Skattalagasafn ríkisskattstjóra 3.12.2024 17:01:23

Reglugerð nr. 851/2002, kafli 2 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=851.2002.2)
Ξ Valmynd

II. KAFLI
Skýrslur um grænt bókhald.

6. gr.
Almennar upplýsingar.

(1) Í skýrslu um grænt bókhald skal tilgreina:

  1. nafn og heimilisfang starfsleyfishafans, útgefanda starfsleyfis, ásamt því hvaða aðili hafi eftirlit með starfsleyfi fyrirtækisins,
  2. númer fyrirtækjaflokks skv. fylgiskjali með reglugerð þessari,
  3. stjórn fyrirtækisins,
  4. tímabil sem græna bókhaldið nær yfir, ef það er annað en reikningsárið,
  5. hvort fyrirtækið hafi sótt um undanþágu frá færslu græns bókhalds, sbr. 14. gr.,
  6. gildistíma starfsleyfisins.

(2) Í grænu bókhaldi skulu koma fram upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi. Skal þannig gerð grein fyrir helstu áhrifaþáttum í umhverfismálum starfseminnar. Einnig skal gera stuttlega grein fyrir því með hvaða hætti þær upplýsingar sem skráðar eru skv. 7. gr. reglugerðar þessarar eru valdar til útskýringar á því hvernig umhverfismálum er háttað í starfseminni.
 

7. gr.
Hráefna- og auðlindanotkun.

(1) Í skýrslu um grænt bókhald skulu koma fram upplýsingar um meginnotkun fyrirtækisins á hráefnum, orku, jarðhitavatni og köldu vatni á bókhaldstímabilinu, ásamt helstu tegundum og magni efna sem valda mengun:

  1. í framleiðslu- eða vinnsluferli,
  2. sem losað er út í andrúmsloft, vatn, sjó og jarðveg,
  3. í framleiðsluvörunni,
  4. í úrgangi frá framleiðslunni þ.m.t. spilliefni,
  5. sem eiturefni og hættuleg efni, skv. lögum um eiturefni og hættuleg efni.

(2) Ekki er skylt að tilgreina aðrar mæliniðurstöður varðandi mengandi efni en kveðið er á um í gildandi starfsleyfi.

(3) Orku, vatn, hráefni og úrgang og aðra losun skal gefa upp í eftirfarandi mælieiningum:

Raforka kwst
Jarðefnaeldsneyti lítrar/tonn
Gas rúmmetrar
Jarðhitavatn rúmmetrar
Kalt vatn rúmmetrar
Hráefni massi
Losun efna í viðtaka massi
Svifryk massi
Frárennsli lítrar/tonn
Spilliefni/úrgangur massi/rúmmál

(4) Einnig er heimilt að gefa efnanotkun og losun upp sem magn á hverja framleidda einingu.

(5) Upplýsingar þær sem fyrir koma í 3. mgr. skal birta sem magntölur, þó getur fyrirtækið, ef það telst nauðsynlegt vegna framleiðsluleyndar, birt tölurnar sem hlutfallstölur miðað við umsetningu yfir árið, miðað við grunnárið sem er táknað með tölunni 100.

(6) Velji fyrirtækið að birta upplýsingarnar sem vísitölur, sbr. 5. mgr., skal grunnárið vera undangengið ár þ.e. árið á undan fyrsta græna bókhaldsárinu eða fyrsta græna bókhaldsárið.

(7) Setja skal upplýsingar fram á almennu máli og með því auðvelda þeim aðilum sem ekki eru kunnugir rekstrinum skilning á skýrslunni.
 

8. gr.
Yfirlýsing fyrirtækisins.

(1) Starfleyfishafi ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu um grænt bókhald og stjórn fyrirtækisins skal staðfesta þær upplýsingar sem nefndar eru í 6.-7. gr.

(2) Ef veruleg frávik hafa orðið í rekstri viðkomandi bókhaldsaðila sem varða umhverfismál hans svo sem aukin framleiðsla, breyting á samsetningu framleiðslu, bilun í tæknibúnaði, mengunaróhapp, vélarbilun svo og ef breytt hefur verið um tæknibúnað skal gera grein fyrir því.
 

