Skattalagasafn ríkisskattstjóra 22.11.2024 01:19:56

Lög nr. 37/1993, kafli 6 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=37.1993.6)
Ξ Valmynd

VI. KAFLI
Afturköllun ákvörðunar o.fl.

23. gr.
Breyting og leiðrétting.

(1) Stjórnvald getur breytt ákvörðun sinni þar til hún hefur verið tilkynnt aðila máls.

(2) Eftir að aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun er stjórnvaldi heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í henni, enda tilkynni stjórnvaldið aðila um leiðréttinguna án tafar og láti þeim sem fengið hefur endurrit af ákvörðuninni nýtt endurrit í té.

24. gr.
Endurupptaka máls.

(1) Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
     
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

(2) Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

25. gr.
Afturköllun.

Stjórnvald getur afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar:

  1. það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða
     
  2. ákvörðun er ógildanleg.
Fara efst á síðuna ⇑