftirtaldir innheimtumenn ríkissjóðs taka við greiðslum og skilagreinum ef greiðsla er ekki innt af hendi með rafrænum hætti eða í bönkum og sparisjóðum:

Sýslumaðurinn á Akranesi. Sýslumaðurinn á Húsavík.
Sýslumaðurinn í Borgarnesi. Sýslumaðurinn á Seyðisfirði.
Sýslumaðurinn í Stykkishólmi. Sýslumaðurinn á Eskifirði.
Sýslumaðurinn í Búðardal. Sýslumaðurinn á Höfn í Hornafirði.
Sýslumaðurinn á Patreksfirði. Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal.
Sýslumaðurinn á Ísafirði. Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum.
Sýslumaðurinn í Bolungarvík. Sýslumaðurinn á Hvolsvelli.
Sýslumaðurinn á Hólmavík. Sýslumaðurinn á Selfossi.
Sýslumaðurinn á Blönduósi. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði.
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki. Sýslumaðurinn í Kópavogi.
Sýslumaðurinn á Siglufirði. Sýslumaðurinn í Keflavík.
Sýslumaðurinn í Ólafsfirði.*1) [---]1)
Sýslumaðurinn í Akureyri. Tollstjórinn í Reykjavík.

 1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 589/2008.   *1)Embættið á Ólafsfirði var sameinað embættinu á Siglufirði þann 1. janúar árið 2007.

6. gr.

(1) Launagreiðanda ber að útfylla og skila sundurliðun launatekna og staðgreiðslu fyrir hvern mánuð á sérstöku eyðublaði ríkisskattstjóra.

(2) Skilagrein og sundurliðunarskýrslu skal skila mánaðarlega enda þótt engin laun hafi verið greidd eða nýting persónuafsláttar launamanna veldur því að engin staðgreiðsla hafi verið tekin af starfsmönnum.

(3) Heimilt er launagreiðanda að skila sundurliðun á rafrænu formi. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um fyrirkomulag og meðferð skilagreina, sundurliðunarskýrslna og rafræn skil.

7. gr.

Skilafé ásamt skilagrein eða gíróseðli, sbr. 3. gr., þarf að hafa borist þeim aðilum, sem taka við greiðslum, sbr. 2. gr., eða á skrifstofu innheimtumanns, sbr. 5. gr., eigi síðar en á eindaga. Dagsetning á greiðslukvittun innheimtumanns er sönnun fyrir því að skil hafi verið gerð á réttum tíma. Póstlagning greiðslu fyrir eindaga kemur eigi í veg fyrir álagsbeitingu ef greiðsla berst eftir eindaga.

8. gr.

(1) Innheimtumenn ríkissjóðs skulu færa skilagreinar staðgreiðslu útsvars, tekjuskatts og tryggingagjalds í innheimtukerfi ríkisins (TBR). Þeir skulu sannreyna að samræmi sé á milli skilagreinar og greiðslu samkvæmt skilagrein.

(2) Skilagreinar sem berast bönkum og sparisjóðum skulu sendar innheimtumanni ríkissjóðs, sbr. 5. gr. Ef skilagrein er ófullnægjandi skal innheimtumaður tilkynna það launagreiðanda og skattstjóra.

(3) Reynist greiðsla, skilagrein og skil vera rétt er launagreiðandi laus úr ábyrgð hvað það varðar, sbr. þó ákvæði 22. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

9. gr.

(1) Ef launagreiðandi skilar greiðslum inn á bankareikning, sbr. 2. gr., skal hann senda sundurliðunarskýrslu til innheimtumanns ríkissjóðs. Heimilt er að afhenda hana bankastofnun sem skal framsenda hana til innheimtumanns ríkissjóðs.

(2) Heimilt er launagreiðanda að senda sundurliðunarskýrslu til ríkisskattstjóra rafrænt eða á öðru formi sem ríkisskattstjóri ákveður, sbr. 6. gr. Einnig er heimilt að afhenda innheimtumanni ríkissjóðs gögn í tölvutæku formi, sem þá skal framsenda þau ríkisskattstjóra.

(3) Ríkisskattstjóri annast allan innlestur sundurliðunarskýrslna launagreiðanda í tölvuskrár ríkisins sem berast á rafrænu formi. Um innlestur skilagreina í innheimtukerfi ríkisins (TBR) fer eftir 1. mgr. 8. gr.

10. gr.

Ef skattstjóri hefur heimilað manni, sem reikna skal sér endurgjald skv. 2. tölulið 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, að gera skil á staðgreiðslu útsvars og tekjuskatts einu sinni á ári, skal tekið tillit til þeirra upplýsinga sem gjaldandi veitir skattstjóra, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, við skil á staðgreiðslu til sveitarfélaga. Fjársýsla ríkisins skal hlutast til um að persónuafsláttur skattgreiðanda sem ganga skal upp í útsvarsþátt staðgreiðslu skili sér til viðkomandi sveitarfélags á þann hátt að 1/12 hluti áætlaðs persónuafsláttar upp í útsvarsþátt greiðist sveitarfélaginu mánaðarlega.

11. gr.

Um uppgjör og skil innheimtumanna staðgreiðslu, sbr. 5. gr., skulu gilda almenn fyrirmæli til innheimtumanna um uppgjör og skil. Fjársýslu ríkisins er heimilt að gefa innheimtumönnum ríkissjóðs nánari fyrirmæli um uppgjör og skil á hluta ríkissjóðs.

12. gr.

Dagleg afstemming bankareikninga, sbr. 2. gr. er í höndum Fjársýslu ríkisins.

13. gr.

Inn á bankareikninga staðgreiðslu útsvars, tekjuskatts og tryggingagjalds er óheimilt að færa aðra fjármuni en þá sem við koma skilum á staðgreiðslu útsvars, tekjuskatts og tryggingagjalds.

 14. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 20. og 21. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum og 18. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 753/1997, um skil á staðgreiðslu, með síðari breytingum.
 

Fara efst á síðuna ⇑