Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 18:36:54

Reglugerð nr. 436/1998, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=436.1998.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Gjaldskyldar vörur og undanþágur.

1. gr.
Gjaldskyldar vörur.

(1) Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af innfluttum vörum og vörum sem eru framleiddar, unnið er að eða er pakkað innanlands.

(2) Gjaldskyldan nær til vara, nýrra sem notaðra, sem flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka I við lög nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

(3) Við flokkun til gjaldskyldu skal fylgt flokkunarreglum tollalaga nr. 55/1987*1).

(4) Skattstjórar og innlendir framleiðendur vöru geta óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun framleiðsluvöru samkvæmt ákvæðum 142. gr. tollalaga*2). Skattstjóri og framleiðandi geta skotið ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr. tollalaga*3). Ákvörðun tollyfirvalda um tollflokkun er bindandi fyrir framleiðanda og skattyfirvöld.

*1)Sjá nú tollalög nr. 88/2005. *2)Nú 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. *3)Nú 188. gr. tollalaga nr. 88/2005.

2. gr.
Undanþágur.

(1) Vörur sem seldar eru úr landi eru ekki gjaldskyldar. Sala á gjaldskyldum vörum til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög nr. 110/1951, og sala í tollfrjálsum verslunum, sbr. VIII. kafla tollalaga*1), telst sala úr landi í skilningi reglugerðar þessarar. Sala til einstakra varnarliðsmanna er hins vegar gjaldskyld samkvæmt almennum reglum.

(2) Sala á hráefni eða efnivöru til handhafa vörugjaldsskírteina er undanþegin vörugjaldi samkvæmt ákvæðum V. kafla. Jafnframt vörusala til sérstaklega skráðra heildsala, sbr. 3. mgr. 9. gr.

(3) Vörur sem um ræðir í 5. gr. tollalaga*2), eru ekki gjaldskyldar við tollafgreiðslu, enda sé gætt þeirra skilyrða sem að öðru leyti gilda um tollfrelsi þessara vara. Þeir sem um ræðir í 3. gr. tollalaga*3) eru og undanþegnir gjaldskyldu við innflutning, enda fullnægi þeir settum skilyrðum um tollfrjálsan innflutning. Um innflutning sérstaklega skráðra heildsala fer eftir 3. mgr. 9. gr.

*1)XIII. kafli tollalaga nr. 88/2005. *2)Nú 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. *3)Nú 4. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Fara efst á síðuna ⇑