Skattalagasafn ríkisskattstjóra 26.4.2024 18:43:36

Reglugerð nr. 373/2001, kafli 3 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=373.2001.3)
Ξ Valmynd

III. KAFLI
Tilhögun og framkvæmd skattrannsókna.

Upphafsdagur rannsókna.
15. gr.

(1) Upphafsdagur rannsóknar miðast við móttöku gagna frá skattaðila eða þann dag sem skattrannsóknarstjóri ríkisins gerir skattaðila bréflega kunnugt um að rannsókn sé hafin á framtals- eða skattskilum hans. Að jafnaði skal skattaðila gert bréflega kunnugt um að rannsókn sé hafin á skattskilum hans.

(2) Skrá skal upphafsdag rannsóknar í gerðabók skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 40. gr. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsókn á máli skattaðila skal m.a. koma fram hver sé upphafsdagur rannsóknar.

Rannsókn skattundandráttar og bókhaldsbrota.
16. gr.

(1) Rannsaka skal hvort skattstofnar séu ranglega tilgreindir eða vanrækt að telja þá fram og hvaða áhrif slíkt hefur haft á álagningu tekjuskatts og eignarskatts. Ennfremur skal rannsaka hvort og með hvaða hætti skattaðili hefur vangreitt skilaskyld gjöld eða skatta sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta eða vanrækt að inna af hendi gjöld eða skatta sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir.

(2) Rannsaka skal, eftir því sem tilefni gefst til, hvort bókhaldsskyldur aðili hafi haldið lögbundið bókhald og hvort samræmi sé milli bókhalds og fylgiskjala, að allar tekjur séu færðar til bókar og eftir atvikum að útgjöld rekstrarins, þ.m.t. vörukaup, séu bókuð með lögbundnum hætti og hvort bókhaldi sé hagað í samræmi við meginreglur laga nr. 145/1994, um bókhald.

(3) Rannsaka skal hve háar fjárhæðir hafa verið dregnar undan, vanrækt var greiðsla á eða endurgreiddar voru um of. Séu gögn og upplýsingar af skornum skammti, þ.m.t. vegna förgunar skattaðila á gögnum eða vanrækslu hans um að halda gögnum til haga eða færa bókhald, skal skattrannsóknarstjóri ríkisins leitast við að meta ætlaðan undandrátt með hliðsjón af því sem fram kemur í 20. - 22. og 29. gr.

(4) Þá skal, eftir því sem skattrannsóknarstjóri ríkisins telur vera þörf á, rannsaka hvort hinn grunaði sé aðalmaður eða hlutdeildarmaður í ætlaðri refsiverðri háttsemi. Ef fleiri en einn maður er grunaður um brot skal rannsaka hvort um samverknað þeirra var að ræða. 

Rannsókn saknæmisskilyrða.
17. gr.

     Rannsaka skal eftir því sem tilefni þykir gefa til huglæga afstöðu hins grunaða til ætlaðs brots, ásetning hans, gáleysi og eftir atvikum hvatir, svo og ef um tilraun til brots er að ræða og hvort hann hefur af sjálfsdáðum horfið frá henni. 

Móttaka gagna frá skattaðila og gagnaöflun frá þriðja manni.
18. gr.

(1) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur aflað gagna frá skattaðila vegna rannsóknar á máli skattaðila með eftirfarandi hætti:

  1. Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur munnlega eða skriflega lagt fyrir skattaðila eða umboðsmann hans að leggja fram umbeðin gögn til skattrannsóknarstjóra.
     
  2. Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur farið á starfsstöð eða í birgðageymslu skattaðila og lagt fyrir skattaðila eða umboðsmann hans að afhenda skattrannsóknarstjóra ríkisins umbeðin gögn. Heimilt er skattrannsóknarstjóra ríkisins að kanna sjálfstætt hvaða gögn eru á starfsstöð og staðreyna þýðingu þeirra vegna rannsóknar málsins.

(2) Að jafnaði skal beiðni um framlagningu gagna við upphaf rannsóknar máls vera skrifleg. Í beiðni til skattaðila um gögn, sbr. 1. tölul. 1. mgr., svo og við heimsókn á starfsstöð eða í birgðageymslu skattaðila, sbr. 2. tölul. 1. mgr., getur skattrannsóknarstjóri ríkisins lagt fyrir skattaðila eða umboðsmann hans að afhenda bókhald skattaðila og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn sem varða reksturinn, þar með talin bréf og samninga. Auk þessa getur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist allra annarra upplýsinga og gagna sem hann telur nauðsynleg við rannsókn málsins.

(3) Við heimsókn á starfsstöð eða í birgðageymslu skattaðila, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins heimild til að taka afrit allra gagna samkvæmt 1. mgr., sem geymd eru á tölvutæku formi, eða yfirfæra þau á eigin miðil. Ef stöðva þarf rekstur tölvukerfis vegna þessa skal þó leitast við að slík stöðvun valdi sem minnstum óþægindum eða röskun á starfsemi skattaðila.

(4) Við öflun gagna frá þriðja aðila hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins sömu heimildir og greinir í 1. mgr., sbr. 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1).

*1)Nú laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. 

Skráning og meðferð móttekinna gagna.
19. gr.

