Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.9.2024 10:35:38

Reglugerð nr. 124/2001 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=124.2001.0)
Ξ Valmynd

Reglugerð
nr. 124/2001, um launaafdrátt.*1)

*1)Sbr. reglugerð nr. 48/2008.

1. gr.
Almenn atriði og skilgreiningar.

[Allir þeir er hafa menn í þjónustu sinni og greiða laun fyrir starfa, sbr. 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, eru skyldir að kröfu innheimtumanns að halda eftir af kaupi launþega við útborgun launa til lúkningar gjöldum þeirra aðila sem launþegar bera sjálfskuldarábyrgð á og innheimta ber skv. 112. gr., sbr. 115. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og IV. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Þau opinberu gjöld sem hér um ræðir eru tekjuskattur, útsvar, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og samsvarandi gjöld skv. innheimtusamningum við önnur ríki.]1) *1)

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 48/2008. *1)Sjá samning milli Norðurlandanna um gagnkvæma aðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 46/1990.

2. gr.
Hámark launaafdráttar.

(1) Launagreiðendur skulu aldrei halda eftir hærri fjárhæð en sem nemur 75% af heildarlaunagreiðslum hverju sinni til greiðslu á gjöldum samkvæmt 1. gr. að viðbættum lögbundnum iðgjöldum og meðlögum þannig að tryggt sé að launþegi haldi eftir 25% af heildarlaunagreiðslum. Lífeyrissjóðsiðgjöld umfram 4% af iðgjaldsstofni falla ekki undir þessa reglu.

(2) Afdráttur af launum vegna staðgreiðslu skal ávallt ganga fyrir afdrætti vegna eldri skattskulda.
 

3. gr.
Ábyrgð og aðfararréttur.

(1) Hafi launagreiðandi vanrækt að halda eftir af launum ber hann sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess fjár.

(2) Heimilt er að gera aðför hjá launagreiðanda vegna launafdráttar sem launagreiðandi hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt þessari reglugerð.
 

4. gr.
Umsókn um lækkun launaafdráttar.

(1) Heimilt er [innheimtumanni]1) að semja um lækkun launaafdráttar skv. 1. mgr. 2. gr. ef sýnt þykir að tekjur launþega muni ekki duga til framfærslu hans, maka og barna sem hann hefur á framfæri sínu.

(2) Ef samþykkt er að lækka launaafdrátt skal launþegi undirrita samkomulag þar sem hann viðurkennir kröfuna og nýjan upphafstíma fyrningarfrests. Samkomulagið skal gilda fram að næstu álagningu. Jafnframt er þá heimilt að fresta aðfarargerð vegna kröfunnar fram að næstu álagningu.

(3) Samkomulag um launaafdrátt hefur ekki áhrif á lögbundna dráttarvexti og gjalddaga.

1)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 48/2008.

5. gr.
Skil á afdregnum launum og dráttarvextir.

(1) Launagreiðandi skal ótilkvaddur standa skil á afdregnum launum eða launum sem honum bar að halda eftir sex dögum eftir útborgun launa. Ef lokadagur skilafrests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta virka dags þar á eftir. Að öðru leyti ber að telja frídaga með þegar fresturinn er reiknaður.

(2) Launagreiðandi sem stendur ekki skil á afdregnum launum skal greiða ríkissjóði dráttarvexti skv. [1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003.]1)

1)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 48/2008.

6. gr.
Samningar þegar um áætlaða skatta er að ræða.

(1) Heimilt er innheimtumanni að stöðva launaafdrátt þegar launaafdráttur hefur náð þeirri fjárhæð sem áætlað er að endanleg skattálagning muni hljóða upp á.

(2) Óski launþegi eftir því að launaafdrætti verði ekki beitt, þar sem skattskuld verði felld niður eða óski hann eftir að miðað verði við væntanlega álagningu þegar tillit hefur verið tekið til skattframtals, er heimilt að falla frá launaafdrætti ef launþegi hefur skilað skattframtali til skattstjóra og leggur fram staðfestingu frá skattstjóra þar um. Styðji önnur gögn fullyrðingu launþega um að skattskuld verði felld niður er jafnframt heimilt að falla frá launaafdrætti. Slík gögn geta verið fyrri skattskil, útreikningur löggilts endurskoðanda, upplýsingar um laun í staðgreiðsluskrá, staðfesting læknis um óvinnufærni o.fl. Hafi afdráttur þegar átt sér stað er heimilt í þessum tilvikum að endurgreiða launþega það sem af var dregið utan staðgreiðslu.
 

7. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 113. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt*1), með síðari breytingum og 28. gr. laga nr. 4/1995 um tekjuskattsstofna sveitarfélaga*2), með síðari breytingum öðlast þegar gildi.

*1)Nú 115. gr. laga nr. 90/2003. *2)Birt svo í Stjórnartíðindum en á að vera „um tekjustofna sveitarfélaga“.

Fara efst á síðuna ⇑