9. gr.
Aðgangur að upplýsingum.

(1) Upplýsingar sem stjórn fyrirtækisins telur framleiðsluleyndarmál er ekki skylt að birta í skýrslu um grænt bókhald, enda séu slík atriði tilgreind í skýrslunni og ekki gerðar athugasemdir við það af hálfu útgefanda starfsleyfis.

(2) Fallist útgefandi starfsleyfis ekki á framsetningu starfsleyfishafa með vísan til þessa ákvæðis skal starfsleyfishafa tilkynnt þar um. Slíkum ágreiningi má skjóta til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
 

10. gr.
Endurskoðun.

(1) Skýrsla um grænt bókhald skal endurskoðuð á sambærilegan hátt og fjárhagsbókhald fyrirtækja.

(2) Endurskoðun græns bókhalds skal framkvæmd af aðila sem hefur yfir að ráða þekkingu á sviði framleiðslu- og umhverfismála viðkomandi fyrirtækis þ.m.t. mikilvægum umhverfisþáttum í starfseminni. Hann skal ennfremur vera óháður og hlutlaus.

(3) Endurskoðun skýrslu um grænt bókhald fellst í staðfestingu á því að tölur sem gefnar eru upp séu réttar og í samræmi við fjárhagsbókhald fyrirtækisins og þær tölur sem sendar eru þeim aðila sem hefur eftirlit með starfsleyfi vegna mengunarmælinga. Endurskoðandi skýrslu um grænt bókhald skal gera grein fyrir endurskoðun skýrslunnar og staðfesta endurskoðunina með undirritun sinni.
 

11. gr.
Skil á skýrslum.

(1) Fyrirtæki sem færa eiga grænt bókhald skulu fyrir 1. maí ár hvert senda útgefanda starfsleyfis skýrslu um grænt bókhald fyrir viðkomandi bókhaldsár.

(2) Sé heilbrigðisnefnd útgefandi starfsleyfis skal hún senda Umhverfisstofnun viðkomandi skýrslu um grænt bókhald að lokinni könnun á kröfum sbr. 6.-8. gr. í reglugerð þessari. Heilbrigðisnefnd skal senda Umhverfisstofnun skýrslu um grænt bókhald innan þriggja vikna til birtingar.
 

12. gr.
Birting.

     Umhverfisstofnun skal birta skýrslu um grænt bókhald innan fjögurra vikna frá móttöku skýrslunnar.
 

13. gr.
Undanþágur.

(1) Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og Umhverfisstofnunar, veitt undanþágu frá skyldu til færslu græns bókhalds. Í umsókn um undanþágu frá skyldu um færslu græns bókhalds skal tilgreina ástæður þess að starfsleyfishafi óskar undanþágu og áætlun um hvenær viðkomandi hyggst hefja færslu græns bókhalds.

(2) Fyrirtæki sem eiga að færa skýrslu um grænt bókhald geta samið við Umhverfisstofnun um að taka upp viðurkennt umhverfisstjórnunarkerfi og fengið frest til að taka upp grænt bókhald þó eigi lengur en til 1. janúar 2006. Í samkomulaginu verði sett fram tímasett áætlun um áfanga í innleiðingu vottaðs umhverfistjórnunarkerfis og skal stofnunin upplýst reglulega um framgang áætlunarinnar.

(3) Fyrirtækið skal upplýsa Umhverfisstofnun um að það muni hefja vinnu við grænt bókhald og senda skýrslu fyrir fyrsta reikningsárið þegar eftir liðinn frest, skv. reglugerð þessari og tilkynna ráðherra hvaða reikningsár um verður að ræða, skv. 2. mgr.

(4) Fyrirtæki sem fresta að skila inn skýrslu fyrir fleiri en eitt grænt bókhaldsár, verða að senda eftir hvert liðið bókhaldsár yfirlýsingu, sem lýsir stöðunni varðandi innleiðingu vottaðs umhverfisstjórnunarkerfis skv. ISO 14001 eða EMAS.

(5) Umsókn um frestun á færslu græns bókhalds skal hafa borist umhverfisráðherra fyrir 1. september viðkomandi bókhaldsárs.
 

Fara efst á síðuna ⇑