(1) Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal skrá gögn sem aflað er frá skattaðila er sætir rannsókn og veita honum staðfestingu um móttekin gögn. Að rannsókn lokinni ber að afhenda skattaðila þau aftur verði ekki frekar aðhafst, en ella gögn þau, sem rannsókn er ekki byggð á eða hafa ekki þá þýðingu fyrir niðurstöðu rannsóknar að þörf sé á að halda þeim, og önnur gögn, þegar þörf telst ekki lengur vera á haldi þeirra og í síðasta lagi þegar meðferð máls er endanlega lokið. Skal skattrannsóknarstjóri ríkisins gefa út skriflega kvittun fyrir afhendingu gagna.

(2) Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal, svo sem frekast er kostur, leitast við að tryggja skattaðila nauðsynlegan aðgang að gögnum hans meðan á meðferð máls stendur, með tímabundinni afhendingu gagna, ljósriti af einstökum skjölum eða með því að veita skattaðila aðgang að gögnum hans, hvort heldur á embættisskrifstofu skattrannsóknarstjóra ríkisins eða á embættisskrifstofum skattstjóra utan Reykjavíkur, ef það þykir hentugra með hliðsjón af búsetu skattaðila, enda sé tryggt að slíkt spilli ekki rannsóknarhagsmunum.

(3) Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal leiðbeina skattaðila um rétt hans til afhendingar og aðgangs að gögnum meðan á meðferð máls stendur. 

Sönnunargögn og sönnun sektar.
20. gr.

(1) Helstu sönnunargögn við rannsókn máls hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins eru skattframtöl, ársreikningar með fylgiskjölum, fylgiskjöl bókhalds, fært bókhald, þ.m.t. færslubækur og færslulistar, afstemmingargögn, verðútreikningar, tilboð, samningar, bréf, símskeyti og myndrit. Einnig hvers konar önnur gögn sem tengjast rekstri skattaðila og önnur hlutlæg sönnunargögn ótalin hér, svo sem rangfærð skjöl og önnur upplýsandi skjöl.

(2) Auk gagna samkvæmt 1. mgr. teljast ýmsar persónubundnar yfirlýsingar til sönnunargagna, svo sem skýrslur af skattaðila, vitnum og öðrum sem upplýsingar geta gefið vegna rannsóknarinnar, þ.m.t. skýrslur tilkvaddra sérfróðra aðila, yfirlýsingar viðskiptamanna, birgja o.fl.

(3) Heimilt er að styðja sönnun á grundvelli upplýsinga sem aflað hefur verið frá viðskiptamönnum, birgjum og peningastofnunum, ennfremur með vettvangsuppdráttum og ljósmyndum, sbr. 21. gr. 

Vettvangsgögn og aðstoð sérfróðra aðila.
21. gr.

(1) Auk sönnunargagna skv. 20. gr. er skattrannsóknarstjóra ríkisins heimilt að afla hvers konar annarra gagna sem hann telur nauðsynleg vegna rannsóknar málsins, t.d. ljósmynda af munum, tækjum, mannvirkjum, lóðum og löndum, svo og vettvangsuppdrátta.

(2) Þá er skattrannsóknarstjóra ríkisins heimilt að kalla aðila með sérfræðiþekkingu til aðstoðar við rannsókn máls, þar með talda menn með tækniþekkingu, löggilta endurskoðendur, lögfræðinga og rekstrarráðgjafa. 

Framsending máls til skattstjóra.
22. gr.

(1) Heimilt er skattrannsóknarstjóra ríkisins að fela skattstjóra sem vísað hefur til hans máli að ljúka skattaþætti málsins án þess að fram fari rannsókn skv. reglugerð þessari, enda verði talið að málsatvik séu að fullu upplýst og ekki sé þörf á skýrslutökum skv. 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), í því skyni.

(2) Að endurákvörðun lokinni samkvæmt 1. mgr. skal skattstjóri eða ríkisskattstjóri senda málsgögn til skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tekur ákvörðun um hvort til refsimeðferðar skuli koma.

(3) Skattstjóra er heimilt að fengnu samþykki skattrannsóknarstjóra að ljúka endurákvörðun máls þegar málsatvik eru með þeim hætti sem greinir í 4. tölul. 8. gr., enda sé vísun skattstjóra einungis byggð á því að um ítrekað brot sé að ræða en málið þarfnist ekki rannsóknar í skilningi reglugerðar þessarar til að endurákvörðun geti farið fram.

(4) Skattrannsóknarstjóri getur ákveðið að mál sem vísað hefur verið til hans á grundvelli 8. gr. skuli ekki sæta skattrannsókn ef málsatvik eru með þeim hætti að ekki sé þörf á að málið sæti skattrannsókn. Þá er skattrannsóknarstjóra ríkisins heimilt að framsenda í upplýsingaskyni til skattstjóra og ríkisskattstjóra ábendingar um athugunarverð skattskil og önnur atriði sem kunna að þarfnast eftirlits.

(5) Skattrannsóknarstjóri skal tilkynna skattstjóra eða ríkisskattstjóra um þau mál sem hann lýkur án aðgerða og vísað hefur verið til hans af þeirra hálfu.

*1)Nú laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. 

Fara efst á síðuna ⇑