Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 15:40:36

Reglugerð nr. 505/1998, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=505.1998.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Bókhald og eftirlit.

Bókhald og skráning viðskipta.
[13. gr.]1)

(1) Gjaldskyldir aðilar skv. 1. mgr. 2. gr. skulu haga bókhaldi sínu og uppgjöri á áfengisgjaldi þannig að skattyfirvöld geti jafnan gengið úr skugga um réttmæti skila þeirra á gjaldinu.

(2) Innflytjendum og heildsölum er skylt að halda birgðabókhald fyrir áfengi. Framleiðendum er skylt að halda framleiðsluskýrslur og birgðabókhald fyrir áfengi. Framleiðsluskýrslur skal halda með þeim hætti að hægt sé með auðveldum og öruggum hætti að rekja hverja átöppun á áfengi til einstakra áfengistegunda og umbúða. Birgðabókhald skal haldið með þeim hætti að hægt sé að rekja sérhverja átöppun eða innkaup frá innflutningsgögnum og innkaupareikningum til færslu í birgðabókhaldi og hvenær sem er bera saman vörubirgðir og niðurstöðu birgðabókhalds. Í birgðabókhaldi þarf að koma fram á aðgengilegan hátt ráðstöfun birgða vegna sölu innanlands, útflutnings, rannsókna, rýrnunar og skýringa á henni eða annarra atriða.

(3) Gjaldskyldur aðili skal skrá sérhverja sölu áfengis á sölureikninga til samræmis við ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattskyldra aðila.

(4) Gjaldskyldur aðili skal veita ríkisskattstjóra upplýsingar um heildarsölu sína skipt niður á viðskiptamenn og tímabil telji hann slíkt nauðsynlegt vegna eftirlits. Kaupendur áfengis sem um getur í 6., 8., 9. og 13. gr. áfengislaga skulu halda sérstaka innkaupareikninga í bókhaldi sínu og veita ríkisskattstjóra sams konar upplýsingar um innkaup sín sé þess óskað.

(5) Um bókhald fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 145/1994, um bókhald, með áorðnum breytingum.

1)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 437/2005. 

Eftirlit.
[14. gr.]1)

(1) Ríkisskattstjóri skal hafa eftirlit með starfsemi framleiðenda innanlands samkvæmt reglugerð þessari.

(2) Framleiðanda ber að veita eftirlitsmönnum aðgang að öllum húsakynnum, sem nýtt eru til áfengisframleiðslu og birgðahalds svo og bókhaldsgögnum er sýna hráefnisnotkun og birgðir vöru. Hann skal láta eftirlitsmönnum í té fullnægjandi aðstöðu að mati ríkisskattstjóra þegar þeir sinna eftirlitsstörfum í atvinnuhúsnæði hans.

(3) Ríkisskattstjóri getur ákveðið að átöppun áfengis skuli fara fram undir eftirliti og skal því aðeins taka tillit til rýrnunar að förgun úrgangsefna og skemmdrar eða gallaðrar framleiðslu fari fram undir eftirliti. Hann getur einnig ákveðið að innsigla skuli framleiðslutæki og –búnað svo og geyma og kúta sem notaðir eru undir áfengi sem selt er í miklu magni m.a. til veitingahúsa. Ríkisskattstjóri ákveður gerð og notkun innsigla. Hann getur sett reglur um afskriftir og töku rannsóknarsýna við framleiðslu áfengis.

(4) Um eftirlit ríkisskattstjóra og tollstjóra að öðru leyti fer eftir ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ákvæðum tollalaga.

1)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 437/2005.

Fara efst á síðuna ⇑