Skattalagasafn ríkisskattstjóra 22.11.2024 01:41:13

Lög nr. 37/1993, kafli 7 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=37.1993.7)
Ξ Valmynd

VII. KAFLI
Stjórnsýslukæra.

26. gr.
Kæruheimild.

(1) Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

(2) Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

27. gr.
Kærufrestur.

(1) Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.

(2) Þar sem lögmælt er að birta skuli ákvörðun með opinberum hætti hefst kærufrestur eftir fyrstu birtingu sé ákvörðunin birt oftar.

(3) Þegar aðili fer fram á rökstuðning skv. 21. gr. hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum.

(4) Þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests rofnar kærufresturinn. Hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila.

(5) Kæra telst nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.

(6) Áður en kærufrestur rennur út er æðra stjórnvaldi heimilt í sérstökum tilvikum að lengja kærufrest.

28. gr.
Kæra berst að liðnum kærufresti.

(1) Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
     
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

(2) Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

29. gr.
Réttaráhrif kærðrar ákvörðunar.

(1) Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

(2) Æðra stjórnvaldi er þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því.

(3) Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda þó ekki þar sem lög mæla fyrir á annan veg.

(4) Ákveða skal svo fljótt sem við verður komið hvort fresta skuli réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar.

30. gr.
Málsmeðferð í kærumáli.

(1) Við meðferð kærumáls skal fylgja ákvæðum II.–VI. og VIII. kafla laganna eftir því sem við getur átt.

(2) Heimilt er að ákveða að mál skuli flutt munnlega ef það er sérstaklega vandasamt og ætla má að það upplýsist betur með þeim hætti.

31. gr.
Form og efni úrskurða í kærumáli.

     Úrskurður æðra stjórnvalds í kærumáli skal ávallt vera skriflegur og skulu eftirtalin atriði m.a. koma fram á stuttan og glöggan hátt:

  1. Kröfur aðila.
     
  2. Efni það sem til úrlausnar er, þar á meðal hin kærða ákvörðun.
     
  3. Stutt yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni málsins.
     
  4. Rökstuðningur fyrir niðurstöðu máls skv. 22. gr.
     
  5. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok úrskurðar í sérstakt úrskurðarorð.
Fara efst á síðuna ⇑